02.04.1974
Neðri deild: 98. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3350 í B-deild Alþingistíðinda. (3042)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég hef áður lýst viðhorfi mínu til þessa frv. Ég er andvígur því í heild og fer ekki að rekja það nánar. En svo er einn þáttur líka í þessu frv., sem blæðir mér í augum. Það er 5. gr. frv., þar sem kveðið er svo á, að ríkissjóður og Seðlabanki íslands greiði í sameiningu kostnað af starfsemi Hagrannsóknastofnunarinnar. Skuli þeir gera með sér samning um fjármál stofnunarinnar. Það, sem ég hnýt um, er aðild Seðlabankans. Það virðist vera mjög í tísku núna við gerð löggjafar að koma Seðlabankanum fyrir hvarvetna þar sem hugsanlegt er. Þegar maður lítur á málið frá sjónarmiði Framkvæmdastofnunarinnar, má minna á þá smásögu, sem gerðist í sambandi við byggingu Seðlabankahallarinnar, að Framkvæmdastofnunin eða stjórn Framkvæmdastofnunarinnar taldi sig hafa vald til þess samkv. l. að stöðva byggingu Seðlahankahallarinnar. Svo reyndist þó ekki vera. Ég tel það í raun og veru nokkra hótfyndni gagnvart Framkvæmdastofnun ríkisins, þegar hún er nú stýfð á þessa lund að einum þriðjungi, að fela Seðlabankanum að nokkru leyti að taka við Þjóðhagsstofnuninni. En hvað um það, spurningin er: Að hve miklu leyti á Seðlabanki Íslands að vera með fingurinn í þessum hlutum? Er ekki tilgangurinn sá að gera þessa stofnun óháða, þó að ég telji, að hún sé það í raun og veru, Þjóðhagsstofnunin? En hví í ósköpunum er Seðlabanka Íslands blandað í þetta? Ég fæ ekki skilið það. Ef ríkissjóði er fjárvant og getur ekki kostað þetta af eigin rammleik, væri þá ekki ráð fyrir ríkissjóð að reyna að seilast til meira fjármagns í Seðlabankanum og borga þetta svo beint sjálfur? Ég er alveg andvígur þeirri Seðlabankadýrkun, sem blossar hér upp í allri löggjöf, ekki síst þar sem tilgangur ríkisstj. var í upphafi að reyna að hafa hemil á Seðlabankanum að einhverju leyti. Ekki meira um það.

Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að koma með svofellda brtt., að 5. gr. orðist svo: „Ríkissjóður greiðir kostnað af starfsemi Þjóðhagsstofnunarinnar.“