05.04.1974
Efri deild: 101. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3588 í B-deild Alþingistíðinda. (3214)

308. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Jón Árnason:

Herra forseti. Þessi frv. eru svo ný af nálinni, að ég hef ekki haft tækifæri til að kynna mér þau. Má segja, að þau séu ekki efnislega svo mikil, að það tæki langan tíma að gera sér grein fyrir því, hvað hér er um að ræða. Ég vil þó segja nokkur orð þegar við 1. umr., áður en málið fer til n., og þá sérstaklega með tilliti til þess, að ég á ekki sæti í þeirri n., sem gert er ráð fyrir, að fái mál þetta til meðferðar.

Ég tel mjög hæpið, eins og lagt er til í 1. gr., að leggja á lagmetisiðnaðinn viðbótargjald við það, sem nú er, og það þurfi til að koma, til þess að hann fái aðgang að stofnlánasjóði eins og aðrir atvinnuvegir í landinu. Ég tel slíkt óeðlilegt, enda þótt umræddur skattur fari í iðnþróunarsjóð.

Það er gott fyrir hvaða atvinnuveg sem er að hafa aðgang að einhverjum þróunarsjóði með lán eða styrki. En viðkomandi verður að vera aflögufær til þess að geta byggt upp þann sjóð, sem um er að ræða, með eigin framlögum, og ég tel, að lagmetisiðnaðurinn sé alls ekki þannig staddur í dag. Ég tel því, að það lengsta, sem hægt sé að ganga í þessum efnum, sé að gjöldin á lagmetisiðnaðinn verði ekki hækkuð frá því sem er, þannig að framlög lagmetisiðnaðarins í útflutningsgjöldum og til aflatryggingasjóðsins verði lækkuð sem nemur gjaldinu til Iðnlánasjóðs. (Heilbr: og trmrh.: Það felst í öðru frv.) En það er þó tekið fram hérna sérstaklega, að þessar greiðslur haldi áfram. (Heilbr.- og trmrh.: Í þróunarsjóðinn.) Já, í þróunarsjóðinn, og það á að ganga áfram þangað til 1977.

Í sambandi við þá fyrirgreiðslu, sem niðursuðuiðnaðurinn hefur haft hjá Iðnlánasjóði, þá er vitað, að hún er mjög takmörkuð og varla hægt að tala um hana sem fyrirgreiðslu sem nokkru nemur. Af eðlilegum ástæðum hefur þar oftast verið sama viðbáran, að það sé ekki fjármagn fyrir hendi. Nú vil ég spyrja hæstv, iðnrh., hvort hann muni gera sérstakar ráðstafanir til að útvega sjóðnum viðbótarfjármagn, um leið og sjóðurinn tekur þessar kvaðir á sig. Ef þetta frv. á ekki að vera orðin ein, hlýtur það að kalla á aukið fjármagn, svo sjóðurinn geti komið að veralegu gagni fyrir þennan atvinnuveg.

Ég óska eftir að fá upplýsingar hjá hæstv. iðnrh, um, hvort hér verður um eitthvert átak að ræða í þessum efnum eða ekki.