04.04.1974
Neðri deild: 100. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3490 í B-deild Alþingistíðinda. (3112)

293. mál, fjáröflun til vegagerðar

Fjmrh. (Halldór E. Sigurósson):

Herra forseti. Á þskj. 607 er frv. til l. um fjáröflun til vegagerðar. Eins og kom fram í ræðu hæstv. samgrh. hér í gær, er vegna þeirrar ákvörðunar, sem er um verkaskiptingu í stjórnarráðinu, sá hluti vegagerðarinnar, sem lýtur að tekjuöflun, til meðferðar hjá fjmrn. eins og önnur tekjuöflun, sem ríkissj. annast, en ekki látin fylgja vegalögum, eins og áður hefur verið. Þetta gerir það að verkum, að frv., sem ég fylgi hér úr hlaði, er sá þáttur vegagerðarinnar, sem hv. þm. er ekki eins ánægjulegur og hinn þátturinn, að mega deila út því fé, sem til vegagerðar er aflað. En í sjálfu sér er eðlileg verkaskipting, sem þarna á sér stað, og þess vegna er þetta frv. flutt af fjmrh., en ekki af samgrh. í vegalögum, eins og verið hefur.

Það, sem um er að ræða í sambandi við þetta frv., er tekjuöflun til vegagerðar í landinu. En tekjuöflun til vegagerðar hefur oft átt sér stað, og hefur á löngu skeiði orðið að bæta upp til þess að mæta þeim verðhækkunum, sem orðið hafa, og einnig þegar um auknar framkvæmdir hefur verið að ræða. Sú leið, sem valin er hér í tekjuöflunarskyni, er sú hin sama og verið hefur, allt frá því að vegalög 1963 voru sett, en það er að afla aðaltekna til vegagerðar í landinu af umferðinni og þá með þeim hætti að taka bensíngjald og þungaskatt af bifreiðum til þessara framkvæmda í vegagerð. Auk þess sem þar er aflað fjár til vegagerðar, hefur einnig verið um lántöku að ræða, sem ég kem að síðar.

Ef borin er saman sú þróun, sem orðið hefur í hækkun á bensínskatti, eins og hér er lagt til nú, og orðið hefur í kaupgjaldi á sama tíma, allt frá 1964, þá hefur þetta nokkuð fylgst að, og miðað við það kaupgjald, sem var í landinu, og það verð, sem bensínið var ákveðið 1964, eftir að bensínskatturinn var á það lagður, ætti verð á bensíni nú að vera miðað við kaupgjaldið 36.37 kr. hver lítri. Skv. þessu frv. mundi það hins vegar verða rúmar 36 kr. lítrinn, miðað við skatt þann, sem hér er gert ráð fyrir. Það er því um að ræða, að hér er svipað hlutfall á milli hækkunar á bensínskatti annars vegar og kaupgjaldi í landinu hins vegar á því tímabili, sem liðið er síðan þessi háttur var upp tekinn. Það má líka geta þess, að ef litið er á vísitölu byggingarkostnaðar á sama tíma eða allt frá 1963, en þá var hún 197 stig, en núna 998, — hefði bensíngjaldið frá 1964 fylgt vísitölu byggingarkostnaðar alla tíð síðan, þá væri bensínskatturinn kr. 14.03, en hér er lagt til, að hann verði kr. 14.00. Það má því segja með réttu, að í báðum þessum tilfellum er um það að ræða, að bensíngjaldið eða bensínskatturinn og kaupgjaldið í landinu haldast í hendur, miðað við það, sem hér er lagt til, og bensínskattur og byggingarkostnaður skv. vísitölu helst einnig í hendur. Það er ekki óeðlilegt að miða við þá vísitölu, vegna þess að svo mikill hluti af framkvæmdum í vegagerð er tengdur byggingarvísitölu.

Í þessu frv. er því lagt til að fylgja þróuninni, eins og hún hefur verið og halda sama hlutfalli og var, þegar bensínskattur og þungaskattur voru teknir upp í ríkum mæli, eins og gert var með vegalögunum 1963. Þetta tekst þrátt fyrir þá gífurlegu bensínhækkun, sem varð vegna olíukreppunnar svokölluðu á s.l. hausti. Ef hún hefði ekki komið til, hefði þrátt fyrir þessa hækkun verið um lægra verð á bensíni að ræða hér á landi nú heldur en þá var, miðað við kaupgjald.

Í þessu frv. er svo gert ráð fyrir því, að bensíngjaldið verði 15 kr. um næstu áramót.

Ástæðan til þess, að þessi till. er gerð, er sú breyting, sem lögð er til, að gerð verði, og fram kemur í þessu frv., að leggja niður ýmsa þá skatta, sem áður hafa verið innheimtir af bifreiðum í margs konar myndum og hafa verið dýrir í innheimtu. Enn fremur er á allan hátt eðlilegra og skemmtilegra að innheimta það í einu gjaldi, eins og hér er lagt til, en það þýðir, þegar á að leggja alla þessa skatta niður, sem eru æðimargir, krónuhækkun á bensínlítra til þess að ná sömu fjárhæð og náð er með þessum sköttum nú.

Það orkar ekki tvímælis, að þetta ákvæði frv. mun almennt verða vel séð, enda hefur oft komið til álita að fella niður þessa mörgu skatta, þó að af því hafi ekki orðið. En nú er gert ráð fyrir því, að sú breyting taki gildi við næstu áramót.

Ég held því að hér sé um að ræða mikla endurbót á innheimtukerfi vegna þeirra skatta, sem á bifreiðar eru lagðir, bæði eigendum bifreiða og tollheimtu og skattheimtu ríkisins til mikils hægðarauka. Ég efast því ekki um það, að þessu ákvæði verði vel tekið. Það þótti hins vegar rétt að láta það ekki taka gildi fyrr en við næstu áramót, til þess að nokkur tími væri til þess að ákveða og undirbúa þessa breytingu.

Inn í þetta frv. á vegal. er einnig tekið það ákvæði, að út skuli gefa happdrættisskuldabréf á vegum ríkissjóðs vegna hringvegarins. Er gert ráð fyrir því í 13. gr. vegalagafrv., að notkun þessarar heimildar verði ákveðin í fjárlögum hverju sinni, og mundi svo í vegáætlun verða ákveðið, í hvaða vegi þetta ætti að ganga. Hér er talað um, að þetta gangi í hringveginn, svo sem happdrættisbréf þau, sem seld hafa verið í sambandi við Skeiðarársand, og nú hefur verið samþykkt hér á hv. Alþingi frv. að 1. um happdrættisskuldabréf til Djúpvegar. Ég tel, að næsta stórátakið í þessu efni hljóti að verða að fylgja eftir endurbótum á Vesturlands- og Norðurlandsvegi og enn fremur að þetta gangi til Austfjarðaráætlunar. Ég held, að það orki ekki tvímælis, að vegagerð eins og héðan frá Rvík til Akureyrar er mikið nauðsynjaverk og fjárfrek framkvæmd og einmitt kjörið verkefni að selja happdrættisskuldabréf til að hrinda því máli áfram. Við afgreiðslu vegáætlunarinnar að þessu sinni mundi verða tekið upp, til hvers þessi heimild væri notuð, og ég tek undir það, sem hefur komið fram hér á hv. Alþingi, að nauðsyn beri til að tengja þetta ákveðnum hlutum, m.a. til að örva sölu happdrættisbréfanna hjá þeim, sem þeirra vega eiga að njóta, eða í þeim héruðum, þar sem vegagerðin á að fara fram. Það mundi örva sölu þar.

Það er gert ráð fyrir því, að ef þetta frv. yrði að l. á hv. Alþingi, sem ég vona nú, og það fyrr en seinna, þá mundi það á þessu ári gefa rúml. 300 millj. kr., en á næsta ári mundi það vera eitthvað yfir 400 millj. kr.

Leiðir þær, sem farnar hafa verið til að fjármagna í vegamálum, hafa, eins og ég hef áður sagt, verið ákveðnar í vegal., og hafa þá verið markaðir tekjustofnar, sem hafa verið innheimtir, og er bensínskatturinn þeirra stærstur og þungaskatturinn þar næststærstur. Hins vegar hefur ekki verið talin ástæða til þess eða fært að þessu sinni eða rétt að stefna að því að hækka gúmmígjald af hjólbörðum, því að þar er um öryggistæki að ræða, og ætti frekar að stefna að því að draga úr þeim skatti heldur en hækka hann vegna þess öryggis, sem það mundi skapa.

Til viðbótar þeim tekjum, sem Vegagerðin fær með þessum hætti, fær hún einnig framlag á fjárl., sem er samkv. núgildandi fjárl. um 260 millj. kr. En auk þess, sem þar er getið af fjárveitingum til vegagerðar, hefur ríkissjóður tekið að sér að greiða af þeim lánum, sem tekin hafa verið vegna vegagerðar, bæði afborganir og vexti viðkomandi lána. Hér er orðið um allháa fjárhæð að ræða. Á þessu ári er gert ráð fyrir því, að sú fjárhæð, sem ríkissjóður greiðir þar, sé 523 millj. kr., svo að segja má, að framlag ríkissjóðs sé orðið um 800 millj. kr., ef um beint framlag er að ræða. Þegar þessi lán voru fyrst tekin, voru þau tekin með þeim hætti, að Vegasjóður stóð undir afborgun og vöxtum af þessum lánum, en það var ljóst fljótlega, að ef sú þróun ætti að vera áfram, mundi það leiða til þess, að Vegasjóður mundi ekki geta sinnt sínum verkefnum í viðhaldi og framkvæmdum í sambandi við vegagerðina, þar sem svo mikið færi af fjármagni hans í afborganir og vexti af lánum, sem tekin voru til þess að flýta framkvæmdum. Að þessu ráði hefur því verið horfið. Enn fremur er gert ráð fyrir því varðandi þær tekjur, sem ríkissjóður kynni að hafa vegna söluskatts af þeim skatti, sem hér er lagt til. að lagður verði á, að fjárhæð ríkissjóðs vegna vegaframkvæmda verði hækkuð a.m.k. sem því nemur.

Þrátt fyrir þessa breyt. á vegal. með tekjuöfluninni, sem hér er lagt til, er fjarri því, að fjármagn til vegaframkvæmda sé svo mikið sem Vegagerðin áætlar að þurfi til þess að framkvæma núgildandi vegáætlun með fullum verðbótum og þeim tilfærslum, sem hafa orðið á milli áranna 1973 og 1974. Enn fremur eru teknar inn í þá útreikninga, sem vitnað er til í grg. frv., endurbætur, sem fyrirhugað er, að gerðar verði á Þingvallavegi, m.a. vegna þjóðhátíðarinnar í sumar, 70 millj. kr. Þá er enn fremur gert ráð fyrir því að taka upp sérstakan aukalið vegna snjómoksturs, um 20 millj. kr., aukið framlag til sýsluvegasjóðanna verður um 16 millj., fjárveiting til þess að greiða lán, sem tekin voru í einstaka vegi á s.l. ári, um 18 millj., aukin framlög vegna girðinga frá því, sem gert er ráð fyrir í vegáætluninni og verðbætur gera ráð fyrir, um 15 millj. kr., og hækkun til fjallvega um 6 millj. kr. Þessi fjárhæð, aukin útgjöld, er alls um 150 millj. kr.

Þá eru teknar inn í þá kostnaðaráætlun, sem er getið um í grg. frv., þær verðhækkanir, sem talið er, að séu orðnar á vegaframkvæmdum, miðað við þá vísitölu, sem reiknuð var út nú í byrjun marsmánaðar. Er því um allmikla hækkun að ræða. Hækkunin í heild, sem þannig er til orðin, er um 1900 millj. kr. frá því, sem áætlunin gerði ráð fyrir.

Það er nokkurn veginn ljóst af því, sem kemur fram, að ekki eru líkur til þess, að hægt verði að útvega það fjármagn, sem þarf til þess að koma í framkvæmd þeirri vegagerð allri, sem var gert ráð fyrir, einhverjum hluta þess verði að fresta fram á árið 1975. Hins vegar mun verða reynt að afla meira fjár til vegaframkvæmda í landinu á þessu ári en gert er ráð fyrir í uppsetningu frv., eins og það nú liggur fyrir. Að hve miklu leyti það verður gert, get ég ekki skýrt frá að þessu sinni. Til þess hef ég ekki þekktar tölur eða þekkta möguleika, og verður það gert í sambandi við afgreiðslu þessara mála hér á hv. Alþ. og vegáætlunarinnar fyrir næsta ár. Hins vegar er ljóst, að gert var ráð fyrir miklum vegaframkvæmdum hér á landi á þessu vegáætlunartímabili, ekki síst þegar það er haft í huga, að auk þess, sem hér er getið, er verið að vinna að vegaframkvæmdum á Skeiðarársandi, sem verður lokið á þessu ári og það fyrr en gert var ráð fyrir.

Verðhækkanirnar, sem orðið hafa síðan vegáætlunin var samin, hafa að sjálfsögðu mikið hér um að segja, og er hækkunin til þess verðlags, sem nú er, allt að því að vera 95–96% á þeim liðum, þar sem einna mestrar hækkunar gætir. Það gerir það að verkum, að fjárþörfin er svo mikil sem raun ber vitni um, og það eru ekki nema þrjár leiðir til að mæta þeirri fjárþörf: Í fyrsta lagi að auka tekjur til vegagerðarinnar, eins og hér er lagt til, og er því stillt í hóf, eins og ég hef þegar sýnt fram á. Í öðru lagi að fá fé að láni, eins og gert var ráð fyrir í vegáætluninni, að gert yrði. Í þriðja lagi, þar sem það ekki hrekkur til, þá yrði að fresta til næsta árs þeim hluta framkvæmda, sem fjármagn næðist ekki til eftir þessum tveim leiðum eða umfram er getu.

Nú skal ég ekki segja um þetta frv. öllu meira en ég hef þegar tekið fram, enda tel ég, að ég hafi getið meginþátta þess, og tel míg hafa gert grein fyrir því, hvaða fjárhæð, um 300 millj. kr., það mundi gefa á þessu ári. Hins vegar vil ég geta þess, að það hefur jafnan verið svo hér á hv. Alþ.,þm. hafa verið áhugasamir um framkvæmdir í vegagerð, og ég efast ekkert um það, að svo muni einnig verða að þessu sinni, og þá tel ég jafnvíst, að þeir muni einnig verða svo raunhæfir sem þarf til að gera sér grein fyrir því, að til þess að af framkvæmdum geti orðið, þarf fjármagn til, og þessu fjármagni verður ekki náð nema með þeim leiðum, sem ég hef þegar nefnt. Ég get að vísu látið mér detta í hug, að einhverjir kynnu að hafa það í huga, að ríkissjóður gæti lagt meira til vegamála en lagt er til í fjárlagafrv. En þá vil ég og minna á það, sem ég gat hér áðan, að ríkissjóður leggur til miklu meira fjármagn en þar er greint, þar sem eru um 550 millj. kr. í greiðslu vaxta og afborgana af lánum þeim, sem tekin hafa verið til vegagerðar, og að sjálfsögðu fer þetta vaxandi, þar sem aukin lán eru tekin til vegagerðar árlega, meira en niður er borgað. Ég vil líka segja það í sambandi við þær verðlagsbreytingar, sem ýmsir hafa vitnað til í þessu sambandi, að í því áliti, sem ég hef fengið frá hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar, hafa verið leidd rök að því, að auknar tekjur ríkissjóðs, sem þar er gert ráð fyrir, mundu ekki verða nema sáralitlar miðað við það, sem gert var ráð fyrir í tekjuöfluninni á s.l. hausti, og í því tekjuyfirliti, sem hagrannsóknadeildin lét hv. Alþ. í té í sambandi við frv. um kerfisbreytingu skatta, var að sjálfsögðu tekið tillit til þessa máls eins og annars. Það mun því sýna sig, að það verða ekki haldgóð rök til framkvæmda að ætla að gefa ávísun á ríkissjóð í þeim efnum umfram það, sem gert er ráð fyrir hér, og það, sem ég drap á áðan, enda öllum ljóst, að hér er um stórt fjárhagsdæmi að ræða, og mun reynast erfitt að ná saman endum. Ég reikna reyndar ekki með því, að svo geti orðið, að hægt verði að ná því að fylla upp í marsvísitöluna eða þá fjárhæð, sem hún greinir, en hins vegar verður reynt að komast eins langt í þeim efnum og mögulegt er.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja þetta og legg til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.