04.04.1974
Efri deild: 98. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3474 í B-deild Alþingistíðinda. (3101)

300. mál, Ríkismat sjávarafurða

Jón Árnason:

Herra forseti. Enda þótt ég eigi sæti í þeirri n., sem fær mál þetta til meðferðar, vil ég segja nokkur orð um þetta frv. þegar við 1. umr. málsins.

Það fer ekki milli mála, að sú stofnun, sem fer með yfirstjórn á öllu eftirliti og gæðamati á þeirri framleiðsluvöru, sem lengst af hefur verið aðaluppistaðan í útflutningi og gjaldeyrisöflun þjóðarinnar, hefur mjög þýðingarmiklu hlutverki að gegna. Það skiptir því miklu máli, að vel sé vandað til þeirrar löggjafar, sem starfsemi þeirrar stofnunar á að byggjast á. Það hefur verið svo með Fiskmatið, að starfsemi þess og yfirstjórn hefur verið með ýmsum hætti, þannig að hinar ýmsu greinar þess hafa verið sundurgreindar og undir sérstakri yfirstjórn. Þannig var það með saltfiskmatið t.d., sem mun vera langelsti þátturinn í þessu kerfi, en þannig var einnig með skreiðarmatið, síldarmatið, hraðfrystu sjávarafurðirnar og í fyrstu einnig með ferskfiskmatið, sem stofnsett var með sérstakri löggjöf árið 1964.

Á síðari árum hefur sú breyt. orðið á, að hinar einstöku greinar í þessu kerfi hafa verið í ríkara mæli felldar undir aðalstofnunina, Fiskmat ríkisins, sem segja má, að í alla staði hafi verið eðlileg þróun. Að sjálfsögðu verðum við Íslendingar ekki síður en aðrar þjóðir að gera strangar kröfur til okkar sjálfra varðandi allt hreinlæti og góða meðferð við þá matvælaframleiðslu, sem hér á sér stað í sambandi við okkar sjávarútvegsafurðir. Að endurbótum á þessu sviði er nú mikið unnið og miklu fjármagni eytt, til þess að tryggt verði, að okkar viðskiptaþjóðir gefi sjálfar sannfært sig um, að hollustuhættir og allt hreinlæti í sambandi við framleiðsluna á sjávaraflanum sé í samræmi við þeirra kröfur.

Eins og ég áðan sagði, hefur þróunin orðið sú á undanförnum árum, að æ fleiri greinar fiskmatsins hafa verið lagðar niður sem sjálfstæðar einingar og þá fallið undir aðalstofnunina, Fiskmat ríkisins. Síðasta dæmið hér um eru lögin frá 1968 um eftirlit og mat á fiski og fiskafurðum, en með þeim L voru felld úr gildi m.a. lög nr. 42 frá 9. júní 1960. Þar með var 8 ára stofnun, sem hafði haft með höndum allt ferskfiskeftirlit sem sjálfstæð stofnun, lögð niður og verksvið hennar lagt undir Fiskmat ríkisins.

Svo sem kunnugt er, hefur Síldarmat ríkisins verið sjálfstæð stofnun með sinn forstöðumann, síldarmatsstjóra. Vegna þeirra breyt., sem hér hafa átt sér stað að undanförnu, að síldarstofninn hefur að mestu gengið til þurrðar og þar af leiðandi hafa allar síldveiðar verið bannaðar um árabil, þá segir það sig sjálft, að á sama tíma hafa verkefni ekki verið fyrir hendi hjá þessari stofnun, sem hefur þó til þessa haldið nokkrum fastráðnum starfsmönnum.

Það var m.a. með tilliti til þessa, sem undirnefnd fjvn. tók þessi mál til athugunar á s.l. sumri, þegar hún var að taka til athugunar rekstur ýmissa ríkisstofnana. N. fannst óeðlilegt, að jafnhliða því að fiskmatsstofnunin þurfi að ráða nýja starfsmenn í sambandi við sinn rekstur, þá væru á vegum ríkisins um 6 starfsmenn, sem áttu að vinna að hliðstæðum störfum, en voru atvinnulausir, vegna þess að engin síldarsöltun átti sér stað. Það er að sjálfsögðu rétt, sem fram kemur í aths. við þetta frv., að undirn. fjvn. átti sinn þátt í því að vekja athygli á þessari staðreynd, og gerði till. um það til fjmrn., að endurskoðun færi fram á þessum málum og þá með það fyrir augum, að Síldarmat ríkisins yrði lagt undir Fiskmat ríkisins og skipulag sjálfrar stofnunarinnar þá um leið endurskoðað. Við ræddum um það sérstaklega, hvort ekki mætti koma á aukinni samvinnu og hagræðingu varðandi sjálft fiskeftirlitið með því starfsliði, sem nú er á vegum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og sjávarafurðadeildar SÍS, sem vinnur að sömu verkefnum. Okkur þótti það eðlilegt, að þar sem er um tvo starfshópa að ræða, annars vegar hjá Fiskmati ríkisins, sem ferðast um og hefur eftirlit á ýmsum framleiðslustöðum úti um land, og hins vegar frá þessum sölustofnunum, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og SÍS, að þarna væri um starfshópa að ræða, sem væri eðlilegt að væri eitthvað stillt inn saman og komið á vinnuhagræðingu í sambandi við að nýta þetta á hagkvæman hátt.

Þá hefur verið mikið um það rætt að stefna að því, að þeir menn, sem Fiskmat ríkisins tekur í sína þjónustu, hafi sem fjölhæfasta menntun til að bera á þessu sviði. Fer það saman, að þessir menn mundu nýtast miklu betur en ella, þar sem um smærri verstöðvar er að ræða, og enn fremur verður að telja það eðlilega þróun.

Með tilkomu. Fiskiðnskólans ætti að vera auðveldara að ná þessu marki. Það segir sig einnig sjálft, að þeir menn, sem leggja það á sig að stunda skólanám til að auka þekkingu sína á sviði sjávarútvegsframleiðslunnar, verða að fá aukið starfssvið og tryggingu fyrir því, að menntun þeirra verði metin að verðleikum.

Einn þátturinn í sambandi við rekstur þessa skóla fyrir þennan höfuðatvinnuveg þjóðarinnar kom fram fyrir á þessu þingi, þ.e. að reyna að greiða fyrir því, að nemendur við þennan skóla gætu fengið námslán. Ég flutti frv. á þessu þingi, sem fól það í sér, að l. skyldi breytt varðandi námslánin, þannig að nemendur Fiskiðnskólans fengju aðild að lánakerfinu, til þess að auðvelda þeim að afla sér þessarar menntunar, því að ekki verður fram hjá því gengið, að Íslendingar verða að horfast í augu við það að þeir verða að leggja mikla áherslu á að gefa menntað þá, sem vinna að sjávarútvegsframleiðslunni, á sem bestan hátt. Nær vitanlega ekki neinni átt að láta þessa menntun sitja hjá í sambandi við aðstoð frá lánakerfi ríkisins í sambandi við menntun í landinu.

Nokkru eftir að ég hafði flutt frv. mitt um þetta efni, flutti hæstv. sjútvrh. annað frv.., sem gekk í sömu átt. En svo skeður það merkilega, að litlu síðar leggur hæstv. menntmrh. hér fram frv. um breyt. á l. um námslán, og þar á það sér stað, að ekki er tekið tillit til þessara frv., hvorki frv., sem ég flutti, né hæstv. sjútvrh., og ekki minnst á Fiskiðnskólann í sambandi við það, að þeir nemendur, sem þar stunda nám, eigi að fá lán á sama hátt og nemendur annarra námsstofnana í þessu landi. —– Ég vænti þess, að sú n., sem hefur þetta mál til meðferðar í þessari hv. þd., geri nauðsynlegar breyt., þegar hún skilar málinu aftur frá sér inn í þingið, þannig að viðunandi megi teljast.

En það, sem ég hef sérstaklega við þetta frv. að athuga, er sú ákvörðun, sem í því felst að leggja niður rótgróna ríkisstofnun, en ætla að byggja aðra upp í staðinn á svo til sama grundvelli aðeins með nýju nafni. Menn getur greint á um það og menn geta tekið upp harða baráttu um það, hvort rífa megi niður eldgömul hús eða skúrræfla, jafnvel frá dönsku einokunarversluninni, hvort þeir eigi að standa áfram eða rífa þá. En þegar um er að ræða að leggja í rúst eða afskrifa sem stofnun Fiskmat ríkisins, stofnun, sem gegnt hefur um langan aldur einu þýðingarmesta hlutverki í atvinnusögu þjóðarinnar, þá virðist mega gera það með einu pennastriki og kasta fyrir róða a.m.k. ýmsu því, sem áunnist hefur og hlýtur að vera nátengt því forustuliði, sem þar hefur starfað. Ég tel, að hvort tveggja eigi að eiga sér stað: að leggja annars vegar Síldarmat ríkisins undir Fiskmat ríkisins og að endurskipulagning stofnunarinnar eigi einnig að eiga sér stað. En það segir sig sjálft, að hvort tveggja verður að eiga sér stað að vel athuguðu máli og leita verður í því sambandi samstarfs við þá, sem best þekkja til um þessi mál, bæði hvað viðkemur starfsliði hinna ýmsu greina fiskmatsins og enn fremur og ekkert síður í náinni samvinnu við þá, sem hér eiga öðrum fremur mikilla hagsmuna að gæta, en þar á ég við sjálfa framleiðendurna.

Það kemur fram, eins og hæstv. sjútvrh. sagði áðan, í aths. við frv., að n., sem samdi það, hefur átt viðræður við ýmsa aðila um þetta mál. Telur hún, að óhætt sé að fullyrða, að menn séu almennt á einu máli um það, að sameina þurfi starfsemi fiskmats ríkisins og Síldarmats ríkisins í eina stofnun. Kemur það engum á óvart með tilliti til þess, sem ég hef áður sagt. Hitt þurfa menn að fá upplýst nánar, ef rétt er, að mikill hluti þeirra manna, sem hér þekkja best til. eru þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé að skipta um nafn á stofnuninni, til þess að fram megi koma þeim skipulagsbreytingum, sem þurfa þykir að athuguðu máli. Ég mun a.m.k. óska eftir að fá það staðfest af viðkomandi, áður en sjútvn. skilar áliti um málið.

Það er að sjálfsögðu ýmislegt fleira, sem ég hef við þetta frv. að athuga, og þá sérstaklega mætti þar minnast á ýmsa þætti fiskmatsins, sem starfræktir hafa verið og geta átt sér stað og hafa verið framkvæmdir eftir ákvörðun með reglugerð, eins og lögin frá 1968 kveða sérstaklega á nm. Ég mun þó ekki orðlengja frekar um málið að þessu sinni, þar sem ég hef aðstöðu til þess að fylgjast með afgreiðslu þess í þeirri n., sem fær það til meðferðar.