05.04.1974
Sameinað þing: 74. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3583 í B-deild Alþingistíðinda. (3192)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að fara að tilmælum forseta og miða orð mín við það, að aðrir hafi ekki ástæðu til að svara því, sem ég tek hér fram.

En ég vildi í fyrsta lagi segja það, að samkv. þeim upplýsingum, sem ráðuneytisstjóri utanrrn. gaf utanrmn. í morgun, er hér ekki um að ræða eingöngu fiskveiðar austur-þýskra togara við Newfoundland eða Kanada, heldur og við Norður-Noreg. Það var skýrt tekið fram af ráðuneytisstjóranum, og hann bar fyrir sig sem heimild þýska sendifulltrúann hér í Reykjavík.

Í öðru lagi er það staðreynd, að þjónustan við erlend fiskiskip er nú takmörkuð við það, að þau fá aðeins vistir og olíu til heimferðar. Það eru núverandi skilyrði, sem miða her við, þegar dæma skal um, hvort hér er tekin upp ný stefna. Og það er bersýnilegt, að það er tekin upp ný stefna miðað við þessi skilyrði. En jafnvel miðað við þau skilyrði, sem rýmst hafa verið varðandi þjónustu við erlend fiskiskip, er hér tekin upp ný stefna að leyfa áhafnaskipti.

Í þriðja lagi er málið svo illa upplýst hér, að áhöld eru um það, hve stór þessi skip eru. Það skiptir þó kannske ekki höfuðmáli. Stór eru þau alla vega, vegna þess að hæstv. sjútvrh. segir, að skipta skuli um allverulegan hluta skipshafna, og það eru 85 manns, þ.e.a.s. skipin hafa stærri áhöfn en 85 manns. Af því má draga þá ályktun, að hér sé um mjög stór fiskiskip að ræða.

Ég vil einnig taka fram, að það skýtur skökku við úr munni viðskrh, að gera lítið úr þeim hagsmunum, sem t.d. flugfélögin hafa, ef flugsamgöngur eru af þeim teknar, sem eru bundnar skiptum á einstaka áhafnameðlimum. Ég held þó, að aðalatriðið sé, að það mundi enginn leggja í það að skipta á áhöfnum svo stórra skipa með svo stórri áhöfn með farþegaflugvélum.

Þá vildi ég leiðrétta hæstv. sjútvrh. Austur-Þjóðverjar hafa alls ekki viðurkennt 50 mílna fiskveiðilögsögu okkar, og þeir eiga þess vegna ekki nein laun skilið fyrir að hafa viðurkennt okkar 50 mílna fiskveiðilögsögu. Þeir hafa þvert á móti verið í hópi þeirra ríkja, sem hafa algerlega mótmælt 50 mílna fiskveiðilögsögu okkar. Það hefði kannske verið tækifæri til þess að fá þá nú til að ganga inn á að viðurkenna 50 mílurnar. En það er alla vega engin ástæða til þess að gera þeim sérstakan greiða fyrir það, sem þeir ekki hafa gert.

Austur-Þjóðverjar hafa, að því er ég hef fregnir af, gefið litlar eða ófullnægjandi upplýsingar um aflamagn sitt á Islandsmiðum. Af skýrslum, sem ég hef séð, er þetta aflamagn á síðasta áratug frá 2 þús. tonna í 20–25 þús. tonn á ári. Það er lítil fórn fyrir þessa þjóð að hverfa út fyrir 50 mílna fiskveiðilögsögu, þar sem hluti af þessum afla er áreiðanlega fenginn utan fiskveiðilögsögunnar hvort sem er. En á hitt er að líta, að við höfum enga tryggingu fyrir því, að þau fiskveiðiskip, sem skipta um áhafnir hér á Íslandi, veiði ekki á leiðinni að og frá fiskimiðum við Norður-Noreg, Kanada eða Bandaríkin.

Hæstv. ráðh. taldi, að áhyggjur mínar væru bundnar við Keflavíkurflugvöll. Ég skal taka það skýrt fram, að áhyggjur mínar eru að hluta til bundnar öryggishagsmunum Íslands. Ég álít, að í þessu máli hafi hvort tveggja í senn verið brotið í bága við fiskveiðihagsmuni Íslands og öryggishagsmuni landsins.