04.04.1974
Neðri deild: 101. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3531 í B-deild Alþingistíðinda. (3140)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en ég vil strax við 1. umr. þessa máls segja örfá orð.

Ég vil byrja á því að taka undir þau orð hæstv. viðskrh., sem hann sagði fyrr við umr. þessa máls, að það er af og frá að vera að draga þetta mál á langinn, það hefði fyrir allnokkru síðan þurft að vera búið að ganga frá þessu. Það er tími til þess kominn og þótt fyrr hefði verið, að þeir einstaklingar, sem hafa orðið fyrir þeim búsifjum, sem hækkun olíuverðs — hafði í för með sér, fái einhverja leiðréttingu sinna mála, þótt í litlu væri. Ég segi: þó að í litlu væri, vegna þess — og þar tek ég einnig undir orð hæstv. viðskrh. — að þeir fjármunir, sem hér er um að ræða og koma til með að renna til þessara einstaklinga, eru ekki nema lítill hluti af því, sem þeir hafa orðið á sig að taka vegna hækkunar á olíuverðinu. Það hefði þurft að hafa miklum mun meira fjármagn til umráða í þessu skyni, ef það hefði átt þótt ekki væri nema halda þeim mismun, sem var á kyndingu íbúðarhúsnæðis hjá þeim einstaklingum, sem þurfa að hita upp með olíu, annars vegar, og hinum, sem geta notfært sér hitaveitukyndingu. Ég er því út af fyrir sig sammála því, að fyrst ekki eru meiri fjármunir til umráða en raun ber vitni, sé vart um annað að ræða en nota þá eingöngu til þess að greiða niður kyndingarkostnað íbúðareigenda, sem nota olíukyndingu. En ég get jafnframt tekið undir það sjónarmið, sem fram hefur komið hér í umr., að vissulega hefði verið æskilegt að hafa það mikla fjármuni, að það hefði einnig getað náð til atvinnurekstrar úti á landsbyggðinni, því að a.m.k. frá mínum bæjardyrum séð er nægilega mikill mismunur á því, sem atvinnufyrirtæki úti í dreifbýlinu þurfa að bera í tilkostnaði, miðað við þau, sem hér eru á þéttbýlissvæðinu. Þess vegna er það sjónarmið út af fyrir sig réttlætanlegt, að þetta hefði einnig náð til atvinnufyrirtækja. En þeir fjármunir, sem til þess eru ætlaðir, eins og mál standa nú, leyfa það ekki, og verður því fyrst og fremst og eingöngu að hugsa til þess, að þetta renni til þeirra, sem kynda upp íbúðarhúsnæði með olíu.

Ég get því í stórum dráttum verið nokkuð samþykkur því frv., sem hér er til umr. Ég sé þó einn ágalla þar á, sem ég vildi vekja athygli hv. þm. á og að þeir hugleiddu. Það er, að með höfðatölureglunni, eins og hér er reiknað með að nota, mun þetta koma allharkalega við fjölda af eldra fólki, sem þarna á hlut að máli. Það gefur auga leið, að eldra fólk, sem er orðið kannske bara tvennt í heimili, en þarf eigi að siður að taka á sig þessa hækkun á olíuverði, verður hvað verst úti, að því er þessar niðurgreiðsluaðgerðir varðar. Ég tel því og vil koma því hér á framfæri og hreyfa því, að það þurfi að skoða það atriði, hvort ekki sé á einhvern hátt hægt að koma þessum aðilum betur til hjálpar en frv. gerir ráð fyrir. Ég tel, að það sé réttlætanlegt, að þessir einstaklingar njóti þarna einhvers umfram aðra einstaklinga vegna þess, hvernig þeirra málum er í raun og veru háttað. Ég vænti þess, að sú n., sem þetta mál fær til meðferðar, skoði það gaumgæfilega. Það á ekki að þurfa að taka langan tíma og á ekki að þurfa að tefja neitt fyrir framgangi málsins, þó að þetta væri skoðað gaumgæfilega, og ég trúi því, að það sé hægt að finna réttlátari leið, að því er þetta fólk varðar, þó að í höfuðatriðum sé höfðatölureglan notuð.

Að sjálfsögðu yrðu skiptar skoðanir, hvaða leið sem valin væri til þessarar niðurgreiðslu. Það má segja, að út af fyrir sig hefði verið æskilegast að fara þá sömu leið og nú er gert, þ.e. að þetta yrði bara niðurgreitt á olíunni og

færi þannig í gegnum olíufélögin. En mér sýnist, að það sé nokkuð erfitt og kannske útilokað að gera það, nema því aðeins að það nái til allra olíunotenda. Það hefur komið hér fram áður hjá hæstv. ráðh., að þeir menn, sem um þetta hafa fjallað, — og mér sýnist í fljótu bragði, að þeir hafi nokkuð til síns máls, — telja, að það muni vera nokkrum eða kannske miklum erfiðleikum bundið, að það sé hægt, ef við miðum við bara að greiða niður olíu til íbúðarhúsnæðis, að fara þá sömu leið og fyrir er núna í dreifingarkerfinu, þ.e. að greiða niður olíuna í gegnum olíufélögin. Ég tel það alveg fráleitt, það er mitt mat, að olíufélögunum væru afhentir þessir fjármunir og þau síðan látin um það að koma þeim til skila. Ég er hræddur um, að það gæti orðið æði mikill misbrestur þar á, að þessir fjármunir kæmu þá til þeirra réttu aðila, sem þeir eru ætlaðir.

Þetta var í aðalatriðum það, sem ég vildi um þetta segja. En fyrst ég er kominn hér í ræðustól, get ég ekki stillt mig um að víkja aðeins örfáum orðum að þeirri ræðu, sem hv. 9. landsk. þm. hélt hér fyrr við þessar umr., því að mér fannst, að hún væri kannske að mörgu leyti allathyglisverð, ekki kannske eingöngu vegna þess, að hún var að meginstofni til ofanísetning við þá flokksbræður hans um það, hvernig þeir hefðu á þeim tíma, sem lög um þetta vora sett, beinlínis hjálpað ríkisstj., eins og mér skildist koma fram hjá honum, til þess að þetta gæti orðið að veruleika. Hjá þessum hv. þm. hefur náttúrlega ráðið það sjónarmið, að það ætti að nota hvert og eitt einasta mál, hversu réttlætanlegt og gott sem það mál í raun og veru væri, til þess eins að klekkja á ríkisstj. Það er sjónarmið út af fyrir sig. Hans flokksbræður í Sjálfstfl. hafa a.m.k. að verulegu leyti verið á annarri skoðun. Ég trúi því a.m.k. og raunar veit, að þm. Sjálfstfl. úr dreifbýlinu hafa verið þeirrar skoðunar, að þetta skref og þótt stærra hefði verið til þess að létta byrði einstaklinga, sem þarna eiga hlut að máli, sé sannarlega réttlætanlegt.

En það var ekki bara þetta sjónarmið hv. þm. um afstöðu hans til sinna eigin flokksbræðra, heldur og kannske öllu frekar hitt, að það varð ekki annað skilið á hans máli heldur en hann væri beinlínis andvígur málinu í heild, eins og það lá fyrir og kom fyrir. A.m.k. frá mínum bæjardyrum séð er það nokkurrar athygli vert, ef þessi hv. þm., yngsti þm. á Alþingi Íslendinga, hefur þau viðhorf til dreifbýlisfólksins eða landsbyggðarfólksins, þó að hann sé þm. Reykv., að hann telji, að það sé ekki á því stætt að gera þessa hluti, eins og málum er nú komið. Ég a.m.k. geri ráð fyrir því, að hans flokksbræður, flokksfólk víðs vegar um landið, sé á allt annarri skoðun í þessu máli og kannske mörgum öðrum, að því er varðar réttlætismál fyrir dreifbýlið, heldur en þessi hv. þm. er. Og ég hygg, að það verði eftir því tekið, hvaða afstöðu og hvaða túlkun þessi hv. þm. hefur haft í meðferð þessa máls hér á hv. Alþ.

Ég skal ekki eyða frekari tíma í umr., ekki að þessu sinni a.m.k., nema ástæður gefist til. En ég vil að endingu ítreka það, að ég vænti þess, að sú n., sem málið fær til meðferðar, skoði það gaumgæfilega, hvort ekki er hægt á einhvern hátt að koma betur til móts við eldra fólkið í landinu en þetta frv. gefur tilefni til, eins og það nú liggur fyrir.