02.04.1974
Neðri deild: 98. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3352 í B-deild Alþingistíðinda. (3046)

9. mál, grunnskóli

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Um það eru menn vafalaust sammála, að það mál, sem við erum hér að hefja umr. um, sé allþýðingarmikið mál. sumir mundu jafnvel segja, að það væri örlagaríkt mál. En um þetta mál hafa staðið umr. árum saman meðal þjóðarinnar. Nefndir hafa starfað að því, þrívegis og þær hlustað á aths. manna um skipun þessara mála, menntamálanna, og tekið fjöldamargar af þeim aths. til greina.

Á. s.l. hausti, þegar málið var enn lagt fyrir Alþ., ákvað menntmn. að hafa reglubundna, fasta fundi vikulega um málið, og þegar sýnt var, að það mundi tæpast duga þar sem skoðanir voru enn mjög skiptar um málið, var ákveðið að hafa tvo fasta fundi í viku hverri um málið, og hefur svo verið gert. Samt sem áður er orðið alláliðið þings, þegar málið kemur nú til 2. umr.

Það voru um 20 fundir, sem fóru í það í menntmn. að ræða þetta frv. Hafði áður verið leitað umsagna um málið og þær borist úr ýmsum áttum frá fjöldamörgum aðilum. N. kvaddi svo á sinn fund nokkra menn, sem voru forsvarsmenn fyrir stofnunum og samtökum, sem málið varðaði mjög. T.d. kvaddi n. á sinn fund framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga, Magnús E. Guðjónsson, ræddi við hann um þá hlið málsins, sem einkum snýr að sveitarfélögunum. Hann hafði ekki mjög miklar aths. að gera við þetta mál, eins og það væri nú fært í búning, með því að margar af ábendingum Sambands ísl. sveitarfélaga höfðu við meðferð málsins verið teknar til greina. Einnig kvaddi n, á sinn fund Indriða Þorláksson deildarstjóra í menntmrn. og ræddi sérstaklega við hann um kostnaðarhliðina, sem verða mundi við framkvæmd grunnskólafrv., eins og það lá fyrir nú í upphafi þings. Hann hafði einmitt unnið að því í menntmrn. við meðferð málsins að semja kostnaðaráætlun miðað við þáv. verðlag á síðasta ári og eftir því sem hægt væri að komast að niðurstöðu um kostnaðarhliðina, og verður gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu hér síðar. Loks ræddi svo n. alveg sérstaklega og ítarlega kennslufræðilega hlið málsins við prófessor Andra Ísaksson, og fóru þær viðræður fram við hann á tveimur fundum n., en hann hafði verið einn af aðalhöfundum frv., bæði meðan fyrri n. stafaði að gerð þess og einnig við síðari endurskoðun þess.

Á fyrstu fundum n. kom það fram hjá einum menntmn: manni, Ellert B. Schram, að hann vildi, að sveitarfélögin og samtök þeirra önnuðust um fræðslumálin á skólaskyldustigi að öðru leyti en því, sem varðaði ákvörðun námsefnis og námseftirlits. Af þessu leiddi, að sveitarfélögin áttu að standa undir stofnkostnaði og rekstri skólanna á grunnskólastiginu, en ríkissjóður að greiða kennaralaun og ríkissjóður auðvitað að útvega sveitarfélögunum eða samtökum þeirra fjármagn til þess að standa undir skólakerfinu öllu saman. Þessi skoðun hv. þm. Ellerts B. Schram fékk ekki byr í n. Menn voru í fyrsta lagi sammála um það, að slík umturnun á frv. mundi leiða til þess, að það gæti ekki fengið afgreiðslu á þessu þingi, en nm. höfðu fljótlega komið sér saman nm það, að þeir mundu vilja fyrir sitt leyti, meiri hl. n., stuðla að því, að málið fengi nú afgreiðslu á þessu þingi. En einnig komu fram mjög sterk rök gegn því, að það væri heppilegt að fela sveitarfélögunum þetta mikilsverða hlutverk, sem þau yrðu að sækja allt fjármagn til ríkisins til að standa undir. M.a. með þeim rökum var þetta talið óheppilegt, að það er alltaf óviturlegt að láta einn aðila annast framkvæmd hluta, en annan bera kostnaðinn. Af því leiðir oft og tíðum of mikið ábyrgðarleysi. Enn fremur var og á það bent, að ef sveitarfélögin, misjafnlega fjársterk, misjafnlega kannske áhugasöm líka um fræðslu- og menntamál. ættu að sjá um framkvæmdina að meginþætti, þá mætti búast við því, að það stefndi í öfuga átt við megintilgang frv., sem er sá að skapa sem jafnasta aðstöðu ungs fólks til náms og mennta, að þegar hin ýmsu sveitarfélög ættu að fara með þessi mál, þá kynni að verða mjög misjöfn framkvæmdin og sum sveitarfélög kynnu kannske að dragast mjög aftur úr í framkvæmdinni miðað við það, sem annars staðar tækist.

N. fór sem sé á 20 fundum eða rúmlega það margsinnis í gegnum frv. og gerði fjölda brtt. við það. Þær eru eitthvað yfir 40, sem n, hefur skilað frá sér, sem voru þess eðlis, að svo virtist sem meirihlutavilji væri fyrir þeim. En sýnt var, að aðrir nm. mundu vilja flytja þó nokkuð margar brtt. að auki, sem ekki höfðu fengið veru. legan hljómgrunn í n. Niðurstaðan varð svo sú í hv. menntmn., að menn komu sér saman um að skila einu og sameiginlegu nál., en að allir nm. áskildu sér rétt til þess bæði að flytja brtt. og fylgja öðrum brtt., sem fram kynnu að koma. Ég tel rétt að lesa hér fyrirvarann, eins og hann er orðaður í okkar nál. Þar segir:

N. leggur til, að frv. verði samþ., en brtt. eru fluttar á sérstöku þskj. Þó hafa nm. fyrirvara um einstakar till. á þskj. og áskilja sér enn fremur rétt til að flytja brtt. eða fylgja öðrum, sem fram kunna að koma.“

Þannig skildist n. við þetta mál og lagði það fyrir hv. d. fyrir alllöngu. Ég hygg, að það sé komið hátt í þrjár vikur, síðan n. lauk störfum, og málið hefur ekki getað komið til umr. fyrr en nú sökum annríkis þingsins, þar sem mörg stórmál eru í deiglu samtímis.

Ég skal vera eins stuttorður og ég get um málið almennt, en óneitanlega tekur það nokkurn tíma að gera grein fyrir brtt. n., sem ég mæli fyrir, og skal ég þó reyna einnig að verða eins stuttorður og mögulegt er um þær. En um frv. almennt vil ég segja þetta til þess að glöggva menn á málinu:

Frv. um skólakerfi og um grunnskóla voru lögð fram á Alþ. í jan. 1971 fyrst. Þau frv. voru samin af n., sem þáv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, hafði skipað á árinu 1969. Verkefni n. var að endurskoða gildandi skólalöggjöf, þ.e.a.s. lög um skólakerfi og fræðsluskyldu, lög um fræðslu barna og lög um gagnfræðaskóla, en allir þessir lagabálkar eru frá árinu 1946. Þá fór fram gagngerð endurskoðun á allri skólalöggjöfinni og var sett löggjöf um samfellt skólakerfið. Á þinginu 1971 komust frv. þó aðeins til 1. umr. í Nd.

Í júnímánuði 1972 skipaði núv. menntmrh., Magnús T. ólafsson, aftur n. til þess að endurskoða frv. Hún vann mikið starf og hélt fjölda funda víðs vegar um land, sem mun vera mjög sjaldgæft, fundi með skólamönnum og áhugamönnum um fræðslumál. N. skilaði svo að starfi loknu frá sér frv. í verulega breyttri mynd frá því, sem þau höfðu verið lögð fram á Alþ. í upphafi. Þetta gerðist í febrúarmánuði 1973. Þá fóru frv. til menntmn. Nd., en nál. kom ekki, og stóð málið þannig í sömu sporum eiginlega og árið áður.

Í þriðja sinn voru svo frv. lögð fram í upphafi þessa þings, og hefur menntmn. haldið, eins og ég áðan sagði, um þau 20 fundi. Nú hefur sem sé menntmn. lokið störfum og gert grein fyrir sínu starfi. Ég vil vænta þess, að hv. þm. hafi kynnt sér niðurstöður n., — til þess hefur nú gefist tóm um þriggja vikna skeið, — og brtt. þær, sem fram eru komnar. Ég hygg, að það geti nokkuð verið hendingu háð, hvaða mynd frv. fær í meðferð þingsins, ef hv. þm. setja sig ekki vel inn í málið og fylgjast með umr., því að brtt. eru nú orðnar yfir 80, og má búast við jafnvel fleiri brtt. Hins vegar er málið sjálft, setning nýrrar skólalöggjafar, svo þýðingarmikið mál, að það er sannarlega skylda þm. að vanda afgreiðslu á slíkri löggjöf svo sem hest má verða.

Það hafa verið óneitanlega mjög skiptar skoðanir í n. um einstök atriði frv. og þá alveg sérstaklega um frv. um grunnskóla. Þó varð niðurstaða n. að fallast á megingrundvöll frv. og mæla með samþykkt þeirra, en — eins og ég hef margtekið fram — með margvíslegum breytingum. Breytingar, sem almennan hljómgrunn virtust hafa fengið í n., eru 43, og till. um þær eru fluttar á sérstöku þskj. Nm. standa þó ekki allir fortakslaust að þessum till. og áskilja sér rétt til þess að flytja brtt. En hvað sem því líður, þá vill menntmn. d. gera sitt til þess, að frv. verði lögfest á þessu þingi. Að vísu má segja, að það sé enginn stórkostlegur háski á ferðum, þótt enn um sinn væri skólakerfið byggt á gildandi löggjöf. Hún var hin merkilegasta löggjöf á margan hátt á sinni tíð og mörg atriði hennar eru tæpast enn þá komin í framkvæmd. En það er mjög slæmt að velkjast árum saman í vafa og óvissu um það, hvort eigi að byggja skólastarfið í næstu framtíð á núv. löggjöf eða nýrri löggjöf. Þess vegna er að minni hyggju nauðsynlegt, að frv., sem við erum hér að ræða, fái fulla afgreiðslu og lögfestingu á þessu þingi. Reynslan verður svo vafalaust að sverfa af þessari löggjöf ýmiss konar ágalla og agnúa, því að enginn skyldi ætla, að þessi lagasmíð verði fullkomin fremur en önnur mannanna verk, þó að nú hafi verið unnið að undirbúningi löggjafarinnar um 5 ára skeið a.m.k. og margir ágætustu skólamenn hafi um hana fjallað.

Allra fyrsti vísir eða fyrirmæli um almenna fræðslu hér á landi er konungsbréf frá 1790, sem fjallaði um lestur barna og fræðslu þeirra. En fyrsta fræðslulöggjöf okkar hér á landi er ekki sett fyrr en um 1880. Það eru lög um uppfræðing barna í skrift og reikningi. Það eru því ekki nema 94 ár eða svo síðan við fengum okkar fyrstu skólalöggjöf. Hún gilti allt fram til 1907, þegar hin merka fræðslulöggjöf, sem dr. Guðmundur Finnbogason átti mestan hlut í að móta, var sett, og skólaskyldan var þá ákveðin 10–14 ára aldur. Hún gilti án verulegra breyt. fram til ársins 1926, og síðan var löggjöfin endurskoðuð á 10 ára fresti, 1936 og 1946, og þá var komin löggjöfin, sem ég áðan nefndi, um skólakerfi og fræðsluskyldu, um fræðslu barna og um gagnfræðanám, en það er löggjöfin, sem hin væntanlega skólalöggjöf, sem við erum hér að ræða, á að leysa af hólmi.

Það furðar vafalaust marga á því, hvern óratíma það hefur tekið að koma þessari nýju löggjöf í gegnum þingið. En þó verð ég að segja, að ég undrast það ekki svo mjög. Í skóla- og uppeldismálum eru mörg álitamálin. Í slíkum málum eru tæpast nokkrir tveir menn sammála. Og svo vil ég taka undir það, sem einhvers staðar stendur í grg. með grunnskólafrv., að vafasamt er, að nokkur löggjöf leggi þýðingarmeiri grundvöll fyrir þjóðarheild og einstaklinga en sú löggjöf, sem ákveður hina almennu grundvallarmenntun landsmanna. En ekki fleiri orð um það.

En hvaða nýmæli eru það þá helst, sem eru í þessu frv., frv. um grunnskóla? Ég skal ekki tína til þau fjölmörgu nýmæli, sem í þessu frv. felast miðað við gildandi löggjöf, enda margt af því kunnugt af langvarandi umr. um málið, en nokkur atriði skulu þó rifjuð upp, og ég vænti, að það séu þau helstu.

Það er þá fyrst, að í þessu frv. felst 9 ára skólaskylda, frá 7–16 ára aldurs, í stað 8 ára skólaskyldu, sem nú gildir, á aldurstímabilinu 7–15 ára. Þá verður árlegi skólatíminn samkv. frv., eins og það er nú samkv. till. n., 7–9 mánuðir. Í frv. var fortakslaust gert ráð fyrir 9 mánaða skóla árlega. Nokkur hluti af valdi menntmrn. flyst nú út í fræðsluumdæmin, en fræðsluumdæmin verða 8, hvert undir stjórn fræðslustjóra og fræðsluráða, sem kosin eru í hverjum landshluta. Þá er gert ráð fyrir því, að ríki og sveitarfélög komi í sameiningu upp ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu fyrir grunnskólann. Skólabókasöfn verða við alla grunnskóla, og notkun þeirra á að verða fastur þáttur í skólastarfi og námi. Það skal stefnt að því, að námið allt geti farið fram í húsakynnum skólanna. Ríkið á að koma á fót og starfrækja sérstaka skóla eða stofnanir fyrir þau börn, sem af ýmsum ástæðum geta ekki stundað nám í almennum grunnskóla. Skólarannsóknum er ætlað rúm í skólakerfinu. Vikulegur hámarksvinnutími unglinga er samkv. till. n. 40 stundir á viku, en í frv. var hann nokkru lengri. Ákvæði eru um aukinn orlofsrétt kennara þeim til endurmenntunar. Skólabrytar verða ríkisstarfsmenn.

Það skal fúslega játað, að sumar af breyt., sem menntmn. leggur fram við frv. um grunnskóla, eru ekki veigamiklar, en aðrar skipta líka verulegu máli, og hef ég nú þegar gert grein fyrir efni þeirra helstu. Þó skal ég árétta, að t.d. rýmkar n., eins og ég vék að áðan, heimildirnar til þess að stytta hinn árlega starfstíma. Hún rýmkar líka heimildir til að meta að nokkru starf í þjónustu atvinnuveganna sem nám. N. telur ekki verjandi að ætla unglingum á gelgjuskeiði lengri starfstíma á viku hverri við nám, þ.e.a.s. andlegt starf, heldur en fullorðnu fólki er nú ætlaður sem vinnutími, og setur því 40 stundir á viku sem algert hámark.

Kaflinn um skólabókasöfn er gerður mun fyllri en hann var í frv. og miðast við það, að skólasöfnin geti gegnt því hlutverki að vera eitt af meginhjálpartækjum í skólastarfinu.

Mjög hefur það verið gagnrýnt, að yfirbyggingin yfir sjálfu skólakerfinu væri of íburðarmikil samkv. frv. En þar er þó margt til bóta, eins og t.d. sálfræðiþjónustan, skiptingin í fræðsluumdæmi, ákvæðið um félagsráðgjöf og sálfræðiþjónustu, og mætti fleira nefna. En þó sá n. ástæðu til að taka þessa gagnrýni að nokkru til greina. Hún gerir þannig till. um að fella niður ákvæði um námsstjóra innan fræðsluumdæmanna, fella niður ákvæði um skólaráðgjafa, svo og að þurrka út svokallað 10 manna grunnskólaráð. Tel ég, að þetta væri það helsta, sem n. leggur til varðandi það að draga úr stjórnunarbákninu.

Nú þykist ég vita, að margur muni spyrja um aukinn kostnað við framkvæmd slíkrar skólalöggjafar, og ekki er þess að dyljast, að af framkvæmd þessarar löggjafar, yrði hún samþykkt, þessa frv., mundi leiða mikinn kostnaðarauka. Aukið skólastarf, lenging skólaskyldunnar um eitt ár og árleg lenging, ef heimildir til styttingar yrðu ekki notaðar mikið, hefðu auðvitað í för með sér verulegan kostnaðarauka. Einnig störf fræðslustjóra og kostnaður við rekstur fræðsluskrifstofa, og þær verða nú átta, sálfræðiþjónustan, sérstofnanir, — sem gert er ráð fyrir, að komið verði á fót fyrir þá nemendur, sem ekki geta numið í venjulegum skólum og eru settar á stofn, til þess að þessir nemendur geti haft not af náminu, — stórefling bókasafnanna og aðrar nýjungar, sem í frv. eru, kosta auðvitað verulega aukið fé. Samkv. áætlun, sem gerð hefur verið í menntmrn., er talið, að kostnaðaraukinn fyrir ríkissjóð muni verða um 229 millj. kr. á ári og að því er varðar sveitarfélögin um 60 mill,j. kr. á ári, í viðbót auðvitað við þann kostnað, sem leiðir af framkvæmd gildandi skólalöggjafar. Hvað menn svo fá í staðinn, það er ekki hægt að færa í dálk sem krónur. En við verðum að vænta þess, að þetta sé til slíkra umbóta á fræðslu- og skólakerfinu, að þessar nokkuð háu fjárhæðir skili sér í bættri menntunaraðstöðu og jafnari aðstöðu unga fólksins í landinu til þess að njóta sín.

Vitanlega er þessi kostnaðaráætlun, sem er um það, að umframkostnaðurinn verði um 289 millj. kr. eða nálægt 300 millj., engin nákvæm áætlun, og má búast við, að þegar til kastanna kemur og reynslan sker úr, að kostnaðurinn verði jafnvel meiri.

Að þessu mæltu vil ég snúa mér að því að gera grein fyrir brtt. n., þ.e.a.s. þeim brtt., sem eru á þskj. 517. Ég geri ráð fyrir því, að hv. nm. menntmn., sem flutt hafa brtt. á sérstökum þskj., geri sjálfir grein fyrir þeim brtt., og skal ekki tefja tímann við að skýra þær, því að það yrði tvíverknaður. Það eru brtt. um grunnskóla frá hv. 9. landsk. þm., Ellert B. Schram, á þskj. 530 og brtt. á þskj. 547 frá hv. þm. Svövu Jakobsdóttur. Ég sem sagt geng út frá því, að þau geri hér á eftir grein fyrir þeim brtt.

Ég vík þá að brtt. á þskj. 517. Við gerum í n. enga brtt. við 1. gr. og föllumst þannig á það grundvallaratriði, að skólaskyldan nái yfir 9 ár, frá 7–16 ára aldurs. Hins vegar flytjum við till. um að stytta nokkuð venjulegan vikulegan og árlegan námstíma frá því, sem frv. ákveður, og tel ég rétt, að litið sé á þessi þrjú atriði, lenginguna um eitt ár, styttingu vikulega starfstímans og heimildina til styttingar árlega kennslutímans, sem eina heild og litið á það í samhengi.

2. gr. er um hlutverk grunnskólans. Þar er lagt til, að í upptalningu gr. komi orðin „kristilegt siðgæði“, þ.e.a.s. upphaf gr. er svo: „Hlutverk grunnskólans er, í samvinnu við heimilin, að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi, sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi.“ Þannig er uppsetningin.

Næsta brtt. er við 4. gr., á þá lund, að fyrir tölurnar 7, 8 og 9 komi tölurnar 7–10. Setningin er um þetta: „Heimilt er rn., að fengnum till. hlutaðeigandi fræðsluráðs, að koma á fót útibúum frá aðalskóla skólahverfis fyrir 7, 8 og 9 ára börn, þar sem heimanakstri til aðalskóla verður ekki við komið.“ — Þarna leggjum við til. að þetta nái yfir aldurstímabilið 7–10 ára, skiptingin sé eðlilegri við 10 ára aldurinn, ef á þarf að halda að stofna til útibús.

3. brtt. er við 6. gr. Hún er um það, að niður falli úr gr.: „Fræðslustjóri kynnir sér málsatvik og ástæður á heimili og í skóla og beitir sér fyrir úrbótum.“ Það er einkanlega vegna þess, að honum er ætlað að kynna sér málsástæður og ástæður á heimili. Fræðsluumdæmin ná yfir stór svæði, t.d. á Vestfjörðum yfir alla Vestfirðina. Það yrði ekki á færi nokkurs námsstjóra að kynna sér heimilisástæður á hverju heimili, og einnig taldi n. þetta vera of nærgöngult gagnvart heimilishelginni og taldi hún því rétt, að þessi setning væri felld niður úr gr.

Þá er 4. brtt. við 9. gr. Það er alger umorðun á henni, af því að við leggjum þar til, að ákvæðin um grunnskólaráð, — eins og við einnig gerum síðar í frv., — ákvæðin um grunnskólaráð falli alveg niður. Þar með leggjum við til, að gr. orðist svo:

Menntmrn. fer með yfirstjórn þeirra málefna, er lög þessi taka til. Rn. til aðstoðar við framkvæmd I. skal vera samstarfsnefnd, skipuð tveimur fulltrúum frá menntmrn. og tveimur frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Skal hún fá til umsagnar reglugerðir, sem varða fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga samkv. l. þessum, áður en þær eru gefnar út. Enn fremur fái hún til umsagnar ágreiningsatriði, sem kunna að verða varðandi þessi samskipti, áður en þau koma til úrskurðar. N. skal skipuð til fjögurra ára í senn. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og aðalmenn.“

Þannig leggjum við til, að gr. verði, og ákvæðin, sem í henni voru um grunnskólaráð falli niður. Þá er 5. breytingin. Hún er við 10. gr. Það er aðeins leiðrétting, skal koma: „Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslu“ 'í staðinn fyrir „Barðastrandarsýslu“. Það er til samræmis við það, að í gr. var einnig nefnd Vestur-Ísafjarðarsýsla, en ekki bara Ísafjarðarsýsla. Það er aðeins leiðrétting.

6. brtt. er við 11. gr. Upphaf hennar er þannig nú: „Fræðsluráð skal skipað 5 eða 7 mönnum, sem kjörnir eru af viðkomandi landshlutasamtökum, er ákveða fjölda þeirra samkv. framansögðu.“ Við leggjum til. að mgr. orðist svo: „Fræðsluráð skal skipað 7 mönnum, og skulu 5 kjörnir af viðkomandi landshlutasamtökum, einn af skólastjórum og einn af kennarasamtökum landshlutans. Jafnmargir skulu kjörnir til vara. Um kosningu fer samkv. I. og reglugerð um starfshætti landshlutasamtaka sveitarfélaga, svo og eftir reglugerð. Fræðsluráð kýs sér formann og varaformann.“ — Þarna er breytt tölunni. Þeir eru ákveðnir 7 í staðinn fyrir 5–7. Þetta er svæði, sem nær yfir mjög mörg sveitarfélög, og verður ákaflega erfitt miðað við töluna 5, að hinir mörgu aðilar, sem eiga hlut að máli, fái þar fulltrúa, og enn fremur er sú breyt., að skólastjórar og kennarar fái sinn fulltrúa hver í fræðsluráðið, þannig að það séu ekki aðeins sveitarstjórnarmenn, heldur sé einnig tryggt, að það séu skólamenn í fræðsluráðinu.

Svo er önnur breyt. við 11. gr. Það er um að setja ákvæði, sem gildi ekki aðeins fyrir Reykjavík sérstaklega, heldur verði Reykjavík undir sömu ákvæðum og landið að öðru leyti. Þar segir: „Í Reykjavík fer borgarstjórn með hlutverk landshlutasamtaka samkv. l. þessum, eftir því sem við á.“

Og 3. breyt. við 11. gr. er á þessa leið, að í næstsíðustu mgr. falli niður orðin „utan Reykjavíkur“. Þar yrði þá setningin: „Fræðsluráð skulu a.m.k. einu sinni á ári halda fund.“ Þar er fellt niður „utan Reykjavíkur“.

7. brtt. er við 12. gr. Þar er lagt til af n., að við bætist nýr tölul., sem verði nr. 5 og hljóði svo: „Það skal skipuleggja (þ.e.a.s. fræðsluráðið) viðræðufundi við nýja kennara í samráði við Kennaraháskóla Íslands, hafa umsjón með þeim og setja þeim leiðsögukennara að fengnum till. hlutaðeigandi skólastjóra. Rn. setur leiðsögukennurum erindisbréf að höfðu samráði við Kennaraháskóla Íslands.“ — Þessi breyt. er í samræmi við óskir frá Kennaraháskólanum, en Kennaraháskólinn benti á, að í l. um Kennaraháskóla Íslands, 10. gr., eru svo hljóðandi ákvæði: „Að afloknu samfelldu námi og prófum í Kennaraháskóla Íslands skulu kennarar njóta eins árs leiðsagnar og þjálfunar í starfi. Fræðsluskrifstofur skulu hver í sínu umdæmi skipuleggja viðræðufundi fyrir nýju kennarana í samráði við Kennaraháskóla Íslands, hafa umsjón með hinum nýju kennurum og setja þeim leiðsagnarkennara að fengnum till. hlutaðeigandi skólastjóra.“ — Þar sem grein þessi kveður m.a. á um tiltekið hlutverk fræðsluráðs, virðist rétt, að þess sé getið meðal annarra hlutverka þess í frv. til l. um grunnskóla. N. taldi rétt að verða við þessari ábendingu í samræmi við gildandi ákvæði í 10. gr. l. um Kennaraháskóla Íslands.

Þá er komið að 8. brtt. n. Það eru tvær breyt. við 13. gr. Í fyrsta lagi, að niður falli úr 3. mgr. hennar orðin „umdæmisins og þörfum þess“. Greinin er svo:

„Við skipun í starf fræðslustjóra er skylt að taka tillit til kennslufræðilegrar menntunar umsækjenda, stjórnunarreynslu innan skólakerfisins og þekkingar þeirra á skólamálum.“

Við teljum ekki, að hann þurfi endilega að hafa sérþekkingu á skólamálum umdæmisins og þörfum þess, og leggjum til, að þau orð falli niður, og skulu þeir umsækjendur að öðru jöfnu ganga fyrir, sem hafa rétt til þess að verða skipaðir skólastjórar við grunnskóla og hafa gegnt starfi kennara eða skólastjóra í a.m.k. 3 ár.

Enn fremur falli niður úr þessari gr., 13. gr., tvær síðustu mgr., en þær eru svona:

„Heimilt er að greiða settum fræðslustjóra laun sem slíkum um þriggja mánaða skeið, áður en hann tekur við starfi, enda sé þeim tíma varið til undirbúnings undir starfið, samkv. nánari ákvörðun menntmrn. og hlutaðeigandi fræðsluráðs.

Sá, sem settur er fræðslustjóri, skal fá launalaust leyfi frá starfi sínu í þágu ríkis eða sveitarfélags, sem hann kann að hafa á hendi, allt að einu ári.“

Það eru veruleg fjárútlát, sem því mundu fylgja að framkvæma þessi ákvæði, og þar sem þessi embættismaður mundi sennilega koma oftast nær úr skólastjóra- eða kennarastarfi, þá teljum við ekki ástæðu til þess að hafa þarna ákvæði um sérgreiðslu til hans allt að einu ári, þó að hann eigi að taka við nýju starfi innan fræðslukerfisins. En sjálfsagt er ekki vel séð af þeim, sem fyrir barðinu á þessu ákvæði verða, að þetta sé fellt niður.

Þá er 9. brtt. n. við 14, gr. þess efnis, að 1. tölul. 2. mgr. orðist svo:

„Hann fylgist með því (þ.e. fræðslustjórinn), að gildandi fyrirmælum um fræðslumál sé fylgt í grunnskólum umdæmisins, bæði varðandi kennslu- og stjórnunarmál, og í öðrum skólum, sem kostaðir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum.“

Takmörkuð upptalning á skólum, sem þetta eigi að ná til, er þarna felld niður.

Þá er 10. brtt. Hún er við 16. gr. og er um það, að fyrir orðin „eins fundar eða fleiri“ í síðustu mgr. komi bara: funda. Það er sem sé mjög smávægileg breyting.

Þá er 11. brtt. við 17. gr. Á eftir orðinu „erindisbréf“ í 3. mgr. komi: „Um embættisgengi skólafulltrúa gilda sömu reglur og um fræðslustjóra.“ Um þetta er ekkert í gr., en þótti rétt að taka fram, hvaða kröfur ætti til hans að gera um embættisgengi hans. Og þar er sett það skilyrði, að það gildi sömu reglur og um fræðslustjóra.

12. brtt. er bara orðalagsbreyting um að fella orðið „staðsettur“ niður. Það er með öllu óþarft í setningunni.

Þá er önnur brtt. við 18. gr. Þar er lagt til, að 6. mgr. orðist svo:

„Í kaupstöðum með 10 þús. íbúum eða fleiri fara fræðsluráð og hverfisnefndir með hlutverk skólanefndar. Viðkomandi bæjar- eða borgarstjórn skiptir kaupstaðnum í hverfi í samráði við fræðsluráð. Í hverju hverfi skal vera hverfisnefnd, skipuð 5 mönnum. Hverfisnefnd skal kosin til fjögurra ára í senn af bæjar- eða borgarstjórn. Verkefni hverfisnefnda skulu vera hin sömu og þau verkefni skólanefnda, sem talin eru í 19. gr. Um starfshætti hverfisnefnda, boðun funda, kosningu og fjölda kennarafulltrúa og rétt skólastjóra til setu á hverfisnefndarfundum gilda að öllu leyti sömu ákvæði og um skólanefndir.“

Hér er veruleg breyting. Ákvæðin, sem samkv. frv. áttu að gilda um Reykjavík, gilda nú samkv. þessu um kaupstaði, sem eru með 10 þús. íbúa eða fleiri. Þar hafa fræðslufulltrúar starfað og verið reknar sérstakar fræðsluskrifstofur, og var talið rétt, að þessi ákvæði næðu yfir stærstu kaupstaði landsins, en ekki bara Reykjavík.

13. brtt. er við 19. gr. Hún er um það, að á eftir orðunum „fylgist með því“ í 1. mgr. komi: og stuðlar að því. — Samkv. gr. á skólanefnd aðeins að fylgjast með, en rétt þykir að taka fram, að hún skuli geta haft afskipti af málinu og stuðlað að leiðréttingu eða umbótum á því, sem aflaga fer.

14. brtt. er við 20. gr., um það, að næstsíðasta mgr. orðist svo:

„Skólastjóri boðar til kennarafundar svo oft sem þurfa þykir, en þó eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði.“

Í frv. er gr. svona:

„Skólastjóri boðar til kennarafundar a.m.k. einu sinni í mánuði, en þó eigi sjaldnar en tvisvar í mánuði, ef um heimavistarskóla er að ræða.“

Þarna eru aðeins rýmkuð þessi skilyrði og ætlunin, að skólastjóri láti þörfina ráða fyrir fundahöld, en þó sett hámarkstímaákvæði.

Við 22. gr. er engin brtt., en 15, brtt. n. er við 21. gr. Þar segir í frv.:

„Nú æskir skólastjóri og/eða foreldrar, sem börn eiga í grunnskóla, að stofnað sé foreldrafélag við skólann í þeim tilgangi að styðja skólastarfið. Skal þá skólastjóri boða til foreldrafundar.“

Við töldum rétt að orða þetta svona:

„Nú æskir skólastjóri, almennur kennarafundur eða foreldrar, sem börn eiga í grunnskóla, að stofnað sé foreldrafélag við skólann í þeim tilgangi að styðja skólastarfið og efla tengsl milli foreldra og skóla, og skal þá skólastjóri boða til stofnfundar foreldrafélags.“

16. brtt. er við 23. gr. Hún er um það, að framan við gr. bætist ný mgr., sem orðist svo: „Gerð skólamannvirkja er undirbúin heima í héraði af sveitarstjórn, skólanefnd og fræðsluráði, en verður að hljóta samþykki menntmrn., áður en framkvæmdir hefjast.“

Við þessa gr. er einnig önnur smávægileg brtt. Þar er lagt til, að falli niður orðin „að áliti ráðuneytisins“ og verður þá setningin bara: „Röðun framkvæmda miðast við, hvar skólabyggingaþörf er brýnust.“

17. brtt. n. er við 25. gr., um það, að í stað orðsins „bókasafni“ í 1. mgr. komi í upptalningunni: safni bóka og annarra námsgagna. Þetta er afleiðing af því, að við höfum gert kaflann um skólabókasöfn miklu víðtækari en hann er í frv. — Önnur brtt. við þessa sömu gr., 25. gr., er um það, að 2. mgr. orðist svo: „Við gerð nýs skólahúsnæðis og endurbætur eldra húsnæðis skal séð fyrir aðstöðu fyrir nemendur til náms utan kennslustunda og til að neyta málsverðar.“ — Gr. er stytt og umorðuð á þennan veg.

Þá er 18. brtt. Hún er við 26. gr. Þar er lagt til, að fyrir orðin „á a.m.k. þriggja ára fresti“ komi: þegar ástæða þykir til. — í frv. segir:

Menntmrn. skal á a.m.k. þriggja ára fresti efna til almennrar samkeppni um uppdrætti að ákveðinni tegund skólamannvirkja miðað við breytilegar stærðir skóla og ólíkar aðstæður í landinu.“

Við teljum ekki ráðlegt að binda þetta alveg fast í l., að þetta skuli gert á þriggja ára fresti, og er þannig rýmkun á þessu ákvæði í till. okkar. 19. brtt. er við 30. gr. Í frv. er mgr.:

Menntmrn. setur eða skipar skólastjóra að fengnum umsögnum skólanefndar og fræðslustjóra, sem í hlut eiga.“

Við skerpum þetta svolítið og gerum þarna ráð fyrir tillögum. Við leggjum til, að mgr. orðist svo:

Menntmrn. setur eða skipar skólastjóra að fengnum till. skólanefndar og fræðslustjóra, sem í hlut eiga.“

Það kemur þarna „tillögum“ í staðinn fyrir „umsögnum“.

Þá er 20. brtt. Hún er við 32. gr. og er bara um það, að fyrir orðin „umsögnum“ í 1, mgr. komi: tillögum — þ.e. sams konar till. og við gr. á undan.

Þá er 21. brtt. Hún er við 34. gr., og er þar lagt til, að gr. orðist svo:

„Rn. setur eða skipar skólabryta til forstöðu mötuneytis í heimavistarskóla samkv. till. skólastjóra og skólanefndar. Eftir tveggja ára setningartíma við sama skóla á bryti rétt á skipun í starf sitt, enda hafi hann meðmæli skólastjóra um skipun í starfið.

Heimilt er skólanefnd að setja skilyrði um menntun eða starfsþjálfun skólabryta. Skólabrytar eru ríkisstarfsmenn.

Skólastjóri ræður með samþykki skólanefndar stunda- og forfallakennara við grunnskóla með færri nemendum en 30, svo og aðstoðarstarfsfólk í mötuneyti.

Sveitarstjórn ræður húsvörð grunnskóla, ef hún telur þörf á. Skal hann ráðinn að fenginni till. skólanefndar og skólastjóra. Þá ræður sveitarstjórn einnig annað starfsfólk grunnskóla en það, sem tilgreint er í 1. og 4. mgr.

Síðasta mgr. er svo alveg eins og í gr., hún er þannig: „Æski starfsmaður, sem heyrir undir ákvæði þessi, eigi endurráðningar, ber honum að tilkynna það þeim aðila, er réð hann til starfsins, eigi síðar en 1. júní. Æski ráðningaraðili á sama hátt breytinga á ráðningarkjörum eða á ráðningu í starf, skal hann tilkynna það þeim, er starfinu hefur gegnt, fyrir sama tíma, ella telst sá, sem fyrir er í starfinu, endurráðinn næsta skólaár.“

Þessi gr. er algerlega umorðuð og stytt og úr henni felld nokkur efnisatriði, sem ástæðulaust þótti að binda í l., en í upphafi gr. er sú breyt. helst, að fyrir „skólaráðskonur“, þ.e.a.s. það er gert eingöngu ráð fyrir, að það sé kona, sem ráði sig til þessa starfa við heimavistarskóla, en það þótti á okkar öld ekki tilhlýðilegt, og við lögðum okkur í líma um að finna annað orð, sem næði yfir bæði kynin og opnaði þannig möguleika til þess, að það gæti alveg eins verið karlmaður þarna á ferðinni. Þetta er sjálfsagt karlréttindaatriði, annars væru konurnar þarna lögfestar sem skólaráðskonur. Við fundum orðið „skólabryti“, hvort sem það fellur nú í smekk hv. dm. eða ekki. Og sem sé, till. er um það, að þessi réttindi, sem í gr. voru ætluð skólaráðskonu, falli til skólabryta.

Þá er komið að 22. brtt., sem er við 37. gr. Hún er um það, að aftan við 4. mgr. gr. bætist þetta: „Menntmrn. setur reglugerð um störf og starfslið í heimavistum og aðbúnað nemenda þar.

Við heimavistarskóla skulu fóstrur eða fóstrar og aðrir starfsmenn með uppeldismenntun eiga rétt á skipun í starf sitt eftir tveggja ára starfsreynslu.“

Þetta var sem sé okkar till., 22. í röðinni, við 37. gr.

Þá er 23. brtt., við 38. gr., sem er um það, að gr. orðist svo:

„Fyrir hverja bekkjardeild eða námshóp í grunnskóla skal skólastjóri velja umsjónarkennara. Hann fylgist sérstaklega með námi nemenda sinna og þroska, leiðbeinir þeim og hefur samband við forráðamenn þeirra.“

Þarna var í gr. talað um aðalkennara, en við töldum orðið „umsjónarkennari“ ná betur tilganginum. Það þarf ekki endilega að vera aðalkennarinn í bekknum, sem valinn er sem umsjónarkennari.

24. brtt. er við 39. gr. og er um það, að sú gr. falli niður, en í henni segir:

„Heimilt er fræðslustjóra, innan þeirra marka, sem um getur í 88. gr., að fela kennara fagnámsstjórn, þ.e. umsjón með kennslu í námsgrein, innan fræðsluumdæmisins. Ráðningartími er allt að 3 ár, og má endurnýja hann.“

Er í frv. gert ráð fyrir námsstjóra í hverju fræðsluumdæmi, og þeir verða a.m.k. 7, en svo var í þessari gr., 39. gr., einnig gert ráð fyrir fagnámsstjóra. Hér leggjum við til, að fagnámsstjórarnir falli niður.

Þá er 25. brtt. við 40. gr., sem verður 39. gr.: „Til endurmenntunar kennara á grunnskólastigi má auk orlofs, sbr. 40. gr., verja fjárhæð, sem til þess er ætluð á fjárl. hverju sinni.“

Í upphafi gr. er ákveðið, að ef kennari hafi gegnt embætti í 5 ár sem settur eða skipaður og óskar eftir að hverfa frá störfum um skeið til þess að efla þekkingu sína og kennarahæfni, þá skuli hann senda menntmrn. beiðni um orlof o.s.frv. En við töldum ekki ástæðu til þess, þegar um endurmenntun kennara væri að ræða, að hann þyrfti endilega að hafa starfað 5 ár áður, og felldum það niður, en svo koma ákvæði, sem grípa inn í þetta, síðar í gr., eins og við leggjum til. að hún verði. Þetta var breyt. við 40. gr.

Þá leggjum við til, að upphaf 41. gr. orðist svo: „Nú óskar kennari að hverfa frá störfum um skeið til að efla þekkingu sína eða kennarahæfni, og skal hann þá ...“ Þarna fellur 5 ára ákvæðið niður.

Þá er það önnur brtt. við 41. gr., við 4. mgr. Í hana er fært efni, sem var annars staðar í gr. Þar stendur:

„Enginn kennari getur fengið á starfsævi sinni hærri fjárhæð í orlof en sem nemur tveggja ára embættislaunum hans.“

Við leggjum til, að þarna komi, og er það að nokkru leyti í sambandi við fyrri breytinguna:

„Orlof samkv. 2. mgr. má veita kennara, sem gegnt hefur embætti 10 ár, settur eða skipaður. Skemmra orlof en 4 mánuðum nemur til tiltekins náms eða námsferða samkv. 3. mgr. má veita kennara, sem gegnt hefur embætti í 5 ár, settur eða skipaður. Enginn kennari getur fengið á starfsævi sinni hærri fjárhæð í orlof en nemur tveggja ára embættislaunum.“

Þá er 27. brtt. Hún er við 42. gr., og þar er komið að meiri háttar efnisbreytingu. Gr. er mjög stytt og úr henni felld ýmiss konar ákvæði, sem óþörf þóttu, um, hvað mætti verja mörgum dögum til annars en kennslu og prófa o.s.frv. Ég held, að sé hvorki ástæða til að hafa slíkt ákvæði fyrir kennara eða skólastjóra né heldur til þess að segja þeim fyrir verkum í einstökum atriðum, og við töldum óþörf ýmis atriði í þessari gr. og felldum þau niður. En meginbreytingin er um starfstíma grunnskólans. Í upphafi þessarar gr. segir í frv.:

„Reglulegur starfstími grunnskóla skal vera 9 mánuðir. Skal skólaárið að jafnaði hefjast 1. sept. og ljúka 31. maí. Í skólahverfum, þar sem helmingur nemenda eða meira verður að aka til og frá skóla eða dveljast í heimavist, er skólanefnd, að fengnum meðmælum fræðsluráðs og fræðslustjóra, heimilt að stytta árlegan starfstíma skóla allt að eftirtöldum lágmarkstíma:

a) Í 1.–3. bekk í 7 mánuði,

b) í 4.–6. bekk í 71/2 mánuð,

c) í 7.–9. bekk í 81/4 mánuð.“

Við leggjum til, að þetta verði svona: „Reglulegur starfstími grunnskóla skal vera 7–9 mánuðir. Skólaárið skal, þegar miðað er við hámarkskennslutíma, hefjast 1. sept. og því ljúka 31. maí. Heimilt er þó skólanefnd, að fengnum meðmælum fræðsluráðs og fræðslustjóra, að ákveða í upphafi skólaárs, að kennsla hefjist á tímabilinu 15. sept. til 1. okt., og verði þá árlegur kennslutími sem hér segir:

a) í 1.– 3. bekk í 7 mánuði“ — bað er óbreytt.

„b) í 4.—9. bekk í 71/2 mánuð.“

Þarna breytast b- og c-liður í þetta ákvæði, að í 4.–9. bekk sé heimilt að stytta námstímann í 71/2 mánuð, en þar er hámarkið 81/4 úr mánuði samkv. frv. Þarna er um verulega styttingu á árlega námstímanum að ræða eða heimildir til þess.

„Í þessu sambandi ber að taka sérstakt tillit til atvinnuhátta og aðstæðna í skólahverfinu. Fræðsluráð og skólanefnd geta í upphafi skólaárs ákveðið, hvort í skólahverfinu skuli vera 5 eða 6 daga skólavika.

Kosta ber ávallt kapps um að skipuleggja kennsluna á þann hátt, að komist verði yfir námsefni samkv. námsskrá, þótt kennslutími sé í lágmarki.

Æski skólanefnd, að hluta námsskyldu barna í 1.–6. bekk sé fullnægt með sumarskóla, getur fræðsluráð, að fenginni umsögn fræðslustjóra, heimilað, að allt að fjórðungur kennslunnar fari fram með þeim hætti.“

Þessi seinasta mgr. er shlj. frv., en í hinum atriðunum öllum felast verulegar efnislegar breytingar. Þetta er sú gr., sem kannske ásamt tveim breyt. á 43. og 45. gr., sem ég kem nú brátt að, er veruleg breyt., og hún er í þá átt að heimila þarna styttingu árlega námstímans, m.a. til þess að geta tekið nánar tillit til atvinnuhátta.

Þá er komið að 28. brtt., sem er við 43. gr. frv. Þar er líka um mjög veigamikla breyt. að ræða. Við leggjum til, að framan við gr. bætist ný mgr., svo hljóðandi:

„Í samræmi við markmið grunnskóla skal að því stefnt, að nám í öllum bekkjum skólans tengist sem best raunhæfum athugunum og þroskandi störfum utan skólaveggjanna. Í 7.– 9. bekk verði val námsgreina frjálst að hluta, og skal þar við það miðað, að verklegt skyldu- og valnám geti samanlagt numið helmingi námstímans að hámarki, en fimmtungi hans að lágmarki.“

Þá leggjum við til, að 1. mgr. breytist svo: „Menntmrn. setur grunnskólum aðalnámsskrá“ o.s.frv. óbreytt.

E-liðurinn orðist svo: „Kennslu í kristnum fræðum, siðfræði og fræðslu um önnur helstu trúarbrögð“ — þar er nokkur breyting. Í frv. er e-liðurinn svo: „Kennslu í kristnum fræðum og fræðslu um önnur helstu trúarbrögð, almenna siðfræði og háttvísi.“ — Þetta er orðalagsbreyting á þessum lið.

Þá er enn fremur breyt. um það, að inn komi nýr bókstafsliður, sem verði j-liður: „Verklegt nám.“ — Verklega námið var ekki tekið með í aðalliðum um skyldukennsluna, heldur sett í þann lið, þar sem talað var um valgreinarnar. Nú er það fært í j-liðinn undir aðalliðina og verklega náminu þar gert hærra undir höfði. Auðvitað koma ekki nákvæm ákvæði um kennslu í einstökum gr. inn í þetta frv. Það kemur fyrst, þegar sett verður námsskrá, hvað kennt skuli í hverri námsgrein um sig. En við töldum rétt, að verklega námíð væri þarna fært upp í aðaltöluliðina.

Af þessu leiðir, að núv. j-liður verður k-liður og orðast þá svo: „Ýmsar valgreinar, verklegar og bóklegar, í efstu bekkjum grunnskóla“ — og síðan komi ný mgr. á eftir bókstafsliðunum svo hljóðandi :

„Þar sem nemendur eru þátttakendur í atvinnulífinu um takmarkaðan tíma á skólaárinu, skal heimilt að meta það að nokkru til jafns við verklegt nám, sbr. j-lið (þ.e.a.s. liðinn um verklega námið). Fræðsluráð skal í samráði við launþega- og atvinnurekendasamtök og hlutaðeigandi skólastjórn skipuleggja atvinnuþátttöku nemenda, þar sem slíkrar skipulagningar er þörf, og skal það metið að nokkru sem verklegt nám, sbr. j-lið þessarar gr.

Þarna er um mjög sterk og ákveðin ákvæði að ræða um það að geta metið þátttöku nemenda í atvinnulífinu til jafns við bóklegt nám. Um þetta er ekki neitt í frv. sjálfu.

Þá er enn fremur lagt til. að í stað orðanna „Skólarannsóknadeild menntmrn.“ í síðustu mgr. komi: „Menntamálaráðuneytið.“ Sams konar breyt. leggjum við til alls staðar, þar sem nefnd var skólarannsóknadeild menntmrn., því að það er einasta deildin í rn., sem er sérstaklega nefnd í þessu frv., og töldum best að láta alla deildaskiptingu innan þess lönd og leið, að því er snertir ákvæði frv. Þarna er sem sé um margvíslegar brtt. frá hendi n. að ræða, sem stefna mjög í þá átt að koma til móts við það fólk, sem hefur talið, að verklega námið fengi ekki sinn eðlilega sess í þessari væntanlegu löggjöf.

Um breyt. við þessa gr. áttum við sérstaklega rækilegt samtal við prófessor Andra Ísaksson, og breyt. eru að mestu leyti formaðar af honum í samræmi við hugmyndir þær, sem hann kynntist í viðræðum við n. Hann lét þessum brtt. sínum við 43. gr. fylgja svo hljóðandi grg. til n., og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana. Hann segir:

„Breytingin, sem felst í því að bæta þessari námsgrein við, er fyrst og fremst sú, að þar með yrðu lögbundin viss grundvallaratriði, sem áður mátti þó lesa á milli lína eða lýst var í grg. sem málum, er skorið yrði nánar úr með aðalnámsskrá. Einkum er það þungt á metum í þessu sambandi, að þar með yrðu sett ákvæði um verklegt nám í þremur efstu bekkjum grunnskóla og hvað það skuli nema miklum hluta námstímans að lágmarki og hámarki. Með þessu má segja, að tekinn sé upp þráðurinn frá 27.– 28. gr. l. nr. 48 frá 1946, um gagnfræðanám, en þó með því fráviki, að hér er ekki gert ráð fyrir tveimur sérstökum og aðgreindum deildum, bóknámsdeild og verknámsdeild, heldur frjálsara valgreinakerfi, þannig að nemendur geti valið sér mismunandi mikið verklegt nám, allt að því marki, að allir valtímar séu verklegir. En hér er við það miðað, að valfrjálst nám muni nema u.þ.b. tveimur stundum á viku í 7. bekk, 4 stundum á viku í 8. bekk, 8 stundum á viku í 9. bekk grunnskóla, sbr. grg, með 45. gr., sem einnig verður kynnt hér á eftir. Þetta táknar það, að séu eingöngu valdar verklegar greinar, verður skyldu- og valnám í verknámsgreinunum samanlagt 11 stundir á viku eða um 30% í 7. bekk, 12 stundir á viku, um 32%, í 8. bekk og 16 stundir á viku eða um 43% í 9. bekk, og er þá miðað við 37 stundir á viku sem heildarnámstíma á viku hverri í öllum umræddum bekkjum. Séu hins vegar valdar bóklegar greinar eingöngu, verður hinn verklegi hluti námsins takmarkaður við skyldunám í verknámsgreinum, þ.e.a.s. 9 stundir á viku, um 24%, í 7. bekk og 8 stundir á viku eða um 22% hæði í 8. og 9. bekk.

Með verklegu námi,“ segir Andri Ísaksson enn fremur, „er hér einkum átt við eftirtaldar námsgreinar:

a. Handíðir og myndlist, þ. á m. trésmíði, málmsmíði, hannyrðir og teiknun.

b. Heimilisfræði og heimilisrækt (þ. á m. matreiðslu, hússtjórn og þjónustubrögð).

c. Íþróttir, líkams- og heilsurækt og hjálp í viðlögum.

d. Vélritun.

e. Véltækni og vélameðferð.

f. Matvælatækni (þ. á m. grundvallaratriði fiskvinnslu).

g. Búfræði.

h. Sjóvinnubrögð.

Greinar a–d yrðu bæði skyldunáms- og valgreinar, en greinar e–h eingöngu valgreinar, sbr. enn grg, með 45. gr., bls. 53:“

Þetta eru aðalatriðin, sem hann setur fram til skýringar á því, hvað hann telji, að felist, — þegar gr. hefur verið orðuð á þennan hátt, sem hann lagði til í samráði við n., — felist í verklegu námi og hvað geti fallið undir það.

Við 44. gr. er engin brtt., en þá kemur að 45. gr., og þar er einnig um að ræða mjög veigamiklar breyt. af n. hendi. Þessi gr. 45. gr., byrjar á þennan hátt:

„Vikulegur kennslutími á hvern nemanda í grunnskóla skal vera sem næst þessi:

a) í 1. bekk 880 mínútur;

b) í 2. bekk 960 mínútur;

c) í 3. bekk 1080 mínútur;

d) í 4. bekk 1280 mínútur;

e) í 5. bekk 1360 mínútur;

f) í 6. bekk 1400 mínútur;

g) í 7. bekk 1480–1520 mínútur;

h) í 8. bekk 1480–1560 mínútur;

i) í 9. bekk 1440–1560 mínútur.“

Þegar við höfðum kynnt okkur þetta í n., komumst við að þeirri niðurstöðu, að þarna væri slíkur vinnuþungi lagður á nemendur, að skólasetan og heimanám yrði langt umfram það, sem forsvaranlegt væri að leggja á nemendur á þessu aldursskeiði, og ræddum það við Andra Ísaksson, að við vildum stytta þetta, þannig að lágmarkstímarnir, sem þarna eru, yrðu það hámark, sem við vildum fallast á, 1440 mínútur, svo að það væri nokkurn veginn tryggt, að vinnuálagið á unglingunum færi ekki yfir 40 stundir á viku. Þetta tók prófessor Andri Ísaksson til greina, og við báðum hann síðan að forma till. um 45. gr. með tilliti til þessarar skoðunar n. Og niðurstaðan er þessi, að við leggjum til, að framan við gr. komi ný mgr., svo hljóðandi:

„Við ákvörðun daglegs og vikulegs starfstíma nemenda í grunnskóla skal þess gætt, að hann fari í heild (kennslutími, stundahlé og sjálfsnám utan kennslustunda) ekki fram yfir hæfilegt vinnuálag miðað við aldur nemenda og þroska. Í samræmi við þetta skal starfsskylda nemenda í 8.–9. bekk grunnskólans markast af 40 klukkustundum á viku.

Tölur í g-, h- og i-lið breytist þannig:

g. í 7. bekk 1440–1480 mínútur;

h. í 8. bekk 1440–1480 mínútur;

i. í 9. bekk 1440–1480 mínútur.“

Þ.e.a.s. hámarkið verður 1480 mínútur, sem varð í raun og veru lágmarkið í 8. bekk samkv. frv.

Við fengum þessar till. prófessor Andra Ísakssonar skriflegar frá hans hendi, og segir hann í grg., sem þessu fylgdi:

„Undirritaður telur, að ábending um skiptingu vikulegs starfstíma nemenda í kennslustundir, stundahlé og sjálfsnám utan kennslustunda eigi fremur heima í skýringum eða grg. en í lagagr. sjálfri, og vísast í því sambandi til töflu,“ sem hann svo vitnaði til. Og síðan segir hann:

„Umrædd stytting á vikulegum kennslutíma í 7.–9. bekk grunnskólans niður í 1460 mínútur að meðaltali er af undirrituðum talin æskileg. Hún virðist einnig vera gerleg, án þess að tiltakanlega þurfi að raska eðlilegri námsskrá.“

Að fengnu þessu áliti prófessors Andra, sem er einn af aðalhöfundum frv., vorum við ákveðin í því í n. að leggja til. að gr. yrði orðuð eins og ég hef nú gert grein fyrir og þannig starfstími nemendanna, vikulegur starfstími, styttur nokkuð frá því, sem í frv. greinir.

Þá er ég kominn að 30. brtt., sem er við 47. gr., en óbreytt er þarna á milli 46. gr. Við 47. gr. leggjum við til, að gr. orðist svo:

„Þegar kennarar vinna saman að kennslu námshópa, er heimilt að leysa upp að nokkru deilda- og bekkjaskipan og kenna nemendum saman, ýmist í smærri eða stærri hópum, enda skerði sú tilhögun eigi námsefni það, sem kenna ber.“

Þá er 31. brtt. við 48. gr. Við leggjum til, að í stað 1. mgr. komi tvær mgr., sem orðist svo: „í fámennum skólum, þar sem nemendur (1.–6, bekkjar) eru á mismunandi aldri saman í deild, skulu þó ekki vera fleiri en þrír aldursflokkar saman í bekkjardeild. Þó sé heimilt, ef nauðsyn krefur, að hafa 1.–4. bekk saman í deild.

Undir slíkum kringumstæðum er æskilegt, eftir því sem við verður komið, að nemendur í bekkjardeild séu ekki fleiri en hér segir (orðalagið er frekar rýmkað):

a) 12 nemendur, ef aldursflokkar eru 4,

b) 17 nemendur, ef aldursflokkar eru 3,

c) 22 nemendur, ef aldursflokkarnir eru 2.“

Það er skiljanlegt öllum, að ef þarf að kenna börnum eða unglingum á mismunandi aldri í sömu bekkjardeild, þá er æskilegt að hafa færri í deild heldur en ef eru samstæðir nemendur á sama aldursskeiði í hverri deild. Venjan er sú, að það sé nálægt 30 í bekkjardeild, en þarna eru tölurnar miklu lægri, eins og hv. þm. heyrðu. Þetta er einkanlega varðandi skóla úti á landi, þar sem verður að kenna börnum á mismunandi aldursskeiði saman í deild.

32. brtt, er við 51. gr., 49. og 50. gr. eru óbreyttar. 51. gr. er um nemendur, sem ekki geta notið náms í venjulegum skólum, og er gr. svo hljóðandi:

„Börn, sem talin eru víkja svo frá eðlilegum þroskaferli, að þau fái ekki notið venjulegrar kennslu í einni eða fleiri námsgreinum, eiga rétt til sérstakrar kennslu við sitt hæfi. Slík kennsla fer fram einstaklingslega, í hópum, sérbekkjum eða sérdeildum grunnskóla, nema til komi kennsla í sérstofnun samkv. 53. gr. Kennslan fer fram, eftir því sem hentast þykir, eftir afbrigðum nemenda og aðstæðum skóla og fræðsluumdæmis. Sérmenntaðir kennarar skulu annast kennslu, þar sem því verður við komið. Heimilt er skóla að fjölga í þessu skyni vikulegum skyldustundum einstakra nemenda um allt að tveimur kennslustundum, en tilkynna skal slíkt forráðamönnum nemenda.“

Þarna leggjum við til vegna þessara viðbótarkennslustunda, að komi: „Þessum viðbótarkennslustundum sé einkum varið til þess að veita einstökum nemendum hjálp.“

33. brtt. er við 58. gr., og leggjum við til, að gr. orðist svo:

„Próf í grunnskóla skulu að jafnaði framkvæmd af kennurum skólans, sbr. þó 58. gr. Kennarar skulu gefa einkunnir í lok hvers skólaárs eða námsáfanga. Einkunnir skulu færðar í prófbók skólans og í einkunnabækur nemenda.“ 58. gr. er svo:

„Próf í grunnskóla skulu að jafnaði framkvæmd af kennurum skólans, sbr. þó 59, gr. Kennarar skulu gefa umsögn og/eða einkunnir í lok hvers skólaárs eða námsáfanga, sem gefi til kynna námsárangur, vinnubrögð og framfarir nemandans og viðhorf hans til viðfangsefna skólans. Upplýsingar þessar skulu færðar í spjaldskrá skólans og prófskýrslur og veittar nemendum og foreldrum.“

Við töldum, að ákvæðin um prófin þarna væru of nærgöngul við nemendur, það væri engin ástæða til þess að lögbinda það, að það skyldi færa einkunnirnar og umsagnir kennara í spjaldskrá skólans, og vildum eingöngu hafa prófin í höndum kennara, eins og gert er ráð fyrir raunar í frv., og að það séu bara gefnar einkunnir í lok hvers skólaárs eða lok námsáfanga og engar umsagnir lögfestar gagnvart nemendum og ekki krafist neins um viðhorf þeirra til viðfangsefna skólans.

Þá er 34. brtt. við 60. gr., sem verður 59. gr. Við leggjum til, að gr. orðist svo:

„Er grunnskólanámi lýkur, skal nemandi fá skírteini, er votti, að hann hafi lokið skyldunámi samkv. lögum. Í skírteinið skal skrá námsbraut nemandans og valgreinar hans í 8. og 9. bekk svo og úrslit prófa, þ. á m. samræmdra lokaprófa. Einkunnir úr samræmdum og stöðluðum prófum skulu færðar sem sjálfstæðar einkunnir og hafi einkunnir kennara ekki áhrif á þær.“

Tilgangurinn með þessari breyt. er alveg sá sami og með breyt. okkar við gr. á undan, að engar umsagnir skulu veittar um nemendurna af kennurum, heldur eingöngu próftölurnar látnar tala og þær skráðar í bækur skólans og í einkunnabækur nemenda og þar með afhentar foreldrum eða aðstandendum.

Við 63. gr. er brtt., sem er sú 35. í röðinni, um, að upphaf gr. orðist svo: „Menntmrn. annast m.a. gerð áætlana um umbætur“ o.s.frv. Þetta er brtt., sem er sama eðlis og ég hef getið um áður. Í frv. er þarna sagt, að í menntmrn. skuli vera skólarannsóknadeild, sem hafi með höndum o.s.frv. Við viljum ekki í frv. ákveða neitt um þær deildir, sem rn. er skipt í, og leggjum til, að orðið „menntamálaráðuneytið“ komi í staðinn fyrir skólarannsóknadeild í þessu tilfelli.

Þá er það 36. brtt. við 84. gr. Við leggjum til, að gr. orðist svo:

„Til að leiðbeina um kennslu í grunnskóla, fylgjast með árangri hennar og stuðla að kennslufræðilegum umbótum skulu vera námsstjórar, eftir því sem þörf er á og fé er veitt til þess á fjárl. Námsstjórar þessir eru starfsmenn menntmrn., og ræður það þá til allt að fjögurra ára í senn. Við ráðningu námsstjóra skal tekið tillit til kennslufræðilegrar menntunar og kennarareynslu.“

Þarna eru ákvæði í þessari gr., 64. gr., um námsstjórana. Gr. er svo í frv.:

„Til að leiðbeina um kennslu í grunnskóla, fylgjast með árangri hennar og stuðla að kennslufræðilegum umbótum skulu vera námsstjórar í einstökum greinum, eftir því sem þörf er á og fé er veitt til á fjárl. Þó skal eigi varið til námsstjórnar lægri fjárhæð en sem nemur 7 námsstjóralaunum. Námsstjórar þessir eru starfsmenn skólarannsóknadeildar, og ræður menntmrn. þá til allt að fjögurra ára í senn. Við ráðningu námsstjóra skal tekið tillit til kennslufræðilegrar menntunar og kennarareynslu.“

Þarna er tiltekinn ákveðinn hundraðshluti fjár, sem lagður skuli til námsstjóra, og ákveðið, að ekki skuli vera varið minna fé á fjárl. en nemi a.m.k. 7 námsstjóralaunum. Þetta fellur út og segir, að aðeins skuli fara eftir ákvörðun á fjárl. hverju sinni, og ákvæðið um skólarannsóknadeild fellum við niður, eins og við höfum gert í öðrum gr., þar sem sérstakar deildir voru nefndar.

Þá er 37. brtt. við 65. gr. Við leggjum til, að gr. orðist svo:

„Til rannsóknaverkefna á sviði skóla- og uppeldismála, þ. á m. rannsókna- og tilraunastarfa samkv. 63. gr., skal árlega varið fé, svo sem ákveðið er á fjárl. Menntmrn. ákveður skiptingu fjárins.“

Þarna var í frv. kveðið á um, að ákveðnum hundraðshluta af heildarúfgjöldum ríkissjóðs í fjárl. til stofn- og rekstrarkostnaðar grunnskóla yrði varið til rannsóknaverkefna. En til þess að menn sjái alveg, hvernig þetta er í frv., vil ég lesa 65. gr. eins og hún er:

„Til rannsóknaverkefna á sviði skóla- og uppeldismála, þ. á m. um rannsókna- og tilraunastarfs samkv. 63. gr., skal varið árlega úr ríkissjóði a.m.k. 1% af heildarútgjöldum ríkissjóðs í fjárl. til stofn- og rekstrarkostnaðar grunnskóla og framhaldsskóla. Menntmrh. ákveður skiptingu fjárins.“

Þennan hundraðshluta viljum við nema í burt og þetta sé eingöngu bundið fjárveitingu á fjárl. hverju sinni.

Þá er 38. brtt, um það, að 66. gr. falli niður, þ.a.s. ákvæðin í frv. um 10 manna grunnskólaráð. Svo að menn viti, hvað er verið að fella hér niður, er rétt, að ég lesi 66. gr. eins og hún er. Þar segir:

Menntmrn. skipar til fjögurra ára í senn 10 manna ráð, er nefnist grunnskólaráð. Í ráðinu skulu eiga sæti eftirtaldir aðilar:

a. Einn fulltrúi fyrir menntmrn., og skal hann vera deildarstjóri skólarannsóknadeildar þess, og er hann jafnframt formaður ráðsins.

b. Fjórir fulltrúar kennara á grunnskólastigi, einn tilnefndur af Félagi háskólamenntaðra kennara, einn af Landssambandi framhaldsskólakennara og tveir af hálfu Sambands ísl. barnakennara, og skal annar þeirra valinn úr hópi kennara við skóla í strjálbýli.

c. Einn fulltrúi kennara á framhaldsskólastigi, tilnefndur af Félagi menntaskólakennara.

d. Einn fulltrúi starfsmanna ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu skólanna, tilnefndur af forstöðumönnum sálfræðideilda.

e. Einn fulltrúi fyrir Ríkisútgáfu námsbóka.

f. Einn fulltrúi fyrir Kennaraháskóla Íslands.

g. Einn fulltrúi fyrir Háskóla Íslands.

Grunnskólaráð er ráðgefandi í kennslufræðilegum málefnum grunnskóla og skilar till. sínum til menntmrn. Verði atkv. í ráðinu jöfn, ræður atkv. formanns.

Menntmrn. setur grunnskólaráði erindisbréf og kveður á um starfstilhögun þess og starfssvið.“

Þetta er gr., sem við leggjum til, að verði felld niður og þar með þetta 10 manna ráð. Ef nauðsynlegt þykir, verður þá að taka upp ákvæði um það síðar, en á þessu stigi sem sé leggjum við til, að til þess verði ekki stofnað.

Þá er 39. brtt. við 68. gr. Við leggjum til, að upphaf gr. orðist svo:

„Fræðsluráð skal, svo fljótt sem aðstæður leyfa, setja á stofn ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu fyrir grunnskóla umdæmisins.“

Í frvgr. segir, að svo fljótt sem aðstæður leyfa skuli komið upp deild í fræðsluskrifstofu, sem annist ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu. Þetta ákvæði um sérstaka deild til þess að annast þetta verkefni fellum við niður.

Í öðru lagi leggjum við til, að sú breyt. verði gerð á 68. gr., að í stað 4. og 5. mgr. komi ein mgr., sem orðist svo:

Menntmrn. gerir í samráði við fræðslustjóra heildaráætlun um framkvæmd ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu samkv. lögum þessum. Skal áætlunin miðuð við það fjármagn, sem til þessa starfsþáttar er veitt á fjárl. Til þessarar starfsemi skal að fengnum till. fræðslustjóra ráða sálfræðinga, félagsráðgjafa og sérkennara. Einnig er fræðsluráði heimilt að tryggja sér þjónustu ráðgefandi læknis til slíkra starfa.“

Þarna eru felldir niður skólaráðgjafarnir, eins og ég hef getið um áður, og þessi atriði gerð einfaldari, ekki bundið, hve mikið fjármagn skuli ætlað til þessa, og ekki heldur ákveðnar tölur nemenda á bak við hvern ráðinn starfsmann til þessarar þjónustu. Ákvæðin eru þannig rýmri og alls ekki ákveðið fjármagn til þessa fremur en annarra þátta, sem verður að ákveða hverju sinni eftir fjárveitingum á fjárl. N. varð, held ég, öll sammála um, að ekki væri hægt að binda hina einstöku þætti við ákveðinn hundraðshluta af heildarfjárveitingu til þessara mála.

Þá er enn fremur brtt. við þessa gr. á þessa lund :

„Sálfræðingar, félagsráðgjafar og sérkennarar gegna störfum sem settir eða ráðnir um tveggja ára skeið, en eiga að þeim tíma liðnum rétt á ákvörðun um stöðuveitingu, að fenginni umsögn fræðslustjóra.“

Það var síðasta breytingin við 68. gr.

Þá er 40. brtt. við 70. gr. Þar er um tvær breyt. að ræða. Fyrri er um það, að fyrri mgr. gr. orðist svo:

„Ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta lýtur stjórn fræðslustjóra, sem skipuleggur störfin í samráði við skólastjóra.“

Í frv. segir:

„Ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta lýtur stjórn hlutaðeigandi fræðslustjóra, og skal hún vera sérstök deild í fræðsluskrifstofu.“

Það ákvæði fellum við sem sé niður.

Þá er seinni breytingin við 70. gr. Þar er lagt til, að síðari mgr. orðist svo: „Starfsmenn ráðgjafar- og sálfræðiþjónustunnar hafa sama rétt til að sitja fundi skólanefndar og skólastjóri, sbr. 18. gr. Enn fremur eiga þeir rétt á að sitja fundi fræðsluráðs, þegar fjallað er um ráðgjöf og sálfræðiþjónustu eða skyld mál, svo og hliðstæða fundi, sem fræðslustjóri boðar til með skólastjórum eða kennurum.

Ég vík þá að 41. brtt., sem er um það, að í staðinn fyrir 73. og 74, gr. frv. komi ein gr., sem verði svo hljóðandi:

„Sérmenntaðir starfsmenn, ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu skulu hafa lokið námi, sem menntmrn. viðurkennir. Setur rn, í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd og verksvið ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu, svo og kröfur um menntun þeirra, sem að þessum málum vinna, svo sem skólasálfræðinga, félagsráðgjafa og sérkennara. Forstöðumenn ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu skulu hafa lokið kandídatsprófi eða sambærilegu prófi í sálarfræði. Rn. setur starfsmönnum erindisbréf að fengnum till. fræðsluráðs.“

Þessi gr. leggjum við til, að komi í staðinn fyrir bæði 73. og 74. gr., sem eru miklu lengra mál.

Þá er komið að 42. brtt. okkar, sem er við 75. gr. Þetta er X. kafli frv., um bókasöfn, og er þessi 75. gr., sem fjallar um bókasöfnin, gerð verulega ítarlegri en hún er í frv. Gr. verður svo samkv. till. n.:

„Við hvern grunnskóla skal vera safn bóka og námsgagna ásamt vinnustofu fyrir nemendur og kennara. Heimilt skal að sameina almenningsbókasöfn og skólasöfn, ef forráðamenn beggja telja slíkt æskilegt og menntmrn. samþykkir.

Að skólabókasöfnum skal þannig búið, að því er varðar húsnæði, bókakost og önnur námsgögn og starfslið, að þau geti gegnt því hlutverki að vera eitt af meginhjálpartækjum í skólastarfinu.

Í bóka- og námsgagnasafni eru bækur og annað prentað efni, kvikmyndir, myndræmur, skyggnur, glærur, myndsegulbönd og annað myndritað efni, enn fremur hljómplötur, segulbönd og annað hljóðritað efni, svo og hvers konar tæki til flutnings á þessu efni og framleiðslu í þau. Nánari ákvæði um skólasöfn, húsnæði þeirra, bókakost, önnur kennslugögn, starfslið og starfshætti, setur menntmrn, í reglugerð.“

Sem sé, það er tillaga n., að 75. gr. svo orðuð, komi í staðinn fyrir 75. gr. eins og hún er í frv., en þar er hún ekki nánar nærri eins ítarleg.

Þá er komið að 43. brtt., sem er við 77. gr., á þá lund, að síðasta málsgr. gr. falli niður. Þessi gr. í frv. er svona:

„Kennsla óskólaskyldra barna umfram það, sem segir í gr. þessari, er háð leyfi fræðslustjóra. Nánari ákvæði má setja í reglugerð.“

Þetta bann vildum við ekki hafa. Við vildum ekki hafa það, að sækja þyrfti um leyfi til fræðslustjóra til þess að hefja kennslu óskólaskyldra barna. Og skal þess vegna málsgr. falla niður.

Og að lokum er 44. brtt., sem er við 80. gr. Það er aðeins orðalagsbreyting, fyrir orðið „aðstoðarskólastjóra“ í a-liðnum, komi: yfirkennara.

Þetta eru þær brtt., sem eru á þskj. 517 og n. taldi, að hefðu fengið líklegan meirihluta hljómgrunn, og er þá till. okkar, sem að baki þessum till. stöndum, sú, að frv. verði samþ. með þessum breyt. En aðrar brtt. sem fram hafa komið og ég hef áður nefnt, verða vafalaust skýrðar af tillögumönnum.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði vísað til 3. umr., þegar umr. lýkur.