03.04.1974
Efri deild: 97. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3419 í B-deild Alþingistíðinda. (3059)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Ólafar Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, hefur gengið gegnum hv. Nd. og þar tekið nokkrum breyt., en þó ekki veigamiklum. Aðalefni þessa frv. er að gera hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar, sem nú er, að alveg sjálfstæðri stofnun, Þjóðhagsstofnun, eins og hún nú heitir eftir breyt. í Nd.

Í lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins er hagrannsóknadeildinni þar strax mörkuð sérstaða, þar sem segir, að hún heyri beint undir ríkisstj. Til þessa lágu þær ástæður, að það var mikilvægt að gera stöðu hagrannsóknadeildarinnar sem sjálfstæðasta og óháðasta, og enn fremur hitt, að það var ljóst, að starfsemi hennar var þess eðlis, að hún hlyti að falla í nokkuð sérstakan farveg, sem yrði nokkuð annar en önnur starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar.

Reynslan hefur staðfest það,að hagrannsóknadeildin hefur starfað sjálfstætt og stjórn Framkvæmdastofnunarinnar hefur a.m.k. ekki nema að mjög litlu leyti haft með þau málefni að gera, sem hagrannsóknadeildin hefur annast, þannig að það má í raun og veru segja, að þetta frv. sé staðfesting á þeirri framkvæmd, sem átt hefur sér stað í reyndinni. Það má segja, að það hafi ekki komið beinlínis að sök, að hagrannsóknadeildin hefur þannig verið tengd Framkvæmdastofnuninni af því, að hún hefur starfað, eins og ég sagði áðan, yfirleitt sem sjálfstæð stofnun og án afskipta að öðru leyti af hálfu stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar. En það er auðvitað mjög mikilvægt, að þessi starfsemi eigi sér stað með þeim hætti, að til hennar sé borið hið fyllsta traust. En þessi stofnun, hagrannsóknadeildin, hefur unnið og vinnur störf, sem eru ákaflega þýðingarmikil, bæði fyrir ríkisstj., fyrir aðila vinnumarkaðarins og í sambandi við t.d. ákvarðanir u:m fiskverð o.fl. Ég held, að það sé sannmæli allra, að þessi störf hafi þessari deild og forstöðumanni hennar tekist að leysa svo af hendi, að þau hafi notið fyllsta trausts, og það hafi ekki borið á neinni tortryggni neins staðar frá í garð hennar. Menn hafa tekið þær upplýsingar og þau gögn, sem hún hafi látið frá sér fara, sem góð og gild. Auðvitað eru þau eftir sínu eðli oft þannig úr garði gerð, að þar er um spár að ræða, sem auðvitað rætast misjafnlega eins og allar aðrar spár.

Til þess að undirstrika þá miklu þýðingu, sem hagrannsóknadeildin hefur, var þetta frv. flutt, og til þess að leggja áherslu á að gera stöðu þessarar stofnunar sem allra óháðasta og þannig, að menn gætu borið til hennar fyllsta traust og það væri engi hætta á því, að menn tortryggðu hana á neinn hátt, þeir sem til hennar þurfa að sækja. En ég verð að segja það, að fyrir ríkisstj. álft ég alveg nauðsynlegt og jafnvel óhjákvæmilegt að hafa sér við hlið stofnun, sem hefur með höndum þvílíka starfsemi sem hagrannsóknadeildin hefur nú, og ég hygg, að það muni verða reynsla hvaða ríkisstj, sem er.

Þar sem hér er, eins og ég hef þegar tekið fram, í raun aðeins um að ræða staðfestingu á því, sem átt hefur sér stað í framkvæmd, vænti ég þess, að það þurfi ekki að verða mikill ágreiningur um þetta mál. En svo sem ég gat um áðan, voru gerðar nokkrar breyt. á frv. í hv. Nd., en þó í raun og veru smávægilegar. Þannig var heiti stofnunarinnar breytt, og á hún að heita Þjóðhagsstofnun. Var það rökstutt leið því, að annars væri nafn hennar svo líkt annarri stofnun, sem fyrir er, þ.e. Hafrannsóknastofnun. Ég tel þessa breyt. ekki skipta verulega miklu máli, en sætti mig við hana. Þá var gerð sú breyt. á, að Hagrannsóknastofnunin skyldi ekki aðeins verða ríkisstj. til ráðuneytis, heldur og Alþ., og að það skyldi verða eitt af hlutverkum hennar, — en fyrir því er gerð grein í frv., — að láta alþm. og nefndum Alþ. í té upplýsingar og skýrslur um efnahagsmál. Þetta er ekki heldur nema staðfesting á því, sem átt hefur sér stað í framkvæmd Alþ. og alþm. hafa fengið oftast nær þær skýrslur, sem hagrannsóknadeildin hefur látið frá sér fara, og hagrannsóknastjóri mætt á fundum nefnda hér, þegar þess hefur verið óskað o.s.frv. Það er ekki nema sjálfsagt, að ég fyrir mitt leyti fallist á þær breyt., sem þannig hafa verið gerðar á frv.

Ég skal svo, herra forseti, ekki fara fleiri orðum um þetta efni, get svo aðeins getið þess, að samkv. upphaflega frv. var gildistími miðaður við, að það yrði að lögum. 1. jan. þetta ár. En vegna þess að nú er áliðið nokkuð, var því breytt í Nd. á þá lund, að það yrði 1. ágúst. Það er að sjálfsögðu svo, að það þarf dálitinn tíma til þess að koma þessari breyt í kring.

En þó að hv. Ed. fái nú minni tíma til að athuga þetta mál en hv. Nd., sem hefur haft það frá þingbyrjun, þá vona ég, að það takist að afgreiða málið fyrir lok þessa þings, og vil leyfa mér, herra forseti að æskja þess, að frv. verði að lokinni þessari umr, vísað til 2. umr. og hv. fjh, og viðskn.