05.04.1974
Sameinað þing: 74. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3584 í B-deild Alþingistíðinda. (3193)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég held, að það liggi nú ljóst fyrir, að hér hefur verið reynt að gera úlfalda úr mýflugu. Ég held, að það geti ekki skipt verulegu máli fyrir fiskveiðar okkar Íslendinga, þó að það sé leyft þrisvar sinnum að skipta um áhafnir með þessum hætti. Ég vil enn fremur segja það, að ég held, að það hafi enginn talað um þrjú skip í þessu sambandi. Hér hefur aðeins verið talað um þrjár flugvélar, og það eru þrjár lendingar, sem um er að ræða. Hitt veit ég ekki um, af því að ég hef ekki fjallað það mikið um þetta mál, hvort skipin eru fleiri eða færri. (GH: Það eru veiðiferðirnar, sem skipta máli.) Það getur vel verið, að það sé um fleiri skip að ræða heldur en þrjú.

Í öðru lagi vil ég taka það fram út af því, sem sagt var hér áðan, að ábendingar og gagnrýni, sem fram komu á utanrmn: fundi, hafa alls engin áhrif haft á það, hvernig það bréf var orðað og leyfi var orðað, sem veitt var, því að það var gefið út áður, og þar er það tekið skýrt fram, að þarna sé um undantekningu að ræða og þetta sé því ekki neitt vilyrði um, að slíkt eigi sér stað aftur. Það er algerlega til komið án nokkurs atbeina frá þeirra hálfu.

Í þriðja lagi vil ég taka það fram að gefnu tilefni að nokkru leyti af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði síðast, að Keflavíkurflugvöllur er opinn flugvöllur, og það kemur að mínu mati ekki til greina að gera, að því er hann varðar, upp á milli austantjaldslanda og vestantjaldslanda eða hvaða nöfn sem menn vilja nú um það hafa.