04.04.1974
Neðri deild: 100. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3485 í B-deild Alþingistíðinda. (3106)

297. mál, trúfélög

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir hv. Nd., á sér þann aðdraganda, að því var lýst í stefnuræðu í byrjun þings á s.l. hausti, að frv. að l. um málefni utanþjóðkirkjumanna mundi verða lagt fyrir Alþingi, sem nú situr. Við umr. í fyrirspurnatíma á þessum vetri kom einnig fram af minni hálfu nokkur lýsing á þörf fyrir skýrari og ýtarlegri reglu um skilyrði fyrir viðurkenningu á söfnuðum utan þjóðkirkjumanna, þannig að prestar þeirra eða forstöðumenn mættu annast embættisverk, er hefðu lagaverkanir. Hin gömlu lög um utanþjóðkirkjumenn, eða réttara sagt það, sem eftir stendur af þeim, eru orðin mjög ófullnægjandi grundvöllur þess að veita slíka viðurkenningu. Það kom einnig fram við fyrrnefnda umr. í þinginu, enda einnig utan þings, að hugmyndir manna um réttarstöðu trúfélaga voru nokkuð óljósar og í sumum efnum byggðar á hæpnum lagatúlkunum. Bæði af þeirri ástæðu, en einnig með hliðsjón af skýrum fordæmum nágrannaþjóða á Norðurlöndum, þótti rétt að setja fram samhliða mun ýtarlegri reglur um trúfélög utan þjóðkirkjunnar og almennar reglur um stöðu trúfélaga, sem jöfnum höndum ættu við um aðild að þjóðkirkjunni og trúfélögum utan hennar. Um ýmisleg atriði, sem þar eru markaðar reglur um, hefur alveg skort ákvæði í lögum, og hefur því orðið að ákveða framkvæmdareglur um slík efni án stuðnings af lagareglum. Það er að vísu ljóst af reynslunni, að þessi vöntun hefur ekki orðið til neinna vandræða, og veldur þar eflaust mestu um, að aðild landsmanna að þjóðkirkjunni er svo yfirgnæfandi, Má geta þess, að í síðustu upplýsingum Hagstofunnar um þetta efni hafa 92% landsmanna verið taldir til þjóðkirkjunnar, og ef evangelísk-lútherskir söfnuðir utan hennar eru taldir með, verður hundraðshlutinn nálægt 98%. Engu að síður verður að telja til bóta, að skráðar reglur séu um mörkun aðildar manna að trúfélögum.

Í I. kafla frv. er fjallað um almennar reglur um aðild manna að trúfélögum. Sum þeirra ákvæða eru í rauninni staðfesting á reglum, sem í framkvæmd eru nú þegar, svo sem 5, gr. um skráningu trúfélagsaðildar við fæðingu, önnur ákvæði eru nýmæli, svo sem aldursmörk til ákvörðunar um aðild að trúfélagi, sbr. 3. og 6. gr. frv.

Í 1, gr. frv. má segja, að undirstrikuð sé stefnumótun frv. með því að taka upp efni 63. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem mörkuð er regla hennar um trúfrelsi. Ákvæði 2. og 4. gr. frv. eru ætluð til þess að leggja áherslu á, að skuldbinding til aðildar að trúfélagi nær ekki lengra en vilji manna stendur til, hvað sem öllum yfirlýsingum liður, og að bannað er að taka við ákveðnum heitstrengingum manna innan 20 ára aldurs þeirra. Þá eru markaðar almennar reglur um, hvernig fjalla skuli um inngöngu í og úrsögn úr trúfélagi og um réttarverkanir skráningar í þjóðskrá. Um efni þessa kafla frv. má annars vísa til frekari útlistunar í aths. við frv.

Svo sem áður var víkið að, var það tilefni þess, að frv. þetta var samið, að þörf þótti nú á mun haldbetri reglum en gilt hafa um réttarstöðu og starfsgrundvöll trúfélaga utan þjóðkirkjunnar, sem rétt fengju fyrir presta sína eða forstöðumenn til að fara með embættisverk, sem lagaverkanir hefðu. Um þetta efni er fjallað í II. kafla frv. Í fyrstu gr. kaflans, þ.e. 11. gr. frv., er mælt fyrir um það, að heimild sé til stofnunar trúfélaga, án þess að nokkuð þurfi að tilkynna um það til stjórnvalda. Félög, sem þannig væri farið um, mundu engu að siður þurfa að gæta þess að taka ekki upp nöfn, sem um of líktust nöfnum annars trúfélags, þannig að misskilningi gæti valdið. Einnig mundu slík félög sem önnur að sjálfsögðu vera bundin af þeirri skyldu, sem 63. kr. stjórnarskrárinnar segir, að kenna ekki né fremja neitt, sem gagnstætt væri góðu siðferði og allsherjarreglu. slík félög geta og skv. ákvæðum gr. tryggt sér einkarétt á nafninu, þannig að það sé varið fyrir upptöku annarra á því. Að öðru leyti eru í kaflanum mjög ýtarleg ákvæði, sem gera grein fyrir, hvaða upplýsingar skulu fylgja umsókn trúfélaga um viðurkenningu þá, sem um er fjallað. Er sú viðurkenning nefnd skráning, og er það eftir fyrirmynd norskra laga. Verður að ætla, að hinar umfangsmiklu reglur, sem gerðar eru til upplýsingar um starfsemi félags, sem skráningar leitar, geti ekki gert hvort tveggja, gefið bendingar um, hvernig móta þurfi skipulag og starfshætti slíkra félaga, og jafnframt veitt ríkisvaldinu nokkra tryggingu fyrir því, að félög, sem fengin yrði framkvæmd ábyrgðarmikilla embættisverka í hendur, væru í raun svo mótuð í skipulagi og starfsháttum, að ástæða væri til þess að fela þeim slík störf, sem löggjöfin felur óneitanlega fyrst og fremst starfsmönnum ríkisins sjálfs.

Það er ástæða til að geta í þessu sambandi tveggja atriða, sem lítið eða ekkert er fjallað um í grg. frv. Annað er það, að vel hefði getað komið til greina, þótt ekki sé það gert í frv., að hafa viðurkenningu eða skráningar með tvennum bætti, þannig að trúfélög gætu notið heimildar til að taka til sín gjöld af félagsmönnum sínum og yrðu þeir með því lausir undan gjaldskyldu til þjóðkirkjunnar eða háskólans, þótt ekki yrðu þau jafnframt viðurkennd til að fara með embættisverkefni fyrir þjóðfélagið.

Það er ástæða til að minna á það, að það er auðvitað ekki með trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar verið að tryggja slíkum félagshópum rétt til þess að framkvæma embættisverk með lagaverkun, heldur rétt til trúariðkunar og guðsdýrkunar eftir sannfæringu hvers og eins, enda væri ekkert því til fyrirstöðu, að helgiathafnir þeirra beindust að slíkum verkefnum, sem sérstaka löggildingu þyrfti til að framkvæma með lagaverkunum.

Að sjálfsögðu yrði þá og vel að gæta þess, að slíkar athafnir væru ekki fallnar til þess að vekja rangar hugmyndir um slíkar lagaverkanir. Það ætti í raun og veru að vera augljóst, að það eru fremur hentugleikar, sem ættu að ráða því, hverjir heimild hefðu til slíkra embættisverka fyrir þjóðfélagsins hönd. Það má til skýringar á þessu sjónarmiði geta þess, að á árinu 1973 voru framkvæmdar samtals 17 hjónavígslur í 6 söfnuðum utan þjóðkirkjunnar, öðrum en þeim evangelísk-lúthersku. Á því ári voru í þeim 3 evangelísk-lúthersku söfnuðum utan þjóðkirkjunnar framkvæmdar 79 hjónavígslur. Hjónavígslur alls voru á árinu 1688: þjóðkirkjuprestavígslur 1423, borgaralegar hjónavígslur 169, en utan þjóðkirkju, eins og ég sagði, 96 samtals og þar af í evangelísk-lútherskum söfnuðum 69, en hjá öðrum 17. Frv., byggir, eins og áður segir, ekki á þessari aðgreiningu, þótt rétt þyki að vekja athygli á þessum aðstæðum.

Hitt atriðið, sem rétt þykir að nefna í þessu sambandi, er, að ekki er mörkuð í frv. nein lágmarkstala safnaðarmeðlima sem skilyrði fyrir skráningu. Er í því fylgt fordæmi Norðmanna, sem í upphaflegri frv.-gerð höfðu sett lágmarkstölu 50 meðlima, en frá henni var horfið í endanlegri frv.- gerð og svo varð í lögum, sem sett voru 1969. Þótt segja megi, að slík lágmarkstala geti komið til greina, verður að játa, að hún segir lítið til um styrk og innihald samtaka og mundi þá e.t.v. að ófyrirsynju verða höfuðviðmiðun. Allt getur þetta þó verið umhugsunarefni.

Ég tel ekki ástæðu til að lýsa nánar öðrum efnisákvæðum Il. kafla frv., þar er fjallað um skýrslugerð skráðra trúfélaga og eftirlit með þeim og embættisstörfum á þeirra vegum, svo og um skilyrði til að gegna störfum Forstöðumanns eða prests og skyldur þeirra og embættisábyrgð. Ég vísa að öðru leyti um þetta efni til aths. með frv.

Frv. þetta hefur í ýmsum efnum að geyma nýmæli og vekur e.t.v. ýmsar spurningar um önnur úrræði. Ég tel æskilegt, að það sæti rækilegri athugun í n., og vafalaust þykir ástæða til að leita umsagna ýmissa aðila varðandi efni þess. Á hinn bóginn verður varla talin brýn ástæða til þess að hraða afgreiðslu þess. Ég bendi í því sambandi einnig á gildistökuákvæði þess, sem ráðgerir, að ef og þegar frv. þetta yrði að l., mundu trúfélög halda réttindum sínum skv. löggildingu í heilt almanaksár og nokkru betur til þess að geta mótað starfsemi sína eftir hinum nýju reglum, sem efnislega eftir því sem við á, munu gilda á tímabili. Síðan yrði að sækja um löggildingu að nýju á grundvelli hinna nýju reglna.

Það er rétt að geta þess, að tilefni gæti orðið til við gildistöku frv. þessa að hnika til orðalagi í sérlöggjöf, svo sem stofnun og slit hjúskapar, um sóknargjöld og kirkjugarða, en alla vega er svo langur biðtími ætlaður við hugsanlega gildistöku þess, að nægja mundi til undirbúnings um það efni.

Ég geri alls ekki ráð fyrir því, að þetta frv. verði afgr. á þessu þingi, en það er þess eðlis, að það þótti rétt að sýna það, svo að það geti legið fyrir mönnum til athugunar.

Herra forseti. Ég vil svo óska þess, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.