04.04.1974
Efri deild: 98. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3482 í B-deild Alþingistíðinda. (3104)

300. mál, Ríkismat sjávarafurða

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það eru nokkrar aths., sem ég vildi gera við þær ræður, sem hér hafa verið fluttar.

Það var fyrst hv. 2. þm. Vesturl., Jón Árnason. Hann vék hér nokkuð almennt að þessu máli, og það kom reyndar fram í hans máli, að bæði hann og hv. 5. þm. Reykn., Jón Árm. Héðinsson, þeir eiga báðir sinn hlut í því, að þetta mál er komið á hreyfingu, og sem sagt eiga sinn hlut í því, að lagt er til að vinna að því að sameina Síldarmat ríkisins og Fiskmat ríkisins í einni stofnun og vinna þar að vissri endurskipulagningu, eins og þetta frv. fyrst og fremst miðar að. Það kom fram hjá báðum þessum hv. þm., að þeir voru ekki fyllilega sáttir við það, að sú leið væri valin, sem valin er í þessu frv., þ.e. að leggja formlega niður Fiskmat ríkisins, sem er gamalgróin stofnun, og byggja síðan upp úr henni og Síldarmati ríkisins nýja stofnun. Auðvitað er þetta að langmestu leyti formið eitt, sem skiptir frá minni hálfu engu meginmáli. Það, sem er aðalatriðið, er að ná þeim tilgangi, sem að er stefnt. Báðir virðast þessir hv. þm. vera sammála um, að það eigi að sameina þessar stofnanir í eina. Nafnið getur ekki skipt aðalmáli, hvort þetta heitir Fiskmat ríkisins eða Ríkismat sjávarafurða, það getur ekki verið aðalatriðið. En tilgangurinn frá þeirra hálfu, sem höfðu athugað þetta mál, eins og við í sjútvrn., var ekki einvörðungu sá að sameina á þennan hátt Síldarmat ríkisins við Fiskmat ríkisins, heldur einnig og ekki síður að vinna að hinu, að sem mest svigrúm skapaðist til endurskipulagningar á öllu matskerfinu. Og það er auðvitað enginn vafi á því, að með því að velja þá leið, sem valin er með þessu frv., að byggja upp nýja stofnun, skapast hér mun meira svigrúm til endurskipulagningar á öllu kerfinu. Frá minni hálfu horfir þetta mál þannig við, að það er aðeins spurning um það: Hvað vilja menn ganga langt til þess að ná þessu markmiði? — Ég þekki þetta mætavel frá fyrri störfum mínum. Ég starfaði hér oftar en einu sinni, m.a. í samtökum fiskframleiðenda, að endurskoðun á þessum málum, og ég veit, hvað það er erfitt að ná fullu samkomulagi manna á meðal um að búa til eitt skipulag, sem allir eru ánægðir með, varðandi þessi efni. En það er enginn vafi á því, ef á að koma hér við sæmilegri endur skipulagningu á fiskmatsstörfum almennt, að þá er nauðsynlegt að skapa visst svigrúm til þess.

Hér var m.a. spurt um það af síðasta hv. ræðumanni 6. landsk, þm., hvernig væri með skyldur og réttindi tiltekinna starfsmanna á vegum Fiskmatsins, einstakra matsmanna, sem nú starfa að fiskmatsstörfum viða um landið. Ég get svarað því á þá lund, að það er alveg ljóst, að þessi mál eru í mestu sjálfheldu, eins og þau eru nú. Það eru fjöldamargir menn, sem starfa á vegum Fiskmats ríkisins, ýmist sem ferskfiskmatsmenn eða saltfiskmatsmenn, eða vinna að öðrum matsstörfum, sem nú njóta mjög litilla réttinda, en eiga að standa undir býsna miklum skyldum. Þeir eru mjög óánægðir með sína starfsaðstöðu og kjör og hafa í sífellu verið að kvarta til rn, út af þessum málum. Það er enginn vafi á því, að það þarf, um leið og þetta starfskerfi sem heild er tekið til endurskoðunar og umskipulagningar, að huga að því, að þeir starfsmenn, sem vinna á vegum þessarar stofnunar, geti í flestum tilfellum haft fulla vinnu og þar af leiðandi fullar skyldur og full réttindi, en störfin að öðru leyti verði skipulögð þannig, að menn verði ekki bundnir svo að segja á bása, eins og allt of mikið hefur verið hjá okkur til þessa. Ég er ekki að kenna forstöðumönnum Fiskmatsins á neinn hátt um það skipulag, sem þarna hefur verið, það hefur vaxið upp á þennan hátt af nokkuð eðlilegum ástæðum, og það er svona nú í dag, en það þarf að taka það til endurskoðunar.

Það er því mín skoðun, að ef skapa á hér fullt svigrúm til þess að takast á við verkefnið sem heild, taka það til endurskipulagningar, þá sé miklu réttara að fara þá leið, sem lögð er til í þessu frv.: að byggja upp eina nýja stofnun. Að sjálfsögðu yrði meginhlutinn í þeirri stofnun frá Fiskmati ríkisins, á því er enginn vafi, og þeir fjölmörgu þrautreyndu starfsmenn, sem þar hafa unnið, yrðu að sjálfsögðu meginstofninn í því liði, sem þarna yrði að treysta á og byggja á. Ég er fyrir mitt leyti algjörlega andvígur því, að það sé þotið hér út í eitthvert nýtt kerfi með meira og minna óreynda menn, — ég mundi aldrei fyrir mitt leyti stuðla að neinu slíku. En mér dettur ekki í hug að hanga svo í þessu gamla skipulagi, að ég geti ekki viðurkennt, að á því eru stórfelldir gallar og það bera að vinna að því að breyta því. Og það er nú einu sinni svo, að þó að vissulega sé hægt að breyta ýmsum hlutum innan þeirra stofnana, sem verið hafa, þá er það svo, að þegar á að fara að takast á við þetta sem heild, er stundum betra að hafa meira svigrúm en minna til breytinga.

Það er í mínum augum sem sagt alveg aukaatriði, hvað þessi stofnun á að heita, — það er sjálfsagt að reyna að velja sem best nafn, en hvort hún á að bera það nafn, sem meginstofnunin bar áður, það er ekkert höfuðatriði. Ég álit því, að það sé algjörlega á misskilningi byggt, þegar sagt er, að með þessu frv. sé verið að kollvarpa öllu því kerfi, sem við höfum byggt á til þessa, eða það sé verið að kasta fyrir róða því, sem við höfum treyst á í þessum efnum. Þetta er misskilningur, og ég held, að sá misskilningur hljóti að leiðréttast auðveldlega, þegar menn fara að vinna að málinu í n. og skoða það nánar.

Hitt tek ég ekki mjög nærri mér, hvorki hér né heldur hjá þeim ágætu mönnum, sem vinna við Fiskmat ríkisins og hafa gert margar aths. við málið, þó að þeir séu hræddir og hiki í sambandi við breyt. og vilji gjarnan fá að vita, hvað stendur til og að hverju er stefnt. Það er sjálfsagt að ræða við þá og kanna málið, en það þýðir lítið fyrir menn að tala í sífellu um það, að hér þurfi að gera breytingar, og þora svo við engu að hreyfa, þegar til á að taka.

Ég held, að það sé líka rangt, sem hér hefur komið fram, að sú n., sem sjútvrn, skipaði til þessa tiltölulega takmarkaða verkefnis, að semja nýtt frv., sem tæki tillit til þeirra grundvallarsjónarmiða, sem þarna koma fram, — hafi unnið illa. Ég held, að hún hafi unnið vel. Það var að sjálfsögðu ætlast til, að hún skilaði verkefni sínu á stuttum tíma, því að ég er á þeirri skoðun, að þetta mál sé ekki þannig, að við eigum að fara að setja upp eina n. enn, sem eigi að dúlla yfir þessu í nokkur ár, heldur er hér fyrst og fremst um það að ræða: Eigum við á tiltölulega einfaldan hátt að leggja grundvöll að því, að það sé hægt að umskipuleggja þessi mál til meiri hagkvæmni og til þess að skila meiri árangri? Það er hægt, og mér sýnist, að sá rammi, sem dreginn er upp með þessu frv., sé alveg fullnægjandi. Hitt kemur mér ekkert á óvart, að það finnist bæði forsvarsmenn einstakra stofnana í landinu og ýmsir aðilar, sem vildu hafa þetta á ýmsan annan veg. Ég held, að það verði langt að biða þeirra tíma, að allir, sem fást við framleiðslu sjávarafurða og þurfa að leita til Fiskmats, og allir þeir, sem starfa að þessum málum, verði á einu máli um það, hvað sé réttast og best í öllum greinum. Og það vil ég segja líka að ég hélt satt að segja, að hv. 5. þm. Reykn., Jón Árm. Héðinsson, hefði heyrt það, og það er hægt að sýna honum það líka skriflegt, að það er ekki bara búið til af þessari n., það hafa komið fram hvað eftir annað þær hugmyndir og tillögur, að það mætti hverfa frá því fyrirkomulagi, sem hjá okkur hefur verið nú um alllangan tíma varðandi freðfiskmatið, það væri ekki þörf á að hafa það. Þetta hefur komið fram hjá heilum stofnunum. En sú n., sem samdi þetta frv., hefur ekki, að því er ég hef tekið eftir, tekið undir þessa skoðun á einn eða neinu hátt. Hún er ekki að gera ráð fyrir því, að dregið verði úr þessu, og það er ekki mín till. á neinn hátt. En það er rétt, að þessar skoðanir hafa komið fram hvað eftir annað, og það er alveg rétt, að það mat, sem þarna á sér stað á vegum Fiskmats ríkisins, er með nokkuð sérstökum hætti og talsvert mikið öðrum hætti en mikið af öðru fiskmati á okkar vegum.

Af því að þessir hv. tveir þm. eru allvel kunnugir þessum málum, hv. 5. þm. Reykn., Jón Árm. Héðinsson, og hv. 2, þm. Vesturl., Jón Árnason, og eru að sínu leyti upphafsmenn að því, að hreyft yrði við málinu eða aðilar að því, þá vil ég vænta þess, að þeir takist á við þetta mál í þeirri n., sem fær málið til athugunar, og á þann hátt, að stefnt sé að því að reyna að fá lausn á málinu, — stefnt sé að því að fá afgreiðslu á málinu. Sjálfsagt er að vinna að ýmsum leiðréttingum og lagfæringum, sem menn geta orðið ásáttir um. Í þeim efnum er málið ekki bundið í neitt fast form af minni hálfu. En fyrir alla muni víkið frá því, að það sé rétt að fara sér nú hægt, setja allt í n., biða og athuga málið í nokkur ár. Það væri alveg afleitt að fara að koma þessu máli af stað og hverfa svo að því að geyma allt saman.

Það er líka misskilningur, að þeir sem sömdu þetta frv., hafi gleymt síldarmatinu, þó að þeir tækju þá afstöðu að tilgreina ekki sérstaka deild, sem í stofnuninni hefði með síldarmatið að gera. Það kemur mjög greinilega fram í grg. við 5. gr. frv., að n. hefur ætlast til þess, að ákveðin d. tæki að sér þessi störf a.m.k, fyrst um sinn, en það yrði ekki sett upp sérstök síldarmatsdeild. Í grg, með 5. gr. frv. segir orðrétt á þessa leið, með leyfi hæstv, forseta:

„Sú deild, sem í frv. þessu er nefnd „salt- og skreiðardeild, tekur við verkefnum Síldarmats ríkisins, en auk þess mundu aðrar saltaðar sjávarafurðir, þ. á m. söltuð hrogn, einnig falla undir verksvið deildarinnar.“

Henni hefur ekki verið gleymt, þessari starfsemi. Hitt er svo annað mál, hvort það er þörf á því strax í upphafi að ákveða, að þarna skuli vera sérstök síldarmatsdeild með tilheyrandi starfsliði. En hitt er líka alveg opið samkv. frv., að gera úr þessu sjálfstæða deild, þegar ástæða þykir vera til, því að ráðh, hefur heimild til þess að fjölga slíkum deildum.

Það kom fram í því, sem hér hefur verið sagt um þetta frv., að menn eru yfirleitt á einu máli um, að þörf sé á því að vinna að þessari breyt., sem hér er stefnt að. Ég hygg því, að menn séu sammála um meginkjarna málsins, en hins vegar geti kannske verið einhver ágreiningur um ákveðin formsatriði og m.a. um nafn á stofnuninni, og þá er sjálfsagt að taka það til athugunar í n. og kanna, hvort ekki er hægt að ná samkomulagi um slík atriði.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. frekar, því að mér sýnist, að menn séu nokkuð sammála um meginatriðin í frv., en vil vona, að sjútvn., sem fær málið til athugunar, greiði fyrir afgreiðslu þess.