05.04.1974
Neðri deild: 102. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3564 í B-deild Alþingistíðinda. (3180)

210. mál, umferðarlög

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þetta mál er hér til 2. umr., og lagt hefur verið fram nál. frá hv. allshn., þar sem kemur fram, að n. mælir með því, að frv. sé samþykkt eins og það liggur fyrir eftir afgreiðslu frá Ed.

Hér er um að ræða frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, sem lagt er fram af hæstv. ríkisstj. En svo brá við í hv. Ed., að við meðferð þeirrar hv. d. á frv. var fellt niður ákvæði í 2, gr. frv., sem lýtur að ákveðnu gjaldi, sem renna skal til Umferðarráðs og starfsemi þess. Ég vildi við þessa umr. vekja athygli á því, hvað hér er um að ræða, því að ég álít, að ekki sé heppilegt að fella þetta ákvæði niður, og mér þykir líklegt, að hv. þm. hafi ekki gert sér grein fyrir því, í hverju þessi breyt. er raunverulega fólgin, þar sem frv. hefur ekki verið hér til meðferðar öðruvísi en það liggur fyrir eftir afgreiðslu í Ed.

Í 2. gr. frv., eins og það var lagt fyrir af hæstv. ríkisstj., segir með leyfi forseta: „Vátryggingarfélög þau, sem fengið hafa viðurkenningu samkv. 70. gr., skulu greiða 11/2% af iðgjaldatekjum þeirra vegna lögboðinna ábyrgðartrygginga ökutækja til umferðarslysavarna, er renni til Umferðarráðs. Skulu framlög þessi greidd ársfjórðungslega og miðast við iðgjaldatekjur ársins á undan. Endanlegt uppgjör fer fram, þegar ársreikningar hvers félags liggja fyrir. Það, sem á kann að vanta, til þess að þessar tekjur nægi til að standa undir rekstri Umferðarráðs, greiðist úr ríkissjóði.“

Það hefur komist nokkur reynsla á starfssemi Umferðarráðs, og ég held, að það sé samdóma álit þeirra, sem með því hafa fylgst, að sú reynsla sé góð. Umferðarráð hefur beitt sér fyrir umferðarfræðslu í skólum og hjá börnum og haldið uppi almennri umferðarfræðslu í landinu. Enn fremur hefur þetta ráð séð um slysaskráningar, og þess hlutverk er að einhverju leyti jafnframt að gera rannsóknir á tildrögum slysa í umferðinni og átta sig á, hvernig úr megi bæta.

Til þess að gera sér grein fyrir umfangi þessa máls má geta þess, að nú bera tölur það með sér, að um 100 manns verði fyrir meiri eða minni slysum í umferðinni á hverjum mánuði, og það munu vera um 700 umferðarslys á hverjum mánuði, sem eiga sér stað í landinu og að meðaltali látast tveir einstaklingar á mánuði af völdum slysa í umferðinni. Samkv. skýrslum frá Umferðarráði 1972 mun slysatjón það ár hafa numið tæplega 180 millj. kr. Af þessu má sjá, að hér er um að ræða mál, sem auðvitað varðar miklu fyrir alla landsmenn og er full þörf á því að reyna að koma í veg fyrir slík slys, reyna að halda uppi fræðslu um umferðina og varna því, að slys og tjón hljótist af völdum vaxandi umferðar í landinu.

Umferðarráð hefur sótt árlega, eins og eðlilegt er, um fjárveitingar til Alþ. og fengið umbeðið fé. Til marks um það má minna á, að fyrir síðustu fjárlagaafgreiðslu sótti Umferðarráð um 10 millj. kr. fjárveitingu, en sú fjárveiting er samkvæmt fjárl. nú rétt rúmlega 4 millj.

Beinn rekstur skrifstofu Umferðarráðs mun kosta rúmlega 2 millj., eða 2.4 millj., og ef ekki fæst meira fé til þessarar starfsemi í ár, hefur Umferðarráð aðeins rétt um 2 millj. til almenns starfs og til þess að halda uppi fræðslu og gegna sínu hlutverki. Það er að sjálfsögðu ankannalegt, þegar löggjafarvaldið og stjórnvöld eru búin að viðurkenna einhverja ákveðna starfsemi eins og starfsemi Umferðarráðs og setja slíkt ráð og slíka skrifstofu á stofn, að þá er það ankannalegt, ef ekki er síðan gert ráð fyrir því, að þessi stofnun, þessi skrifstofa fái neitt fé til að annast sitt hlutverk.

Eftir því sem ég hef getað fengið upplýst, hefur starfsemi Umferðarráðs miðast fyrst og fremst við almenna umferðarfræðslu meðal barna og unglinga. En það er nauðsynlegt jafnframt að reyna að leiða þessa fræðslu meira inn í skóla og veita miklu almennari upplýsingar um umferð og varnir gegn slysum og tjónum í umferðinni. Enn fremur hefur ekki verið unnt fyrir Umferðarráð vegna fjárskorts að gegna því hlutverki til hlítar, sem lýtur að slysaskráningu og rannsóknum á slysum.

Samkv. till., sem fólst í frv. eins og það lá fyrir upphaflega, var gert ráð fyrir því, að vátryggingarfélög greiði 11/2% af iðgjaldatekjum sínum til umferðarslysavarna eða til Umferðarráðs, en eins og frv. liggur fyrir í dag, er gert ráð fyrir því, að þetta gjald falli niður. Hér er um að ræða aðferð, sem er hliðstæð því, sem þekkist á öðrum sviðum slysavarna á Íslandi og í öðrum löndum. Það má geta þess, að undir rekstri Brunamálastofnunar er staðið með sama hætti, þ.e.a.s. ákveðinn hluti af iðgjaldatekjum tryggingafélaga rennur til Brunamálastofnunar, og þannig fær hún fé til starfsemi sinnar. Í öðrum löndum er það líka viðtekin venja, að hluti af iðgjaldatekjum sé látið renna til umferðarslysavarna. Hér er því um eðlileg vinnubrögð og eðlilega till. að ræða.

Það hefur komið fram hér á þingi, eins og glöggt má sjá á frv., eins og það liggur fyrir núna, að alþm. virðast vera á móti mörkuðum tekjustofnum, eins og frv. gerði ráð fyrir upphaflega, og mér skilst, að það sé meginforsendan fyrir því, að ákvæðið er fellt niður úr lögunum. í stað þess hafa menn lagt til, að fjár til umferðarslysavarna sé aflað með því að taka fé af almennum fjárl. En þessu er til að svara, að auðvitað þýðir það, ef á að taka fé af fjárl., að fólk verður að borga hærri skatta, það verður að hækka skatta til að standa undir fjárl., og eftir því sem fjárveitingar hækka til umferðar slysavarna á fjárl., þá verður auðvitað að afla meiri tekna fyrir ríkissjóð. Hér er því um að ræða engan eðlismun, heldur spurningu um aðferð við það, hvernig þessa fjár er aflað. Að mínu viti er miklu hyggilegra að taka þennan skatt með þeim hætti, sem frv. gerði ráð fyrir upphaflega, þ.e.a.s. með óbeinum skatti, þar sem lagt er á þá, sem í umferðinni eru, að greiða ákveðinn hluta til þessarar starfsemi. Út af fyrir sig er það mjög eðlilegt að fjárins sé aflað með því, að það fólk, sem nýtur þjónustu, nýtur vegagerðar, trygginga og almennrar umferðarfræðslu, greiði hlut í þessari starfsemi. Þess vegna get ég ekki séð nein rök fyrir því að fella þetta ákvæði niður úr frv. Þvert á móti held ég, að það eigi að vera stefna okkar hér í þinginu að reyna að lækka fjárl. eða draga úr þeirri tilhneigingu að setja allt inn á fjárl., en einmitt að marka fleiri tekjustofna með þessum hætti.

Það má líka taka til athugunar, að undanfarin ár hefur Umferðarráð þurft að leita til fjárveitingavaldsins um fjárveitingar, en því miður hafa undirtektir ekki verið góðar og í ljós hefur komið, að fjárveitingavaldið eða Alþ. hefur ekki haft skilning á þessari starfsemi og skorið fjárveitingar mjög við nögl. Þess vegna hefur ná verið leitað þessa ráðs, að marka þennan tekjustofn í umferðarlögum og ég er því mjög hlynntur, að það ákvæði nái fram að ganga.

Af þessum sökum hef ég leyft mér að bera hér fram brtt. við frv., eins og það liggur fyrir nú. Brtt. er orðrétt 2. gr. frv., eins og það var upphaflega borið fram af hæstv. forsrh. eða dómsmrh. Hæstv, ráðh. fylgdi þessu máli úr hlaði með nokkrum orðum í hv. Ed. og færði sterk rök fyrir því, að þetta ákvæði væri í frv., og ég vitna til þeirra orða. Ég treysti því, að hv. þd. hafi á þessu máli skilning, að hún greiði atkv. þessari till., sem er orðrétt till. hæstv. dómsmrh. í upphafi þessa máls.