17.04.1974
Neðri deild: 107. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3600 í B-deild Alþingistíðinda. (3257)

9. mál, grunnskóli

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég vildi aðeins við þessa umr, geta þess, að ég hyggst halda til streitu þremur brtt., sem ég flutti við þetta frv. við 2. umr. og dró til baka til 3. umr. Þar er um að ræða brtt. nr. 7, 8 og 9 á þskj, 530. Brtt. þessar ganga í þá átt, að fræðslustjóri sé ráðinn af heimamönnum, samtökum þeirra, í stað þess að rn. geri það, eins og frv. gerir ráð fyrir. Í því tillöguflóði, sem til afgreiðslu var við 2. umr., þótti mér rétt að draga þessa till. til baka til 3. umr., til þess að hún fengi betri skoðun hjá hv. þm, og þeir áttuðu sig á eðli þessarar till.

Um þetta atriði varð nokkur ágreiningur meðal þeirra manna, sem áttu þátt í samningu frv., og sýndist þar sitt hverjum. Rökin, sem liggja að baki því, að menn leggja til, að fræðslustjóri sé ráðinn af samtökum heimamanna, eru fyrst og fremst þau, að það er talið eðlilegt, að fræðslustjóri, sem er framkvæmdastjóri fræðsluráða, sé ráðinn af þeim mönnum, sem hann á að starfa fyrst og fremst fyrir. Þetta er embættismaður, sem á að starfa heima í héraði fyrir heimamenn, er þeirra fulltrúi, og því ekki óeðlilegt, að hann sé ráðinn eða skipaður af þeim. Till. hnígur og í þátt að auka völd fólksins í landinu og samtaka þess.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þessa brtt., en vísa að öðru leyti í fyrri ummæli mín varðandi hana.

Ég hef enn fremur flutt brtt. ásamt hv. þm. Svövu Jakobsdóttur við sama ákvæði frv., þar sem gert er ráð fyrir því, að fræðslustjórar verði ráðnir til skamms tíma í senn, 5 ára, eins og segir í þeirri brtt. á þskj. 681. Hv. þm. Svava Jakobsdóttir hefur gert grein fyrir rökunum að baki þessarar till. Ég var efnislega samþykkur þeim og vildi láta í ljós skoðun mína og fylgi við þessa till. með því að skrifa með henni á till.

Í þessari brtt. er hins vegar gert ráð fyrir því, að rn. ráði fræðslustjórann, og lít ég svo á, að hún verði tekin til meðferðar á undan við lokaafgreiðslu, þannig að það fáist þá niðurstaða um það, hvort hv. d. er sammála því að ráða fræðslustjóra til ákveðins tíma í senn, og að þeirri till. afgreiddri er síðan tekin afstaða til þess, hvort menntmrn. eða samtök sveitarfélaga ráði fræðslustjórann, og verði þá mín till., sem ég lýsti hér áðan, tekin til meðferðar í framhaldi af till. okkar hv. þm. Svövu Jakobsdóttur.

Ég óskaði eftir því, að brtt, menntmn, yrði dregin til baka til 3. umr., sem fram kemur í till. menntmn. Reyndar óskaði ég eftir því, að tvær till. yrðu dregnar til baka, og þar er um að ræða till., sem nú eru á þskj. 687, 1. og 2. brtt.

1. brtt. er við 11. gr. og fjallar um skipun fræðsluráða. Gert er ráð fyrir því, að fræðsluráð séu skipuð 7 mönnum, 5 kjörnum af viðkomandi landshlutasamtökum, en 1 af skólastjórum og 1 af kennarasamtökum landshluta. Ég lýsti við 2. umr. andstöðu minni við þessa tilhögun, að því er varðar skipun fulltrúa skólastjóra og kennarasamtaka. Ég taldi það ekki samrýmast þeirri þróun, sem nú á sér stað, að skera á milli embættismanna og nýkjörinna manna í slíkum ráðum, og taldi, að rétti skólastjóra og kennara væri vel borgið með því, að þeir ættu þar áheyrnarfulltrúa. Hæstv. menntmrh. tók undir þessi sjónarmið og lýsti þeirri sömu skoðun, að hann teldi óeðlilegt, að skólastjórar og kennarar ættu fulla aðild að fræðsluráðum, og geri ég mér vonir um það, að tekið verði tillit til þessara sjónarmiða og að þessi brtt. verði felld, þannig að eftir standi ákvæði eins og það er í frv., skipun fræðsluráðs að öllu leyti af viðkomandi landshlutasamtökum. B- og C-liður 1, brtt, snerta þetta mál ekki, og fjalla ég því ekki um þá liði, enda var ágreiningur ekki um þá.

Önnur brtt. á þskj. 687 er við 18. gr. Þar er gert ráð fyrir því, að í kaupstöðum með 10 þús. íbúa eða fleiri fari fræðsluráð og hverfisnefndir með hlutverk skólanefndar. Gert er síðan ráð fyrir, að hverfisnefndir skuli kjósa til 4 ára í senn og verkefni hverfisnefnda skuli vera hin sömu og þau verkefni skólanefndar, sem talin eru í 19. gr. Þessari brtt. er ég andvígur, og vegna þeirra umr., sem hér fóru fram við 2. umr., vegna þeirra skoðanaskipta, sem þá áttu sér stað, vil ég aðeins ítreka þau sjónarmið, sem liggja að baki afstöðu minni. Þau eru í stórum dráttum til komin vegna þess, að þarna er gert ráð fyrir því, að stofnuð sé nefnd eða ráð, sem ekki þjónar neinum sérstökum nýjum tilgangi, tekur ekki að sér nein þau verkefni, sem ekki að þegar er farið með af öðrum aðilum, og það er mat mitt, að ef til þess verði stofnað að skipa hverfisnefndir, þá muni það leiða til tvöföldunar á kerfinu, sem sé engum til góðs, og leiða aðeins til aukinnar skriffinnsku og meiri yfirbyggingar algjörlega að óþörfu.

Ef skoðað er hlutverk skólanefndar, eins og því er lýst í 19. gr. frv., þá á skólanefnd að sjá um, að öll skólaskyld börn í skólahverfi njóti lögboðinnar fræðslu. Hún fylgist með því og stuðlar að því, að jafnan sé fyrir hendi fullnægjandi skólahúsnæði í skólahverfinu. Hér í Reykjavík hefur fræðsluráð fylgst með þessum atriðum og stuðlað að því, að fyrir hendi væri fullnægjandi skólahúsnæði í skólahverfum borgarinnar, og er ekki gott að sjá, hvernig hverfisnefndir geti haft nægilega yfirsýn yfir þörfina á nýju skólahúsnæði, hvað þá að hverfisnefndir geti áttað sig á fjármagnsþörfinni, sem þýðir það, að hverfisnefndir þurfi að hafa mikil samráð við fræðsluráð og þessir hlutir þar af leiðandi í athugun á tveimur stöðum. Hingað til hefur verið vel séð fyrir þessu hér í Reykjavík og ekki undan neinu að kvarta í þeim efnum, að svo miklu leyti sem hægt hefur verið að vinna bót á vandamálunum, og tel ég ástæðulaust að breyta því fyrirkomulagi, sem verið hefur.

Þá er gert ráð fyrir því í 19. gr., að skólanefnd skuli líta eftir, að skólinn hafi allan nauðsynlegan aðbúnað, svo sem húsnæði, skólalóð, leikvelli, kennslutæki og innanstokksmuni, og á hin í samráði við skólastjóra að sjá um, að uppfylltar séu á þessum sviðum kröfur í lögum og reglugerðum, og bera ábyrgð á, að viðhald og aukning eigi sér stað eftir þörfum. Þetta hefur jafnan verið gert af fræðsluráði hingað til og mun að sjálfsögðu verða gert áfram. Ef hverfisnefndir eiga að taka þetta hlutverk að sér, þá þýðir það að sjálfsögðu, að þær þurfa að ráða til sín starfsfólk, stofna skrifstofur og kalla til sín rekstrarfé, allt að óþörfu, einfaldlega vegna þess, að vel hefur verið séð fyrir þessu af fræðsluráði og ástæðulaust að bæta hverfisnefndunum þar við, Það er um að ræða algjöra tvöföldun á því kerfi, sem nú er í gangi og hefur reynst ágætlega.

Hv. þm. Svava Jakobsdóttir túlkaði andstöðu mína á þann veg, að ég væri að tala gegn valddreifingu, sem ég hef öðrum þræði og jafnan verið að boða m. a, hér í hv. d. Ég vil vísa þeirri ályktun á bug og vekja athygli á því, að dreifing valdsins felst einmitt í því að leyfa viðkomandi yfirvöldum í héraði að hafa nokkuð frjálsar hendur um meðferð slíkra mála, og ef við lítum aftur til Reykjavíkur, þá á auðvitað löggjöfin að vera sniðin þannig, að viðkomandi fræðsluyfirvöld hér í borg hafi svigrúm til þess að stjórna fræðslumálunum eins og þau tel,ja best á hverjum tíma, en ekki að vera að binda hendur þeirra með því að fastsetja skipan nefnda og embætta án þess að taka tillit til þeirra sjónarmiða, sem fram koma frá skólamönnum og fræðsluyfirvöldum hér í borg. Það er flestum ljóst, að fræðsluyfirvöld Reykjavíkurborgar eru mjög andvíg þessari brtt. og telja hana nánast leiða til stjórnleysis í fræðslumálum borgarinnar. Ég held, að þannig hafi verið á málum haldið hvað fræðslumál snertir hér í borg, að ekki þurfi undan því að kvarta. Fræðsluyfirvöld hér í Reykjavík hafa sýnt myndarlegt frumkvæði á þeim vettvangi, og ætti því síst að sitja á Alþingi, að reyna að hefta eða torvelda störf fræðsluyfirvalda í Reykjavík með því að binda hendur þeirra, eins og hér er gert ráð fyrir, þvert gegn vilja fræðsluyfirvalda í Reykjavík. Dreifing valdsins er vissulega aðkallandi verkefni, og mættu vera miklu snarpari átök af okkar hálfu í þó átt, en dreifing valdsins er ekki fólgin í því að binda hendur heimamanna, eins og þessi till. gerir ráð fyrir, heldur þvert á móti að veita þeim ábyrgð og aðstöðu til þess að ráða sínum málum sem mest sjálf í samræmi við þarfir hvers staðar. Um aðrar brtt, n, fjalla ég ekki, nema hvað 3. brtt., sem nú er á þskj. 687 við 29. gr., er tekin upp úr þeim brtt., sem ég lagði fram hér við 2. umr., og er ég þakklátur nefndinni fyrir að hafa tekið tillit til þeirrar breytingar, sem ég þar geri á frv., og tel hana tvímælalaust til mikilla bóta.

Við 2. umr, þessa frv. flutti ég brtt. við 1, gr. frv., sem fjallaði um lengingu skólaskyldunnar. Þar var gert ráð fyrir, að skólaskyldan yrði áfram óbreytt, og till. mín gekk út á það að taka upp ákvæði í núgildandi lögum í þetta frv. og í væntanleg lög. Þessi brtt. var felld mjög naumlega við afgreiðslu brtt. Hún var felld með 17:16 atkv., 3 hv. þm. greiddu ekki atkv. og 4 voru fjarstaddir. Það er því ljóst, að vilji hv. d. liggur á engan hátt fyrir og ekki hægt að segja, að það sé mikil stemning fyrir lengingu skólaskyldunnar. Nú er það hins vegar svo, að eftir að hv. d. hefur tekið afstöðu til þessa mikilvæga máls, lengingu skólaskyldunnar, með því að fella brtt. mína, er ekki hægt að taka það mál upp aftur nú við 3, umr. í óbreyttri mynd. Það verður að túlka það svo, að hv. d. hafi tjáð sig um það, þótt með óljósum hætti væri, að hún vildi lengingu skólaskyldunnar. Með hliðsjón af þessari afgreiðslu mun ég leyfa mér nú að flytja brtt., sem fjallar um skólaskylduna. Er þá gengið út frá því, að skólaskyldan verði 9 ár sem aðalregla, en till. mín nú miðar að því að rýmka þá möguleika í frv., sem gera ráð fyrir undanþágu frá þessari skólaskyldu, og hljóðar brtt. svo, með leyfi forseta:

„Við 1. gr. bætist ný málsgrein, svo hljóðandi: Heimilt er viðkomandi fræðsluráði að ákveða, að skyldunám skuli ná til 7–15 ára unglinga, enda samþ. menntmrn, ákvörðunina.“

M.ö.o.: í 1. málsgr. 1. gr. er sú meginregla ákveðin, að skólaskyldan skuli vera frá 7 til 16 ára aldurs, 9 ára skólaskylda, en síðan bætist við ný málsgr., þar sem viðkomandi fræðsluráðum sé heimilt að ákveða, að þessi skylda nái aðeins til 15 ára unglinga undir vissum kringumstæðum, en til þess að þessi ákvörðun sé tekin, þarf samþykki ráðuneytisins til, og með því má ætla, að fyrir það sé girt, að teknar séu óábyrgar eða lauslegar ákvarðanir í þessum efnum, og ætti þá að vera gert að mjög yfirlögðu ráði.

Ég vek athygli á því, að í frv. er möguleikar til undanþágu frá skólaskyldunni, og þær undanþágur koma fram í 5., 7. og 8. gr. frv. Skv. 5. gr. er hægt að veita undanþágu frá skólaskyldu, ef skólanefndum eða sveitarfélögum er allsendis ómögulegt að uppfylla að fullu ákvæði 1. gr., þ.e.a.s. um framkvæmd skólaskyldunnar. Ef þeim er allsendis ómögulegt að uppfylla þessi ákvæði, getur ráðuneytið ákveðið undanþágu frá þessari meginreglu. Í 7. gr. eru leyfðar undanþágur til handa börnum, sem sækja í fyrsta lagi viðurkennda einkaskóla, og í öðru lagi börnum, sem búa í skólahverfum, sem fengið hafa undanþágu samkvæmt 5. gr. Og í 8. gr. er enn undanþága, en þar segir: „Nú sækir forráðamaður skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn hluta úr skólaári og færir fram knýjandi ástæður. Skal þá leitað umsagnar skólastjóra og skólanefndar, og mæli þeir aðilar samhljóða með umsókninni, getur fræðslustjóri veitt undanþágu, en skólanefnd og skólastjóri skulu fylgjast með því, að barnið stundi nám.“

Ég lít svo á, að í þessari grein sé skilningur á því, að undir vissum kringumstæðum sé nauðsynlegt að veita einstaklingum undanþágu frá fortakslausri skólaskyldu. Það er tekið tillit til aðstæðna, til barnsins sjálfs, og till. mín, sem ég var hér að lýsa áðan, er aðeins rýmkun á þessari undanþágu í 8. gr. Það er hnykkt á þeirri skoðun, á þeim skilningi, að börnum sé nauðsynlegt af sálrænum eða andlegum ástæðum að fá undanþágu frá því að sækja skóla til 16 ára aldurs.

Mér er tjáð, og eflaust hafa hv. þm, heyrt þær skoðanir víða hjá skólamönnum, að svo fortakslaus lenging skólaskyldunnar muni leiða margvíslegan vanda yfir skólahaldið, því að staðreyndin sé sú, að á þessum aldri í flestum skólum séu unglingar, sem ekki hafa löngun né hæfileika til að sækja skólann, þeim er það áþján, jafnvel kvöl að sitja á skólabekk. Þeirra hæfileikar og þeirra lyndiseinkunn mundu njóta sín mun betur annars staðar en á skólabekk. Ég held, að það sé manneskjulegt sjónarmið að taka tillit til slíkra aðstæðna og búa ekki þessi lög þannig úr garði, að þau veiti ekki möguleika til undanþágu, sem nauðsynleg er vegna barna, sem þannig er ástatt um.

Það er alveg víst, að í augum flestra þm. er nokkur efi um lengingu skólaskyldunnar. Menn gera sér ekki grein fyrir, hvaða afleiðingar það muni hafa, og ég er sannfærður um, að það sé hyggilegt að stiga þetta skref varlega, opna nokkrar dyr, og ef meiri hl. Alþingis á annað borð er á því að lengja skólaskylduna, þá þarf að skapa möguleika til að sveigja út af, þegar nauðsyn býður.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þennan tillöguflutning. Ég vænti þess, að hv. þm. geri sér ljóst, í hverju hann er fólginn. Það er gengið út frá meginreglunni um 9 ára skólaskyldu, en opnaðar dyr til nokkurrar undanþágu, en þó með þeirri tryggingu, að ráðuneytið hefur þar fullkomið vald á. Ég tel ástæðu til að freista þess enn, áður en þetta mál er afgreitt út úr hv. d., að kanna afstöðu þm, til þessa máls.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð miklu fleiri að sinni. Ég hef lýst því áður, að ég tel þetta frv. horfa að mörgu leyti til bóta. Í því eru margvísleg nýmæli, sérstaklega sem lúta að kennslufræðilegum og starfslegum atriðum. En ég hef harmað jafnframt, að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra sjónarmiða, sem við sjálfstæðismenn höfum sett fram og fram koma m.a. í bókuninni í hv. menntmn., — þeirra sjónarmiða að auka umsvif eða möguleika sveitarfélaga til frekari ábyrgðar og athafna á þessum vettvangi, — sjónarmiða, sem ættu tvímælalaust að leiða til raunhæfrar fræðslulöggjafar og framkvæmdar á henni. Lenging skólaskyldunnar mun ekki bæta þann aðstöðumun, sem fyrir hendi er í þjóðfélaginu. Það verður að fara aðrar leiðir og það á að fara þær leiðir, sem við höfum bent á, sjálfstæðismenn. Ég vonast aðeins til þess, að áður en langt um líður þá verði mönnum þetta ljóst og að fræðslulöggjöfinni verði breytt til samræmis við þessi sjónarmið.