06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

352. mál, hitaveita á Suðurnesjum

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Fsp. hv. þm. Odds Ólafssonar vísaði ég til Orkustofnunar, og hún samdi síðan þá grg., sem hér fer á eftir:

Á undanförnum árum hefur Orkustofnunin unnið að Rannsókn þriggja háhitasvæða á Reykjanesskaga, en þau eru Krýsuvíkursvæði, Reykjanessvæði og Svartsengissvæði. Rannsóknin skiptist í frumrannsókn á yfirborði, þar sem beitt er öllum tiltækum aðferðum í jarðfræði, jarðefnafræði og jarðeðlisfræði, og djúprannsókn með rannsóknarborunum, sem ætti að vera sannprófuð niðurstöðumæling á yfirborði og styrkja þá heildarmynd af svæðinu, sem frumrannsóknin leiddi til.

Skýrsla um Krýsuvíkursvæðið er nú í undirbúningi og mun birtast næsta vor. Fyrstu niðurstöður benda til þess, að á svæðinu sé mikill forði af 100–200° heitu vatni, sem best yrði nýttur til hitaveitu og iðnaðar á höfuðborgarsvæðinu í framtíðinni. Á nokkrum stöðum hefur fundist vatn með hærra hitastigi, en í svo litlu mæli, að ekki þykir ráðlegt að mæla með notkun þess til raforkuvinnslu. Þessar heitari vatnsæðar benda þó til þess, að dýpra undir svæðinu, á 2–3 km dýpi, kunni að vera vatn með hærri hita, en svo djúpt hafa rannsóknarborarnir enn ekki náð. Rannsókn þessi var gerð á árinu 1970–1972 og til hennar varið 28 millj. kr.

Jarðhitasvæðið á Reykjanesi, þ. e. a. s. svæðið við Reykjanesvita, var sérstaklega kannað vegna áætlana um sjóefnavinnslu. Niðurstöður þessara rannsókna voru birtar í skýrslu Orkustofnunar í febr. 1971. Meginniðurstöður voru þær, að þarna megi fá nægan jarðsjó fyrir sjóefnavinnslu. Hiti jarðsjávarins er um 270 stig, og fæst af honum næg gufa til saltverksmiðju. Í lok rannsóknarinnar var boruð ein vinnsluhola til reynslu, og hefur hún blásið stöðugt í 3 ár, án þess að dregið hafi úr afli hennar eða breyting hafi orðið á seltu jarðsjávarins. Kostnaður við öflun gufu og jarðsjávar er talinn liggja innan þeirra marka, sem notuð eru í áætlun um sjóefnavinnslu. Nauðsynlegt er þó talið að bora fleiri vinnsluholur og reyna á svæðið í áföngum til þess að fá öruggara mat á vinnslukostnaði, áður en endanlega yrði ráðist í byggingu sjóefnaiðju. Rannsókn þessi fór fram á árunum 1968–1971 og kostaði 30 millj. kr.

Jarðhitasvæðið við Svartsengi norðan Grindavíkur er hulið nýlegum hraunum og merki um jarðhita á yfirborði aðeins gufa, sem stigur upp um sprungur í hrauni. Haustið 1971 voru boraðar tvær holur, 240 og 400 m djúpar, við gufuaugu á svæðinu, og gáfu þær mjög góðan árangur. Reynist hitinn vera 220° og vatnsæðar góðar, en vatnið salt. Er selta þessi um 2/3 af seltu í sjó. Sumarið 1971–1973 voru gerðar ítarlegar mælingar á svæðinu, og henda niðurstöður þeirra til þess, að stærð Svartsengissvæðisins sé sambærileg við stærð Reykjanessvæðisins, en hiti sé líklega lægri og selta vatnsins heldur minni. Álitlegasti virkjunarstaður innan svæðisins er norðan við Þorbjarnarfell og vestan við Svartsengisfell.

Í jan. 1973 kom út hjá Orkustofnun skýrsla: Varmaveita frá Svartsengi, þar sem fjallað er um orkuöflun fyrir hitaveitu á Suðurnesjum. Niðurstöður þessarar skýrslu, sem gerð er af sérfræðingum Orkustofnunar, eru, að hagkvæmast sé að afla heits vatns í Svartsengi og leiða það til byggðarinnar. Áætlunin leiðir í ljós, að verð á heita vatninu við byggðamörk er aðeins um helmingur af því, sem það mætti vera, til þess að upphitun væri jafndýr og með olíu, og er þá ekki tekið tillit til þeirrar miklu hækkunar á olíuverði, sem nú er fram undan. Þar sem vatn úr jarðhitasvæðinu við Svartsengi er salt og mettað kísil, er það ónothæft beint til hitaveitu. Verður að afla neysluvatns með borunum í hrauni utan jarðhitasvæðisins og leiða það inn á svæðið að varmaskiptastöð, þar sem vatnið yrði hitað með jarðsjónum. Frá varmaskiptastöð færi ferska vatnið um 95° heitt og kæmi um 80° heitt til byggða.

Orkustofnunin hefur unnið að því s. l. sumar að koma upp lítilli varmaskiptastöð á jarðhitasvæðinu, þar sem rannsakað verði, með hvaða aðferðum og fyrirkomulagi sé hagkvæmast að reka slíka stöð. Rannsókn þessi miðast aðallega við skeljun kísils í varmaskiptum og hve langt hagkvæmt sé að ganga við nýtingu varmans í jarðsjónum. Vegna þessarar rannsóknar hefur Orkur stofnun með samkomulagi við Grindavíkurhrepp fengið afnot af annarri borholu hreppsins, og einnig er tekið kalt, ferskt vatn frá Vatnsveitu Grindavíkur. Ráðgert er, að niðurstöður þessarar rannsóknar liggi fyrir á næsta ári.

Á þessu hausti er ráðgert að bora 1000 m djúpa holu til þess að kanna norðvesturmörk svæðisins og hita- og vatnsæðar á meira dýpi en áður. Á næsta ári er áætlað að bora vinnsluholur til reynslu, og ætti svæðið síðan að vera tilbúið til virkjunar.

Til jarðhitarannsókna í Svartsengi verður varið á árinu 1973 um 15 millj. kr., og í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að verja 18 millj. kr. Þess ber þó að geta, að mikill hluti rannsóknarkostnaðarins er vegna borunar borhola,en þær gætu nýst sem vinnsluholur fyrir virkjunina, þegar í hana yrði ráðist.

Fsp. var um það, hvort lægi fyrir samanburður á hagkvæmni virkjana á þeim hitasvæðum, sem til greina koma. Það má vel vera, að ég hafi misskilið spurningu hv. fyrirspyrjanda, og mér virtist það nú eiginlega af því, sem hann sagði áðan til skýringar á fsp. Ég gerði ráð fyrir því, að hann ætti við háhitasvæðin á Reykjanesskaga, þ. e. a. s. svæðin við Reykjanesvita annars vegar og Svartsengi hins vegar. Um það atriði er það að segja, að eins og fram kemur í skýrslu Orkustofnunar hafa verið áform uppi um nýtingu tveggja þessara háhitasvæða á þá lund, að svæðið út við vitann verði notað í sambandi við væntanlega sjóefnavinnslu, og virðist það svæði vera mjög vel til þess fallið, Hitt svæðið, Svartsengi, hefur verið hugsað sem virkjun fyrir hitaveitu um alla nærlæga byggð, og hefur Orkustofnun gert, eins og fram hefur komið, áætlun um slíka veitu. Það er ekki beinlínis ástæða til að gera sérstakan samanburð á hagkvæmni virkjana frá þessum hitasvæðum vegna þess að nýting þeirra er með ólíku móti þ. e. a. s. Svartsengi aðallega til húshitunar, en Reykjanestáin aðallega til iðnaðar og framleiðslu.