05.04.1974
Neðri deild: 102. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3556 í B-deild Alþingistíðinda. (3169)

302. mál, félagsráðgjöf

Heilbr. og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur verið samið í heilbr.- og trmrn. samkv. beiðni Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa. Skömmu eftir að heilbr.- og trmrn. var stofnað og tekið til starfa haustið 1970, bárust því óskir frá félagsráðgjöfum um, að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að vernda starfsheiti þeirra og starfsréttindi. Þá þótti ekki liggja alveg ljóst fyrir, að það væri í verkahring heilbr.- og trmrn. að hafa forgöngu um setningu laga, sem fjölluðu um félagsráðgjöf og félagsráðgjafa, réttindi þeirra og skyldur. Fór því fram athugun á þessu í því rn. ásamt félmrn. og menntmrn. Að könnun þessari lokinni þótti rétt, að heilbr.- og trmrn. hefði forgöngu um setningu slíkrar löggjafar, og því er þetta frv. nú lagt fyrir Alþingi.

Stétt félagsráðgjafa er ung hér á landi, þótt félagsráðgjöf í einhverri mynd hafi að sjálfsögðu verið til miklu lengur. Það var ekki fyrr en 1964, að stofnað var Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa, og í því eru nú um 20 félagar. Hins vegar er gert ráð fyrir verulegri fjölgun í stétt þessari nú á næstunni, þar eð vitað er, að kringum 20 nemendur eru að því komnir að ljúka prófum.

Starfssvið félagsráðgjafa er í sjálfu sér mjög víðtækt og alls ekki einskorðað við heilbrigðismálaþátt þjóðfélagsins, heldur grípa margir aðrir þættir þar inn í. Félagsráðgjafar vinna að langmestu leyti á vegum opinberra aðila, svo sem félagsmálastofnana, sjúkrahúsa, heilsuhæla, heilsuverndarstöðva, geðverndarstöðva, endurhæfingarstöðva o.s.frv. Auk þess starfa félagsráðgjafar í skólum, við tryggingakerfið, við fangahjálp, við fjölskylduráðgjöf o.fl., o.fl. Starfið er í eðli sínu bæði fyrirbyggjandi og endurhæfandi og er talið ómíssandi liður í meðferð afbrigðilegra atvika í nútímaþjóðfélagi.

29, júní 1967 var gerð í Evrópuráðinu samþykkt félagsráðgjafa um hlutverk þeirra og menntun svo og stöðu í þjóðfélaginu. Að því er varðar stöðu félagsráðgjafa var í ályktun þessari skorað á aðildarríki Evrópuráðsins að gera ráðstafanir til þess að vernda starfsheiti og starfsréttindi þeirra, sem höfðu lokið tilskildu námi og prófum, sem eiga að kallast það, sem í ályktuninni er nefnt „social worker“.

Nú er sá galli á gjöf Njarðar, að nám í félagsráðgjöf verður ekki stundað hér á landi enn sem komið er, heldur hefur aðallega verið nauðsynlegt að sækja til Norðurlanda til náms. Nú er hins vegar starfandi n. á vegum menntmrn., sem vinnur að undirbúningi sérstakrar námsbrautar í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, þjóðfélagsfræðideild. Erlendis er félagsráðgjöf aðallega kennd í tengslum við háskóla, en það þekkist líka, að sérstakar stofnanir, sérháskólar, veiti þessa kennslu. Inntökuskilyrði á Norðurlöndum til námsins er stúdentspróf eða a.m.k stúdentspróf í ákveðnum námsgreinum, og lágmarksaldur við inntöku í skólann er 19 ár. Námstilhögun er með líku sniði í skólunum á Norðurlöndum, og er námstíminn þar yfirleitt 31/2 ár, og er námið samfellt allt árið. Námið skiptist í verklegt og bóklegt nám, og nær bóklega námið yfir um það bil 2/3 hluta af námstímanum eða um 21/2 ár. Meðal námsgreina, sem kenndar eru, eru lögfræði, þar með talin stjórnlagafræði, stjórnmálasaga, þjóðhagfræði ásamt félagsmálafræði, félagsfræði og svo að sjálfsögðu sálarfræði.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, er það mat heilbr.- og trmrn., að þörf sé orðin fyrir lögvernd hér á landi, bæði á starfa og starfsheiti félagsráðgjafa, og því ber að setja löggjöf í þá veru, sem hér er lagt til.

Um frv. í heild er það að segja, að það er að stofni til sniðið eftir hliðstæðum lögum, og má þar t.d. nefna nýsett hjúkrunarlög, læknalög, lög um sjúkraþjálfa svo og lög um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir og reglugerð um meinatækna, sem sett var á s.l. ári með stoð í þeim lögum. Ég sé ekki ástæðu til að fjalla um einstakar greinar frv. á þessu stigi, en leyfi mér að vísa til aths., sem frv. fylgja, og legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.