17.04.1974
Neðri deild: 107. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3604 í B-deild Alþingistíðinda. (3258)

9. mál, grunnskóli

Bjarni Guðnason:

Herra forseti, Eins og öllum er kunnugt, var þetta frv. til laga um grunnskóla upphaflega lagt fram af fyrrv. menntmrh, árið 1971, á kosningaári, og ef til vill mótaði það nokkuð gerð frv., að það skyldi vera lagt fram þá. En síðan hefur þetta frv. gengið í gegnum mikinn hreinsunareld, og það er enginn vafi á því, að það hefur skýrst og batnað til mikilla muna. Í því eru án efa ýmis nýmæli, sem eru góðra gjalda verð. Hins vegar er því ekki að leyna, að ýmsir vankantar eru á þessu frv. að mínu mati, sem valda því, að ég hef talið rétt að athuga þetta mál betur og hef því staðið að frávísunartill. ásamt hv. þm. Pálma Jónssyni, og mér þykir rétt að fara um það nokkrum orðum.

Eitt meginatriði í frv. er jöfnun námsaðstöðu, þ.e. að koma á jafnrétti til náms fyrir æskumenn þjóðarinnar. Þá er spurningin: Hvað er jafnrétti? Hvað vilja menn með jafnrétti? Jafnrétti er jákvætt hugtak, og allir vilja stuðla að því, að þegnar þjóðfélagsins öðlist jafnrétti. Þá er spurningin þessi: Er það jafnrétti að skylda alla æskumenn að sitja í skóla til 16 ára aldurs? Ég tel það ekki jafnrétti, heldur misrétti og skal gera örlitla grein fyrir því.

Jöfnuður er fólginn í því, að einstaklingar standi jafnt að vígi og ytri aðstæður, svo sem efnahagur eða búseta, skapi ekki misrétti. Jöfnun námsaðstöðu felur það í sér, að öllum nemendum 15 ára gömlum sé gefinn kostur á einu námsári í viðbót, þannig að ekki hamli búseta eða fjárhagur. Það er jafnrétti, að öllum sé gefinn kostur á sama hlutnum. En það er misrétti að skylda örlítinn hluta, — ég skal ekki segja, hve mörg prósent það eru, — af 15 ára unglingum til að sitja eitt ár að auki á skólabekk, sem þeir sumpart hafa ekki getu til, sumpart hafa ekki fúsleika til og sumpart hafa ekki vilja til. M.ö.o.: það er ætlunin að þvinga örlítinn hluta til þess að sitja til 16 ára aldurs og kalla það jafnrétti, en það er misrétti gagnvart þessum litla hóp. Við skulum taka hliðstæð dæmi.

Hvernig er lýðræði skilgreint? Lýðræði er fyrst og fremst það, þegar meiri hlutinn fær að ráða. En það er ekki öll sagan. Lýðræði er fyrst og fremst það, hvernig minnihlutahópnum er tryggt lýðræði. Það er það, sem sker úr. Það er einn mesti vandinn í vestrænu lýðræðisríkjunum að tryggja lýðræði og lýðréttindi minni hlutans. Eins er það hér, þegar verið er að tala um jafnrétti. Þjóðfélagið vill skylda alla unglinga til 16 ára aldurs til að sitja á skólabekk, þó að það kynnu að vera nokkur prósent af unglingum, sem fyrir alla muni vilja ekki sitja á skólabekk. Það er ekki jafnrétti, það er misrétti á þessum litla hóp. Ég tel því, að þegar menn eru að ræða þessa hluti, þurfi þeir að átta sig á því, hvað orðið jafnrétti merkir og hvað felst í orðinu jöfnuður, og það er meginatriðið.

En í framhaldi af þessu vil ég segja, að það er að gerast nú í skólamálum, að menn leggja æ meiri áherslu á fullorðinsfræðslu, þannig að menn geta meira og minna allt sitt lífshlaup stundað nám öðru hverju. Og þetta er hið æskilega, og þetta kemur í skólamálum, þannig að þótt þessir unglingar af einhverjum ástæðum hefðu ekki á 16 ára aldursskeiðinu hug á að sitja þennan vetur í skóla, þá gæti vel gerst síðar, að þeir hefðu hug á að fylla þessa eyðu í öðrum skólum eða koma aftur. Þetta er hin eðlilega leið. Og ég vil bæta einu við, sem er mergur málsins. Ég er sannfærður um, að það verða sífellt færri og færri unglingar, sem sitja ekki af fúsum vilja til 16 ára aldurs á skólabekk, og þar kemur margt til. Ríkisvaldið veitir styrki til fátækra eða efnaminni foreldra. Ríkið reynir á ýmsan hátt að jafna aðstöðumuninn og á að gera það, þannig að efnahagur og búseta hindri ekki þennan jöfnuð. En þjóðfélagið sjálft þrýstir ósjálfrátt á nemendur alla sem geta, að halda áfram. Foreldrarnir gera það líka. Þeir segjast vilja koma börnum sínum áfram, eins og það heitir, og það er enginn vafi á því, að þjóðfélagsuppbyggingin knýr æ fleiri nemendur, sem eru 15 ára, að fara sjálfviljugir þennan síðasta spöl, þannig að ég hef engar áhyggjur af því, að þetta verði neinn fjöldi, sem nokkru nemur, heldur muni hann sífellt minnka. M.ö.o.: ég skil jafnréttishugtakið á annan hátt en gert í þessu frv., þar sem lagt er til að þvinga lítinn minnihlutahóp til skólasetu eitt ár í viðbót, og þetta er gert undir nafni jafnréttis, en þetta er misrétti.

Ég hef því eftir nokkra yfirvegun komist að þeirri niðurstöðu, að það sé heppilegast og æskilegast, að það sé fræðsluskylda til 16 ára aldurs, þannig að öllum sé gefinn kostur á að njóta hennar, og ríkisvaldið reyni að bægja frá ytri hindrunum eins og búsetu og efnahag, en síðan verði sem sagt skólaskyldan aðeins til 15 ára aldurs. Og ég vil endurtaka, að ég er sannfærður um, að eftir því sem tímar líða munu æ færri og færri nemendur missa af þeirri menntun, sem skólaseta eitt ár í viðbót veitir, þannig að ég hygg, að þetta muni leysast meira og minna af sjálfu sér.

Í gildi eru fræðslulög frá 1946, þar sem heimilt er fyrir sveitarfélög að hafa skyldunám til 16 ára aldurs. M.ö.o.: það er heimildarákvæði fyrir í lögum. Og þá vaknar spurningin: Hvernig hefur þetta reynst? Það hefur reynst þannig, að tæpum 30 árum eftir að þessi fræðslulög voru sett kemur fram í grg, með þessu frv. til l. um grunnskóla, að enn hefja sumir unglingar nám 9 eða jafnvel 10 ára gamlir. Hvernig væri að bregðast við þessu á hinn eina og raunhæfa hátt, að reyna að bæta úr þessu með framkvæmdinni? Menn gera þetta ekki með nýrri löggjöf. Það er engin trygging. Ný löggjöf af þessu tagi tryggir ekki þessar úrbætur, það er fyrst og fremst framkvæmdin. Og þetta má gera eftir núgildandi lögum. Ég verð að segja, að það er einhver yfirborðsmennska hjá fræðslu- og skólayfirvöldum, þegar þau verða að játa það, að sum böru á Íslandi hefja skólagöngu á 9 eða 10 ára aldri, og koma þá með þennan bókarkafla hér, grunnskólafrv., þar sem allt er svo fínt og fágað. Þetta er innantómt hjal að mestu leyti, meðan enn eru til börn hér á Íslandi, sem byrja að ganga í skóla 9 ára. Þess vegna hygg ég, að skynsamir menn mundu reyna að tryggja framkvæmd ágætra fræðslulaga frá 1946, áður en þeir fara að reisa skýjaborgir í nýju frv., til þess að stjórnmálamenn geti náð kosningu og blekkt almenning.

En þetta er ekki það eina. Nú vill svo til, að allir þm. eru sammála um það, að brýnasta verkefnið í fræðslu- og skólamálum þjóðarinnar sé að leggja höfuðáherslu á verk- og tækninám, skapa þessu námi jafnvirðulegan sess og bóknámi.

Um þetta eru allir sammála. Nú hagar svo til, að nemendum fækkar stöðugt í sjómannaskólanum. Vélskólinn stendur í stað. Nemendum fækkar í veigamiklum iðngreinum. Þessi mál eiga að hafa forgang. Ég tel því, að það þurfi að breyta um stefnu í skóla- og menntamálum þjóðarinnar þannig að leggja fjármagn einmitt í hið verklega nám og reyna með öllum ráðum að skapa því jafnan virðingarsess með þjóðinni og hið svokallaða langskólanám. Þetta er brýnasta verkefnið í skóla- og fræðslumálum þjóðarinnar í dag. Og þá er spurningin: Hvernig kemur þetta grunnskólafrv. heim við þá stefnu?

Því er ekki að leyna, að það er hætt við, að frv. styrki fyrst og fremst langskólanámið, þannig að það verði æ örðugra að bæta hag hins verklega náms og langskólanám sjúgi æ meira til sín af þeim nemendum, sem væru jafnvel eða betur fallnir til að sinna verklegu námi. M.ö.o.: ég tel óheppilegt, að úrbætur í sambandi við iðnnám og tækninám dragist á langinn. Mér skilst, að Tækniskólinn búi við mjög þröngan kost. Kröfur til iðnnema þekkjum við. Sjómannaskólinn er að tæmast, eins og ég sagði. Þetta eru verkefnin, sem eiga að hafa forgang í fræðslu- og skólamálum þjóðarinnar. Hins vegar mun frv. knýja að mínu viti af miklum krafti æ fleiri unglinga inn í langskólanámið, sem við megum raunar alls ekki við. Þess vegna hef ég talið, að grunnskólafrv. hefði mátt biða vegna úrlausnar annarra verkefna, ekki síst af því að fyrir eru fræðslulög, sem ekki einu sinni enn í dag hefur tekist að framkvæma.

Ég ætla nú ekki að fara mjög út í einstakar gr., því að það var rætt við 2, umr., og það er til einskis að ræða slíkt. En stundum virðist mér í þessu frv., að þeir, sem sömdu það, hafi týnt brjóstvitinu í poka einhvers staðar uppi á heiði. Það er furðulegt, þegar maður les sumar greinar, hvað þetta vill vefjast fyrir mönnum. Ég skal t.d. enn einu sinni sýna, að hverju þetta stefnir í frv., og lesa fyrir þingheimi 8. gr. frv., sem er alveg sérstakt leikrit út af fyrir sig. 8. gr. hljóðar svo:

„Nú sækir forráðamaður skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn hluta úr skólaári og færir fram knýjandi ástæður. Skal þá leitað umsagnar skólastjóra og skólanefndar, og mæli þeir aðilar shlj. með umsókninni, getur fræðslustjóri veitt undanþágu, en skólanefnd og skólastjóri skulu fylgjast með því, að barnið stundi nám.“

Hvílíkt bákn. Nú hefði mátt ætla í venjulegu þjóðfélagi, að ef forráðamaður barnsins þyrfti að fá undanþágu fyrir barnið tíma úr skólaárinu og hefði knýjandi ástæður, þá væri nær að tala við skólastjórann og þeir leystu þetta í bróðerni. Þetta tíðkast í venjulegum samskiptum manna á meðal. En þá koma skriffinnarnir, rn. og ráðgjafarnir, með allan þennan umbúnað. En það nægir ekki. Það skal þá fyrst leitað umsagnar skólastjóra og skólanefndar, m.ö.o. forráðamaðurinn þarf sjálfsagt að skrifa bréf, afhenda þau skólastjóra. Hann þarf líklega að skrifa skólanefndinni líka bréf, og jafnvel þó að þessir báðir aðilar séu sammála, þá þurfa þeir að skrifa annað bréf til fræðslustjórans. Við skulum segja, að skólinn sé á Húsavík. Þá þarf að skrifa bréf til Akureyrar um það, hvort Pétur litli megi fá frí í hálfan mánuð frá skólanum. Fræðslustjóri svarar þessu. Og á hvaða grundvelli? Engum öðrum en þeim upplýsingum, sem hann fær frá skólastjóra og skólanefnd. Hann hefur engan grundvöll til að taka aðra afstöðu heldur en skólanefnd og skólastjóri. Svo svarar fræðslustjórinn eftir hálfan mánuð, ef vel gengur. Þá þarf Pétur litli bara ekki lengur á þessu að halda. Hvernig er hægt að búa til svona dæmalausa vitleysu og koma þessu áleiðis í gegnum þingið? Mér er þetta alveg óskiljanlegt. En þarna er verið að skapa verkefni handa fræðslustjóranum, til þess að hann geti skrifað bréf. En vesalings skólastjórinn er ekki einu sinni þess umkominn að taka ákvörðun um það, hvort strákanginn eigi að fá frí frá skólanum í hálfan mánuð eða ekki. Til hvers hefur maðurinn skólastjóramenntun og er búinn að sitja hjá uppeldisráðgjöfum, sálfræðingum og í Kennaraháskólanum og öllum þessum stofnunum, ef hann getur ekki einu sinni tekið þessa ákvörðun. Þetta birtist í þessu frv., og þess vegna sagði ég áðan, að það sé eins og þeir menn, sem semja svona frv., gleymi brjóstvitinu í poka uppi á heiði.

Svona er nú á fleiri stöðum. Það er líka 6. gr., sem er af þessu tagi, með leyfi hæstv. forseta: „Forráðamaður skólaskylds barns ber ábyrgð á, að það innritist í skóla, þegar það hefur náð skólaskyldualdri, og að það sæki skóla. Verði verulegur misbrestur á skólasókn skólaskylds barns, án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður hamli og skólastjóri fær ekki við ráðið, skal hann tilkynna fræðslustjóra um málið. Vilji forráðamaður barnsins ekki hlíta ákvörðun fræðslustjóra, getur hvor aðili um sig vísað málinu til barnaverndarnefndar.“

Hér er sama vitleysan. Það er eins og skólastjóragreyið, — „statusinn“ á skólastjórum í þessu frv. er náttúrlega með sérstökum hætti hér, — geti ekki tekið ákvörðun um að vísa málinu til barnaverndarnefndar, heldur þarf hann fyrst að skrifa fræðslustjóranum bréf um, að einhver krakki sæki illa skólann. Hvaða flottheit eru þetta? Allt tómar bréfagerðir og tóm vitleysa. Það er eins og ég segi, það er eins og menn hafi skilið brjóstvitið eftir í poka uppi á heiði, þegar þeir sömdu þetta.

Það er hægt að lesa svona endalaust gr. um það, hvernig verið er að búa til bréfagerðir, það er verið að búa til embættismenn í þessu frv., og það er eins og menn hafi ekkert annað að gera en skrifa og svara bréfum. Allt er þetta svo fínt, skólastjórinn, skólanefnd, fræðslustjóri, og bréfagerðir ganga á víxl. Ég gæti haldið áfram með nokkrar gr., en það er ekki vert að halda því áfram. En samfara þessum hlutum er mælgin og mærðin með furðulegum hætti í þessu frv., og sumt er orðað þannig, að það er ekki gert ráð fyrir því, að starfsfólkið sé hugsandi fólk. Það er meira að segja tekið fram, að skólastjórinn eigi að kanna málin frá öllum hliðum, — hann gerir það nefnilega aldrei! Það er alveg furðulegt, hvernig þetta er upp sett. Þetta er eins og í skopleik eftir Holberg. Ef ég les hérna agaþáttinn, 54, gr., þá stendur þar:

„Nú ber viðleitni kennara, skv. 3. mgr., ekki árangur, og skal hann þá vísa málinu til meðferðar skólastjóra, sem kannar málið frá öllum hliðum. Ef meðferð hans leiðir ekki til viðunandi ástands“ o.s.frv. Þarf að taka þetta fram? Er ekki hægt að treysta skólastjóragreyinu til að sinna starfinu sæmilega? Það er svo mikil flatneskja yfir þessu, og það stafar af því, að það hafa allt of margir fræðimenn úr menntmrn. staðið að þessu.

Þá tel ég, að þetta frv. sé ekki aðeins mærðarfullt, heldur langdregið með furðulegum hætti, og kaflar ættu að fara inn í reglugerð. T.d. er óþarfi að vera með húsagatilskipun, agareglur inni í frv. Viðhorf manna breytast stöðugt. Þetta á að vera í reglugerð, sem menntmrh. gefur út og sendir í skólana, en þetta á ekki að vera í sjálfum lögunum. Alls konar ákvæði um orlof kennara o.s.frv., hvað menn eigi að fá, ef þeir eru búnir að vinna svo og svo lengi. Þetta á ekki að koma inn í heildarlöggjöfina um grunnskóla, heldur að vera í sérstökum reglugerðum. Þarna er um réttindi kennara, launaleg réttindi kennara. Þannig voru ýmsir kaflar þarna, sem eiga ekkert erindi inn í frv. Þetta, sem ég hef nú talað um: mærðin, langdrægnin, skriffinnskan, allt þetta prýðir þetta frv., og ég verð að segja það, að ég er alls ekki ánægður með frv., þó að þar sé margt til mikilla bóta.

Ég hef óljóst hugboð um það, að við séum hér að koma með skólakerfi, sem við sækjum til þjóða, sem teljast til Norðurlanda, þar sem búa þjóðir, 6–10 milljóna manna þjóðfélög, og við erum að færa þetta yfir á 200 þús. manna þjóðfélag. Svo eru menn undrandi á því, þó að það skorti menn í fiskinn, til atvinnuveganna, þegar menn eru sífellt að hlaða þetta upp í 200 þús. manna þjóðfélagi. Og svo stynja menn yfir, að það vanti fólk til sjávar og sveita í vinnu. Ætli það væri ekki ráð að reyna að minnka bréfagerðina í þessum dæmalausa frv. og reyna að fá örlítið brjóstvit inn í það?

Um kostnaðinn skal ég ekkert segja. Mér sýnist, að enginn viti, hver hann verður, þegar upp verður staðið. Eins og allir þm, vita, er efnahagurinn fremur bágborinn, þannig að það eitt út af fyrir sig veldur því, að þetta mætti atbuga nánar.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri, en ég vil aðeins benda á eitt, áður en ég lýk máli mínu. Það er það, að sú þróun virðist vera núna, eins og ég minntist á, að leggja áherslu á fullorðinsfræðsluna. Nú eru dregnar tvær samhliða línur. Önnur er lífshlaupið og hin er fullorðinsfræðslan, þannig að þjóðfélagsþegnarnir geti sífellt allt sitt lífshlaup bætt við sig þekkingu og kunnáttu, þannig að skólakerfið verði hluti af lífshlaupi einstaklingsins. Þetta hygg ég, að sé mikil breyting frá því viðhorfi, þegar ég og mínir líkar sátum á skólahekk fram eftir aldri, og síðan átti því að verða lokið, þ.e.a.s. menn taka við lærdómi í upphafi ævi sinnar og síðan staðna menn og læra ekki meira í þeim breytilega heimi, sem við lífum í. Því er heppilegt að vera ekki með þvingun um skólaskyldu til 16 ára aldurs, heldur láta skólaskyldu til 15 ára aldurs nægja, en um leið búa þannig um hnútana, að þeir nemendur, sem síðar meir sæju eftir slíku og vildu halda áfram námi og bæta sig, hefðu kost á slíku.

Ég hef, eins og fram hefur komið, það margt við þetta frv. að athuga, að ég tel rétt að vísa því til ríkisstj, til þess að endursemja þetta frv. betur og skynsamlegar og athuga ýmis atriði í því. Vinna mætti að því í sumar að endurbæta það, þannig að unnt yrði að leggja það fram endurskoðað á næsta hausti, og því legg ég til. að ný grunnskólanefnd verði skipuð.