06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

358. mál, áhugaleikfélög

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Hinn 8. febr. 1972 var samþ. á Alþ. svo hljóðandi þáltill. frá okkur hv. 7. landsk. þm., Karvel Pálmasyni:

Þál. um endurskoðun laga um stuðning við leikfélög áhugamanna.

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að taka til endurskoðunar lög nr. 15 frá 15. mars 1965, um fjárhagslegan stuðning við leiklistarstarfsemi áhugamanna.“

Vegna síendurtekinna spurninga leikfélaganna um framkvæmd þessa máls, ákvað ég að bera fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. menntmrh.: „Hvenær má vænta þess, að fram verði lagt frv. til nýrra laga „um fjárhagslegan stuðning við áhugaleikfélög?“

Sjálfum er mér að vísu kunnugt um nefndarskipun ráðh. í þessu máli. Einnig er mér kunnugt um drög að frv. til almennra leikhúslaga, sem mikið voru rædd s. l. vetur. Með tilliti til þessarar vitneskju þykir mér einmitt hlýða að spyrjast nú fyrir um það, hvenær megi vænta framlagningar frv. í anda þál.

Það, sem knýr aðallega á um ný lög fyrir leikfélögin, er það, að upphæðir styrkja skv. lögum 1965 eru nú orðnar alls ófullnægjandi, og er það mjög að vonum sakir verðlagsþróunarinnar. Nærri lagi er, að hámarksupphæð þeirra sé nú aðeins 1/3 af verðgildi hins upphaflega. Annað kemur og til. Eitt áhugafélagið er nú að breytast í atvinnuleikhús og krefst orðið sérstakrar fjárveitingar, — fjárveitingar, sem síðast nam jafnhárri upphæð og öll áhugaleikfélögin fengu samtals, og þóttust þeir Akureyringar þó ekki ofhaldnir. Með stórauknu starfi áhugafélaganna og viðameiri verkefnum leiðir og af sjálfu sér, að ný viðhorf koma upp gagnvart stuðningi ríkisins við þessa mikilvægu menningarstarfsemi.

Sérlega gagnlegt væri t. d., ef leggja mætti frv. fram svo snemma, að freista mætti þess að hafa af því nokkra hliðsjón við endanlega gerð fjárlaga nú. Því vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvenær þessa frv. sé að vænta.