02.04.1974
Neðri deild: 98. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3398 í B-deild Alþingistíðinda. (3049)

9. mál, grunnskóli

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Umr. um þetta frv. eru nú orðnar alllangar, bæði í kvöld og áður, hér á hv. Alþingi. Sú þn., menntmn. hv. Nd., sem hefur haft frv. til meðferðar, virðist hafa leyst af hendi allmikið starf, eftir því sem starfi n. er lýst af hv. frsm. n., og það kemur í ljós, að n. hefur séð ástæðu til þess að flytja hvorki meira né minna en 83 brtt. við frv., sem er 91 gr. N. flytur sameiginlega nokkurn hluta þessara till., en einstakir nm. flytja aðrar till., er ganga að sumu leyti í gagnstæðar áttir.

Það frv., sem hér liggur fyrir, er eins og lýst hefur verið, vandasamt mál. Hér er um þýðingarmikið mál að ræða, mál, sem myndar ramma um það starf, sem á að rækja til þess að byggja upp undirstöðumenntun þjóðarinnar, og slíka löggjöf þarf að vanda, eigi hún að valda því hlutverki, sem henni er ætlað. Ég skal ekki fjölyrða hér um þýðingu menntunar og þess starfs, sem rækja á í skólum, en ég tek það fram, að það verður seint um of vandað til löggjafar, sem um þetta á að fjalla, til þess að árangur verði sem bestur, en árangur skólastarfsins er það, sem máli skiptir, að auka menntun, þroska og menningu þjóðarinnar.

Gagnvart þeim brtt., sem hér liggja fyrir, skal ég ekki fara út í að ræða þær efnislega. Ég vil aðeins taka fram út af orðum, sem hv. þm. Benedikt Gröndal sagði hér áðan um till. okkar sjálfstæðismanna í þessum efnum, að þær virtust sniðnar við Rvík, en mundu ekki henta fyrir hin smærri sveitarfélög, að þar er ég alls ekki á sama máli. Það má e.t.v. segja, að þessar till. séu ekki eins nákvæmlega útfærðar og vera þyrfti, og það hefur ekki verið í tillöguformi gerð grein fyrir öllum þeim atriðum, sem þarf að taka til greina í sambandi við slíka breytingu á meðferð skólamála í þjóðfélaginu. Hinu er þó algerlega nauðsynlegt að gera grein fyrir, og því hefði hv. þm. Benedikt Gröndal átt að átta sig á, að um leið og sveitarfélögin fá í sínar hendur meðferð þess, sem hér er kallað grunnskólastig, þurfa þau aukið fjármagn. Það fjármagn fæst vitaskuld ekki með öðrum hætti en þeim, að sveitarfélögin fái í sínar hendur nýja tekjustofna, og það eitt dugir að öllum líkindum ekki til, vegna þess hve aðstaða sveitarfélaganna er misjöfn, og þar af leiðandi þarf að koma til stórkostleg efling Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðinn síðan að nota til að jafna aðstöðu sveitarfélaganna til að geta tekið sér þessi verkefni á herðar. Ef þessi mál eru skoðuð í þessu ljósi og enn fremur því ljósi, að sú er reynslan, að hin smærri sveitarfélög hafa að sínum hluta í fræðslumálum tekist á við mikil verkefni og haft um það ágætt samstarf, þá hygg ég, að ekki sé ástæða til annars en að ætla, að þó að þeim yrði fengin meðferð þessara mála í heild, hefðu þau þroska og vilja til þess að hafa um það samstarf sín á milli að leysa þau mál vel af höndum.

Ég skal ekki ræða um þessar brtt. frekar, enda hefur verið gerð ítarleg grein fyrir þeim á rúmum 2 klst. að undanförnu hér í hv. d.

Hv. frsm, menntmn., hv. 3. þm. Vestf., sagði í upphafi sinnar ræðu hér í dag, að megintilgangurinn með þessu frv. væri að skapa sem jafnasta aðstöðu til mennta fyrir skólaæskuna. Ég hef heyrt þetta fyrr, og sá hlýtur alltaf að vera tilgangur með fræðslulöggjöf að skapa sem jafnasta menntunaraðstöðu, hvað sem búsetu og öðrum aðstæðum líður. Hins vegar er ég ekki jafnviss og hv. þm. Hannibal Valdimarsson um, að þetta takist, enda þótt þetta frv. yrði að lögum. Það er svo og hefur verið svo á undanförnum árum, að misréttis hefur gætt í meðferð skólamála meðal þjóðarinnar og hin fámennari sveitarfélög og byggðarlög ýmis hafa legið eftir, á meðan þeir, sem búa í meira fjölmenni, hafa setið við kjötkatlana. Orsökin til þessa er fyrst og fremst sú, að fjármagn hefur skort í þjóðfélaginu til þess að hrinda áfram framkvæmdum um landið allt, til þess að skólaæskan gæti notið jafnréttis án tillits til búsetu. Hér er ekki um að kenna viljaleysi einstakra sveitarfélaga, eins og stundum er haldið fram, heldur er einfaldlega orsökin sú, að fjármagn hefur skort eða það hefur verið veitt til annarra verkefna í þjóðfélaginu í þeim mæli, að afgangur til skólamannvirkja hefur ekki orðið það mikill, að dugað hafi til þess að fullnægja því að skapa jafna aðstöðu. Þó að þetta frv. verði að l., myndast ekkert fjármagn í þjóðfélaginu. Hitt er sönnu nær, að fjármagn eyðist stórkostlega, vegna þess að þetta frv. hefur í för með sér mjög mikinn kostnaðarauka í meðferð fræðslumála. Ég hygg, að þó þetta frv. verði að lögum, megi búast við, að enn verði svo, að þeir, sem eiga erfiða aðstöðu, búa í fámennum sveitarfélögum, þar sem fátt er um atkvæði fyrir þá, sem málum ráða á Alþingi hverju sinni, verði látnir sitja á hakanum en fénu varið í meira mæli, þar sem fjölmennið er.

Ég gæti bent á ýmis rök til framdráttar þeirri skoðun minni, að þetta frv. felur ekki í sér neina vissu fyrir því, að stefnt verði til jafnréttis. Ég hef gert það áður hér á Alþingi og mun ekki endurtaka það, en vil þó aðeins segja, að með því að lengja skólaskyldu og skólaárið er ekki á nokkurn hátt tryggt, að um aukið jafnrétti verði að ræða, enda þótt það sé látið í veðri vaka, að sú sé ein helsta orsökin til þess, að stefnt sé til þeirrar áttar.

Ég hef rakið það fyrr, að mismunur á skólasókn stafar af þessu fyrst og fremst, að í strjálbýlum héruðum hafa mannvirkin ekki verið til. þar hefur aðstaða ekki verið sköpuð fyrir skólaæskuna til þess að sækja miðskólanám að skyldunámi loknu í sinni heimabyggð, og sú er orsökin til þess, að þessi mismunur kemur fram, mismunur, sem að vísu er sí og æ að minnka vegna þess, að skólamannvirki og bygging þeirra þokast alltaf nokkuð áfram um byggðir landsins.

Ég skal ekki fara hér út í það að flytja langa ræðu um þetta mál. Ég hef rætt það margsinnis áður og sé ekki ástæðu til að fara að tíunda það æ ofan í æ, sem ég hef um þetta mál sérstaklega að segja. En ég kom hingað í þennan ræðustól fyrst og fremst til þess að vekja athygli á því, að sú er skoðun mín, að enda þótt hv. n. hafi um málið fjallað á yfir 20 fundum og fluttar hafi verið við frv. af n. mjög margar brtt., þá hafi ekki verið bætt svo úr göllum þessa frv., að ég telji fullnægjandi til þess, að rétt sé að samþykkja það. Ég skal þó taka það fram, að ýmsar af brtt. n. sýnast mér að verulegu leyti stefna til réttrar áttar, og það er reyndar svo, að frá því að þetta frv. kom fyrst fram hefur það verið bætt að nokkru við hverja endurskoðun, og megi svo enn ganga. Það er mín skoðun, að rétt sé að vísa því enn til hæstv. ríkisstj. og taka í það eitt ár til. Enda þótt hv. þm. Benedikt Gröndal teldi, að við mættum þá að ári liðnu standa í sömu sporum, þá hygg ég, að ég treysti því og mundi vænta þess, að svo mætti til takast, að þá mundu enn sniðnir af því það margir gallar, að hugsanlegt væri, að samstaða gæti orðið um að afgreiða frv.

Ég vek athygli á því, að fræðslul. frá 1946 eru enn ekki komin til framkvæmda í öllum skólahverfum landsins og að innan þeirrar löggjafar, þ.e. gildandi l. um þetta efni, gætu rúmast flestar eða allar þær umbætur, sem felast í því frv., sem liggur fyrir, og í þeim brtt., sem fyrir liggja frá hv. n, og einstökum nm. Það er því engin nauðsyn á að afgreiða um þetta efni ný lög. Það mætti fella inn í gildandi lög þau ákvæði, sem hv. alþm. sýnist einsýnt, að séu til bóta frá því, sem gildandi I. gera ráð fyrir, og koma þannig þegar til framkvæmda. Þrátt fyrir allar þær brtt. og alla þá vinnu, sem hv. n. hefur í þetta frv. lagt, vil ég vekja athygli á því, að allir megingallar frv. standa að mestu enn. Ég vil aðeins í örfáum orðum rekja þessa meginókosti frv., sem ég tel varða það miklu, að ekki komi til álita að samþykkja það í því formi, sem það er.

Í fyrsta lagi er haldið enn lengingu skólaskyldunnar. Því er haldið að lengja og herða lögboðna skyldukvöð, sem lögð er á herðar ungmenna til þess að sækja skóla. Börnin fá í auknum mæli þá tilfinningu, að þau séu í skóla skv. lagaboði, af hlýðni við ríkiskerfið, en ekki að eigin frumkvæði og af menntaþrá. Þessu fylgja í auknum mæli þau vandkvæði, sem kviknað hafa í efstu bekkjum skyldunáms: námsleiði, hyskni við nám, uppreisnargirni gegn yfirstjórn skóla og þjóðfélagskerfinu í heild. Hér er, að ég hygg, orsök þess, að flestir skólastjórar og kennarar á skyldunámsstigi eru andvígir lengingu skólaskyldunnar, þeir hafa reynsluna meiri en aðrir menn. Þessum óheppilegu uppeldisáhrifum skólaskyldunnar mætti sennilega komast að mestu hjá með því að taka upp fræðsluskyldu í efstu bekkjum grunnskóla, þar sem unglingar sæki nám af frjálsum vilja, en ekki eftir lagaboði. Hér hefur í umr. margsinnis verið gerð grein fyrir því, hver munur er á fræðsluskyldu og skólaskyldu, og sé ég ekki ástæðu til að skýra þau orð nánar en gert hefur verið að undanförnu.

Lenging skólaársins táknar aukið fráhvarf frá atvinnuvegum þjóðarinnar. Brtt. þær, sem hv. n. hefur flutt um, að störf að atvinnuvegunum geti að nokkru komið í stað skólastarfs og skólanáms, er virðingarverð tilraun, sem vert er að gefa athygli. Þær brtt. eru þó næsta óskýrar og harla þokukennt, hvernig einkunnir þeir nemendur hljóta, sem t.d. vinna í frystihúsi eða heima í sveit á sauðburði í apríl og maí, þegar próf standa yfir í skólum. Það væri æskilegt að geta fengið um það einhverjar skýringar frá hv. n., hvernig hún hugsar sér, að námsmat, þ.e. einkunnir þeirra nemenda yrðu, sem hyrfu úr skóla til þess að starfa í atvinnuvegunum á þeim tíma, sem próf færu fram í skólum, og enn fremur, hvort hv. n. sýnist, að þeir nemendur, sem í efstu bekkjum grunnskóla hyrfu til starfa við atvinnuvegina, hefðu þá sama rétt til inngöngu í framhaldsskóla og þeir nemendur, sem hafa setið í skóla allt skólaárið. Ýmislegt í framkvæmd þessara mála væri nauðsynlegt að fá skýrari upplýsingar um en fram hafa komið í ræðum nm. í dag. Lít ég svo á, að hér sé um virðingarverðar till. að ræða. Þær eru e.t.v. teknar upp með hliðsjón af því, sem ég gat um í umr. um þetta mál fyrr í vetur, að Norðmenn eru með hugleiðingar um það að taka slíkt kerfi upp og setja á fót sérstaka ríkisstofnun, sem hafi það hlutverk með höndum að efla tengsl skóla og atvinnulífs og skipuleggja starf skólanemenda í atvinnulífinu og kveða á um, hvernig það starf sé metið til jafns við skólanám.

Þá lít ég svo á, að í frv. þessu felist það, að óhóflegt stjórnunarbákn sé sett upp í skólakerfinu. Skólastjóri t.d. hefur yfir sér fjórfalda yfirstjórn, sbr. 20. gr., auk yfirstjórnar ráðh. Auk þess þarf hann að hafa samráð við þrjú ráð um skólastarfið, og eru þó ekki talin samskipti skólastjóra við sveitarstjórnir eða samtök þeirra. Hv. n. hefur þó fellt niður eitt af þeim ráðum, sem er í frv., eins og það liggur fyrir, þ.e. grunnskólaráð. Nærri liggur að álykta, að hinar ýmsu stjórnunareiningar í skólakerfinu geti að heita má skákað skólastjóra á milli sín eins og peði, enda virðist stappa nærri, að skólastjóri og kennarar séu álitnir aðeins hjól í kerfinu og því næsta litlir karlar og jafnvel að heita má sálarlausir, ef marka má það, sem kemur fram í einstökum greinum frv., hvað þessum mönnum eru lagðar lífsreglurnar nákvæmlega. T.d. er í 55. gr. kveðið á um það, að skólastjóri og kennarar skuli ræða við nemanda, sem verulega er áfátt í hegðun í skóla. Fyrr má nú vera en að setja það í lög, að skólastjóri og kennari skuli ræða við nemanda, sem er verulega áfátt í hegðun. Það á ekki að vera mikið frumkvæði hjá þeim mönnum, sem vinna að uppeldismálum þjóðarinnar, ef slíkt þarf að setja í lög.

Þá vil ég nefna það, að fræðsluskrifstofurnar hafa ekki nema að óverulegu leyti í för með sér þá dreifingu valds, sem talað hefur verið um. Völdin eru eftir sem áður í höndum rn. Forsenda þess, að valddreifing verði, er að fá sveitarfélögunum fræðslumálin í hendur og tekjustofna í samræmi við það, eins og sjálfstæðismenn hafa gert till. um. Án þess verða fræðsluskrifstofurnar að meginhluta selstöður ríkisvaldsins. Gert er ráð fyrir því að koma upp þéttriðnu neti sálfræðinga, félagsráðgjafa og skólaráðgjafa. Hér er um sérfræðinga að ræða, sem ekki starfa að kennslu í skólum og bera ekki ábyrgð á árangri í skólastarfi. Ýmsum hefur þótt vera næsta erfitt að átta sig á kenningum og starfsaðferðum þessara sérfræðinga. Árangur af starfi þeirra gæti verið vafasamur, en augljóst er, að kostnaðurinn verður gífurlegur.

Að lokum vil ég benda á það, að svo virðist sem hv. menntmn. hafi litla tilraun gert til þess að kafa eftir því, hver yrði kostnaðarauki af slíkri löggjöf sem þessari, ef frv. þetta yrði lögfest. Hv. frsm., hv. þm. Hannibal Valdimarsson, sagði þó í sinni framsögu eitthvað á þá lund, að ljóst væri, að kostnaðaraukning yrði mikil, og nefndi töluna 289 millj., sem enn er í grg. þessa frv. eins og var, er það var upphaflega lagt fram fyrir nokkrum árum. Ég gerði hér á hv. Alþ. í fyrra ítrekaðar kröfur um það til þeirrar n., er fengi þetta mál til meðferðar, og enn fremur til hæstv. menntmrh., að Alþ. yrði gerð grein fyrir því með skýrari rökum og nýrri tölum en fram koma í grg. þessa frv., hver yrði kostnaðaraukning af samþykkt þess. Ég taldi, að það væri lítt verjandi af Alþ. Íslendinga að afgreiða frv. sem þetta, ef ekki væri gerð grein fyrir því, hver kostnaður hlytist af því. Það skal þó tekið fram, að margt má á þjóðina leggja í álögum til þess að vanda til menntunar æskunnar. En þegar um er að ræða frv., sem hefur inni að halda slíka megingalla sem þetta, þá er það lágmark, að reynt sé að gera grein fyrir því hvaða kostnaðaraukning hlýst af samþykkt þess. Ég tel, að slíkar skýringar hafi komið fram, og hlýt að líta svo á, að það sé einstæð vanræksla hjá hv. n., sem um málið hefur fjallað, ef hún hefur ekki reynt að kanna það mál til botns, og vænti ég þess, að fram komi nánari skýringar um þetta, ef n. hefur þær á takteinum.

Það er a.m.k. augljóst mál. að þær 289 millj. kr., sem nefndar eru í grg. þessa frv. og hv. frsm. n. lét sér um munn fara hér fyrr í dag, standast engan veginn, eins og verðlagi er nú háttað, og hygg ég þó, að það hafi verið stutt gengið í því að skoða áhrif þess frv., sem hér liggur fyrir. Þar á ofan er engin grein gerð fyrir því, hver kostnaðaraukning hlýst af þessu frv. í stofnkostnaði við skólamannvirki, en eins og kunnugt er, gerir frv. ráð fyrir því, að skólastarfið sé í miklum mun meiri mæli en nú er flutt inn í skólana sjálfa. Það þýðir, að þar verður ekki um það að ræða, að unnt sé að tvísetja í húsnæði, heldur verður að koma til stórkostleg aukning á skólahúsnæði, ekki einungis úti um landsbyggðina, þar sem það skortir í dag, heldur einnig á þéttbýlissvæðum, þar sem þröng er í skólum, eins og nú standa sakir.

Ég skal ekki rekja hér fleiri atriði þessa frv. Ég endurtek, að það hefur inni að halda ýmis ákvæði, sem eru til bóta frá því, sem gildandi fræðslulög gera ráð fyrir, og má þar t.d. nefna kennslu og meðferð afbrigðilegra barna, sem ég hygg, að sé verulega þýðingarmikið mál, kaflinn um skólabókasöfn og nokkur atriði fleiri mætti nefna. En þetta eru allt saman atriði, sem mjög vel mætti fella inn í gildandi lög og koma því máli ekkert við að afgreiða um þetta mál nýja löggjöf, sem hefur um leið inni að halda atriði, sem eru mjög umdeild og miklum fjölda skólamanna, skólastjóra og kennara og mjög miklum hluta þjóðarinnar a.m.k. hrýs hugur við að verði að veruleika.

Ókostir þessa frv. eru sem sagt það miklir, að ég tel með öllu óaðgengilegt að samþykkja það. Kostum og göllum þess er svo hrært saman, að kostirnir verða ekki skildir frá, sauðirnir verða ekki skildir frá höfrunum, og afgreidd þau atriði frv., sem eru til bóta. Því er ekki um aðra leið að velja fyrir þá, sem viðurkenna þá skoðun, sem ég hef hér mælt fyrir, en að vísa frv. frá að nýju til hæstv. ríkisstj. Svo er sagt, að hún þjáist nú af innanmeini og óvíst sé um hennar lífdaga. Ég ber ekki þann kvíðboga fyrir meðferð þessa máls í hennar höndum, ef hún fengi það að nýju, að ég telji ekki óhætt að leyfa henni að grauta í því þann tíma, sem hún kynni að eiga eftir ólifað.