02.04.1974
Neðri deild: 98. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3417 í B-deild Alþingistíðinda. (3054)

9. mál, grunnskóli

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hér hljóðs fyrir alllöngu, en féll frá orðinu vegna þess, að mér skildist, að menn vildu stytta þessar umr. sem mest og reyna að ljúka umr, nú í kvöld. En frá því að þetta skeði hafa haldið ræður hv. 5. þm. Norðurl. v. og 3. þm. Vestf. tvær ræður, og hæstv. menntmrh, hefur tjáð sig nokkuð um brtt. um þetta frv. Ég sé því ekki ástæðu til að vera svo tillitssamur fremur öðrum við þessa umr., en svo vill til, að ég hafði kvatt mér hljóðs upphaflega vegna þess, að ég hefði gjarnan viljað fara nokkrum orðum um ræður, sem fluttar voru fyrir þessa umr. og voru fluttar af tveimur nm. úr menntmn., hv. 4. landsk, þm. og hv. 8. landsk. þm. En nú er orðið fáliðið hér í þingsalnum og báðir þessir þm. eru farnir heim eða alla vega úr þingsalnum, og ég vil því mælast til þess, þar sem nú er orðið áliðið, hér eru ekki nema 5 eða 6 þm, til staðar og ég vildi gjarnan ræða hér nokkur atriði nánar, sem þessir þm. fjölluðu um og eins þeir hv. þm. Hannibal Valdimarsson og Pálmi Jónsson hafa gefið tilefni til, — þá vil ég fara fram á það við hæstv. forseta, að hann frestaði þessari umr. til næsta þingfundar, svo að við gætum haldið þessum umr. áfram að viðstöddum þeim þm., sem hér er vikið að og ég vildi svara nokkrum orðum. (Forseti. Ég vil benda hv. þm. á það, að hann getur komið athugasemdum sínum að við 3. umr. málsins, sem eftir er. Það er í rauninni mjög erfitt að tryggja, að þm. verði viðstaddir við svo langar umr. sem hér eru.) Verður ekki að gera ráð fyrir því, að nm., sem eru í menntmn., séu viðstaddir meðferð á máli, sem kemur úr þeirra eigin n., og er til of mikils mælst, að fundinum sé frestað nú, þegar kl. er að ganga tvö og mjög fáir viðstaddir? (Gripið fram í.) Það er ekki vegna þess, að ég vilji tefja framgang þessa máls, ég hefði gjarnan viljað, að hér færu fram umr. um atriði, sem snerta mjög mikilvæg atriði í þessu máli. (Forseti: Ég vil aðeins bæta því við, að ég tel, að hv. þm, hafi fengið allgóðan tíma til að ræða málið og geti enn gefið sér tíma til þess, þótt að vísu sé nokkuð fáliðað hér, og vil ekki hverfa frá þeirri ætlun, sem hefur þegar verið marglýst yfir, að ljúka þessari umr. í kvöld.) Hvort eru það nú þinglegri vinnubrögð af minni hálfu að biðja um frestun eða af hálfu forseta og hæstv. ráðh. að knýja þetta mál áfram með slíku kappi, að halda umr. áfram fram eftir nóttu, þegar þm. eru ekki viðstaddir lengur, sem maður vildi gjarnan tala til. Það má deila um það, hvort sé þinglegra. Ég ítreka þessa ósk mína. En ef það er ekki tekið til greina, hefði ég viljað fara fram á það, að vissar till., sem hafa verið fluttar bæði af þessum hv. þm. og menntmn., yrðu þá teknar til baka til 3. umr., svo að unnt sé að ræða efnisatriði við þá umr., ef farið verður fram á það, að ég taki til máls þá frekar en núna. (Gripið fram í.) Ég er að tala um till., sem þegar hafa verið fluttar, hér hafa verið gerðar að umtalsefni og skapast nokkur ágreiningur um og ég vildi fara nokkrum orðum um og rökstyðja mitt mál betur, en vegna þess að það er ekki tækifæri til þess að tala um málið hér núna og leita svara og andsvara, þá vildi ég að gjarnan, að þessar ákveðnu till. yrðu dregnar til baka til 3. umr. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að ræða þetta við tillögumenn vegna þess, að þeir eru ekki viðstaddir. Það er kjarni málsins. Þess vegna er ég að biðja um að fresta umr., vegna þess að þeir eru ekki viðstaddir. Það er ekki hægt að tala við fólk, sem er fjarverandi og farið heim að sofa í miðri umr.

Ég ítreka þessa beiðni mína. Að öðrum kosti, ef ekki er fallist á að fresta umr., vil ég gjarnan fara fram á, að þessu yrði komið á framfæri við þá þm., sem eru fjarverandi, og að form. og frsm. menntmn. taki þetta til athugunar.