06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

354. mál, lánamál húsbyggjenda

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Ég hélt satt að segja, að fsp. tímar væru til þess að fá ákveðnar upplýsingar, en ekki til þess að upphefja sérstakan eldhúsdag um málefni, sem betur ættu heima annars staðar. En hv. fyrirspyrjanda var svo mikið niðri fyrir að ásaka núv. ríkisstj., að hann var næstum búinn að gleyma, hvað hann var að spyrja um, og varð að sæta náð forseta til þess að geta minnt á að, að hann hefði verið að gera fsp.

Ég ætla ekki að fara langt út í það að gera þetta að einhverjum eldhúsdegi um húsnæðismálin, það er sjálfsagt hægt að finna á því betra form. En það undarlega var, þegar hann fór að tala um t. d., að hagur Byggingarsjóðs hefði verið skertur, þá var hann eigin lega með öllum þeim aðgerðum, sem til skerðingarinnar höfðu horft. Og ég vil líka minna þennan hv. þm. á það, að núv. ríkisstj. hefur átt við ýmsar gamlar syndir að stríða, sem hún hefur orðið að taka við af þeirri fyrrv. og voru vanefndir, eins og t. d. sérstök fjármögnun á Breiðholti. En ekkert sérstakt atriði hefur gert byggingarstarfseminni almennt í landinu erfiðara fyrir eða a. m. k. ekki Byggingarsjóðnum en ein mitt það, að við þann samning skyldi ekki vera staðið, þó að margt sé gott um þá framkvæmd að segja, það er svo aftur talsvert annað mál. En sem sagt, ég mun reyna, eftir því sem ég get, að svara þeim spurningum, sem til mín hefur verið beint frá hv. 4, þm. Austf., en láta skæting hans bíða til síðari og betri tíma.

Það er þá fyrsta spurningin: „Hvernig mun Húsnæðismálastofnunin anna lánsfjárþörf húsbyggjenda fram til áramóta?“ Um þetta er það að segja, að það hefur verið gert hreint borð nú fyrir alla, sem byrjað hafa byggingar á þessu og síðasta ári og hafa gert hús sín fokheld fyrir 15. ágúst, þannig að annar þátturinn, sem snýr að þessari spurningu, er sá, að veita fyrrihlutalán þeim, sem gera fokhelt fyrir síðasta eindagann á árinu, 15. nóv. Hinn 19. okt., s. l. voru 127 þessara íbúða orðnar fokheldar, og má gera ráð fyrir eða leiða líkur að því, að þær geti orðið um 300 a. m. k. Þó er þetta nokkurri óvissu háð, þær gætu eins orðið eitthvað fleiri. Og það er þegar ljóst af þeim aðgerðum, sem hafa verið gerðar í fjármálum Byggingarsjóðs, að unnt er að veita þessi lán fyrir áramót.

Hitt, sem einnig þyrfti að gera, til þess að ekki væri miklu verr gert við húsbyggjendur hvað biðtíma eftir lánum snertir, er svo að veita framhaldslán þeim, sem fengu frumlán sín útborguð í maímánuði s. l. En ef þar kemur allt til, sem gera verður ráð fyrir, þá getur þar verið um að ræða um 140 millj. kr., eða samkv. áætlun Húsnæðismálastofnunar 141.2 millj. kr. Er nú unnið að útvegun þess fjármagns, sem mundi nægja til þess, að þessar greiðslur gætu farið fram, og það er sterk von mín, að þessi lán muni geta orðið afgreidd um eða a. m. k. ekki síðar en rétt í upphafi næsta árs. Það tel ég ekki höfuðatriði, hvort það er siðast í des. eða í byrjun jan., og ég tel, að það séu góðar vonir til þess, að við það verði hægt að standa. Er þá um afgreiðslu Byggingarsjóðs á sínum skuldbindingum á þessu ári að segja, að biðtími er ekki lengri en hann hefur að jafnaði verið, og þannig verið unnið eðlilega.

2. liður spurningarinnar: „Hverjar eru áætlanir næsta árs um lánsfjárþörf og lánsfé?“ Það skal játað, að við þessu er erfitt að gefa nokkur nákvæm svör á þessu stigi málsins. Í reglugerð um lánveitingar til húsnæðismála úr Byggingarsjóði ríkisins segir, að stofnunin skuli gera í nóv. áætlun um tekjur næsta árs og skiptingu þess á lánveitingar. Nú er ekki langt liðið á nóv. og þessu verki er ekki lokið að öðru leyti en því, að ekki hefur verið gerð áætlun um, hversu mikið fé Byggingarsjóður hefði til ráðstöfunar á næsta ári að óbreyttum l. um tekjustofna. En það er í þeirri greiðsluáætlun, sem gerð hefur verið um þetta, gert ráð fyrir, að það verði 1290 millj. kr. Sjálfur tel ég, að þessi upphæð sé of lág, sérstaklega með tilliti til nýrrar reynslu af hreyttu fyrirkomulagi á innheimtu skyldusparnaðar, þannig að gera megi ráð fyrir, að þetta verði a. m. k. 1350 millj. kr. Nú í ár hefur sjóðurinn til útlána um 1400–1450 millj. kr. á móti, held ég, eitthvað um 1100 millj. á árinu 1972. Að öðru leyti er þessi áætlun ekki fullgerð. Þessi mál eru mjög í deiglunni, og ýmsar leiðir eru til athugunar, en ég get þó sagt til upplýsingar fyrir hv. fyrirspyrjanda, að það eru engar líkur á því, að almenn byggingarstarfsemi verði öllu meiri á næsta ári en hún verður núna, þannig að fjárþörfin ætti ekki að verða til fleiri íbúða en á þessu ári. Samkv. ágiskun hagrannsóknadeildar mundi verða byrjað á árinu 1974 á 1700–1800 nýjum íbúðum móti 2000 íbúðum, sem byrjað var á á þessu ári, og að fokheldar verði á árinu 1750–1900 íbúðir á móti 2060 á árinu 1973. Þetta á auðvitað rætur sínar að rekja til þess, að byggingarstarfsemi hefur á þessu ári verið í algeru hámarki. Fjárfesting í íbúðabyggingum er gert ráð fyrir að vaxi úr ca. 4 milljörðum á s. l. ári í 6 milljarða á þessu ári, og það er ekki að sjá, að þó að verðlag hafi farið hækkandi, hafi getan ekki aukist að sama skapi, samkv. þeim tölum. En svo að ég geri langt mál stutt, þá er það ágiskun mín, sem ég get í raun og veru ekki borið neinn fyrir, því að ég hef heyrt mismunandi hugmyndir um þetta frá þeim, sem gerst ættu að vita, að gera ráð fyrir því, að veita þyrfti byggingarlán að óbreyttum l. til smíði 1700–1800 íbúða á næsta ári, en enn þá hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um, hversu há lánin skyldu verða. Ég álít, að þetta þýði, þegar aðrar skyldur Byggingarsjóðsins og einnig laga um byggingu leiguíbúða koma með inn í dæmið, að á næsta ári þurfi einhvers staðar nálægt 2½ milljarði til að halda byggingarstarfseminni í horfinu og standa við þær skuldbindingar, sem lög um byggingu leiguíbúða hafa í för með sér. Ég álít, að það sé ekki sérstakt þrekvirki að afla þessa fjár, þó að það sé stórkostlega miklu meira en hefur verið á undanförnum árum. Ég er bjartsýnn á, að það geti tekist samkomulag við lífeyrissjóðina í landinu, sem munu hafa samtals til ráðstöfunar á næsta ári um 4 þús. millj. kr., en umfram það þarf verulegt fjármagn, og ég teldi það ekki neina ofrausn af fjárveitingavaldinu, m.a. til að auðvelda fjármagn lífeyrissjóðlanna, því að sjálfsagt verða þau lán að vera verðtryggð að einhverju leyti og þannig um leið komið til móts við verkalýðssamtökin a. m. k. að hluta með verðtryggingu sjóðanna, þó að afla þyrfti til Byggingarsjóðsins sérstaks fjár með lagabreytingum, sem næmi 400–600 millj. kr. en með því máli mundi dæmið verða leyst.

Þá er að geta þess, að starfandi er Byggingarsjóður verkamanna, og í fyrirliggjandi fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 100 millj. kr. framlagi til þess sjóðs. Byggingarsjóðinn hefur ekki skort fé, frá því að hann var, sem kallað hefur verið, endurreistur með l. frá því í maí 1970, og það er ekki útlit fyrir, að þar verði sérstakur fjárskortur. Einnig er eins og undanfarin ár gert ráð fyrir í fjárlagafrv., að veittar verði 18 millj. kr., til nýsmíði íbúða í stað heilsuspillandi húsnæðis, sem lagt er niður. Þetta hefur verið fullnægjandi á undanförnum árum og engar líkur til annars en það verði það einnig á þessu og næsta ári.