04.04.1974
Neðri deild: 101. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3509 í B-deild Alþingistíðinda. (3130)

293. mál, fjáröflun til vegagerðar

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Meginefni þess frv., sem hér er til umr., er um fjáröflun til vegagerðar. Ef það nær fram að ganga og verður að lögum, fylgja í kjölfarið gífurlegar verðhækkanir á bensíni. Gert er ráð fyrir, að gjöld af bensíni og þungaskattur dísilbifreiða hækki verulega miðað við 1. apríl 1974. Nemur hækkunin á bensíngjaldinu kr. 4.13 pr. lítra á þessu ári, og 1 króna á að koma til viðbótar um næstu áramót. Á síðarnefnda upphæðin að mæta niðurfellingu gjalda, sem lögð eru nú á bifreiðaeigendur og sögð eru 38 talsins í aths. með frv. Þar segir enn fremur, að með niðurfellingu áðurnefndra gjaldstofna skerðist tekjur ríkissjóðs og Tryggingastofnunar ríkisins um 150 millj. kr., þar af hafi 48 millj. komið inn í ríkissjóð sem þungaskattur af bensínbílum og verið samkvæmt ákvæðum vegalaga varið til vegagerðar. Í aths. er einnig talið, að um 72 millj. kr. renni til Tryggingastofnunar ríkisins sem tryggingaiðgjöld ökumanna og um 30 millj. kr. í ríkissjóð sem ómerktar tekjur.

Út af fyrir sig er það góðra gjalda vert, að þeim fjölmörgu gjöldum, sem bifreiðaeigendum er gert að standa skil á, sé fækkað verulega. Í því felst augljóst hagræði fyrir alla, sem hlut eiga að máli.

Ekki skal dregið í efa, að Vegasjóður sé fjárþurfi, ef ætlunin er að halda uppi þeim framkvæmdahraða í hvers konar vegagerð hér á landi, sem verið hefur undanfarin ár, jafnvel á þenslutímum eins og nú eru á öllum sviðum, þegar alvarlegur vinnuaflsskortur á sér stað við undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar og alvarleg hætta er á, að bráðnauðsynlegar framkvæmdir, eins og t.d. hitaveituframkvæmdir, dragist á langinn vegna vinnuafls- og tækjaskorts. Það kann einnig að vera, að leita verði annarra ráða til tekjuöflunar til að mæta þeirri tekjuminnkun, sem niðurfellingu þessara 38 gjaldstofna er samfara, ef ekki á að draga úr vegaframkvæmdum. En það út af fyrir sig að draga úr vegaframkvæmdum er auðvitað sjónarmið, sem kann að geta átt rétt á sér á slíkum þenslutímum, sem við nú búum við.

Ég vil þó taka skýrt fram til þess að fyrirbyggja misskilning, að ég er alls ekki talsmaður þess, að svo verði gert, a.m.k. ekki eins og sakir standa. En ég vil segja strax og umbúðalaust og áður en ég geri nánari grein fyrir afstöðu minni í þessu máli, að sú leið, sem hæstv. ríkisstj. leggur til í þessu frv., að farin verði til að fjármagna vegaframkvæmdir yfirleitt og til að mæta tekjutapi vegna niðurfellingar umræddra tekjustofna, er fráleit að mínum dómi. Að hækka bensíngjöld nú ofan á þær gífurlegu verðhækkanir, sem hafa orðið á bensínverði undanfarið, er algjörlega óforsvaranlegt að mínum dómi. Sú skattheimta, sem hér er á ferðinni, fer svo fram úr öllu hófi, eins og ég mun gera nánari grein fyrir hér á eftir, að ég undrast satt að segja stórlega, að hæstv, fjmrh, skuli leyfa sér að bera slíkt og þvílíkt fram hér í hv. þingdeild.

Ég mun nú færa fram rök fyrir þessum staðhæfingum mínum.

Þegar núv. hæstv. ríkisstj. kom til valda, var bensínlítrinn 16 kr. 31. des. 1972 hækkar bensínlítrinn í 19 kr., 1. mars 1973 fer hann upp í 20 kr., 30. maí 1973 kemst hann í 21 kr., 16. ágúst 1973 í 23 kr., 17. des. s.á. er hann kominn upp í 26 kr., 1. mars þ.á. í 30 kr., og 25. mars í ár er hann kominn upp í 31 kr. Verð á bensíni hefur þannig hækkað í tíð núv, hæstv. ríkisstj. um tæp 94%.

Vissulega hefur hækkun á fob.- verði bensíns erlendis átt drjúgan þátt í þessari þróun. En hafa ber þó í huga í því sambandi, að ríkissjóður hefur verulegan hag af þessari þróun, sökum þess, að á vöruna er lagður 50% innflutningstollur og síðan söluskattur, sem hefur hækkað úr 11% í 17% á þessu tímabili. Augljóst er því, að tekjur ríkissjóðs af bensíni hafa farið mjög vaxandi á þessu umrædda tímabili, einkum þó á síðustu 12 mán., þegar til hafa komið mjög verulegar hækkanir á bensíni erlendis. Lauslega áætlað er hlutur ríkissjóðs í núgildandi útsöluverði bensíns, þ.e. 50% tollur og 17% söluskattur, nálægt 8.30 pr. lítra, og við það bætist gjald til Vegasjóðs, kr. 9.87, þannig að opinber gjöld af einum lítra bensíns, sem kostar nú 31 kr. lítrinn, eru nú nálægt kr. 18.20 eða tæp 59% af útsöluverðinu. Þetta þýðir, að tekjur ríkissjóðs og Vegasjóðs af bensíni á ársgrundvelli verða á þessu ári miðað við svipaða söluaukningu og verið hefur á undanförnum tveimur árum, þ.e.a.s. 10%, ca. 1928 millj. kr. af heildarverðmæti 3290 millj. kr., miðað við núverandi útsöluverð.

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir, eins og ég sagði áðan, að gjöld til Vegasjóðs hækki um kr. 4.13 pr. lítra, og við það bætist 17% söluskattur, þannig að ríkissjóður fengi þar smáaukabita í leiðinni, 70 aura pr. litra, sem gerir líklega milli 70 og 80 millj. kr. sé miðað við ársgrundvöll. Viðbótin á veggjaldið eykur líklega tekjur vegasjóðs um 440 millj. kr. Þannig hækkar bensínlítrinn, þegar þetta frv. yrði að lögum, um 5 kr. pr. lítra eða úr 31 kr. í 36 kr. Heildarskattheimtan pr. bensínlítra yrði því, eftir að þessi fyrirhugaða hækkun tæki gildi, um kr. 23.20 af 36 kr. útsöluverði eða rúm 64% af útsöluverðinu. Er þá vandséð, að nokkur vara hérlendis sé jafnþrautsköttuð, nema ef vera skyldi einkasöluvörur, tóbak og áfengi.

Það er athyglisvert að virða fyrir sér tekjur ríkissjóðs og Vegasjóðs af bensíni árið 1972 til samanburðar við það, sem áður er sagt. Þá var innflutningstollur hinn sami og nú, 50%, söluskattur 11% og gjald til Vegasjóðs 7.87 pr. litra. Opinber gjöld af bensíni árið 1972 námu samtals rúmlega 900 millj. kr. Sé miðað við 30 kr. pr. litra á ársgrundvelli, er samsvarandi tala 1927 millj. kr. eða 110% aukning frá því árið 1972. Sé aftur á móti miðað við 36 kr. verð pr. lítra, eins og lagt er til í þessu frv., er hækkunin tæplega 160% miðað við 1972.

Það hlýtur hverjum manni að vera ljóst, hvílík skattaáþján á hendur bifreiðaeigendum hér er á ferðinni. Sjálfsagt munu einhverjir segja sem svo, að slíkt sé nú óhjákvæmilegt til að standa undir nauðsynlegum vegaframkvæmdum í landinu. En ég segi nei. Það er með engu móti réttlætanlegt að mínum dómi að fjármagna slíkar framkvæmdir með svo gróflegri skattpíningu á bifreiðaeigendur sem hæstv. ríkisstj, leggur hér til. Auk þess er ekki að vita nema verið sé að seilast lengra í vasa bifreiðaeigendanna en ætlað er að nota til vegaframkvæmda beinlínis vegna beinna þarfa ríkissjóðs undir yfirskini nauðsynlegra vegaframkvæmda. En um þetta er auðvitað ekkert hægt að vita, eins og sakir standa, þar sem endurskoðuð vegáætlun liggur enn ekki fyrir.

En það er ekki nóg með það, að þeir, sem að þessu frv. standa, séu reiðubúnir til að leggja slíkar álögur á landsmenn, heldur virðast þeir vilja hafa sem frjálsastar hendur til að auka þær enn frekar. Í frv. er gert ráð fyrir, þ.e.a.s. í 8. gr. þess, að ráðh. fái heimild til að hækka bensíngjaldið og þungaskattinn enn meira, þ.e.a.s. í hlutfalli við þá hækkun, sem kann að verða á vísitölu byggingarkostnaðar. Þessu er ég algjörlega mótfallinn. Ráðh., hver sem bann er, á ekki að fá slíkt vald í hendur til að skattleggja bílaeigendur með þessum hætti, ekki a.m.k. eins og nú háttar til í landi voru. Auk þess er fráleitt að mínum dómi að tengja verðbreytingar á bensínverði við vísitölu byggingarkostnaðar. Mér finnst satt að segja, að það sé engu líkara en að þeir, sem að þessu frv. standa, séu þeirrar skoðunar, að bifreiðaeign og bifreiðarekstur nú til dags sé einhver lúxus eða ónauðsyn, sem auðvelt sé fyrir fjöldann að vera án, sé eitthvað svipað og tóbak og áfengi. Það má vel vera, að svo hafi verið fyrir nokkrum tugum ára, en þeir tímar eru auðvitað fyrir löngu liðnir. Bílaeign og rekstur bifreiða er nauðsyn stórs hluta þjóðarinnar við þær þjóðfélagsaðstæður, sem við nú búum við, Íslendingar. Þess vegna verður alls ekki við það unað, að allur almenningur verði svo þrautpíndur af skattáþján af hálfu hins opinbera, að það væri einungis á færi efnamanna að veita sér þau þægindi og fyrir marga þau bráðnauðsynlegu tæki, sem eigin bifreið nú er.

Það er skoðun mín, að sú n., sem fær þetta mál til umsagnar og athugunar, þurfi og henni beri raunar skylda til að taka tekjuöflunarfyrirætlanir þær, sem þetta frv. byggist á, til rækilegrar endurskoðunar með það fyrir augum, að tryggt verði, að komið verði í veg fyrir þá skattpíningu sem bifeiðaeigendum er fyrirhuguð í frv.