05.04.1974
Efri deild: 100. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3586 í B-deild Alþingistíðinda. (3208)

177. mál, undirbúningsfélag fiskkassaverksmiðju

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið til hv. Ed. frá Nd., þar sem það var samþ. einróma í þeirri mynd, sem það var lagt fram. Þegar það var upphaflega lagt fyrir hér á þingi, gerði ég allýtarlega grein fyrir því í framsögu, og hún er tiltæk prentuð hjá öllum þm., þannig að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þær röksemdir, sem þar voru fluttar.

Efni frv. er það, að ríkisstj. beiti sér fyrir því, að stofnað verði undirbúningshlutafélag, sem hafi það markmið að kanna hagkvæmni og aðstæður til að koma á fót op reka verksmiðju til að framleiða fiskkassa, flutningskassa og aðrar sambærilegar vörur úr plasti og stuðla að því, að slíkt fyrirtæki verði stofnað. Menn þekkja þetta fyrirkomulag. Alþ. hefur beitt því oftar en einu sinni, og við höfum reynslu af því, að þessir starfshættir geta verið hagkvæmir, og hér eru þrædd hliðstæð lagafyrirmæli og áður eru kunn. Undantekning er sú, að hér er ekki gert ráð fyrir því, að ríkið þurfi að eiga meiri hl. í þessu fyrirtæki. Ríkið á aðeins að beita sér fyrir því, að það verði stofnað, og í annan stað verði ríkisstj. heimilað að leggja fram 10 millj. kr. sem hlutafé í þessu undirbúningsfélagi.

Mér er það mikið í mun, að þetta frv. gæti orðið að lögum á þessu þingi. Ég held, að um það sé enginn ágreiningur. En endanlegar ákvarðanir um stofnun slíkrar verksmiðju, ef undirbúningsfélagið kemst að þeirri niðurstöðu, að hún sé hagkvæm, munu að sjálfsögðu verða lagðar fyrir Alþ. á sínum tíma.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.