03.04.1974
Neðri deild: 99. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3450 í B-deild Alþingistíðinda. (3083)

295. mál, vegalög

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara langt út í að ræða fjármálin, sem hv. síðasti ræðumaður minntist hér á, og þá fullyrðingu hans, að við endurskoðun vegáætlunar hafi alltaf verið um auknar framkvæmdir að ræða. Ég held nefnilega, að það sé ekkert nýtt í sögunni, að þegar gerð er áætlun til 4 ára, þá hafi verðbreytingar á tímabilinu það mikil áhrif, að það hafi verið nauðsynlegt að fresta ýmsum framkvæmdum. Ég held, að það hafi verið gert, þegar þessi hv. þm. gegndi störfum samgrh., enda er það auðsætt mál, að við bjuggum við verðbólguþróun áður en þessi áætlun kom til, og þegar hverjum eyri er skipt á vegáætlun til vissra framkvæmda, getur það ekki leitt til annars en a.m.k. tímabundið verði að fresta og ýta einhverju á undan sér, og það held ég, að hafi oftast nær verið gert. Hins vegar hefur þar ekki verið um það að ræða, að framkvæmdir hafi verið strikaðar út, heldur hafa þær aðeins komið svolítið síðar á dagskrá. Það er ekki heldur hugmynd okkar, sem nú förum með þessi mál, að menn verði sviknir um framkvæmdir, sem þeim hefur óbeint verið lofað samkv. vegáætlun, heldur er eingöngu um það að ræða, að aðstæður eru þannig og verðhækkanir hafa orðið það miklar, að við sjáum ekki, að það sé neinn möguleiki á því að afla þess fjár, sem þarf til verðbóta á vegáætlun, þegar við bætist, að það þarf að vinna upp þær frestanir, sem hafa orðið á s.l. ári. Þær hafa yfirleitt verið unnar upp árið eftir, og þeirri reglu mun verða reynt að halda áfram. En hér er aðeins um að ræða hluti, sem hefur verið frestað. Hér er um að ræða, ef það ætti að vinnast upp á einu ári, framkvæmdir upp á 600 millj. kr., og vegna verðbóta mundi þurfa á yfirstandandi ári um 1300 millj. kr., eða samtals 1900 millj. kr. í auknum tekjustofnum, til þess að unnt væri að standa fullkomlega við tímasetningu vegáætlunarinnar. Ég tel í raun og veru þarflaust og ekki rétt að fara núna út í þessa sálma. Ég held, að það sé betra að gera það í sambandi við það frv., sem hér kemur á eftir, og eins vegáætlunina sjálfa. Þá getum við skoðað þau í meira samhengi.

Hv. ræðumaður sagði, að það væri ekki sanngirni af mér að ætlast til þess, að tekin yrði afstaða til þessara frv., fyrr en vegáætlun lægi fyrir. Í því sambandi vil ég taka fram, að það hefur ekki heldur verið mín hugmynd, að það yrði gert, — það yrði gengið endanlega frá þessum málum, fyrr en vegáætlun lægi fyrir. Hitt er annað mál, að gerð vegáætlunar er ekki auðveld, meðan fjáröflun liggur ekki fyrir, því að auðvitað verður það endanlega svo, að vegáætlunina verður að sniða eftir þeim skorðum, sem fjárveitingavaldið setur vegaframkvæmdum.

Ég skal verða fyrsti maður til að fagna því, ef unnt er að afla fjár, hvort sem er með skattheimtu eða með lánsfjárútvegunum, til þess að hægt sé að standa við allar tímasetningar í vegáætlun. En ég hef ekki von um að það sé mögulegt. Það hljóta menn að sjá, ef þeir vilja vera sanngjarnir og ef þeir skoða málin eins og þau liggja fyrir, og breytir þá auðvitað engu, hvaða skoðanir menn hafa á því, af hverju verðbólgan stafi, hvort hún stafi af slæmu stjórnarfari eða einhverju öðru. Staðreyndirnar breytast ekkert við það, og við hljótum að miða okkar áætlanir og aðgerðir í þessum efnum sem öðrum við staðreyndir og ekkert annað.

Í þessu sambandi er líka kannske vert að minna á það, þó að það varði ekki þetta frv., sem hér er til umr., beinlínis, að því hefur verið mjög á lofti haldið af stjórnarandstöðunni, að það væri allt of mikil þensla í þjóðfélaginu, ríkið tæki allt of mikið til sín til framkvæmda á fjölmörgum sviðum, hlypi í kapp við atvinnuvegina og framleiðsluna og gjaldeyrisöflunina hvað vinnuafl og fjármagn áhrærir. En ef einhver alvara fylgir þessu, verður auðvitað að skoða um jafnmikið framkvæmdamál og vegagerðina, hvort ekki er forsvaranlegt að fresta þar um eitt ár sérstökum framkvæmdum að takmörkuðu leyti.

Varðandi það, sem hv. þm, sagði um samstarfsviljann, að hann væri fyrir hendi, þá vona ég, að ég hafi engan móðgað, þó að ég minntist á það, að ég óskaði eftir því, Það var af heilindum mælt. Ég vil líka skýra frá því, úr því að á þetta er minnst, að ég hef fyrir nokkuð löngu afhent stjórnarandstöðuflokkunum öll gögn, sem ég hafði undir höndum varðandi vegamálin, þannig að þeir hafa haft alveg sams konar aðstöðu og stjórnarþingmenn eða jafnvel betri og sömu aðstöðu og ég til að mynda sér skoðun um það, hvernig hægt sé að leysa þann vanda, sem hér er fyrir hendi. En sem sagt, út í þessa sálma ætla ég ekki að fara nánar að sinni. Ég tel það ástæðulaust og það sé raunverulega þægilegra að ræða einstök atriði málanna, þegar fyrir liggja frv. um fjáröflunina og síðan sjálf vegáætlunin, sem ég vona að dragist ekki marga daga enn, að hægt sé að leggja fram. Ég mun ekki biðja neinn um lokaafstöðu í þessum málum, fyrr en þau gögn verða öll lögð fyrir hv. Alþingi.