05.04.1974
Neðri deild: 102. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3563 í B-deild Alþingistíðinda. (3176)

146. mál, kaupstaðarréttindi til handa Eskifjarðarhreppi

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti.

Þetta frv. um kaupstaðarréttindi til handa Eskifjarðarhreppi er komið frá hv. Ed. og er sama eðlis og þau önnur frv. þrjú, sem hér hafa verið afgr. frá þessari d. til Ed. um kaupstaðarréttindi til handa öðrum stöðum. Félmn. fjallaði um þetta frv. á einum fundi og mælti með, að það yrði samþykkt með einni breyt., sem sé, að fyrir orðin „alþingiskjördæmi Austurlands“ komi: Austurlandskjördæmi. — Okkur þótti rétt að gera þessa leiðréttingu á frv., þó að það sé aðeins orðalagsbreyting, af því að í stjórnarskránni heitir kjördæmið Austurlandskjördæmi, en ekki alþingiskjördæmi Austurlands. Þá er frv. afgr. með sama hætti og hin önnur frv., sem ég áðan vék að.

Þannig breytt leggur n. til, að frv. verði samþykkt.