04.04.1974
Neðri deild: 101. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3524 í B-deild Alþingistíðinda. (3136)

293. mál, fjáröflun til vegagerðar

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég mun reyna að haga orðum mínum þannig, að það, sem ég segi hér, gefi ekki tilefni til andsvara, heldur til upplýsinga um það, sem spurt hefur verið um, vegna þess að ég hef áhuga á því, að málið nái að ganga til n., atkvgr. fari fram á morgun, og svo að umr. ljúki nú þegar, mun ég ekki fara út í almennar umr.

Hv. 1. þm. Sunnl., sem talaði hér fyrstur í dag, sagði, að ég hefði um greiðslu ríkissjóðs af skuldum nefnt 900 millj. kr. Ef svo hefur verið, hefur mér orðið þar á misnefni, því að hér er um að ræða tæpar 800 millj. kr., sem ríkissjóður þarf að greiða í skuldir og framlag á árinu 1974, eins og það liggur nú fyrir, en það var það, sem hv. þm, talaði um. Skal ég láta honum í té yfirlit yfir skuldirnar, sem þarf að greiða. Ég get það ekki núna, því að ég hef þetta bara í einriti, en ég skal láta hv. þm. það í té, svo að það liggi fyrir, á hvern hátt um það er að ræða. En til viðbótar því, sem hann ræddi um, er bráðabirgðalán m.a., sem tekið var á s.l. ári og þegar er búið að greiða, og svo er Kópavogsbraut inni í þessu líka.

Út af því, sem hv. þm. sagði um veggjaldið, þá vil ég segja það, að að minni hyggju er gr. alveg óbreytt frá því, sem hún er í núgildandi vegal., að öðru leyti en því, sem hv. 11. landsk. þm. nefndi hér áðan, að þar er eingöngu um að ræða samræmi á milli 3. gr. frv. og þessarar gr., þar sem talað er um að innheimta til ríkissjóðs þessar tekjur, en jafnframt tekið fram, að þær skuli allar til vegasjóðs ganga, svo að þetta gjald færi sem önnur gjöld, ef innheimt yrði, til Vegasjóðs, en ekki til annarra þarfa.

Ég vil svo taka það fram út af því, sem hv. 1. þm. Sunnl, sagði hér í dag, að ég mundi vera fús að beita mér fyrir samkomulagi um veggjaldið og eiga við hann samvinnu um vegamál þar um í sambandi við þetta frv., ef það mætti verða til þess að greiða fyrir öðru, eins og ég átti við hann margvíslega samvinnu um vegamál, meðan hann var ráðh. og ég stjórnarandstæðingur, og fylgdi þá jafnan fast eftir hans tekjuöflun til vegamála og sé sannarlega ekki eftir því og vildi jafnvel gjarnan, að við hefðum verið þar stærri í sniðum en við vorum, þó að sumum fyndist nóg um. Þá voru menn líka að óttast um það, að úr bensínsölunni mundi draga, en ljóst er, að vegagerðin er það mikils virði fyrir vegfarendur, að þeir hagnast alltaf á vegagerð, því að þeir bæði eyða minna bensíni og þeir fara betur með bílinn sinn, og það skiptir meginmáli.

Ég vil svo í sambandi við tekjur af umferðinni segja, að eins og við höfum oft rætt um, þá held ég, að ég telji mig muna það rétt, að ég hef alltaf haldið því fram, að sérsköttun sú, sem lögð var á umferðina, ætti að ganga til hennar aftur, en með almenna tolla, almennar tolltekjur, væri ekki hægt að fara öðru vísi en með aðrar tekjur ríkissjóðs.

Út í fleiri atriði sé ég ekki ástæðu til að fara út af ræðu hv. 1. þm. Sunnl., af því að ég ætla mér ekki út í almennar umr., og endurtek það, að ég er reiðubúinn til að beita mér fyrir því, að samkomulag náist um veggjaldið til þess að greiða fyrir samkomulagi um þetta mál.

Út af spurningum þeim, sem hv. 11. landsk. bar fram, þá get ég ekki svarað því að þessu sinni, hvað Tryggingastofnun ríkisins hefur orðið að greiða vegna trygginga á bílstjórum. Ég skal reyna að ná í þessar upplýsingar, en ég hef þær ekki við höndina.

Út af því, sem hann sagði um veggjaldið, af hverju væri verið með það, þá var það m.a. ein ástæðan til þess, að það er sýnt nú, að þegar það var afgreitt hér siðast frá fjvn., þá var till. á þann veg, að slíkt mál ætti að afgreiða með vegáætlun, eins og hann sjálfur talaði um, að gert yrði, ef veggjald væri á annað borð.

Ég skal svo ekki fara frekar út í það eða þau önnur atriði, sem hann vék að í sambandi við skattheimtu. En ef um páfadóm er að ræða í sambandi við þetta ákvæði vegal. um, að innheimta megi sérstakt gjald af vegum, þá er það erfðagóss, sem tekið hefur verið í arf frá þeim, sem á undan sátu, en er ekki upp fundið. En ég held, að hvorki fyrirrennarar mínir né við, sem nú förum með þessi mál, hvorki ég né hæstv. samgrh., hafi páfavald til þess að fást við þessi mál, enda er það kannske ekki æskilegt. — Ég tel sem sagt út af því, sem hann sagði, að það sé öllu skilað aftur frá ríkissjóði og meira en það af þeim tekjum, sem ríkissjóður hefur í sérsköttun af vegunum, sem er leyfisgjaldið, en um almenna tolla tel ég, að annað sé að ræða.

Út af ræðu hv. 3. landsk. vil ég segja það, sem ég vil nú segja um ræður þessara hv. þm., að yfirleitt hefur þetta frv. fengið góðar undirtektir hjá hv. þm., sem talað hafa. Það er alveg rétt, að minni hyggju, að það er til þrifnaðar í tekjuöflunarkerfinu að fækka sköttum, og ég lit svo á, að skattastefnan eigi að miðast við það, að tekjur eigi að vera af háum sköttum og stórum, en ekki af mörgum smásköttum eins og þeim, sem hér er lagt til að fella niður.

Ég vil svo að öðru leyti segja það út af því, sem hv. þm. sagði, að í vegáætluninni fyrir 1974 er gert ráð fyrir 500 millj. kr. meiri lántökum en er gert í frv. þessu eða grg. þessa frv. Þar er aðeins gert ráð fyrir 100 millj. kr., ef við sleppum Skeiðarársandi í báðum tilfellum, en þar var gert ráð fyrir að taka lán til hraðbrauta og að verulegu leyti til Norðurlands- og Austurlandsáætlana, svo að lántaka í vegagerð til vegamála núna er 500 millj. kr. meiri en er í vegáætlun þeirri, sem afgreidd var fyrir árið 1974. Auk þess eru svo ný gjöld um 150 millj., svo að nóg er nú samt eftir, — það eru 700–800 millj. eftir, þó að þessu sé sleppt.

Ég vildi upplýsa þetta út af því, sem hv. þm. sagði. Mér fannst gott að heyra það, að hann taldi, að þessi tekjuöflun væri ekki meiri en svo, að það væri hægt að standast hana, ef væri hægt að sjá fyrir málinu á annan veg — og það tel ég, að verði að vera með öðrum hætti en nýrri tekjuöflun.

Ég tek undir það með honum, að vegamálin eru mál málanna fyrir dreifbýlið í landinu, því að góðar samgöngur eru undirstaðan undir góðri afkomu yfirleitt.

Ég vil svo segja það út af ræðu hv. þm. Eyjólfs Konráðs, að ég er honum sammála um það, sem þar kom fram, og tel, að það megi breyta þessari gr. frv., eins og einnig kom fram hjá hv. 5. þm. Austf., til þess að ganga betur frá þessum málum, en að þetta eigi að verða í lögum ákveðinn tekjustofn til þess að byggja upp vegakerfið. Við getum ekki byggt upp vegakerfið með sæmilegum hætti nema með lántökum, sem framtíðin verður svo að annast um greiðslu á að einhverju leyti, og þess vegna er nauðsynlegt að koma inn í löggjöf um vegamál einmitt þessum þætti um, að spariskírteini eða happdrættisbréf af þessari gerð verði einn af þeim tekjustofnun, sem vegagerðin geti byggt á, þótt í lánsformi sé.

Ég er ekkert bundinn við það, sem fram er tekið í þessari gr. um framkvæmdina, þannig að það megi ekki tryggja það betur. Aðalatriði málsins frá minni hendi er að tryggja, að þetta verði í löggjöf, svo að það þurfi ekki að setja lög um það á hverju ári, hvort heimildin sé notuð. Út af því, sem hv. þm. sagði um þátttöku þess í vegáætlun, þá mætti fara með það alveg eins og með Skeiðarársandinn. Hann er færður inn á vegáætlun til þess að reyna að fá heildaryfirlit yfir vegagerðina, en jafnframt er þessi tala sett inn, sem ákveðið er að afla með sölu á happdrættisbréfunum.