06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

357. mál, framkvæmdir Vegagerðar ríkisins

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Fyrri liður fsp. hv. 6. landsk. þm. er um það, hve mikill hluti af heildarframkvæmdum Vegagerðar ríkisins sé unninn: a) af Vegagerðinni með eigin vélakosti, b) af Vegagerðinni með leigðum vélakosti, c) af verktökum.

Svar mitt við þessu, sem ég hef samið með aðstoð vegamálastjóra, er í fyrsta lagi varðandi a- og h-lið fsp.: Á árinu 1972 var hlutur vinnuvéla í allri vegagerð, sem unnin var af Vegagerð ríkisins, um 325 millj. kr. Skiptist þessi upphæð þannig, að 53% hennar voru greiddar fyrir leiguvélar, en 47% fyrir eigin vélar. Verði bifreiðanotkun tekin með, en eins og kunnugt er er fyrst og fremst um leigubifreiðar að ræða, verða hlutföllin 69% og 31% í sömu röð. Þessi hlutföll verða allt önnur, ef athuguð er skipting milli einstakra hópa vinnuvéla. Kemur þá t. d. í ljós, að 90% af jarðýtuvinnu eru unnin af leiguvélum, en 30% af ámokstri, en um 85% af öllum akstri fara fram á leigubifreiðum.

Varðandi c-lið fsp.: Á árinu 1972 var hlutur verktaka í vegagerð 362.6 millj. kr. og álíka árið áður. Sé þessi upphæð borin saman við alla vegavinnu á árinu 1972, og er þá átt við nýbyggingar, brúargerðir og viðhald á þjóðvegum, sýsluvegum og fjallvegum, sést, að hér er um 26% allrar vinnu að ræða, sem unnin er af verktökum. Sú vegagerð, sem unnin er af verktökum, var á Suðurlandsvegi milli Reykjavíkur og Selfoss, Vesturlandsvegi á leiðinni Reykjavík-Kollafjörður, Norðurlandsvegi sunnan Akureyrar, Ólafsfjarðarvegi um og norðan Fagraskógar, Austurlandsvegi í Jökuldal og Berufjarðarströnd og á Norðfjarðarvegi í Oddsskarði, auk smærri verka.

Í öðru lagi er spurt: „Er stefnt að aukinni vélvæðingu Vegagerðarinnar sjálfrar til að annast meiri háttar verkefni?“ Svar við því er, að það hefur verið stefna Vegagerðarinnar í vélakaupum að eignast fyrst og fremst þær vinnuvélar, sem ekki fást leigðar á frjálsum markaði, og þá helst tæki, sem nauðsynleg eru til viðhalds vega, svo sem veghefla, mulningsvélar, ámokstursvélar, snjómoksturstæki o. s. frv. Tæki þessi fullnýtast flest við nýbyggingavinnu. Um önnur tæki hefur síður verið að ræða af því takmarkaða fé, sem Vegagerðin hefur fengið og fjárveitingavaldið hefur veitt til þessara hluta.

Gert er ráð fyrir að fylgja svipaðri stefnu, fyrst og fremst að auka við þann tækjakost, sem er nauðsynlegur til viðhalds vega, eftir því sem sú þjónusta vex, en láta kaup þeirra tækja fremur sitja á hakanum, sem fást leigð af ræktunarsamböndum og öðrum vinnuvélaeigendum, meðan það þykir hagkvæmt og að svo miklu leyti sem hægt er. Verktakar, sem hafa unnið að stórum verkefnum fyrir Vegagerðina á undanförnum árum, hafa aflað sér kunnáttu og tækjakosts, sem er eðlilegt að nota eftir föngum og eftir því sem hagkvæmt er, og hefur ekki verið talið eðlilegt að hálfu Vegagerðarinnar að bæta við sig starfsfólki og vélum, sem þeirri vinnu nemur, eins og á stendur.