06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

355. mál, lánsfé til byggingar leiguhúsnæðis

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér inn í hinar almennu umr. um húsnæðismál, sem hér hafa farið fram. En það er eitt atriði, sem ég tel nauðsynlegt að verði upplýst fyrir hv. þingheimi, vegna þess að hér hefur verið bryddað á því og einnig í útvarpsumr. nú fyrir skömmu. Var sérstaklega deilt á fyrrv. ríkisstj. fyrir það, að umræddar Breiðholtsíbúðir hefðu verið byggðar hér í Reykjavík. Nú vita allir þm. betur, hver tók þá ákvörðun. Þetta voru samningar milli verkalýðssamtaka og vinnuveitenda, og þeim óskum var beint til ríkisstj. Það var því hér spursmálið um það að standa við gerða samninga verkalýðssamtaka og vinnuveitenda, hvort í þessar framkvæmdir yrði ráðist. Þetta er nauðsynlegt, að þingheimur viti.