03.04.1974
Efri deild: 97. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3426 í B-deild Alþingistíðinda. (3073)

178. mál, Félagsmálaskóli alþýðu

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Við hv. 6. þm. Reykv, tókum aftur til 3. umr. brtt. okkar á þskj. 563. Það urðu nokkrar umr. um þessa till. okkar við 2. umr., og það gefur mér tilefni til þess að víkja enn nokkrum orðum að því máli.

Till. gerir ráð fyrir, að Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, BSRB og Vinnuveitendasamband Íslands fái aðild að skólan. Félagsmálaskóla alþýðu. Það lá fyrir, að Vinnuveitendasamband Íslands hafði bréflega óskað eftir því að fá þessa aðild að skólanefndinni, og lágu ýmis rök fyrir því, sem ég gerði grein fyrir við 2. umr. og skal ekki endurtaka hér. Hins vegar var því haldið fram, að það lægi ekki fyrir, hverjar væru óskir Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og BSRB. Ég hélt því að vísu fram, að það lægi í hlutarins eðli, að bæði þessi samtök hefðu áhuga á því að eiga aðild að þessum skóla. Nú hef ég hér í höndum bréf frá báðum þessum samtökum.

Annars vegar er bréf frá BSRB til Alþingis. Það mun hafa verið lagt fram á lestrarsal Alþingis, bréfið er skrifað í síðasta mánuði, en það kom ekki til athugunar eða umr. í félmn., sem hafði málið til meðferðar. Ég hef hér afrit af þessu bréfi og þykir rétt að kynna hv. þd. það. Með leyfi hæstv. forseta, hljóðar bréfið á þessa leið:

„Fyrir Alþ. liggur stjfrv. um Félagsmálaskóla alþýðu og frv. um Félagsmálaskóla launþegasamtakanna, sem flutt er af Pétri Sigurðssyni, Braga Sigurjónssyni og Sverri Hermannssyni. Á fundi stjórnar BSRB 5. þ.m. var samþ. áskorun til Alþ. um, að bandalaginu verði gefinn kostur á að fjalla um frv. Bandalagið hefur mikinn áhuga á þessu máli. Það hefur um árabil haldið uppi félagsmálafræðslu, en fjármuni skortir til stórátaks í þessu máli, sem mikil þörf er á. Ef settur er á stofn félagsmálaskóli á vegum ríkisins, telur stjórn BSRB sjálfsagt og eðlilegt, að hann sé einnig fyrir meðlimi BSRB.“ Undir þetta bréf skrifar svo form. og ritari stjórnar BSRB.

Ég hygg, að það þurfi nú ekki lengur að velta vöngum yfir því eða vefengja það, að BSRB hafi áhuga á þessu máli. Að vísu er ekki tekið fram í þessu bréfi, að það óski sérstaklega eftir aðild að skóalnefnd skólans, en hins vegar liggur það í hlutarins eðli, eins og bréfið er orðað og efni þess er. Ég vil enn fremur upplýsa það hér, að ég hef átt viðtal um þetta mál við formann BSRB, Kristján Thorlacius, og hann hefur tjáð mér, að bandalagið legði mikla áherslu á það að fá fulltrúa sinn í skólanefndina, eins og brtt. okkar hv. 6. þm. Reykv. gerir ráð fyrir. — Þetta er um BSRB.

Þá hef ég hér bréf í höndum frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Það bréf er stílað til mín, vegna þess að ég óskaði eftir að fá að heyra álit þessara samtaka á brtt. okkar. Bréfið er stuttort og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Við viljum þakka fram komna brtt. við frv. til l. um Félagsmálaskóla alþýðu, 178. mál. Það er einlæg ósk vor, að brtt. nái fram að ganga. Með fyrir fram þakklæti.“

Undir þetta skrifar framkvstj. Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Ingólfur Stefánsson.

Ég vil láta þess getið, að mér er kunnugt um, að það var haft samband við alla stjórnarmeðlimi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, sem til náðist, um þetta mál. Það leikur því enginn vafi á því, hver er vilji Farmanna- og fiskimannasambands Íslands í þessu efni.

Ég ætla ekki, tel það óþarft að fara að færa hér aftur fram hin almennu rök, sem ég færði fram við 2. umr. málsins fyrir réttmæti þess, að bæði BSRB og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands eigi aðild að Félagsmálaskóla alþýðu. Að vísu kom það fram við 2. umr. hjá einum eða tveim ræðumönnum, að það gæti verið nokkur vafi á því, hvar ætti að draga mörkin, hvað mörg launþegasamtök ættu að koma til greina, þegar ákveðin væri aðild þeirra að félagsmálaskólanum. Það er mín skoðun, að þegar nánar er að gætt, þá sé þetta ekki vandamál. vegna þess að því verður ekki á móti mælt, að það eru þrenn launþegasamtök í landinu, sem bera ægishjálm yfir öll samtök, þ.e.a.s. ASÍ, BSRB og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands. Það að veita þessum samtökum sérstaka stöðu í sambandi við Félagsmálaskóla alþýðu á ekki að draga neinn dilk á eftir sér.

Það var að vísu vikið að því, að svo kynni að geta komið til álita, hvort Stéttarsamband bænda gæti þá ekki alveg eins komið til greina. Ég hygg, að það sé ekki ástæða til þess að gera því skóna, að þau samtök séu í þessu tilliti hliðstæð þeim, sem hér er gert ráð fyrir skv. till., að hafi aðild að félagsmálaskólanum. Bæði er það, að þessi samtök eru ekki launþegasamtök á sama hátt og hin samtökin, kaup bænda er ekki ákveðið í samningum, heldur lögákveðið með ákvörðun afurðaverðs. Í öðru lagi er þess að minnast, að í landinu eru bændaskólar, sem m.a. hafa hliðstætt námsefni og félagsmálaskólanum er ætlað að hafa fyrir verkalýðinn í landinu. í l. um bændaskóla er nefnilega gert ráð fyrir því, að bændaskólarnir skuli láta nemendum sínum í té þekkingu í búreikningum, almennri þjóðhagfræði, þjóðfélagsfræði, búnaðarhagfræði og búnaðarsögu. Þetta er algjörlega hliðstætt því, sem Félagsmálaskóla alþýðu er ætlað að sinna samkv. frv. því, sem hér liggur fyrir. Þar segir í 2. gr. frv.:

„Félagsmálaskóli alþýðu skal veita fræðslu um sögu, starf og stjórn stéttarfélaga, baráttu þeirra fyrir bættum lífskjörum alþýðustéttanna, um hagsmunasamtök atvinnurekenda, starfshætti þeirra og markmið, svo og um almenna þjóðfélagsfræði og meginatriði íslenskrar félagsmálalöggjafar og um hagfræðileg efni.“

Ég hygg því, að hvernig sem við lítum á þetta mál, þurfi það ekki að vefjast fyrir hv. þm., að eðlilegt og rétt sé að samþ. brtt. okkar hv. 6. þm. Reykv.