05.04.1974
Sameinað þing: 74. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3578 í B-deild Alþingistíðinda. (3188)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs fyrir nokkru, af því að mér þótti sú skýrsla, sem hæstv. forsrh. hefur gefið fyrir hönd utanrrn., dálitið forvitnileg. Ég ætlaði mér að spyrjast fyrir um einn þátt þessarar skýrslu.

Nú hefur það gerst, að með ráðherrasérréttindum hefur hæstv. sjútvrh, fengið orðið á undan mér, og ég þarf í raun og veru ekkert að gera nema draga gylltan ramma í kringum þessa ræðu, sem hans excellence, ambassador austur-þýskra togara hefur flutt hér á Alþ. Ég hef aldrei heyrt aðra eins varnarræðu fyrir erlenda hagsmuni, sem eru algerlega andstæðir íslenskum hagsmunum, og þá sem hæstv. ráðh. flutti. Mér þykir ánægja að því, að hann skyldi þó hafa svo mikla sektartilfinningu að standa sjálfur upp, áður en hann var kallaður upp, þannig að það sé hægt að tala við þann mann, sem þarf að tala við út af þessu máli, en ekki að niðast á forsrh., sem hefur sjálfsagt nógar áhyggjur, þó að þetta bætist ekki við þær.

Það var í ræðu og skýrslu forsrh., að leitað hafi verið umsagnar sjútvrn, og rn. hafði samþykkt það, sem gerst hefur, og þykir mér það forvitnilegt. Nú erum við búnir að heyra skýringarnar, sem ég ætlaði mér raunar að kalla eftir. Og hverjar eru þær? Hverjar eru skýringarnar? Jú, þetta eru ágætir vinir okkar. Við getum ekki sagt nei við þá. Það kann að vera rétt. Utanrrh. hefði getað sagt það. Hann verður að skipta við alla, Portúgali, Kínverja og allt þar á milli. Sjútvrh. þarf ekki að hugsa um slíkt. Hann getur hugsað um íslenska sjávarútvegshagsmuni. Það er alveg óskiljanlegt, að sjútvrn. skuli hafa veitt samþykki sitt til þess, að Íslendingar stigi þetta skref til þess að aðstoða þá, sem veiða á úthöfunum. Mér skilst, að hann og sérfræðingar hans séu óþreytandi í því að segja okkur, að fiskurinn viti ekki, hvar landhelgin er, hann syndi fram og aftur. Við vitum, að stórir stofnar, eins og Grænlandsþorskurinn o.fl., synda fram og aftur og eru ekki hér við strendur.

Sú afsökun, að hin austur-þýsku skip, sem eiga að fá þessa sérstöku aðstöðu hér á landi, veiði ekki hjá okkur, heldur annars staðar, er fyrir neðan allar hellur. Við erum, á sama tíma og við veitum þetta leyfi, að leita eftir aðstoð og stuðningi Kanadamanna við 200 mílna hugmyndina á þeim ráðstefnum, sem hefjast nú í sumar. Nú sendum við þeim þá kveðju sjútvrh. Íslands: Allt í lagi að Interflug lendi hér með sýnar Iliushin-flugvélar til að skipta um á flotanum, sem veiðir við Kanada. –

Það er að vísu kvótaskipting í fiskveiðum þar, ég veit það vel, en það er ekki alveg öruggt mál, að allir veiði alltaf sinn kvóta. Við erum að hjálpa til þess að tryggja, að það verði austurþýskir sjómenn, sem veiða sinn kvóta alveg að fullu. Það getur vel verið, að það séu fátækir sjómenn á ströndum Nýfundnalands, sem verði fyrir barðinu á þessari stefnu íslenska sjútvrh., en það er augljóst, að þetta er hans mál, það er hann, sem hefur barið það í gegn. Það eina, sem er hægt að þakka honum, er, að hann skyldi þó hafa taugar til að standa upp og standa fyrir máli sínu.

Það má deila um útlend skip, og við eigum ýmis vandamál óleyst varðandi þau, eins og það, hvaða hlunnindi við veitum þeim, sem eru búnir að veiða við strendur okkar árum saman. Er ekki rétt fyrir sjútvrh. að hneykslast á þessu, heldur ætti hann frekar að hafa frumkvæði um að flytja till. um að breyta því, hvaða hlunnindi erlendar þjóðir, sem veiða við strendur Íslands, fá hér á landi. Hver annar á að hafa forustu um það? Í staðinn stendur hann hér upp á Alþ. og notar þennan gamla vanda, sem við þurfum að leysa, sem afsökun fyrir því, að við verðum bækistöð fyrir austur-þýska togara, sem veiða við strendur Kanada. Ég hef haldið, að það væri orðið mönnum ljóst, að heimshöfin eru ekki stærri en svo, að við höfum ekki ráð á því að tala um Kanada eins og eitthvað, sem er okkur óviðkomandi, þetta er allt samtengt, og síst af öllu ættum við að gera neitt, sem gæti orðið til að styggja vinsamlegar þjóðir. Kanadamenn eru að vísu ekki eins ákveðnir og harðir í landhelgismálunum og við viljum hafa þá. En þeir eru þó hjálplegir og hafa tilhneigingu til þess að vera með 210 mílna málinu og geta haft þar mikil áhrif. Við eigum ekki að styggja þá með því að sýna ónauðsynlega kurteisi við íhaldssömustu þjóðir veraldar í landhelgismálum, sem eru austurblokkarríkin, ásamt ríkjum eins og Japan og kannske Bretlandi. Þessar þjóðir eru okkar höfuðandstæðingar í þeim átökum, sem eru fram undan. Við ættum að hafa vit á því að gera ekki óþarfa hluti til að spilla fyrir okkar eigin málstað. Ef utanrrn., sem verður, eins og ég hef áður sagt, að skipta við alla, hverjir sem eru, hefur tilhneigingu til að vera greiðasamt við Austur-Þjóðverja, sem liggur nú raunar ekki fyrir, þá er ekki til of mikils ætlast, að landhelgisþjóðhetjan okkar standi sig einu sinni.