17.04.1974
Neðri deild: 107. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3610 í B-deild Alþingistíðinda. (3259)

9. mál, grunnskóli

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Mér er nokkur vandi á höndum að koma í ræðustól á eftir hv. síðasta ræðumanni, sem bjó til heilan leikþátt upp úr einni gr. grunnskólafrv. Hann var skemmtilegur, þessi leikþáttur, um skólastjórann og Sigga litla eða hvað hann nú hét, strákanginn. En ég vil benda hv. síðasta ræðumanni á það, að láti hann setja þetta á svið, þá er heppilegra og leikrænna að láta skólastjórann tala í símann, en ekki skrifa bréf, og vildi ég biðja hv. leikritahöfund að athuga það.

Ég er þeirrar skoðunar, að við 3. umr. þessa máls sé algerlega tilgangslaust að fara að endurtaka hér það, sem ég hef áður sagt almennt um grunnskólafrv. og efni þess. Það er alveg hárrétt, að margt af því hefði átt að vera í reglugerð, en ekki í sjálfum l., en þegar við erum komin þetta langt með frv., tel ég eingöngu til trafala að endurtaka slíkt hvað eftir annað.

Ég hef kvatt mér hljóðs vegna þess, að ég flyt tvær brtt. hér við 3. umr. Hv. 9. landsk. þm., Ellert B. Schram, fór nokkrum orðum um aðra þeirra, þar eð hann er meðflm. minn. Ég flutti þessa till. við 2. umr. og tók hana aftur til 3. umr., vegna þess að þá hafði ég ekki haft aðstöðu til þess að kynna hana n. allri og vildi gefa henni tækifæri til þess að taka afstöðu til hennar. Till. fjallar um það, að fræðslustjóri skuli ráðinn til 5 ára í senn, en ekki ævibundið. Um kosti þessarar tilhögunar hef ég áður rætt og ætla ekki að endurtaka það, en vil minna á, að hæstv. menntmrh. lýsti fylgi sínu við till. við 2. umr. málsins.

2. brtt. mín er flutt nú fyrst við 3. umr. og er á þskj. 680. Ásamt mér flytja hana hv. þm. Ingvar Gíslason og Eysteinn Jónsson. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við 57. gr. Á eftir 1. mgr. komi ný mgr., svo hljóðandi:

óheimilt er að veita upplýsingar um einkunnir nemenda öðrum en þeim sjálfum og forráðamönnum þeirra, nema nauðsyn beri til vegna flutnings nemanda milli skóla. Þó skal heimilt að veita öðrum þessar upplýsingar vegna fræðilegra rannsókna, enda sé krafist fullrar þagnarskyldu.“

Ástæðan til þess, að þessi till. er flutt, ætti að vera nokkuð augljós. Við teljum, að námsárangur sá, sem mældur er í einkunnum, eigi að vera einkamál. Þróun tækniþjóðfélags og auknar félagslegar rannsóknir hljóta að vekja athygli okkar á því, hve nauðsynlegt er að vernda rétt einstaklingsins, þegar um er að ræða ýmiss konar einstaklingsbundnar upplýsingar. Auk þess ýtir birting einkunna að mínu viti undir samkeppnisanda, en það er yfirlýst markmið þessa frv., að gegn slíku eigi að vinna. Þessi till. kemur þó ekki í veg fyrir, að nauðsynlegar fræðilegar rannsóknir séu gerðar, en þess er hins vegar krafist, að þeir aðilar, sem þessar upplýsingar fá í hendur í því skyni, sýni fullan trúnað og stuðli ekki að misnotkun slíkra upplýsinga. Í grg. um námsmat, sem ég hygg, að skólarannsóknadeild hafi gert, er tekið fram, að við rannsóknir ýmiss konar af þessu tagi skuli vinna í fyllsta trúnaði, og er þessi till. því ekki í andstöðu við það, sem fyrir skólamönnum og skólarannsóknamönnum vakir.

Herra forseti. Ég hef mælt fyrir þessum till. Ég hef áður rætt um 12. brtt. menntmn., þar sem gert er ráð fyrir, að miðstjórnarvaldið í kaupstöðum með 10 þús. íbúa eða fleiri sé leyst upp og viss hverfi fái heimastjórn að vissu marki um innri málefni skólanna. Ég fæ ekki séð, að rök hv. 9. landsk. þm. séu sannfærandi. Ég tel þau fremur léttvæg, því að hann talar um skriffinnsku og telur, að kerfið verði of þungt í vöfum. Ef menn á annað borð trúa því, að strangt miðstjórnarvald sé ólýðræðislegt, þá er erfitt að vinna gegn þessari till. Fræðsluráð í kaupstöðum mundi eftir sem áður hafa heildaryfirstjórn, bæði á sviði fjármála, hagræðingar, námsefnis og samræmingar kennslu. Þessi skipan ætti því á engan hátt að gera fræðsluráði erfiðara að starfa.