17.04.1974
Neðri deild: 107. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3632 í B-deild Alþingistíðinda. (3263)

9. mál, grunnskóli

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls eða réttara sagt við atkvgr. eftir 2. umr. um málið voru flestar af till. meiri hl. menntmn. samþykktar, en fallist á að taka nokkrar þeirra aftur til 3. umr. Eftir afgreiðsluna á frv. við 2. umr. hélt menntmn. fund og tók til athugunar og afgreiðslu þær till., sem enn lágu fyrir og höfðu verið teknar aftur. Það fór svo, að n. samþykkti að taka upp allar þær till., sem meiri hl. n. hafði áður mælt með, og leggja þær fyrir við 3. umr. Einnig var af meiri hl. n. fallist á eina af þeim till. a.m.k., sem hv. 9. landsk. þm., Ellert B. Schram, hafði borið fram, og það var einnig fallist á eina af þeim till., sem hv. þm., frú Svava Jakobsdóttir, hafði borið fram og tekið aftur til 3. umr. Það var því ráðandi í athugun n. á þeim till., sem enn þá lágu fyrir, hin sama víðsýni og hafði ríkt í öllum störfum n. í vetur. Þar höfðu verið skoðuð sjónarmið allra nm. og grannskoðaðar allar till., sem fram höfðu komið, hvort sem þær voru frá stjórnarsinnum eða stjórnarandstæðingum, og fallist á margar till. þeirra, flestallar till. þeirra aðrar en þær sem skoðanir skiptust um, vegna þess að sýnt var, að sumir nm. vildu fresta afgreiðslu frv. og láta það bíða eftir því, að búið væri að breyta m.a. lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Við töldum, að ef málið ætti að bíða eftir því, þá væri verið að ákveða þar með, að það fengi ekki afgreiðslu á þessu þingi, en fyrir því var ekki vilji í nefndinni.

Ein er sú till., sem er á þskj. 687, sem ekki hafði legið fyrir við 2. umr. eða verið tekin aftur við þá afgreiðslu málsins, heldur féllst n. á, að hún þyrfti svolítið nánari skoðunar, og ég held, að n. hafi orðið sammála um að flytja hana svo breytta sem hún er á þskj. 687. Það gæti litið út fyrir, að þetta væri aðeins orðalagsbreyting, en svo er ekki. Brtt. er við 36. gr. frv. og er nú um, að fyrri mgr. orðist svo:

„Þegar kennari nær 55 ára aldri, minnkar kennsluskylda hans um 1/6, og er hann nær 60 ára aldri, minnkar kennsluskylda hans enn um 1/6 af fullri kennsluskyldu.“

Í till., eins og við höfum haft hana áður, stóð „starfsskylda“, en hér kemur á tveimur eða þremur stöðum í gr. kennsluskylda, og þá verður greinin nákvæmlega eins og lagaákvæði gildandi laga eru um þetta efni. Nokkur ágreiningur hefur orðið um það í framkvæmd, hvort þetta næði til starfsskyldu kennara, sem náð hefði 55 ára aldri, en í þá deilu viljum við í n. ekki blanda okkur og viljum, að framkvæmdin sé óbreytt, eins og hún hefur verið, að það megi sem sé stytta kennsluskylduna um 1/6, þegar kennari hefur náð 55 ára aldri, og aftur um 1/6, þegar hann hefur náð 60 ára aldri, en til þess að öðlast þennan rétt, þurfi 28 ára kennsluferil. Það er einnig skv. gildandi lagaákvæði. Við höfum sem sé breytt þessari grein á þann veg, að framkvæmdin verði með sama hætti og í gildandi lögum.

Þá finnst mér rétt að taka fram og skýra frá því, að n. höfðu borist, frá því að hún lauk störfum og þar til við athuguðum frv. á ný eftir 2. umr., ábendingar um tvær brtt. Önnur kom frá menntmrn., og okkur var tjáður vilji rn. með svohljóðandi bréfi, með leyfi hæstv. forseta, það er dagsett 26. mars 1974:

„Í samráði við grunnskólanefnd leggur rn. til, að svofelld breyting verði gerð á 83. gr. frv. til l. um grunnskóla:

Á undan síðustu málsgr. komi:

„Þar sem tveir eða fleiri hreppar standa saman að skóla, skulu tekjur af útsvörum starfsmanna skólans ganga til greiðslu sameiginlegs kostnaðar sveitarsjóða af skólahaldinu, áður en greiðslubyrði er skipt milli hreppa.“

Rökin fyrir þessu eru þau, að víða sameinast sveitarfélög nú um skóla, og er þá eðlilegt, að lögbundið sé, að tekjur af útsvörum skólastjóra, kennara og annarra starfsmanna skólans renni til greiðslu kostnaðar við hina sameiginlegu stofnun í stað þess að falla til þess hrepps eins, sem hefur skólann innan sinna vébanda. Hér er ekki um að ræða neina röskun á álagningu eða innheimtu útsvara, heldur einungis verið að tryggja skiptingu þessara tekna milli sameignaraðila skólans í héraði. Mundi þetta auðvelda sameiningu skóla og sameiningu sveitarfélaga sín í milli um skiptingu kostnaðar.“

Þessa ábendingu tók n. til umr. og komst að þeirri niðurstöðu, að hér væri um ákvæði að ræða, sem ekki ættu heima í skólalöggjöfinni, hérna væri um meðferð útsvara að ræða og ættu ákvæði um þetta heima í öðrum lögum fremur. Hins vegar lít ég svo á, að það hafi verið skoðun n., að það, sem fram kemur þarna efnislega, sé ekki óeðlilegt og hún væri í raun og veru efnislega fylgjandi þessum ákvæðum. En afstaðan var sú, að þessi ákvæði ættu ekki heima í skólalöggjöfinni. Það þyrfti, þar sem væri nm að ræða annaðhvort skóla eða sjúkrahús eða aðrar stofnanir, sem væru sameign sveitarfélaga, að setja inn í viðeigandi lög ákvæði þess efnis, sem þarna væri farið fram á, í hverju tilfelli, en ekki setja það inn í skólalöggjöfina, þetta væri nánast skattalagalegt atriði.

Þá lá einnig fyrir n. önnur brtt. Hún var, ef ég man rétt, frá umferðarráði ríkisins og var um að taka ákvæði um umferðarmál upp í grunnskólafrv. Það var einnig álit n., sameiginlegt álit, að þau atriði ættu ekki heima í skólalöggjöfinni, enda var það kannað, að nákvæmlega þau ákvæði, sem þarna var lagt til. að tekin yrðu inn í grunnskólafrv., eru skýrum stöfum orðuð í löggjöfinni og mundi það því ekki bæta um, þó að þau ákvæði væru orðrétt í tvennum lögum. N. hafnaði því að taka þessi ákvæði inn í grunnskólafrv., en gekk úr skugga um það, að þessi ákvæði eru í umferðarlöggjöfinni. Og það nægir, að þau séu í einum lögum, það þarf ekki að hafa þau í tvennum lögum.

Hér hefur verið lögð fram till. um frávísun á þessu máli. Hún er í mörgum liðum, löngu máli. Það er farið inn á sama stílsform og á frv., sem hefur verið mikið gagnrýnt, að hún er í mjög löngu og loðnu máli, þessi frávísunartill., en slíkar till. eru venjulega nokkuð orðknappar. En hér er brugðið út af reglunni. Það er líklega til samræmis við frv.

Mig grunaði það lengi, að það væri í raun og veru það, sem fyrir andstöðumönnum þessa máls vekti, koma því fyrir kattarnef á þessu þingi. En það var alltaf hulið móðu. Það var látið svo sem menn væru á því að umbæta þetta frv., og menn stóðu að fjöldamörgum brtt. Það var gengið inn á margar brtt. þessara manna, en fyrir þeim vakti eitt og bara eitt: að koma í veg fyrir afgreiðslu þessa frv. á þessu þingi, og nú er það komið í ljós. Það kemur í ljós í þessari löngu frávísunartill.

Í 1. liðnum segir: Við teljum það hagkvæm vinnubrögð að láta endanlega afgreiðslu grunnskólafrv. bíða, þar til fyrir liggur, á hvaða grundvelli verði byggt eftir fyrirhugaðar lagabreytingar varðandi verkefna- og tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. — Það eru aðrir lagabálkar en menntmn. gat á nokkurn hátt um fjallað, sem þurfti að breyta, áður en þeir vildu, flm. þessarar till., fallast á samþykkt grunnskólafrv.

2. liðurinn er um það, að þessu beri að vísa frá vegna þess, að ófullnægjandi grg. fylgi frv. um kostnað við framkvæmd málsins, og engar upplýsingar hafi verið gefnar um það efni við umr. Frá því hefur verið skýrt í þessum umr., að n. kallaði á sinn fund þann starfsmann í menntmrn., sem hafði starfað að þeirri hlið málsins fyrir grunnskólanefnd að kanna, hvaða kostnaðarauki mundi verða af framkvæmd lagasetningarinnar. Og hann gaf fúslega allar þær upplýsingar, sem óskað var af hans hendi, og hann vísaði m.a. til skýrslu, sem er á bls. 91 í grunnskólafrv. og er samandregin niðurstaða af hagfræðilegri könnun þessa starfsmanns. Niðurstaðan, þegar hún er sögð í tölum, er þessi, að hann telur, að hluti ríkissjóðs af kostnaðaraukanum við framkvæmdina muni verða 229 millj., hluti sveitarfélaganna eða sveitarstjórnanna af framkvæmd málsins muni verða um 60 millj. kr. og samtals muni því kostnaðaraukinn við framkvæmdina miðað við eitt ár vera 289 millj. kr. Þetta er að vísu byggt á verðlagi á árinu 1972, að ég hygg. Það má búast við því, að tölurnar hækki, en þetta eru niðurstöðurnar, þetta eru upplýsingarnar, sem liggja fyrir um þetta efni, að kostnaðaraukinn muni verða um 300 millj. kr. Ég skal ekkert fullyrða um það, hvort þetta reynist rétt eða ekki, en þetta eru upplýsingarnar, sem liggja fyrir eftir mjög rækilega könnun, að ég hygg, mikið starf, þó að það sé hér sett fram í orðfárri yfirlitsskýrslu eða töflu.

Það er alveg gefinn hlutur, að það er ekkert dularfullt við það, að lögfesting þessa frv. kosti mikið fé. Hér er um að ræða að setja upp bókasafn við hvern einasta skóla og reka það, og til þess þarf bæði húsrúm og starfskrafta. Og það er sálfræðiþjónustan, sem kemur í gegnum allt skólakerfið, það er lenging skólatíma um eitt skólaár. Þetta hlýtur allt að kosta peninga, um það fer enginn í grafgötur, og það er ekki gerð nein tilraun til þess að draga fjöður yfir það, að af samþykkt þessa frv. leiðir hundraða millj. kr. aukinn kostnað. En það er eins og menn hafa játað, hver einasti ræðumaður, sem hér hefur talað, innan um gagnrýnina hefur þó verið sagt: Það eru ótalmargir kostir í þessu frv., miklir og góðir kostir. Ég skal rifja það nánar upp hér síðar.

C-liðurinn í frávísunartill. löngu er á þessa leið: „Frv. felur í sér lengingu skólaskyldu.“ — Það er í raun og veru meginatriðið, sem hefur verið gagnrýnt og nokkur veigur hefur verið í, að því er snertir gagnrýnina, að í staðinn fyrir, að við höfum nú skólaskyldu frá 7–15 ára aldurs, er samkv. frv. ætlast til þess, að skólaskyldan verði frá 7–16 ára aldurs. En hvernig koma menn því heim og saman, að þetta sé viðurstyggileg þvingun, sem byrji með fimmtánda skólaskylduárinu til þess sextánda, þegar sömu menn bera enga brtt. fram um að breyta í neinu skólaskyldu frá 7 ára til 15 ára aldurs? liggur engin þvingun í því þá? Ég sé ekki nokkurt samhengi í þessu, að þeir menn, sem eru gersamlega eyðilagðir yfir þeirri þvingun, sem því fylgi, að skólaskylda leggist á frá 15 ára til 16 ára, skuli geta þolað þá þvingun, sem leiðir af skólaskyldu frá 7 ára til 15 ára aldurs. Það er einkennilegt, hvernig þetta breytist. Það er í jafnréttisátt til 15 ára aldurs, en verður svo að óþolandi misrétti og ranglæti á einu ári, sem bætist við. (Gripið fram í.) Bara till. um það þá, hv. þm. Það væri kannske réttara að hafa það til sjötugs, svo að ég kæmi undir skólaskylduna, og það yrði tæpast, að það dygði.

E-liður í frávísunartill. er á þá leið, að í frv. felist stórfelld missmíði, svo sem þau að fela landshlutasamtökum sveitarfélaga sérstök verkefni og völd, án þess að þessi samtök hafi nokkra stöðu að lögum. — Já, þetta eru stórfelld missmíði á grunnskólafrv. Í grunnskólafrv. má ekki fela þessum samtökum nein verkefni. Ég hef haldið fram að þessu, að báðir þeir hv. þm., sem hafa vikið að þessu á þá lund, að þetta séu mikil missmíði, væru fylgjendur einmitt frv. um landshlutasamtök og vildu fá þau afgreidd sem lög á þessu þingi. Það er hins vegar rétt, að ég hef séð missmíði á því lagafrv. og hef gert grein fyrir því bæði hér og í félmn. En ég hef ekkert tjáð mig um það, hvort ég greiði atkv. á móti því frv. En ég hef staðið að því og fallist á það að fela landshlutasamtökunum, af því að það er verið að færa vald heim í héruðin með ákvæðunum um fræðsluráðin, sem landshlutasamtökin eiga mjög að móta, að þau geri það til þess að færa vald heim í héruð, og ég hélt, að þessir hv. þm. væru mér sammála um það. Landshlutasamtökin eru staðreynd, og þau starfa eftir mýmörgum ákvæðum, þó að þau hafi ekki í landslögum bókstaf fyrir því. Og eins geta þau starfað að þeim verkefnum, sem sérstök lög fela þeim, ég sé ekki nein vandkvæði á því. Ég hef kannske lyft meira undir þessi landshlutasamtök heldur en nokkur annar maður, því að þegar ég gekk frá l. um tekjustofna sveitarfélaga, þá var það í fyrsta skipti, sem stoðum var skotið undir það, að þau gætu starfað. Það var hvorugur þessara hv. þm., sem gerði það. Það var ég, sem gerði það. Þeir hafa því ekkert við mig að sakast um það, að ég hafi verið að fjandskapast við, að þessi samtök störfuðu. Ég er ekki sammála einu og öllu, sem stendur í því frv., sem lagt hefur verið fram, og ég á fullan þinglegan rétt til þess að bera fram brtt. við það frv. og mun gera það. En ég á hlut að því, að þau hafa nú fjárhagslegan grundvöll til að starfa á, og ég stend líka að því, að þeim séu falin verkefni, þessum starfandi samtökum, í fræðslulöggjöfinni. Það verður þess vegna ekki að ástæðu til þess að vera að vísa þessu máli frá, nema þessir hv. þm. séu fjandsamlegir landshlutasamtökunum. (Gripið fram í.) Það kemur í ljós á sínum tíma, enda ætla ég, að þeir, sem eru stuðningsmenn málsins þar og telja sig standa tveim fótum í jötu, meiri hl. í n., láti ekki einn mann standa í vegi fyrir því. Þeir eru þá minni menn en ég ætlaði þá. (Gripið fram í: Við tökum það fyrir á næsta fundi þá.) Við höfum tekið þetta fyrir á einum 2–3 fundum, ef ég man rétt, og ekki verið nein tregða á því.

Nei, landshlutasamtökin eru starfandi, og þau hafa haft mýmörg verkefni á opinberum vettvangi, og þeim eru falin verkefni, þessum samtökum, og hvort sem þau fá grundvöll í annarri löggjöf eða ekki fyrir sinni heildarstarfsemi, þá geta þau innt þau af hendi eftir ákvæðunum í grunnskólafrv. Þau geta fengið þarna þátttöku í að móta fræðsluráðin og stjórna þeim þætti fræðslumálastjórnarinnar, sem færð er nú heim í héruð. Ég hefði haldið, að þeir hv. þm., sem er mjög áfram um það, að landshlutasamtökin fái starfsgrundvöll í löggjöf, ættu að fagna þessum ákvæðum, sem ég hér styð að, að verði lögfest, en ekki bregða fæti fyrir þá löggjöf, sem hefur slík efnisatriði inni að halda.

Svo er lokasetningin í þessari löngu frávísunartill. á þá leið, að í trausti þess, að skipuð verði 7 manna þm: nefnd til að endurskoða frv. og það verði lagt fram endurskoðað fyrir Alþ. næsta haust, samþykkir d. að taka fyrir næsta mál á dagskrá. — Ég ber mikið traust til hv. alþm. og treysti þeim til margra góðra verka. En til að móta skólalöggjöf og betrumbæta hana, þó að bestu menn þingsins væru til þess valdir, 7 að tölu, treysti ég þeim ekki til þess að betrumbæta þá löggjöf, sem margir af færustu og þekktustu skólamönnum landsins eru búnir að fjalla um og móta. Um þetta frv. hafa fjallað þrjár mþn., fjölmennar, og í þeirri seinustu, svo að ég fari ekki neitt langt aftur í tímann, er hver skólamaðurinn öðrum merkari, sem hefur þarna lagt hönd á plóginn. Og svo eru hv. þm. hér að tala um það, að höfundar þessa frv. liti á skólastjóra sem einhverja fábjána eða „skynlausar skepnur“, sagði einn. Og hér standa, þegar betur er að gáð, margir skólastjórar að samningu frv., og þeir eiga að vera að misbjóða sinni stétt á þann veg, að það líti helst út fyrir, að skólastjórar séu taldir fávitar eða skynlausar skepnur. Þetta finnst mér nokkuð þykkt smurt og af mikilli ósanngirni mælt.

Skólamennirnir, sem hér hafa m.a. um fjallað í seinustu n., eru Helgi Elíasson fræðslumálastjóri, en áður Gunnar Guðmundsson skólastjóri Laugarnesskólans, sem ég hef aldrei heyrt annað en væri hinn mætasti maður og mætasti skólamaður, og Kristján J. Gunnarsson þáv. skólastjóri Landholtsskóla. (Grípið fram í: Þetta er ekki síðasta n.) Er þetta ekki síðasta n.? Ja, hún er jafngóð, þó að hún sé þá hin næstsíðasta, hún er ein af þeim. (Gripið fram í.) Við erum búnir að bæta það talsvert með okkar brtt., en þeir stóðu að því óbreyttu og í lakara formi heldur en menn tala um, að það sé nú. En þessir skólastjórar og enn fremur Sveinbjörn Sigurjónsson skólastjóri Gagnfræðaskóla Austurbæjar, — ég held, að allir þessir menn séu merkir skólamenn, og ég treysti þessum hv. þm., sem hafa verið að gagnrýna þeirra verk, ekkert betur til þess að komast að skynsamlegri niðurstöðu um skólamál heldur en þeim.

Auk þessara manna, sem nú hafa verið nefndir, var Jóhann S. Hannesson menntaskólakennari í n. og Þuríður J. Kristjánsdóttir doktor, einnig þekktur kennari og uppeldisfræðingur. Þarna var valinn maður í hverju rúmi og alls ekki þess konar fólk, sem er líklegt til þess að vilja svívirða kennarastéttina á nokkurn hátt. Og svo er þeim sendur tónninn á þann hátt, að frá ýmsum atriðum sé gengið í frv. á þann veg, að það líti helst út fyrir, að höfundarnir telji kennarana og skólastjórana vera hálfvita eða jafnvel skynlausar skepnur. Þetta er orðrétt tekið upp eftir hv. ræðumönnum hér í dag.

Hv. 3. landsk. þm., Bjarni Guðnason, sagði í sinni ræðu, að frv. hefði batnað til mikilla muna. Hann sagði einnig, að í því væru mörg góð nýmæli, en svo væru líka á því vankantar. Hvað gera nú hv. þm. yfirleitt, þegar mál með mörg nýmæli eru hér til meðferðar, mörg góð nýmæli? Yfirleitt verður þá þingmeirihl. fyrir slíkum málum. En séu líka á þeim vankantar, hvað gera þm. þá? Þá bera þeir fram brtt. um að sníða meinta vankanta af. Verkefnið hér var auðvitað ekkert annað en gera þetta, bjarga hinum góðu nýmælum í höfn, en sníða vankantana af og leggja á sig það erfiði að semja og flytja till. um það. Nei, það er ekki gert. Það á bara að kasta þessu öllu í ruslakörfuna og setja eina nefnd enn, sem ekki sé skipuð skólamönnum, til þess að endurbæta frv. Ég verð að játa, að ég hef ekki trú á því, að það bæri tilætlaðan árangur.

Ég hef áður vikið að því, að það væri undarlegt samhengisleysi í því að telja skólaskylduna frá 7 ára til 15 ára aldurs vera jafnréttisákvæði, en aftur skólaskylduna frá 7–16 ára, einu ári lengur, vera misréttisákvæði, en þetta fullyrti hv. 3. landsk. þm., og ég held nú helst, að það verði aðeins hans eigin rökfræði, sem getur komið þessu heim og saman.

Hann vék að því, að það væri gott við þetta frv., að með grunnskólaprófi væri öllum unglingum landsins opnuð leið inn í sérhvern skóla framhaldsstigsins. Hafa flestir þm., sem um frv. hafa talað, orðið að játa, að það væri mikið jafnréttisákvæði að eiga opna leið, þegar grunnskólaprófi er lokið, inn í hvaða skóla framhaldsstigsins sem vera skal. En það var álit grunnskólanefndarinnar, að til þess að ná þessu mikilsverða marki þyrfti að bæta við einu ári. Og ég verð að segja, að ég er ekkert ginnkeyptur fyrir lengri skólagöngu, en ég játa og fellst á, að þetta sé tilvinnandi til þess að fá eitt próf, sem opni allar þessar leiðir til skólanna á framhaldsstiginu, í staðinn fyrir unglingapróf nú, miðskólapróf, landspróf, fjögurra ára gagnfræðapróf, og ekkert af þeim veitir allsherjar réttindi inn á framhaldsskólastigið, en aðeins takmarka á hverju sviði um sig. Þetta er stórkostlegur ávinningur við þessa lagasetningu frá því, sem nú er.

Þá vil ég líka benda á það og hef gert það raunar áður, að á lengingu skólaskyldunnar um eitt ár, úr 7 í 16 ár í staðinn fyrir nú 7 í 15, ber að líta í samhengi við það, að við í menntmn. höfum lagt til. að vikulegur starfstími nemenda styttist nokkuð og verði að hámarki 40 stundir, og við höfum enn fremur lagt til frá því, sem í frv. var, þar sem lagt var til, að skólatíminn á ári hverju væri 9 mánuðir, hvorki meira né minna, að hann verði nú að lögum 7–9 mánuðir. Það er sem sé heimild til styttingar um tvo mánuði á ári síðustu tvö skólaárin. Þarna er um styttingu að ræða um 4 mánuði, og svo felst nokkur stytting í vikulegri styttingu starfstímans, og þá er orðin nokkur þörf fyrir viðbót við skólaárin, ef menn líta á þetta þrennt í samhengi, og það held ég, að menn verði að fallast á, að sé rétt að gera.

Ég veit um fjöldamörg dæmi þess, og ég hygg, að ef þeir hv. þm., sem eru hér gagnrýnendur, líta í sinn eigin barm, þá verði þeir að játa líka, að þeir þekki þess mörg dæmi, að unglingar, sem hafa ekki haft námslöngun til að ljúka einhverju af hinum tilskildu prófum, unglingaprófinu eða miðskólaprófinu, landsskólaprófinu eða gagnfræðaprófinu, sem opna leiðir inn á framhaldsskólastigið nú, hafi látið undir höfuð leggjast að afla sér einhverra þessara prófa, t.d. miðskólaprófs, gagnfræðaprófs eða landsprófsins, sem veita mestu réttindin núna og hafi síðan ætlað að taka upp þráðinn einu, tveimur eða þremur árum síðar, þá búnir að uppgötva, að þeir vilji fara inn á eitthvert verklegt svið og þá að halda áfram í skóla, þá reka þeir sig á það, að þeir hafa lokað fyrir sér leiðum með því að taka ekki eitt af hinum tilskildu prófum og iðrast þess sáran að hafa ekki gert það. En það er bara of seint séð. Ég held því, að margur vilji vinna það til til þess að halda öllum leiðum opnum að ljúka grunnskólaprófinu, sem opnar allar þessar leiðir.

Þá var einmitt í framhaldi af þessu fullyrt hér í dag, - ég held, að það hafi verið hv. þm. Björn Pálsson, — að það væri mjög æskilegt og mjög þýðingarmikið, að nemendum væri heimilt að gera hlé á námi sínu og taka svo til aftur, þar sem fyrr var frá horfið, og virtist telja þetta mjög þýðingarmikið, — og ég fellst á það, — hvíla sig í bili, sagði hann og taka svo upp þráðinn á ný. Þetta sagði hann, að þyrfti að vera í löggjöfinni. Svo sagði hann, að það þyrfti líka að vera heimild til að ljúka grunnskólanámi á skemmri tíma heldur en 9 árunum. Hann játaði, að hann hefði ekki lesið þetta langa frv. allt of vel, og það er alveg augljóst mál, að hann hefur svikist um að lesa það, því að í 49. gr. frv. eru bæði þessi þýðingarmiklu atriði. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Nú lýkur nemandi öllu námi grunnskóla á 8 árum með góðum árangri, og telst hann þá hafa lokið skyldunámi.“ Hann má gera það á 8 árum, þarf ekki til þess 9. „Nemandi getur og á sama hátt lokið grunnskólanámi enn fyrr og þá flust á framhaldsskólastig, telji skólastjóri, skólasálfræðingur og aðalkennari nemandann hafa til þess nægan þroska, enda komi til samþykki forráðamanna.“ Hann má gera það á 7 árum eftir frv. Hann má gera það á enn skemmri tíma en 8 árum, stendur hér. — Svona er nú gagnrýnin í sumum atriðum, alröng, byggð á því, að menn hafa ekki einu sinni lesið frv.

En hvað um hitt atriðið, að það sé gott, að nemandinn hverfi frá námi, hvíli sig um sinn og taki svo upp nám aftur, sem hv. þm. lagði mjög mikið upp úr, taldi nauðsynlegt réttilega, enda er þetta líka í frv. Það er í sömu gr. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Fræðslustjóri getur, að höfðu samráði við foreldra eða forráðamenn auk skólastjóra, heimilað nemanda að hverfa frá grunnskólanámi að loknum 8. bekk í allt að eitt ár vegna þátttöku í atvinnulífi, og lýkur nemandi þá grunnskólanámi þeim mun síðar. Heimilt skal að meta þessa þátttöku nemandans í atvinnulífi til jafns við nám í tilteknum valgreinum 9. bekkjar.“

Þarna er alveg opin heimild til þess að taka hvíld frá námi og taka síðan til aftur síðar. Og það er alveg satt, það getur haft mikla þýðingu fyrir nemanda að geta gert þetta, og hann getur haft önnur viðhorf til náms, þegar hann tekur til á ný, heldur en áður en hann tók hvíldina frá námi. En þetta hafa skólamennirnir, sem frv. sömdu, séð, og þeir hafa sett þetta í frv. Þessi gagnrýni dettur því algerlega dauð niður. Það er hvort tveggja í frv.

Þá hafa menn til þess að tína eitthvað til frv. til foráttu bent á, að þetta sé óvenjulega langt frv. Það er það, það er langt, það er mikið mál, og það er alveg áreiðanlegt, að það hefði verið hægt að koma efni þess fyrir í miklu styttra máli. En hvaða höfuðröksemd er gegn því, að frv. sé mjög nákvæmt og fari út í smáatriði, sem ella væru sett í reglugerð? Það er ekki til baga, ekki til stórbaga a.m.k., að þessi sjálfsögðu atriði, sem menn hafa verið að hnjóta um og rekja, séu í frv. sjálfu. Það hafa höfundarnir talið vera réttara. Ég verð að játa mörg mjög eðlileg og sjálfsögð atriði, sem hér er rakið lið fyrir lið, hvernig eigi með að fara, að ég hefði talið alveg nægilegt, að þetta væri í grg. En ég sé ekki neitt slys við það, þótt þetta standi í löggjöfinni sjálfri, og þarf þá ekki reglugerðarákvæði um þau atriði. Það, sem menn gagnrýndu hér í dag að því er þetta snertir, eins og t.d. 8. gr., var ákaflega eðlilegur gangur máls, sem þar var rakinn. En það mátti segja, að það væri ekki nauðsynlegt að setja það í lagagr. 8. gr. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú sækir forráðamaður skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn hluta úr skólaári og færir fram knýjandi ástæður. Skal þá leitað umsagnar skólastjóra og skólanefndar, og mæli þeir aðilar shlj. með umsókninni, getur fræðslustjóri veitt undanþágu.“

Þetta eru allt saman stjórnvöldin heima í héraði, og andi gr. er sá, að það eigi ekki að liggja alveg á lausu að fá nemanda úr skóla, það verða að liggja til þess knýjandi ástæður, og þá fjalla skólastjóri og skólanefnd um það. Alveg hefði nægt að setja þetta í reglugerð, mikil ósköp, en hvaða mein gerir það, á ekki málið að ganga þennan gang? Hvaða mein gerir það, þótt það standi í lögum? Ég sé það ekki.

Ég vík máli mínu varðandi það, hvað þetta frv. sé langt, að hv. 5. þm. Norðurl. v., varðandi þá gagnrýni, og bendi honum á í allri vinsemd, — hann er mjög kunnugur landbúnaðarlöggjöfinni, að það eru lagabálkar, sem eru geysilega langir, orðmargir og sennilega vegna orðmergðarinnar í ýmsum tilfellum óskýrari en ef þeir hefðu verið settir fram í styttra máli. Þetta eru langir doðrantar, hver löggjöfin á fætur annarri. Jarðalögin, sem við höfum verið að pæla í að undanförnu t.d. og ábúðarlögin eru einmitt í þessum langlokustíl. Landbúnaðarlöggjöfin er það yfirleitt. Ég játa, að það er alveg óþarflega farið í smáatriði í þessu frv. og nokkurn veginn má segja í langlokustíl. En þegar allt efnið kemur til skila og menn verða að viðurkenna það hver á fætur öðrum, að hinni nýju skipan, sem í frv. felst, fylgja margir kostir, þá ber ekki að kasta slíkri lagasmíð fyrir róða.

Einn hv. þm. vék að því í dag, að þetta væri ekki alveg nýr kunningi, þetta frv., það væri búið að vera 3 ár í deildinni. Það er búið að koma þrisvar sinnum fyrir Alþ., það er rétt, og þess vegna segi ég, bæði við hv. 5. þm. Norðurl. v. og aðra gagnrýnendur: Hafa þeir ekki haft nægan tíma til þess að fara ofan í þetta frv. og bera fram brtt. um þá agnúa, sem þeir finna á því, til þess að kostirnir, sem þeir játa í öðru orðinu, fái að njóta sín? Ég held, að þeir geti ekki borið við tímaskorti. En svo á úrræðið að vera það þrátt fyrir þriggja ára tíma til þess að athuga þessi mál á öllum stigum þeirra að biðja um eitt ár enn, með einni nefndinni enn. Vitanlega eru þetta ekkert nema undanbrögð, því að það eru engar ástæður til þess að bæ±a þarna fjórða árinu við. Það er ekki líklegt, að þeir menn, sem ekki hafa komist til botns í þessu máli eða gefið sér tóm til þess að athuga það á þremur árum, hafi heldur gert það að fjórða árinu liðnu.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. var einn af þeim mönnum, sem viðurkenndu, að þetta frv. hefði mikla kosti, það gerði hv. 3. landsk. líka, í því væru mörg góð nýmæli. Og hv. þm. Björn Pálsson kleip ekki heldur utan af því, hann játaði, að þetta frv. væri til mikilla bóta og brtt., sem samþ. hefðu verið við það, hefðu enn fremur verið til bóta. En ég man ekki eftir því, að hv. þm. Björn Pálsson hafi borið fram neinar till. við frv. til bóta. Hann vill bara fá eitt ár enn í viðbót við þrjú, sem hann hefur haft, til þess að athuga það betur.

Nei, sannleikurinn er sá, að það er engin sú gagnrýni, sem komið hefur fram við þetta frv. hjá neinum af þeim hv. þm., sem hafa verið að gagnrýna það í dag, bitastæð. Það er eitt atriði, sem menn geta sagt, að máli skipti í þessari gagnrýni. Það er, hvort rétt sé að lengja skólaskylduna úr 15 ára aldri í 16 ár. Það er efnisatriði, sem menn geta í raun og veru deilt um. En að gera mikið atriði úr því, þegar við höfum skólaskyldu frá 7–15 ára aldurs, stenst ekki, nema því aðeins að draga úr þeirri skólaskyldu, sem fyrir er.

Meginatriðið í ræðu hv. þm. Ólafs G. Einarssonar, hv. 11. landsk., var um skólaskylduna, um lengingu skólaskyldunnar, og það er vissulega, eins og ég hef nú rétt í þessu sagt, það er atriði, sem við getum sannarlega verið ósammála um. En þó er atriðið ekki stórt, þegar það er tekið með í reikninginn, að við höfum bæði stytt vikulegan starfstíma nemenda og einnig heimilað forráðamönnum skólanna að stytta árlegan starfstíma skólanna um allt að tveimur mánuðum. Einnig þessi hv. þm. sagði orðrétt: Það er ýmislegt gott um þetta frv. að segja. Og hvað þá annað heldur en að koma með till., skýrar og klárar till. um að nema í burtu það, sem teljast mætti vankantar eða ágallar á frv., heldur en tortíma hinu ýmsa góða, sem um það megi segja? Það kemur ekki til neinnar glímu við sjálfan mig um afstöðuna til landshlutasamtakanna eða frv. um þau. Við eigum eftir að fjalla um það í n., og landshlutasamtökin, það er a.m.k. ekki illa með þau farið af minni hendi að fela þeim í viðbót við það, að ég hef veitt þeim fjárhagslegan grundvöll til að starfa á, að ég vil líka heimila þeim með fræðslulöggjöfinni að taka verulegan þátt í stjórn skólamála heima í héraði. Það er a.m.k. ekki ástæða til þess að fjandskapast við mig út af því af þeim mönnum, sem vilja landshlutasamtökunum allt gott.

Að þessu sögðu tel ég, að ég hafi gert grein fyrir innihaldi þeirrar gagnrýni, sem komið hefur fram við umr. í dag. Ég sé ekki, að í henni sé neitt bitastætt, þegar frá er tekið atriðið eða ágreiningurinn um skólaskyldulenginguna um eitt ár.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem eru á þskj. 687.