06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

355. mál, lánsfé til byggingar leiguhúsnæðis

Fyrirspyrjandi (Sverrir Hermannsson) :

Herra forseti. Ég ætla þá að leyfa mér að byrja á því að lesa upp fsp. mína, svo að ekki fari milli mála, hver hún er. Hún hljóðar svo:

„Hverjar eru áætlanir um fjármögnun byggingar leiguhúsnæðis samkv. l. nr. 58 frá 30. apríl 1973?“

Það atriði l., sem ég einkum beini fsp. minni að, er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Heimilt er að veita lán til byggingar leiguíbúða á vegum sveitarfélaga, er nemi allt að 80% af byggingarkostnaði, enda hafi hlutaðeigandi sveitarfélag ekki byggt íbúðir samkv. 1. gr. l. nr. 97 frá 22. des. 1965, og íbúar þess ekki átt kost á íbúðum, sem þar um ræðir. Lán þessi skulu vera til 33 ára, afborgunarlaus fyrstu 3 árin, en endurgreiðast síðan á 30 árum. Að öðru leyti eru lánakjörin þau sömu og lánakjör Byggingarsjóðs ríkisins. Á næstu 5 árum er heimilt að veita slík lán út á allt að 1000 íbúðir. Ráðh. getur með reglugerð sett nánari ákvæði um úthlutun þessara lána.“

Ef við gerum ráð fyrir því, að byggðar verði 200 íbúðir á næsta ári, þá er e. t. v. ekki of í lagt, miðað við það að lána allt að 80% af byggingarkostnaði, að gera ráð fyrir því, að á hverja íbúð þyrfti að lána um 2.5 millj. kr. Ef byggðar verða 200 íbúðir, þá er þetta fjármagn 500 millj. Nú hef ég spurt, að hæstv. félmrh. hafi lýst því yfir, á fundi á Dalvík raunar, að byggingar þessara íbúða mundu njóta forgangs hjá Byggingarsjóði, ennfremur er mér kunnugt um það, að allmargar lánsbeiðnir liggja fyrir óafgreiddar hjá Byggingarsjóði frá ýmsum framkvæmdaaðilum, og enn er þess að geta, að óljóst er, um hvaða framkvæmdir verður að tefla í verkamannabústaðakerfinu. Þess vegna er það, að í framhaldi af fyrri fsp. minni þykir mér nauðsyn bera til að fá um það sem gleggstar upplýsingar, með hvaða hætti fjármögnun til byggingar þessa leiguhúsnæðis, svo mikil þörf sem vissulega er á slíkum byggingum, muni geta átt sér stað.