04.04.1974
Efri deild: 98. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3464 í B-deild Alþingistíðinda. (3094)

151. mál, skráning og mat fasteigna

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Eins og sést á þskj. 648, hef ég haft fyrirvara í sambandi við þessar brtt. og nál. Ástæðurnar fyrir þeim fyrirvara eru einkum þær, að í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að þeir menn, sem hér er gert ráð fyrir að ráða, bæði forstjóri stofnunarinnar og einstakir matsmenn, skuli ráðnir með 6 mánaða uppsagnarfresti. Mér er ekki alveg ljóst, hvernig stendur á því, að þessi ákvæði eru tekin inn í þetta frv. sérstaklega, og bendi í því sambandi t.d. á frv. til l. um Ríkismat sjávarafurða, sem er nýlega fram komið, 30. mál Ed., en þar er fortakslaust gert ráð fyrir því, að forstjóri þeirrar stofnunar sé skipaður og sömuleiðis deildarstjórar, einnig yfirmatsmenn, að það sé um skipun að ræða, en í því frv., sem hér er fjallað um, um skráningu og mat fasteigna, er talað um að ráða starfsmennina með 6 mánaða uppsagnarfresti.

Ég hafði gert ráð fyrir því, að hæstv. fjmrh. yrði viðstaddur þessar umr. og gæti gefið upplýsingar um það, hvernig á þessum mismun stendur, hvort þarna sé verið að gera tilraun til þess að marka nýja stefnu í sambandi við ráðningu og kjör opinberra starfsmanna. Nú er mér kunnugt um það, að hið opinbera eða ríkisvaldið hefur á allra síðustu árum, eftir að þessi ríkisstjórn tók til starfa, gert tilraunir til þess, að komast nokkuð fram hjá lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, og m.a. hefur það komið fram beinlínis hjá stjórnarmönnum í BSRB og þ. á m. hjá formanni félags ríkisstarfsmanna, að þess séu dæmi hér í Reykjavík, að opinberar stofnanir ráði menn eftir samningum verslunarmannafélags Reykjavíkur, en ekki samkv. samningum við starfsmenn ríkisins. Mér er einnig kunnugt um það, að stjórn BSRB hefur orðið að hafa afskipti af ýmsum einstökum málum, vegna þess að hið opinbera hefur tekið upp þann hátt að lausráða starfsfólk og hefur hagað ráðningarkjörum með þeim hætti, að viðkomandi hefur t.d. ekki fengið aðild að lífeyrissjóði opinberra starfsmanna.

Mér finnst óeðlilegt, þegar verið er að fjalla um mismunandi stofnanir, eins og hér er gert, að viðhafa ekki sama orðalagið um ráðningarkjörin, einkum þar sem borið hefur á því, að hæstv. ríkisstj. sé nokkuð lauslát í þessum efnum og hugsi ekki um of um hag starfsmanna sinna. Ég mun því athuga það milli 2. og 3. umr., hvort sé ástæða til þess að flytja sérstakar brtt. um þetta efni, og mun hafa samband um það við þá menn, sem stóðu að samningu frv., til þess að fá fullnægjandi skýringar á því, hvernig á þessum sérstöku ráðningarkjörum standi.

Ég vil einnig vekja athygli á því í þessu sambandi, þó að það sé ekki þessu máli beint viðkomandi, að í frv. um Ríkismat sjávarafurða er gert ráð fyrir því, að ekki einungis forstjóra stofnunarinnar, heldur einnig deildarstjórum og yfirmatsmönnum hjá Ríkismati sjávarafurða skuli öllum sagt upp störfum hjá Fiskmatinu, og ekki kemur neitt fram um það, hvort þessir menn eigi að hafa forgang að endurráðningu, þegar þar að kemur. Það mál er nú ekki til umr. hér og hlýtur að fá sérstaka skoðun í n.,en eins og ég sagði: Það er auðvitað hægt að hugsa sér að marka nýja stefnu í sambandi við ráðningarkjör opinberra starfsmanna, en þá verður það að gerast almennt op yfir alla línuna, en með öllu óverjandi að taka með þessum hætti einstaka stöðu út úr, án þess að því fylgi fullnægjandi skýringar.

Ég vil aðeins gera að umtalsefni, að í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að þessi stofnun muni verða tvískipt, eða eins og segir í grg. við 18. gr.:

„Í 3. mgr. eru ákvæði um sérstakan matsstjóra, sem ráðh. skipar úr hópi matsmanna, og um verksvið hans. 4. mgr. kveður hins vegar á um skipulagsleg tengsl matsmannakerfisins við Fasteignaskrá. Er það stefna frv. að koma í veg fyrir, að þessi starfsemi verði tvær stofnanir. Hins vegar þykir nauðsynlegt, að matsmenn séu sjálfstæðir í matsstörfum sínum og að því leyti óháðir Fasteignaskrá um annað en skráðar upplýsingar til að grundvalla mat sitt á. Með þessum hætti, eru tveir aðilar gerðir ábyrgir, þ.e. forstjóri Fasteignaskrár fyrir þeim þætti, sem að skráningu eigna snýr, og matsstjóri fyrir matsstörfum. Er hvorum um sig mikilvægt í sínu starfi að fá sem besta vitneskju um efni, sem hinum ber að afla upplýsinga um.“

Það er eins um þetta atriði, ég hreyfði því í fjh.- og viðskn., m.a. samkv. ábendingum Sambands ísl. sveitarfélaga, hvort þarna væri stefnt í rétta átt, og vil í því sambandi vitna til umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnin telur mikils virði, að l. verði þannig, að þau hindri ekki, að stofnunin og starfslið hennar nái besta hugsanlega árangri í störfum sínum. Því leggur stjórnin til, að stofnunin starfi sem ein heild og að allt starfslið hennar lúti ábyrgum forstjóra, þ. á m. þeir starfsmenn, sem um ræðir í 18. gr. frv.“

Ég fann það, að í fjh.- og viðskn. var ekki hljómgrunnur fyrir því, að þarna yrði breyt. ó, en hins vegar lögð áhersla á það, að málið kæmi til 2. umr., og vildi ég ekki standa á móti því út af fyrir sig. Ég fann, að það var ekki áhugi fyrir því, að koma til móts við þessar óskir Sambands ísl. sveitarfélaga, en áskil mér hins vegar rétt til þess að athuga það milli umr., hvort ekki muni réttara að hafa hér þann hátt á, sem sveitarfélögin leggja til.

Eins og fram kemur í grg., er stofnunin algjörlega klofin með 18. gr., og ég fæ ekki séð, að það sé svo út af fyrir sig svo mikið verk fyrir forstjóra að annast um þann þáttinn, sem að skráningu eigna snýr, að honum ætti ekki að vera í lófa lagið að hafa einnig yfirstjórn yfir hinum þættinum. Má í því sambandi benda á, að það getur verið nauðsynlegt, til þess að skráningin nái tilgangi sinum, að þarna sé mikil samvinna á milli þessara tveggja þátta og samspil. og ég hef ekki fengið svo ríkar ástæður fyrir því að skipta stofnuninni, kljúfa hana í tvennt, að ég sé fullkomlega sáttur við þessa verkaskiptingu, og mun athuga það mál.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að Samband ísl. sveitarfélaga gerði aths. við 16. gr. frv. og segir í áliti sínu, að ástæðulaust virðist að gera greinarmun á mismunandi tegundum hlunninda. sömuleiðis hefur aths. komið frá Fasteignamati ríkisins. En ég mun athuga um þessi mál, hvort ég tel ástæðu til að flytja um þau sérstakar brtt., bæði um þessi atriði, — og þá við 3. umr., þar sem ég vildi ekki setja fótinn fyrir frv. nú, að það næði afgreiðslu við 2. umr., — og þá einnig um þau ráðningarkjör, sem þarna er gert ráð fyrir, en um það hef ég ekki fengið nægilega haldgóðar skýringar, sem ég sætti mig við, einkanlega vegna þess, eins og ég sagði, að hæstv. ríkisstj. hefur haldið þannig á í sambandi við ýmsar ríkisstofnanir, að hún hefur gengið á það lagið að ráða fólk í þjónustu ríkisins, sem svo síðar kemur upp úr dúrnum, að eru ráðnir eftir samningum Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Það brýtur algjörlega í bága við bæði lagaskyldu, eðlileg vinnubrögð og hefur valdið einstaklingum margvíslegum erfiðleikum, og ég veit t.d. dæmi þess, að menn hafa orðið að standa í miklu stappi til þess að fá eðlileg réttindi í lífeyrissjóði opinberra starfsmanna.

Að lokum vil ég aðeins lýsa skriflegri brtt., sem ég flyt við 18. gr., 5. mgr. 18, gr., þar sem ég legg til, að í staðinn fyrir „í Borgarnesi“ komi: á Akranesi. — Þarna er fjallað um það, að ráðh. skuli ákveða fjölda matsmanna og aðsetur þeirra, og þeir staðir, sem taldir eru upp, þeir eru: í Reykjavík, á Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi, Ísafirði, í Borgarnesi, á Sauðárkróki og í Keflavík. Með hliðsjón af því, að Akranes er langstærsti staðurinn á Vesturlandi, og með hliðsjón af því, að t.d. Skattstofa Vesturlands er á Akranesi, leyfi ég mér að leggja til, og bendi á í því sambandi, að svo greiðfært er um þetta hérað, að það á ekki að skapa neina erfiðleika fyrir matsmanninn að ferðast þar á milli. Það er ekki sá spölur milli Borgarness og Akraness, að það eigi að ráða úrslitum út af fyrir sig. Hitt álít ég, að sé miklu þyngra á metunum, að Akranes er langfjölmennasti staðurinn og þess vegna sé eðlilegt, að matsmaðurinn sé þar.