04.04.1974
Neðri deild: 101. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3519 í B-deild Alþingistíðinda. (3134)

293. mál, fjáröflun til vegagerðar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég skal ekki verða til þess að tefja þessar umr., en mér þótti það mjög athyglisvert áðan og vil taka undir það, sem hv. þm. Bjarni Guðnason sagði, að undirstaða undir allri dreifbýlispólitík sé einmitt vegaframkvæmdir, enda kom það í ljós, að þegar var verið að gera vegáætlunina fyrir tveimur árum, t.d. aukið viðhaldsféð, framkvæmdamáttur þess aukinn um 20% frá því, sem áður hafði verið. Ég heyri það, að sumir hv. þm, trúa þessu ekki, en það er bara fyrir það, að þessir hv. þm. fylgjast ekki nógu vel með.

En annað var það, sem mér þótti líka undarlegt og táknrænt, að þegar hv. þm. Stefán Gunnlaugsson var að ræða hér áðan, þá talaði hann um bráðnauðsynlega framkvæmd í sambandi við hitaveituframkvæmdir, en það lá í orðum hans, að það væru ekki bráðnauðsynlegar framkvæmdir, þegar um vegagerð væri aftur á móti að ræða.

Hér hefur verið lögð fram tillaga, að vísu í öðru máli, en náskyldu þessu, - það er í sambandi við breytingu á vegalögunum, — að í 10. gr. komi 30% í stað 20%. Það er auðvitað mjög æskilegt, ef það væri hægt að gera þetta. En hvað þýðir þessi tillöguflutningur annars? Hann þýðir, að það eigi að hækka þær tekjur, sem Vegasjóður hefur nú til þessara framkvæmda um 132 millj. kr. Þetta er auðvitað æskilegt, en þá verður líka að fá þetta fé einhvers staðar, en ekki taka það af hinu vegafénu. Og ef þetta frv. verður samþ., hækkar þessi þáttur, sem yrði að taka af hinu vegafénu, um 178 millj. kr. Þegar þetta er athugað svo og hitt, að hv. Alþ. hefur á undanförnum dögum og er að svipta sýsluvegina tekjum, þá held ég, að það þurfi að fara að bugleiða það í alvöru, hvernig eigi að fá tekjur á móti því. Ég verð að segja það, að mér finnst vera sanngirnismál. ef á að samþykkja þessa till., að þeir, sem í þéttbýlinu búa, borgi alveg sama veggjald og dreifbýlisfólkið, og það mundi gefa eitthvað á annað hundrað millj. kr. Til þeirrar n., sem hefur þetta til athugunar, vil ég skjóta því að athuga það.

Mér þótti það mjög ánægjulegt, þegar hv. 1. þm. Sunnl., Ingólfur Jónsson, var að tala hér í dag og fór að tala um vörubifreiðarnar, sem eru undir 5 tonnum, að það þyrfti að breyta því í l., þannig að þeir fengju leyfi til þess að fá mæli í sína bíla, ef ég hef skilið hann rétt. Ég flutti nefnilega till. um þetta fyrir nokkrum árum, og þá barðist hann mjög á móti þessu. En þetta er réttlætismál, því að margir bændur t.d. eru með svona bíla, og þeir verða að borga líklega upp undir 50 þús. af þessum bílum. Þessir bílar eru fyrst og fremst til heyflutninga og til heimilisnota, og hví mega þeir ekki borga sinn þungaskatt samkv. mæli? Ég skal vera meðflm. 1. þm. Sunnl., ef hann vill bera slíka till. fram.