17.04.1974
Efri deild: 103. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3594 í B-deild Alþingistíðinda. (3248)

306. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég flyt frv. á þskj. 672 ásamt hv. þm. Jóni Árnasyni og Oddi ólafssyni. Þetta frv. er um breyt. á l. um Fiskveiðasjóð Íslands.

Fiskveiðasjóður Íslands hefur um langt árabil gegnt einu þýðingarmesta hlutverki nokkurrar stofnunar í þágu sjávarútvegsins. Það er óþarft að kynna starfsemi Fiskveiðasjóðsins, vegna þess að hún er svo alkunnug. Í lögum um Fiskveiðasjóð er nú kveðið svo á, að hlutverk þessa sjóðs sé að efla framleiðslu og framleiðni í fiskveiðum, fiskiðnaði og skyldri starfsemi. Þetta skal gert með því að veita stofnlán gegn veði í fiskiskipum, vinnslustöðvum, vélum og mannvirkjum, sem að dómi sjóðsstjórnar eru í þágu sjávarútvegsins, þ. á m, skipasmíðastöðvum, dráttarbrautum, viðgerðarverkstæðum og verbúðum.

Af þessari upptalningu má marka, hve mikilvægu og víðtæku hlutverki Fiskveiðasjóður hefur að gegna. Það fer ekki heldur á milli mála, að í framkvæmd hefur Fiskveiðasjóður grundvallarþýðingu fyrir uppbyggingu sjávarútvegsins, og svo hefur raunar verið allt frá stofnun sjóðsins, en hann á sér langa og merka sögu, eins og kunnugt er.

Hins vegar hefur nokkuð skort á starfsemi Fiskveiðasjóðs. Það varðar einn þátt lánamála sjávarútvegsins. Þessi þáttur lánamála sjávarútvegsins verður ekki talinn veigalítill. Og þessu frv. er ætlað að bæta hér úr.

Meginverkefni Fiskveiðasjóðs er að veita lán til fiskiskipa. Í framkvæmd er það svo, að lánveitingar þessar hafa verið bundnar við ný fiskiskip. Lög um Fiskveiðasjóð hafa verið skilin svo, að sjóðurinn hafi ekki heimild til lánveitinga nema til nýsmíða og endurbyggingar skipa. Lán til eldri skipa hafa því verið útilokuð. En það er einmitt á vettvangi eldri skipanna, sem skort hefur á í starfsemi Fiskveiðasjóðs. Þetta ástand hefur lengi valdið erfiðleikum, og nú er svo komið, að lengur verður ekki unað við óbreytt ástand í þessum efnum.

Eigendaskipti á fiskiskipum eru ekki ótíðari en á sér stað um aðrar eignir manna, nema síður sé. Á öllum tímum eru tíð eigendaskipti á fiskiskipum, og leiðir þetta af síbreytilegum aðstæðum, sem fylgja jafnan veiðiskap, í hvaða mynd sem er. Sérstaklega á þetta við á tímum þeim, sem nú eru, þegar miklar umbyltingar eru í sjávarútvegi. Í því sambandi er nærtækast að benda á tilkomu skuttogaranna. Mörg byggðarlög, sem fengið hafa skuttogara, hafa ekki þörf eða tök á að hagnýta þau fiskiskip, sem fyrir voru. Eigendur hinna eldri skipa vilja þá selja þau af þessum ástæðum. Hér getur verið um góð og hagkvæm skip að ræða, sem þörf er á að nýta og eftirspurn er eftir úr öðrum byggðarlögum. En þá er sá hængur á, að þeir útgerðarmenn, sem gjarnan vildu kaupa þessi eldri skip, eiga erfitt með það eða eiga þess engan kost, vegna þess að Fiskveiðasjóður lánar ekki út á þau. Slíkir menn eiga þá e.t.v. ekki annars völ en að láta smíða ný skip, þar sem í því tilfelli er séð fyrir fyrirgreiðslu í lánamálum með venjulegri lánveitingu Fiskveiðasjóðs. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta mál, til að menn sjái, hve augljóst það er, að þjóðhagslega er þetta ekki hagkvæm skipan mála.

Úr þessu vandamáli verður ekki greitt, nema Fiskveiðasjóður taki upp lánveitingar til kaupa á eldri skipum. Og það er einmitt það, sem þetta frv. felur í sér.

Í 1. gr. frv. er kveðið svo á, að við 2. gr. l. komi ný málsgr., er verði 2. málsgr., svo hljóðandi :

„Enn fremur er hlutverk Fiskveiðasjóðs að veita lán til kaupenda eldri fiskiskipa. Ráðh. setur með reglugerð ákvæði um lánveitingar þessar, sbr. 11. gr.

Með því að setja þetta ákvæði inn í gildandi lög væri skýrt tekið fram, að það væri hlutverk Fiskveiðasjóðs að gegna þessari þörf í lánamálum sjávarútvegsins eigi síður en varðandi nýbyggingu fiskiskipa. Það þykir ekki rétt að setja nánari ákvæði um það í lögin sjálf, hvernig þetta skuli vera í framkvæmd, heldur er gert ráð fyrir því, að ráðh. setji með reglugerð nánari ákvæði um lánveitingar þessar. Þó kemur það fram í 2. gr. þessa frv., að þar er lagt til, að það komi viðbót við 11. gr. l. um Fiskveiðasjóð; en þessi viðbót er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Til eldri fiskiskipa mega lán nema helmingi kaupverðs eða matsverðs, þess er lægra reynist, og skulu þá meðtaldar eftirstöðvar af lánum sjóðsins, sem fyrir kunna að vera.“

Það er einmitt í 11. gr. l. um Fiskveiðasjóð, þar sem er kveðið á um, hve há lán megi vera út á ný skip. Ákvæði er um, að það skuli tekið veð í 1. veðrétti í skipum fyrir þessum lánum. Hér er gert ráð fyrir, að það sama gildi um hin nýju lán, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þ.e.a.s. um lán út á eldri skip, þau verði veitt gegn 1. veðrétti. Sá munur verði á þessum lánum og lánum til nýsmíða, að það verði ekki heimilt að veita eins há lán út á eldri skip eins og ný skip. Lán út á eldra skip er bundið við helming kaupverðs eða matsverðs, þess sem lægra reynist. Það þykir rétt að gera þennan greinarmun á nýju og gömlu. Það þykir einnig rétt, eins og fram kemur í frv. þessu, að þegar ákveðið er, hve há lánsupphæð má vera, séu meðtaldar eftirstöðvar af lánum Fiskveiðasjóðs, sem fyrir kunna að vera á viðkomandi skipi.

Þetta mál er allt einfalt í sniðum, og það þarfnast ekki nánari útskýringar, að ég hygg, en ég hef nú þegar gefið. En þó þetta mál sé einfalt í sniðum, þá er það svo eins og um marga hina einföldustu hluti, að þeir eru kannske hinir mikilvægustu. Þetta mál er ákaflega mikilvægt fyrir sjávarútveginn. Og ég leyfi mér að gera mér vonir um, að við hér í þessari hv. d. getum öll verið sammála um mikilvægi þessa máls og lagst á eitt um það, að málið fái skjóta afgreiðslu í deildinni, þannig að freista megi þess, að það fái endanlega afgreiðslu á þessu þingi.