06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

357. mál, framkvæmdir Vegagerðar ríkisins

Fyrirspyrjandi (Helgi Fr. Seljan) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. samgrh., er varðar Vegagerð ríkisins og framkvæmdir hennar. Oft heyrist, að Vegagerð ríkisins hafi ekki yfir að ráða nógu góðum og hentugum vélakosti, og gildir það jafnt um tæki til venjulegs viðhalds vega og til stærri verkefna. Geta vissulega ýmsar ástæður legið til þessa ástands, ef rétt er. Vegagerðin hefur við það mörg ólík verkefni að glíma, að það eitt hlýtur að kalla á fjölbreytni í vinnuvélum. Verksviðið eykst stöðugt, ný tækni ryður sér til rúms, umfang framkvæmda verður meira með ári hverju. Því er von, að ýmsum leiki forvitni á að vita, hvernig Vegagerð ríkisins er í stakk búin til að sinna æ fjölþættari og umfangsmeiri verkefnum, og þá eins hitt, hvort hlutur ýmissa verktaka fari vaxandi í framkvæmdunum. Ég hef ekkert við það að athuga, að ýmis stórverkefni séu boðin út, m. a. ef vera mætti að þau fengjust þá unnin á hagkvæmari og e. t. v. ódýrari hátt en annars væri og það þá tryggt, að útboðsaðili yrði að standa við tilboð sitt í hverju eðlilegu tilfelli. Hins vegar álít ég rétt, að Vegagerð ríkisins eigi á hverjum tíma að hafa möguleika til þess að sjá um velflest verkefni sín og hafa yfir tækjakosti að ráða, sem sé í sem fyllstu samræmi við þau fjölbreyttu viðfangsefni, sem Vegagerð ríkisins fæst við. Einnig langar mig að vita nokkru nánar um þau hlutföll, sem í dag eru ríkjandi varðandi hin einstöku verkefni Vegagerðar ríkisins, og eins hvort ekki sé stefnt að því að auka sem mest eigin tækjastofn Vegagerðar ríkisins, svo að hún verði sem best fær um að leysa sitt mikilvæga hlutverk á sem hagkvæmastan hátt.

Því er spurt:

„Hve mikill hluti af heildarframkvæmdum Vegagerðar ríkisins er unninn: a) af Vegagerðinni með eigin vélakosti, b) af Vegagerðinni með leigðum vélakosti, c) af verktökum?“

Og í öðru lagi: „Er stefnt að aukinni vélvæðingu Vegagerðarinnar sjálfrar til að annast meiri háttar verkefni?“