03.04.1974
Neðri deild: 99. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3448 í B-deild Alþingistíðinda. (3082)

295. mál, vegalög

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. óskaði eftir samstarfsvilja og skilningi þm. á þessu máli, vegamálunum og vegáætluninni eins og alltaf áður hefur verið, Ég efast ekkert um, að hv. þm. hafa samstarfsvilja og skilning á þeim málum, sem hér er um að ræða. En áreiðanlega er það í fyrsta skipti, sem það er boðað hér í hv. Alþ. í sambandi við endurskoðun á vegáætlun, að leggja eigi þungar álögur á landslýð allan, en eigi að siður að fresta framkvæmdum. Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að það væri ekki unnt að standa við þá vegáætlun, sem nú er í gildi og samin var til 4 ára fyrir 2 árum. — Þetta er boðskapur, sem er alveg nýr og menn úti á landsbyggðinni, sem vænst hafa aðgerða af hæstv. ríkisstj. í byggðamálum, munu verða undrandi yfir.

Hér er annað frv. á dagskrá, sem verður rætt á eftir, og ég mun nota lengra mál til þess að ræða um það en um þetta frv. Þetta frv. um breyt. á vegalögum er ekki stórt, en segja má, að ýmsar þær breyt., sem í því felast, séu til bóta, ef fé væri fyrir hendi til að fullnægja lagabreytingunum. Í hvert sinn, þegar lög eru sett og lagasetningin eykur útgjöld ríkissjóðs eða annarra starfandi sjóða, þarf að gera sér fulla grein fyrir því, hvort fé verður fyrir hendi til þess að auka þægindin og til þess að auka útgjöld til þeirra mála, sem um er að ræða.

Það er áreiðanlegt, að þm. allir eru farnir að vonast eftir till. til vegáætlunar. Menn hafa verið að spyrja að því, hvenær hún verði lögð fram. Það er eðlilegt, að talið sé erfitt að ræða bæði frv., fyrr en vegáætlunin liggur fyrir, fyrr en heildarmyndin í þessum málum sést og hversu mikið fé vantar. Vonbrigði manna hefðu orðið mikil, þótt staðið væri við vegáætlunina, sem nú er í gildi, ef engu nýju yrði bætt við, vegna þess að undanfarið, þegar vegáætlunin hefur verið endurskoðuð, hefur endurskoðunin verið með þeim hætti, að bætt hefur verið nýjum framkvæmdum við það, sem var í eldri áætlun. Framkvæmdir hafa alltaf verið auknar í seinni hluta áætlunarinnar. En nú boðar hæstv. ráðh., að ekki verði hægt að standa við þá áætlun, sem gerð var fyrir 2 árum. E.t.v. hafa sumir búist við þessu, búist við því, að það stjórnarfar, sem nú er búið við, leiði þetta af sér. Ýmsir hafa reiknað með því nokkuð lengi, að svona hlyti að fara.

Þetta frv., ef það verður lögfest og ef fé verður fyrir hendi til að framkvæma það, má segja, að sé til bóta og samræmis við breytta tíma og staðhætti. Það er t.d. ekki langt síðan bændur fóru að flytja mjólkina á tankbílum. Það er ekki langt síðan mjólkurbílarnir tóku að koma þannig alveg heim að húsvegg til að taka mjólkina. Með því að þessi háttur er á hafður þarf vegurinn að vera fær alla leið heim. Við 5. gr. þessa frv. er nauðsynleg breyt. Það er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess, að vegirnir heim að bæjunum verði alltaf færir.

Hvort miðað verður við 300 íbúa kauptún eða 200 íbúa kauptún, skiptir ekki höfuðmáli í útgjöldum. Segja má, að það geti verið sanngjarnt og eðlilegt. Auðvitað þurfa smærri kauptún ekki síður en þau stærri að lagfæra göturnar hjá sér.

Þá er gert ráð fyrir því, að 20% verði tekið af kaupstaðafénu til lagningar þjóðvega í þéttbýli. Ég býst við, að ýmsum finnist þessi breyt. orka tvímælis. Þó er enginn vandi að færa nokkur rök fyrir því, að þetta geti verið sanngjarnt. Um það að gera landsbrautir að framkvæmdum á öræfum, eins og t.d. að Sigölduvirkjun, sýnist það vera sanngjarnt og nauðsynlegt, vegna þess að mikil umferð er í sambandi við framkvæmdir, og þar verður alltaf einhver byggð. Nauðsynlegt er að hafa samgöngur við slíka staði. En þetta kostar aukið fjármagn. Það er til lítils að hafa heimild til þess að taka vissa vegi í landsbrautatölu, ef ekkert fé er fyrir hendi til framkvæmda við þessa vegi.

Þegar síðasta vegáætlun var samin 1972, voru það ábyggilega fleiri en þm. Sunnl., sem gerðu sér vonir um, að hægt væri að auka framkvæmdir og fá fjármagn í vissa vegi á árunum 1974–75. Þm. Sunnl. ræddu nokkur atriði við vegamálastjóra um þetta, og við vorum allir vongóðir um, að það mætti nú ske á árunum 1974–75, að aukið yrði nokkuð fjármagn til ýmissa vega, sem vantar fé til. En eftir því sem hæstv, samgrh. boðar nú, að það verði að fresta framkvæmdum í stað þess að auka þær, velkist sú von.

Herra forseti. Ég tel, að ýmislegt í þessu frv. sé til bóta, ef fé er fyrir hendi til þess að framkvæma þau atriði, sem ætlast er til að lögfesta. En ég vil mælast til þess við hæstv. samgrh., að hann leggi sem allra fyrst öll gögn á borðið, sem við koma vegamálunum, að þm. fái að sjá vegáætlunina og önnur þau frv. sem boðuð eru í sambandi við þessar breyt, Ég held, að það sé engin sanngirni í því hjá hæstv. ráðh. að ætlast til þess, að Alþ. taki afstöðu til þessara frv., fyrr en heildarmyndin liggur fyrir.