04.04.1974
Neðri deild: 101. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3512 í B-deild Alþingistíðinda. (3131)

293. mál, fjáröflun til vegagerðar

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég kem hér upp sérstaklega til að vekja athygli á ákveðnu atriði í sambandi við þetta frv. og ætla ekki verulega að blanda mér inn í þær umr., sem hér hafa farið fram. Ég get þó ekki annað en vakið athygli á þeirri ræðu, sem hér var flutt siðast. Ræðumaður var mjög hneykslaður á því, að bensínskattur skyldi nú verða hækkaður til að standa undir auknum þörfum Vegasjóðs, og taldi þá aðferð alveg fráleita. Ég satt að segja hélt í upphafi, að hann ætlaði að benda á aðra aðferð, en það kom ekki snefill af því, ekki allra minnsti vottur. Það er ekki hægt að taka mikið mark á slíkum málflutningi, nema þá ef má skilja hann svo sem ég held nú kannske líka að hafi verið meining hv. þm., þó að hann segði það ekki beint, að hann ætlaðist til þess, að það yrði dregið verulega úr framkvæmdum frá því, sem áformað hefur verið, og alls ekki reynt að afla neinnar hækkunar á móti, eins og venja hefur verið að gera gegnum árin í hvert sinn sem vegáætlun er endurskoðuð. Ég er dálítið hissa á þessum málflutningi.

Það var ákaflega dapurleg ræða, sem hv. 1. þm. Sunnl. flutti hér áðan. Hann lét að lokum í ljós mikinn ótta um, að atvinnuleysi og samdráttur væri í vændum. Þetta var reynslan á viðreisnarárunum, þegar að þrengdi, þá varð hér atvinnuleysi, og jafnvel bar á landflótta, sem ekki hafði átt sér stað frá dögum Ameríkuferðanna. En þó að nú séu ýmsar blikur á lofti og ýmsir erfiðleikar, er búið að gera nokkuð í atvinnumálum þjóðarinnar síðan þetta var. Það er búið að gera stórátak í því að endurnýja fiskiskipaflota landsmanna og að endurbæta vinnsluaðstöðuna í landi. Af þessu hefur það leitt, að atvinnuleysi er orðið óþekkt í þeim sjávarþorpum fjölmörgum, sem áður bjuggu við við árstíðabundið atvinnuleysi. Og í framhaldi af þessum aðgerðum og þessari þróun ætti að reynast grundvöllur fyrir úrræði, sem nægja til þess að koma í veg fyrir, að sagan frá 1967 um atvinnuleysi og landflótta endurtaki sig.

Þessi ræða hv. 1. þm. Sunnl. var að mörgu leyti mjög merkileg. Hann setti út á nánast öll atriði í frv., jafnt þau, sem eru tekin upp svo að segja orðrétt úr fyrri lögum, sem hann sjálfur beitti sér fyrir að setja, þegar hann var samgrh., sem hin, sem einhver nýmæli felast í. Honum leist ekki á hækkun bensíngjaldsins og hélt, að bensínið mundi þá ekki verða keypt lengur. Honum leist ekki á ákvæðin um ökumælana, sem eru að miklu leyti gömul. Honum leist skelfilega á ákvæði um veggjaldið, sem er nákvæmlega eins og það var, þegar hann setti það í lög á sínum tíma — eða beitti sér fyrir því og Alþingi samþykkti það. En það er ekkert nýmæli í þessu frv., ákvæðið er tekið upp eins og fleiri beint úr kafla vegalaganna. Og honum leist ekki á, að það yrði nokkurt teljandi hagræði í því að fella niður 38 gjöld, því að það væri næstum alveg sama vinna við framkvæmdina á bifreiðaeftirlitinu, þótt svo yrði gert.

Þá leist honum ekki á verðtrygginguna. Það var nýtt ákvæði. Og hv. síðasti ræðumaður var mjög andvígur því, að það mætti hækka gjöldin vísitölubundið. Þetta hefur þó verið gert með einn hluta vegamála í mörg ár og áratugi, þar sem eru sýsluvegirnir. Það hefur verið miðað við andvirði tiltekins fjölda vinnustunda, og af því hefur það leitt, að sýsluvegirnir, sem hafa mjög takmörkuð fjárráð, hafa þó ekki lent í því alltaf annað hvort ár, að fjármagnið detti niður vegna verðhækkana, heldur hefur það haldist nokkurn veginn í hendur við verðbreytingar. Menn kunna að vilja hafa aðra viðmiðun en vísitölu byggingarkostnaðar, en hluti af vegaframkvæmdum er þó byggingarvinna, þ.e.a.s. brúargerðin er það, og almenn verkamannavinna og vélavinna, sem er einnig í nokkru samræmi við byggingarvísitölu. En þó að menn kynnu að vilja hafa aðra viðmiðun á en þessa, þá er það í sjálfu sér ekkert athugavert. En það væri allt annað að fást við vegamálin, ef tekjuöflun væri ekki bundin við ákveðna krónutölu, heldur haft svipað form og í sýsluvegunum og svipað og er viða annars staðar, að gjöldin, sem álögð eru, eru tiltekin prósenta, ekki fastskorðuð krónutala. En þetta leist báðum þessum hv. þm., sem hafa talað hér á undan mér, skelfilega illa á, að einhverri slíkri verðtryggingu yrði á komið í sambandi við tekjuöflun til Vegasjóðs. Hv. 1. þm. Sunnl. leist einnig illa á það, að endurgreiðsla á skatti af jeppum er ekki lengur nema helmingur af skattinum, en áður var hann endurgreiddur að fullu. En ég held, að margir mæli, að sú breyting sé ekki óeðlileg í sjálfu sér. Hitt væri hins vegar óeðlilegt og ósamræmi í því, að jeppar og aðrir bílar, sem notaðir eru í sveitum og brenna bensíni, fái enga endurgreiðslu, en aftur full endurgreiðsla af þeim bílum, sem brenna olíu. Í þessu er ekki samræmi.

Ég ætla ekki að fara að fjölyrða um ræðu hv. 1. þm. Sunnl., þó að ég gæti ekki látið hjá líða að benda á þetta, af því að ég kom hér í ræðustól rétt á eftir honum. Mér fannst eiginlega engin ákveðin niðurstaða í ræðunni, nema þá það, að það væri lítill vegur að afla tekna til Vegasjóðs og það svo um munaði, ef það væri alveg öruggt, að stjórnin færi frá. En ég vil segja út af þessum ummælum, að ólíkt höfumst við að, því að þegar þessi hv. þm. var samgrh., stóð ekki á mér eða mínum flokksbræðrum yfirleitt að standa að gerð vegáætlunar og engu að siður þeim hlutanum að afla tekna til framkvæmdanna en hinu að skipta upp fénu, alls ekki. Það má því segja, að ólíkt höfumst við að, miðað við ræðu hv. þm. En ég reikna með því og dreg það m.a. af ræðu hv. þm., að þessum fyrrv. samgrh. renni blóðið til skyldunnar, þegar vegáætlunin og vegirnir eru annars vegar, og hann standi að vegáætlun og fjáröflun til hennar á eðlilegan hátt. Ég reikna með því fastlega.

Í þessu frv. er tekin upp heimildargr. um innheimtu veggjalds, alveg eins og hún er í núgildandi lögum. Þegar rætt var um þetta veggjald á síðasta þingi, hreyfðu fleiri en einn þm. ákveðnum hugmyndum um að innheimta gjald af þeim, sem njóta vega með bundnu slitlagi, með öðrum hætti en þeim að innheimta sérstakt veggjald. Ég veit ekki, hvort þessar ábendingar hafa verið teknar til athugunar, en mér finnst eðlilegt, að þetta sé skoðað. Ef menn eru á því að hafa áfram í l. heimild til töku veggjalds og ef mönnum sýnist, að það mætti taka hliðstætt gjald með öðrum hætti, þannig að betur færi á, þá ætti einnig að taka í lög heimild um slíkt. Mér finnst, að þetta ætti vel að skoða. Ég vænti, að það verði gert í n., og mun beita mér fyrir því, eftir því sem tími vinnst til, en málið fer til n., sem ég á sæti í.

Ég hef hins vegar séð marga annmarka á þeim hugmyndum, sem hv. þm. hreyfðu hér á sínum tíma í þessa átt, og ég treysti mér þess vegna ekki til þess á þessari stundu að flytja ákveðnar till. um þetta efni. Álít ég, að það eigi að skoða mjög vandlega og varla rétt að bera fram slíkar till., nema þá að höfðu samráði við marga hv. þm.

Það atriði í frv., sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á, eru ákvæði 13. gr. um happdrætti, eins og hér segir: „Eftir því sem ákveðið er í fjárlögum ár hvert, skal ríkissjóður gefa út happdrættisskuldabréf í því skyni að afla fjár til hringvegar um landið.“

Í fyrsta skipti, sem vegahappdrættið var tekið upp, var það í sambandi við opnun vegarins yfir Skeiðarársand, eins og öllum hv. þdm. er kunnugt. Nú líður að lokum þeirra framkvæmda, og er þó enn eftir að selja töluvert af skuldabréfunum. Þessi aðferð, sem þá var upp tekin, hefur

gefist vel, og menn hafa sýnt mikinn áhuga á því að kaupa þessi skuldabréf. Þau eru að vísu með góðum kjörum, en menn ætla þó, að áhuginn á því að kaupa þau sé öðrum þræði sprottinn af beinum áhuga fyrir málefninu sjálfu.

Á þessu þingi hafa komið fram tvö frv. um sérstök vegahappdrætti. Annars vegar er frv. um happdrætti til þess að afla fjár til að ljúka byggingu vegarins fyrir Ísafjarðardjúp. Það frv. var flutt í Nd., og því var vísað til samgn. Samgn. afgreiddi þetta frv. fyrir nokkru og mælti með samþykkt þess, og það hefur þegar verið afgr. hér úr d. á jákvæðan hátt. Ég gerði þá grein fyrir afstöðu minni til þess frv. og skal ekki fara að endurtaka það hér. Hitt frv. um happdrætti vegna vegagerðar var einnig flutt í þessari hv. þd. Þar var gert ráð fyrir veghappdrætti vegna Norðurlandsvegar, þ.e.a.s. vegarins milli Reykjavíkur og Akureyrar. Þetta frv. fór til fjh.- og viðskn. þessarar d. Ég á sæti í þeirri n. Við sendum þetta frv. til umsagnar og höfum rætt það á mörgum fundum í fjh: og viðskn. Við voru ásáttir um það, að rétt væri að skoða þetta mál í heild og þá í sambandi við afgreiðslu vegamálanna, sem fram undan voru samkv. fyrirmælum um endurskoðun vegáætlunar á tveggja ára fresti. Nú hefur hæstv. ríkisstj. tekið inn í frv. sitt þetta ákvæði í 9. gr., sem ég áðan las upp að meginmáli. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé rétt og sjálfsagt að bæta hér við ákvæði á þessa leið, eins og segir í brtt., sem ég hef þegar lagt hér fram: „Kveða skal nánar á um það í vegáætlun á tveggja ára fresti, til hvaða framkvæmda verði varið þeim fjármunum, sem inn koma fyrir sölu skuldabréfa samkv. 2. málsgr. þessarar gr.“ Ég held, að það sé alveg sjálfsagt að hafa svona ákvæði í lagagr. og halda sig við þetta af þeim ástæðum, sem ég raunar greindi frá áðan, þegar ég minntist á happdrættislánið vegna Skeiðarársands. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé skynsamlegt að taka þetta inn sem almennt ákvæði, en ekki með sérlögum um hvert einstakt happdrætti fyrir sig. Ég heyrði, að hæstv. fjmrh. gat þess í ræðu sinni, að hann gæti vel fallist á þessar hugmyndir, að happdrættisféð yrði tengt ákveðnum verkum, og þykir mér vænt um að heyra það. — Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri.