02.04.1974
Neðri deild: 98. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3415 í B-deild Alþingistíðinda. (3053)

9. mál, grunnskóli

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þeir eru svo fáir vökumennirnir hérna, að ég held, að þeir risi undir því, þó að þeir vaki nokkrum mínútum lengur. Þeir hafa lagt það á sig að vera hér fram á nótt við afgreiðslu þessa máls, og ég held það sé þess virði, að við gerum það.

Varðandi skólaskyldu yfirleitt, þá játa ég, að það er sjónarmið út af fyrir sig að vera andstæðingur skólaskyldu. En ef menn eru það, ættu þeir að flytja till. um það, því að það er enginn að biðja þá að kyngja bragðvondum bitum með þeim góðu bitum, sem þó eru viðvíkjandi þessu frv. Svo mikið ættu menn þá að leggja á sig, að þeir bæru fram till. um það að marka skólaskyldunni annan bás en gert er í þessu frv., ef þeir telja það aðalháskann af lagasetningunni, annaðhvort t.d. að fella niður skólaskylduna frá 7–10 ára eða frá 14 ára aldri og hafa hana eins og í gamla daga, 10–14 ára. Ég veit ekki, hvar hv. þm. vill staðnæmast um þetta, en a.m.k. er bægt að marka sína afstöðu um það, hvort maður vill yfirleitt hafa skólaskyldu eða á hvaða aldurstímabili það sé. Það getur ekki verið aðalháskinn í því að bæta við skólaskyldu frá 15 til 16 ára aldursins.

Ég veit ósköp vel sem gamall kennari, að það getur verið kvalræði nemanda að sitja í skóla, hvort sem hann er skyldugur til þess eða hann er bara látinn gera það af aðstandendum og er þar ekki af eigin hvötum. Ef skólinn hefur ekkert að bjóða nemandanum við hans hæfi, verður þetta kvalræði. Ef nemandi, sem er mjög frábitinn eða getulaus við bóklegt nám, verður þar að sitja, þá verður það honum kvöl og hann hefur lítið gott af því, betur kominn þá við verklegt starf, og til þessu eru opnaðar heimildir í brtt. n. En ef skólanum er breytt þannig, að slíkur nemandi geti fengið að vinna að lífrænum störfum eða verklegu námi, sem honum hentar betur, þá er skólinn eitthvað fyrir hann. En aðalástæðan til þess, að ég hef fallist núna á skólaskylduna til 16 ára aldurs, er sú, að með grunnskólaprófinu eru opnaðar leiðir fyrir ungmenni í allar áttir framhaldsskólastigsins. Það er mikils virði að geta haldið þessum leiðum öllum opnum, og það gerist með grunnskólaprófinu. Ef nemendur hefðu frjálsræði til að heltast þarna úr lestinni, væri verið að loka þarna leiðum fyrir þeim, þeir hefðu ekki grunnskólaprófið, og þá gætu verið lokaðar leiðir til hinna verklegu skóla á framhaldsskólastiginu, sem þeir vildu síðar fara í.

Varðandi stjórn skólans þóttist ég áðan sýna fram á, að það væri ekki réttmæt gagnrýnin um það, að skólastjórarnir væru orðnir þarna miklu neðar í stjórnunarkerfinu en þeir hefðu áður verið. Það er ekki rétt. Þeir skulu nú lúta náttúrlega yfirstjórn menntmrh., þeir skulu lúta yfirstjórn menntmrn., og þeir skulu lúta stjórn í heimahéraði, skólanefndarinnar. Þetta er allt núna. Hvað er í viðbót? Ég spurði um það áðan og ég endurtek það: hvað er í viðbót? Það er fræðsluráðið heima í héraði og fræðslustjórinn, sem er hluti af fræðslumálaskrifstofunni, það er ekki nýr valaðili yfir skólastjórunum. Það er bara það, að þetta vald er fært heim í héraðið, á skólasvæðið að heita má. Það er til bóta, tel ég, en það er ekki nýr valdaaðili. Fræðsluráð og fræðslustjóri fer með hluta af valdi fræðslumálaskrifstofunnar eða menntmrn. eins og nú er. Það er verið að ranghverfa hlutunum að segja, að þarna hafi bæst tveir valdaaðilar við. Það er aðeins tilfærsla á valdinu heim í hérað, en ekki neinn nýr aðili, sem er þarna að stjórna yfir skólastjórunum. Það dettur engum í hug, þó að það standi ekki í lagagr., að nokkur ábyrgð sé tekin frá skólastjóra sem stjórnanda skólans. Vitanlega er hann það. Hann er stjórnandi í öllu hinu daglega starfi undir yfirstjórn þeirra aðila, sem alltaf hafa verið þar yfirstjórnendur. Hv. þm, var að reyna að gera þetta margskipta vald skoplegt með því að lesa eina grein um, hvernig auglýsing ætti að vera. Það er vissulega rétt, að þetta á ekki heima í lagafrv. Þetta er reglugerðarákvæði, en upptalningin yrði miðað við núgildandi löggjöf, nokkurn veginn alveg eins, nema fræðslustjóri og fræðsluráð kæmu þarna ekki inn í upptalninguna. Það eru heimaaðilar, sem hafa bæst við.

Við erum áreiðanlega ekki eins ósammála um starf sálfræðinga og félagsráðgjafa og þýðingu þeirra í skólastarfinu og gæti litið út fyrir að við værum. Ég heyrði það á málflutningi hv. þm. En ég sagði áðan, að ég vildi vona, að aðstaðan til að fá hjálp sálfræðinganna og félagsráðgjafanna úti um byggðir landsins, sem ég tel alveg tvímælalaust til bóta, leiði ekki til þess, að kennarar og skólastjórar felli slíka starfsemi niður úr sínu starfi, því að þá væri verr farið en heima setið. En ég sé enga ástæðu til þess. En það er gott, að þeir eigi völ á því að leita til slíkra sérfræðinga í sálarfræði og félagslegum vanda, og það hlýtur að vera til bóta, ef þeir hafa nokkra trú á, að það sé gagn að menntun og sérfræði. Við Íslendingar höfum oft gert gys að sérfræðingum á ýmsum sviðum, og það eru til margar skopsögur um sérfræðinga, hvað þeir hagi sér fáránlega, og við höfum talið oft brjóstvitið betra og duga betur. Hver hefur ekki heyrt söguna um verkfræðinga, sem t.d. er á þessa leið: „Ef þú sérð mann í hvassviðri vera að pissa upp í vindinn, þá máttu vera viss um að það er verkfræðingur!“ Það er hægt að segja svona skopsögur af sálfræðingum, en það sannfærist enginn um það þrátt fyrir það, að það sé gagnslaust eða skaðlegt að eiga kost á því að njóta leiðsagnar slíkra sérfræðinga.

Varðandi þá gagnrýni, að menntmn, hafi vafalaust ekki kafað djúpt í að kanna kostnaðarhliðina á framkvæmd þessarar væntanlegu löggjafar, þá er það rétt. N. hafði enga aðstöðu til þess að gera sjálfstæða rannsókn á því. En sá sérfræðingur menntmrn., sem hafði kannað þessi mál, gaf n. upplýsingar um þetta og gaf upp, við hvaða tímamörk þær áætlanir væru gerðar. Þetta er fyrst og fremst um aukinn rekstrarkostnað skólahaldsins í sambandi við lagabreytingarnar, en engar áætlanir liggja fyrir um, hvaða byggingarkostnaður komi þarna til vegna breytinga á skólastarfinu, en það verður líka talsvert. Þarna er um nokkur hundruð millj. kr. að ræða. Eins og auðskiljanlegt er, hlýtur að kosta meira, þegar stofnað er t.d. til sálfræðiþjónustu, bókasöfn við hvern skóla og skólatíminn lengri á ári hverju o.s.frv.

Ég heyrði það á lokaorðum hv. 6. þm. Norðurl. v., að hann gerir sér grein fyrir því, hversu þýðingarmikil slík löggjöf sem þessi er. Ég vitna aftur til þess, sem stendur í grg. með frv. Þar segir, að það sé vafasamt, að nokkur löggjöf leggi þýðingarmeiri grundvöll fyrir þjóðarheild og einstaklinga en sú löggjöf, sem ákveður hina almennu grundvallarmenntun landsmanna, og það gerir þessi löggjöf. Það, sem mönnum líkar ekki í henni, hljóta menn að gera brtt. um, og svo verður þingvilji að ráða um niðurstöðurnar.