02.04.1974
Neðri deild: 98. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3395 í B-deild Alþingistíðinda. (3048)

9. mál, grunnskóli

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Um þessar mundir eru liðin rúmlega 5 ár, síðan hafinn var undirbúningur að samningu frv. þess til l. um grunnskóla, sem hér er til umr. Ég kann ekki sögur af neinu frv., er lagt hefur verið fyrir Alþingi, sem hefur fengið jafnlangan og viðamikinn undirbúning eða verið kynnt og rætt jafnítarlega um land allt, áður en það var lagt hér fram, en þetta frv. um grunnskóla. Þrátt fyrir allan undirbúninginn og allan þann hóp manna, sem fjallaði um málið, þrátt fyrir allan þann tíma og þær umr, og fundahöld, sem fram fóru, kom það á daginn, er menntmn. hóf athugun á frv., að nm. staðnæmdust við svo að segja hverja grein með meiri eða minni aths. og hugmyndir um breytingar. Niðurstaðan er líka sú, að menntmn. sameiginlega og einstakir nm. eru nú þegar búin að flytja yfir 80 brtt. við rúmlega aðra hverja gr. eða a.m.k. það í frv.

Sannleikurinn er sá, að á þessu frv. er sá meginsmíðagalli, að það er allt of langt, — allt of langt og allt of ítarlegt. Frv. hefði þurft að vera helmingur af því, sem það er eða minna. Það hefði átt að fjalla eingöngu um meginatriði skólakerfisins, og síðan hefði átt að fylla upp í þá beinagrind með reglugerðum, og hefði þá verið hægara, þegar ár líða frá samþykkt frv., að læra af reynslunni og breyta ýmsum framkvæmdaratriðum í reglugerðunum.

Það getum við lært af reynslunni af meðferð þessa frv., að svona stórir doðrantar eru erfiðir í meðförum, og það er ekki þægilegt að ræða og greiða atkv. um 80–90 brtt. við eitt frv. E.t.v. hefði þetta efni átt að vera í fleiri frv. Ef það t.d. hefði verið sérstök stutt frv. um sálfræðiþjónustu, bókasöfn í skólum, um heilbrigðismál í skólum, um skólarannsóknir, þá er ég viss um, að mörg þeirra frv. væru þegar orðin að lögum. Vandinn við þetta mál nú er sá, að þrátt fyrir tvö stór atriði, sem deilt er um, skólaskylduna og lengd skólastarfsins á hverju ári, eru veigamiklir kaflar með umbótum, sem lítið er deilt um í frv. Og hin mikla kynning á málinu hefur leitt af sér, að hugmyndir u.m þessar umbætur eru þegar útbreiddar í landinu. Af þessu hefur aftur leitt, að ýmsir gera viljandi eða óviljandi kröfur eða færa fram óskir um þessar umbætur í sambandi við sálfræðiþjónustu, við meðferð á afbrigðilegum börnum, í sambandi við bókasafn og fjöldamargt annað. Skólamenn, kennarar og skólastjórar, hafa kannske allra manna mestan áhuga á þessu, en þeir hafa ekkert til þess að byggja á, enga aðstöðu til þess að byrja, Og það er þetta, sem gerir, að við getum ekki dregið afgreiðslu þessa frv. miklu lengur. Það er ekki meinlaust, þó að við látum eitt ár líða, án þess að neitt gerist, eins og ræðumaður Sjálfstfl. gaf í skyn í kvöld.

Að sjálfsögðu eru skoðanir skiptar um svo langt og mikið frv., og við skulum gera okkur grein fyrir því, að ef við byrjum árlega að ræða þetta frv., þegar þing hefst á hverju hausti, gætum við aftur og aftur fundið ný og ný atriði, sem við vildum breyta, nýjar og nýjar setningar og ákvæði, sem við vildum hafa á einhvern annan veg. Þetta gæti verið endalaust. Við verðum, eins og málum er komið, að gera upp við okkur, hvort við viljum með þeim breytingum, sem við treystum okkur til að gera, án þess að kaffæra frv. í brtt., gera það að lögum, eða hvort okkur finnst það svo gallað, að okkur finnst óhjákvæmilegt að hafna því og byrja þá alveg upp á nýtt, — þá er ekki um annað að ræða en að byrja vinnuna við grunnskólafrv. alveg upp á nýtt.

Ég er þeirrar skoðunar, að þrátt fyrir margvíslega galla sé svo mikið af þýðingarmiklum umbótum í þessu frv., að við verðum að velja þann kost að gera á því þær breytingar, sem við teljum nauðsynlegar, gera það síðan að lögum, gera okkur fullkomlega ljóst, að það fer um þennan lagabálk eins og um alla stóra lagabálka aðra, að á næstu árum, eftir að frv. verður að lögum, muni reynast nauðsynlegt að gera á því ýmsar breytingar. Það eru venjuleg vinnubrögð og ekkert að óttast í því sambandi. Þennan kost verðum við að velja, og það er í samræmi við það val. sem bæði ég og ýmsir aðrir menntmn: menn hafa reynt að sitja á sér og flytja eins litið af brtt. og þeir geta, eða a.m.k. forðast að flytja mikið af brtt. um tiltölulega lítilvæg atriði, sem gjarnan mætti reyna, áður en ráðist yrði í breytingar á þeim.

Eitt atriði varðandi þetta mál hefur ekki verið minnst á hér í kvöld. Skv. þessu frv. á að fá landshlutasamtökum sveitarfélaganna mikil áhrif á kennslumál. Það er deilt um það, hve mikil þessi áhrif eigi að vera. Þau eru ærin í frv. sjálfu, og Sjálfstfl. vill ganga lengra í þá átt að auka vald og áhrif sveitarfélaganna í þessum málum. En það eru engin lög til um landshlutasamtök sveitarfélaga. Samtökin eru til, þau eru í bernsku um land allt, eru að þreifa sig áfram. En þau eru laus í reipunum, og þau vantar fastan grundvöll til að standa á, fastan grundvöll, sem setur þau í það form, að það sé hægt að fela þeim svo mikið hlutverk sem þeim er ætlað í skólakerfi landsins skv. þessu frv. Það er því óhugsandi að framkvæma þetta frv. sem lög, fyrr en búið er að koma á lagaákvæðum um landshlutasamtök sveitarfélaga, og koma þeim á fastan grundvöll. Nú er það svo, að ríkisstj. hefur ekki einu sinni flutt frv. um landshlutasamtök. Það hefur heyrst, að það sé ekki samkomulag innan ríkisstj. um slíkt frv. Hins vegar hafa 5 alþm., 2 þeirra stjórnarsinnar og 3 ár stjórnarandstöðuflokkunum, flutt slíkt frv., að mér skilst skv. tilhlutan landssamtaka sveitarfélaga. Þetta frv. kom fyrir þessa hv. d. í nóv. og var þá vísað til n., en ég hef a.m.k. ekkert heyrt um það síðan. Ég tel rétt, að menn geri sér ljóst, hvaða samhengi er þarna á milli. Það þýðir ekkert fyrir okkur að ýta grunnskólafrv. fram, án þess að hinum málunum sé einnig komið til skila.

Kem ég þá stuttlega að brtt., sem fluttar hafa verið við þetta frv. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um brtt., sem aðrir einstakir þm. hafa flutt, að öðru leyti en því, að ég vildi segja nokkur orð um till. sjálfstæðismanna. Þær eru í stórum dráttum á þá leið að færa stjórn menntamála, sérstaklega stjórnun skólakerfisins, að miklu meira leyti til sveitarfélaganna. Ég er hlynntur því að færa allmikið og jafnvel mjög mikið af verkefnum frá menntmrn, út til sveitarfélaganna, sérstaklega í fræðslumiðstöðvarnar, sem ætlunin er að koma upp, og vil, að þær verði að öflugum og sterkum miðstöðvum í héruðunum.

Þegar litið er á heildarmynd af hugmyndum sjálfstæðismanna, eftir því sem ég hef best getað skilið þær, finnst mér, að þær eigi vel við Reykjavíkurborg, en fráleitt er, að þær séu raunhæfar varðandi aðra landshluta. Kann að vera, að það megi deila um stóru kaupstaðina, Kópavog, Hafnarfjörð og Akureyri, en þar fyrir utan er alveg fráleitt, að slíkar till, séu framkvæmanlegar eða raunhæfar. Ég hef grun um, að það sé einhver ótti um Rvík, sem er hreyfiaflið á bak við þessar hugmyndir, og vil benda sjálfstæðismönnum á að athuga þetta mál töluvert betur. Það er rétt, að Rvík er nógu stór heild, til að hafa sjálfstjórn í þessum efnum, og hv. 9. landsk. viðurkenndi, að Rvík hefði fengið að njóta sín, hefði fengið að taka í sínar hendur töluverða sjálfstjórn í skólamálum og hefði getað byggt skóla án þess að fá jafnóðum styrki frá ríkinu. Þetta er allt saman rétt, og það er líka rétt, sem hann sagði, að Rvík er komin miklu lengra fram úr öðrum sveitarfélögum á Íslandi í skólamálum en flestir gera sér grein fyrir. Margar af þeim nýjungum, sem eru í grunnskólafrv. og á nú að færa þjóðinni á silfurbakka fyrir 300 millj. kr. á ári, er búið að framkvæma í Rvík í fjölda ára. Mér finnst að þessar hugmyndir eigi mjög vel við Rvík. Ég sé ekkert eftir því, að Rvík hafi þessa aðstöðu og hef engan vilja til þess að skerða hana á nokkurn hátt. En hugmyndirnar gilda alls ekki um hin litlu sveitarfélög, frá 5–10 þús. og niður í nokkur hundruð manns, sem við vitum af starfi hér í þinginu, að oft eru erfiðustu verkefnin hvað snertir skólamálin.

Um þær brtt., sem ég hafði fram að færa í menntmn., gerðist það um allar nema eina, að í sumum tilfellum var ég sannfærður um, af félögum mínum, að ég hefði rangt fyrir mér, en í öðrum tilfellum var það öfugt, að þeir létu sannfærast og till. voru því íeknar með í heildartill. menntmn. Ég flyt einn aðeins 3 till., sem í raun og veru eru aðeins um eitt efni. Þær eru um ráðningu kennara, og hugmynd mín er sú, að það sé óþarfi, að menntmrn. sé fastur aðili að ráðningu kennara, það ætti að vera hægt að annast það í héruðunum. Eins og nú standa sakir, verður skólastjórinn auðvitað fyrst var við það, að það vanti kennara, og síðan kallar hann til skólan., og þá fer málið til fræðslustjóra og eftir athugun fer það í rn. og rn, auglýsir með pomp og pragt. Svo eiga umsóknir að berast til skólan. og eru bornar undir skólastjórann, og þaðan fara þær aftur til fræðslustjórans á fræðsluskrifstofunni og fá þar einhverja meðferð, og frá henni eiga umsóknirnar loksins að fara í rn. Mér finnst þetta vera nokkuð fyrirferðarmikið til þess að ráða kennara. Ég get fallist á það a.m.k. fyrst um sinn, að þetta kerfi sé notað við ráðningu skólastjóra.

Nú hefur að vísu komið fram, að það eru skiptar skoðanir um, hvort fræðslustjórinn eigi að vera ráðinn af sambandi viðkomandi sveitarfélaga eða af menntmrn. Og ég vil taka fram, að ég er þeirrar skoðunar, að fræðslustjórinn verði að vera maður menntmrn. Ef hann er það ekki, efast ég um, að hann geti gegnt því hlutverki, sem hann á að gera, og geti sparað skólastjórum öll þau hlaup og bréfaskriftir til Rvíkur, sem hann á að gera. Þessi hugmynd um að færa ráðningu kennara til héraðanna, þannig að rn. þurfi ekki að vasast í því, heldur geti fræðsluskrifstofurnar annast það í samvinnu við skólana, byggist á því, að fræðslustjórinn sé maður rn. Ef því yrði breytt, efast ég um, að ég mundi halda þessum till. mínum til streitu. En brtt. þrjár á þskj. 561 fjalla allar um þetta eina atriði.

Skal ég svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, herra forseti.