17.04.1974
Efri deild: 103. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3596 í B-deild Alþingistíðinda. (3249)

306. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins við þessa umr. lýsa yfir afstöðu minni til þessa frv. Ég er eindregið meðmæltur frv. Ég tel, að það fjalli um efni, sem nauðsynlegt er að leysa. Það hefur lengi verið um það rætt varðandi lánareglur Fiskveiðasjóðs að breyta þeim í framkvæmd á þessa lund. Ég hef oft lýst yfir þessari skoðun minni hér á hv. Alþingi, að það bæri að vinna að þessu, og ég tel reyndar, að það sé hægt að framkvæma gildandi lög á þennan hátt. En það hefur hins vegar ekki verið nægilegur skilningur hjá þeim, sem stjórnað hafa sjóðnum, í þessa átt. En hitt skal ég játa, að það er nokkur vandi á um framkvæmd málsins. Það er vitanlega ekki geðfellt út af fyrir sig, að Fiskveiðasjóður þurfi að ráðstafa mjög miklu af sínu takmarkaða lánsfé til þess að lána í sífellu út á sömu skipin, af því að þau vilja ganga kaupum og sölum manna á milli og hækka þá gjarnan í verði, eins og menn vita, og er þá hætt við því, að Fiskveiðasjóður sé að lána margsinnis út á sama skipið og fé hans verði á þann hátt eitthvað rýrara í því skyni að vinna að því að auka við fiskiskipaflota landsmanna. En það er mikil þörf á því að greiða fyrir eðlilegum skiptum manna á milli með atvinnutæki eins og fiskiskip. Það er eðlilegt, að sumir vilji kaupa notuð skip á sama tíma og aðrir telja, að sínum högum sé þannig háttað, að þeir vilji breyta til og hverfa að því að gera út skip af allt annarri gerð eða allt annarri stærð. En eins og nú er komið, er mjög erfitt fyrir menn að selja skip sín með eðlilegum hætti vegna þess, að ekki eru möguleikar á að fá veðlán nema að svo litlu leyti í sambandi við slík eignaskipti.

Ég vildi sem sagt aðeins segja það, að ég er algjörlega samþykkur efni þessa frv. Ef þetta yrði samþykkt, er búið að slá því föstu, að reglur verða settar í þessa átt, og þá mundi stjórn sjóðsins strax fara eftir því. Það væri þá hægt að fikra sig áfram, því að frv. er þannig. Þá væri hægt að fikra sig áfram og aðeins stíga þetta í skrefum, án þess að farið yrði út í það að lána upp í 50% í öllum tilfellum. Frá minni hálfu lít ég þannig á, að það sé sjálfsagt að fara gætilega í það og verja fé sjóðsins ekki allt of mikið í það að lána þannig út á skip, að lána aðeins út á verðhækkanir til þeirra.

Ég vildi mjög gjarnan, að sú n., sem fær málið til meðferðar, greiddi fyrir þessu, og ég mun veita þessu frv. minn stuðning.