17.04.1974
Neðri deild: 107. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3598 í B-deild Alþingistíðinda. (3253)

227. mál, notkun nafnskírteina

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti, Nafnskírteinakerfið, sem verið hefur við lýði um alllangt skeið reyndist í fyrstu allgloppótt. Það kom í ljós, að hugkvæmir nafnskírteinishafar höfðu ýmis tök á því að villa á sér heimildir, svo að nafnskírteinin urðu ekki þau sönnunargögn, sérstaklega um aldur, sem til var ætlast. Í áranna rás hefur verið unnið að ýmsum endurbótum á gerð nafnskírteinanna svo að þau yrðu sem tryggust skilríki, og hefur þar allmiklu orðið áorkað, og jafnan hefur, að ég hygg, Hagstofa Íslands, sem hefur séð um útgáfu nafnskírteinanna, haft frumkvæði um endurbætur. Það frv., sem hér er komið til hv.d. á þskj. 391, er undirbúið af Hagstofunni í samráði við þá aðila, lögreglustjóra og sýslumenn, sem málið er skyldast og mest hafa af því að segja, hvernig tekst með meðferð nafnskírteina í notkun.

Það er álit hagstofustjóra, held ég að sé óhætt að segja, að með samþykkt þessa frv. sé, eftir því sem nokkur tök eru á, búið svo um hnúta, að nafnskírteini séu örugg heimild um það, sem þau eiga að sýna, og fyrir sé girt misnotkun á þessum skilríkjum. En ekki er aðeins fjallað í frv. um þær ráðstafanir, sem í þessa átt beinast og 4, gr. fjallar um, heldur einnig aðrar smávegis lagfæringar, sem reynslan þykir hafa sýnt, að séu æskilegar.

Er það fyrst, að í 1. gr. er gert ráð fyrir, að ekki sé skylt að gefa út nafnskírteini fyrr en á því aldursári, þegar unglingar fylla 14 ár. Reynslan þykir hafa sýnt, að innan við 14 ára aldur sé ekki nein knýjandi þörf á að ætlast til, að unglingarnir beri nafnskírteini. Þá er einnig 2. gr. ákvæði um, að undirskrift skuli vera á nafnskírteinunum af hálfu starfsmanna Hagstofu. Slíkt þykir gera þau trúverðugri, þegar um það er að ræða, að nafnskírteini eru notuð sem skilríki erlendis, einkum á Norðurlöndum, en það mun fara í vöxt. En meginatriði frv. eru, eins og ég sagði, í 4, gr. Þar er gert ráð fyrir, að lögreglustjóri geti ákveðið í umdæmi sínu, að nafnskírteinum skuli skipt við 18 ára aldur. Það hefur verið eitt af vandkvæðunum við notkun nafnskírteina, sem mynd fylgir, að þau eru í mestri notkun á þeim aldri, þegar útlit fólks breytist hvað örast, og það er m.a. ein röksemdin fyrir því að hækka nafnskírteinaaldurinn úr 12 árum í 14, að ef menn taka nafnskírteini með mynd 14 ára, þá er talið, að hún eigi að duga fram til 17–18 ára aldurs. En þá er nýtt breytingarskeið að baki, og því er í 4. gr. heimild til endurútgáfu nafnskírteina, og þá er kveðið svo á, að þau skírteini, sem út eru gefin fyrir eldri aldursflokkinn, skuli vera með öðrum lit en er á almennu nafnskírteinunum. Þetta er gert til þess að gera hvorn flokkinn auðþekktan frá öðrum og girða fyrir misnotkun.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að fara hér fleiri orðum um þetta frv., en legg til, að eftir þessa umr, verði því vísað til hv. allshn.