17.04.1974
Neðri deild: 107. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3599 í B-deild Alþingistíðinda. (3255)

8. mál, skólakerfi

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það hefur komið fram í umr. um þetta mál hér á hv. Alþingi og í frv. til l. um grunnskóla, að mikill ágreiningur er um þessi frv. í því formi, sem þau eru nú og hafa verið, frá því að þau voru fyrst lögð fram. Frv. það, sem hér er til umr, um skólakerfi, er að kalla má rammi um skólastarfið á því stigi þess, sem er undirstöðumenntun undir framhaldsskólanám. Frv. þetta er þess vegna miklu einfaldara í sniðum en grunnskólafrv, og færri atriði, sem ástæða er til að víkja að.

Það hefur komið fram, að þetta frv. felur í sér þau meginatriði, að gert er ráð fyrir því að lengja skólaskylduna um eitt ár og að loknu því skyldunámi séu nemendum leiðir opnar inn í framhaldsskólastigið, bæði menntaskóla og sérskóla.

Það hefur komið fram víða, að helstu kostirnir við þessa skipulagsbreytingu eru þeir, að með því væri horfið frá núverandi skipulagi, þ.e. landsprófi eða gagnfræðaprófi, sem veitti rétt til inngöngu í þessa skóla, og eins og kallað er væri brúað það bil, sem er á milli skyldunámsins og framhaldsskólanámsins. Ég skal ekki nú við 3. umr, þessa máls ræða þessi efni verulega meir en gert hefur verið, en aðeins benda á það, að enda þótt þarna sé að mínum dómi þýðingarmikið atriði að ræða, að tengja saman undirstöðumenntunina, sem hér er kölluð grunnskólanám, og framhaldsskólanámið, þá er það ekki, eftir því sem ég fæ séð, nein nauðsyn að skyldunám verði á öllu skólastiginu. Ég hef vakið athygli á því hér fyrr, að heppilegra er að taka upp fræðsluskyldu í stað skólaskyldu í efstu bekkjum grunnskóla og fræðsluskylda í efstu bekkjum grunnskóla mundi fullnægja því að brúa það bil, sem hægt er að segja, að nú sé á milli undirstöðumenntunar barna- og miðskóla- og framhaldsskólastigsins.

Á dagskrá þessa fundar í hv. d. er frv. til l. um grunnskóla, og við það frv. verður lögð fram dagskrártillaga, og fylgir henni nokkur rökstuðningur. Með hliðsjón af því, að þessi mál eru bæði samhangandi, er nauðsyn að leggja einnig fram frávísunartill. við þetta frv., sem ég vil leyfa mér að gera hér skriflega, og er þar einungis vísað í þann rökstuðning, sem fram kemur með dagskrártillögu við frv. til l. um grunnskóla. Þessi till. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta :

„Með vísun til þeirrar dagskrártill. og rökstuðnings við hana, sem lögð er fram við frv. til l um grunnskóla, leggjum við til, að frv. þessu verði vísað til ríkisstj.

Þessa till. flytja Pálmi Jónsson, Björn Pálsson, Bjarni Guðnason og Sverrir Hermannsson.