02.04.1974
Sameinað þing: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3341 í B-deild Alþingistíðinda. (3031)

422. mál, dreifing sjónvarps

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð síðasta hv. ræðumanns um það, að óverjandi er og óhæfa, hvernig haldið er á dreifingarmálum sjónvarpsins. Og þó að ég kunni að hafa minna álit á núv. ríkisstj., en hv. þm., vil ég taka undir það, að því er naumast trúandi, að ríkisstj. geti ekki aðhafst eitthvað frekar í þessum málum en orðið er.

Hv. fyrirspyrjandi er mikill áhugamaður um dreifingu sjónvarps, þetta er 2. fsp., sem hann gerir á þessu þingi í þessu efni. Það er góðra gjalda vert að hafa áhuga á þessum málum, en höfuðatriðið er að koma einhverju í framkvæmd. Við getum allir verið sammála um, að það, sem er aðalatriðið í þessu efni, er að útvega fjármagn til þessara hluta. Það er að taka ákvörðun um, að það sé gert.

Ef við ræðum um almenna dreifingu sjónvarpsins, kemur mjög til greina að hækka afnotagjöldin. En ég vil aðeins nota þetta tækifæri til þess að minna á till., sem ég ásamt 7 öðrum þm. Sjálfstfl. endurflyt á þessu þingi, flutti á síðasta þingi og hefur enn ekki fengið afgreiðslu í n. Þar er gerð till. um að gera ákveðið átak til þess að koma sjónvarpinu á þá sveitabæi, sem ekki njóta þess nú. Ég vil nú mælast til þess, að hv. þm., sem hefur svona mikinn áhuga á dreifingu sjónvarpsins, beiti áhrifum sínum í sínum flokki, til þess að okkur takist að fá afgreiðslu á jafnsjálfsögðu máli og þessu.