17.04.1974
Neðri deild: 107. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3645 í B-deild Alþingistíðinda. (3265)

9. mál, grunnskóli

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það hafa nú orðið langar umr. um þetta frv. og ég skal ekki lengja þær mjög, en það var út af ræðu hv. 3. þm. Vestf., Hannibals Valdimarssonar, sem mér fannst rétt að segja hér nokkur orð.

Það var þá það fyrsta, að ég vildi rifja upp fyrir honum og öðrum hv. þm., sem mál mitt heyra, að ég man ekki betur en að hæstv. menntmrh, segði svo í einhverjum af þeim framsöguræðum, sem hann hefur flutt um þetta mál á undanförnum þingum, að það væri alger forsenda fyrir því að samþykkja þetta frv. um grunnskóla og um skólakerfi að setja löggjöf um landshlutasamtök sveitarfélaga, vegna þess að í þessum frv. væri gert ráð fyrir því, að þessum landshlutasamtökum, tittnefndu, væru falin veigamikil verkefni. Ég man ekki betur en hæstv. ráðh., — hann leiðréttir mig, ef ég fer með rangt mál (Gripið fram í.) Ég hef nú ekki hér Alþingistíðindi við höndina, en ég get kannske útvegað mér þau, en ég man ekki betur en hæstv, ráðh. héldi því fram mjög ákveðið að það hlyti að verða að setja löggjöf um landshlutasamtök sveitarfélaga, ef þetta frv. yrði samþ. (Gripið fram í.) Ég skal ekki fullyrða um þetta, en ég skildi það svo, að hæstv. ráðh, væri á þeirri skoðun, að það væri beinlínis forsenda fyrir því, að það væri hægt að framkvæma lög um grunnskóla, eins og þeim væru gerðir skórnir í þessu frv., að um þetta yrði sett löggjöf, enda þarf náttúrlega ekki um þetta að deila. Allir hv. þm, ættu að bera sæmilegt skynbragð á, hvað hér er um að ræða, að það er verið að fela félagasamtökum verulegt opinbert vald með þessu frv. Ég er alveg sammála hv. 3. þm. Vestf, um það, að með þessu er tilvera þessara samtaka viðurkennd, og ég tel, að þarna sé um að ræða ákveðna viljayfirlýsingu löggjafans um það að fela þessum nýju samtökum ákveðið vald. Ég er honum alveg sammála um, að þetta sé gott og blessað út af fyrir sig, en ég skil ekki þau vinnubrögð og ég skil ekki þá andstöðu, sem er gegn því að setja ákveðinn lagaramma um starfsemi þessara landshlutasamtaka, á sama tíma sem hv. þm, eru að fela þeim veigamikið vald. Við vitum, að það eru á þessu verulegir annmarkar. Það er nú út af fyrir sig, að landshlutasamtök sveitarfélaga eru afskaplega misjafnlega uppbyggð. Það er kosið til þeirra með mismunandi hætti, og það eru ekki öll sveitarfélög í ýmsum landshlutum í þessum samtökum. Þar af leiðandi hefur fólk í þeim byggðarlögum ekki áhrif á jafnmikilvæg mál og á að fara að fela þessum landshlutasamtökum með þessu frv. Það þarf ekki annað en almenna greind og sæmilega þekkingu á opinberum málum til þess að sjá, að það er algjörlega öfugt farið að hlutunum að standa gegn því, að um þessa starfsemi sé settur almennur lagarammi, en fela þeim jafnmikilvæg störf og ætlað er með þessu frv. Ég vil því undirstrika það; sem ég sagði hér áðan, að ég tel, að þetta sé mikilvæg viðurkenning á landshlutasamtökunum. En ég vil hér með skora á hv. þm. Hannibal Valdimarsson að afgreiða nú þetta frv., sem er unnið af samtökum sveitarstjórna í landinu í samráði við þm, og ég veit ekki betur en sé alger samstaða um meðal sveitarstjórnarmanna — að afgreiða nú þetta mál úr n. Ég vil benda honum á það, að þetta frv. er kannske ekki jafngamalt grunnskólafrv. hér í hv. d., en það slagar upp í það. Það er sjálfsagt orðið 11/2 árs gamalt eða nær tveggja ára, og hv. þm. hefur haft nægan tíma til að kanna málið. Ætli það sé ekki svona 1/100 að lengd til miðað við grunnskólafrv.? Mér skilst, að hv. þm. hafi jafnvel frekast gagnrýnt, að það væri stutt, það væri snubbótt og í því væru ekki talin upp nein verkefni, sem landshlutasamtökin ættu að sinna, — frekast verið það, sem hann hefur haft út á frv. að setja. En það er alla vega það stutt og skorinort, að hv. þm, ættu að hafa haft næga möguleika til þess að kynna sér það og afgreiða það úr hv. nefnd.

Ég er nú ekki eins málsnjall maður og hv. varaþm. hv. 3. þm. Vestf., sem kom hér og ræddi um störf Alþ. op taldi, að við værum ekki nægilega skeleggir í ýmsum málum. En ég vil benda honum á að fara nú að afgreiða þetta mál, þar sem hann hefur haft svo langan tíma til þess að kanna það, og ég vil fullyrða, að þetta mál hefur verulegan byr hér á hv. Alþ., eftir því sem ég hef hlerað. Hins vegar hefur hann beitt sér mjög gegn því, að það næði fram að ganga. Ég vil aðeins skora á hann að endurskoða afstöðu sína til þessa máls og afgreiða það þá sem snarast úr n., og þá ætti öllu réttlæti að vera fullnægt í þeim efnum. Það væri þá ákveðinn grundvöllur fyrir starfsemi landshlutasamtakanna, sem á að fara að fela svo viðamikið vald eins og er í þessu grunnskólafrv. Ég skal svo láta útrætt um þetta atriði.

Þá vil ég aðeins víkja hér að einu meginatriði þessa grunnskólafrv., en það er lenging skólaskyldunnar, sem langar og strangar umr, hafa orðið um í þessari hv. d. að undanförnu og á undanförnum þingum. Ég man eftir því, að ég innti eftir því við hæstv. menntmrh. á sínum tíma, hvort ekki hefði verið rannsakað á vegum menntmrn. eða einhverrar þeirrar n., sem hefur um þetta mál fjallað, af hvaða ástæðum þau örfáu prósent nemenda, sem ekki koma í 3, bekk, koma ekki þangað sjálfviljug. Ég fæ ekki betur séð, ef með löggjöf á að ákveða, að þessir nemendur séu skyldugir að koma í skóla, og það á að kippa öllu í liðinn með því, en það sé meginatriði að vita, hvaða ástæður eru fyrir því, að hluti þessara nemenda kemur ekki af sjálfsdáðun. Þetta er fámennur hópur tiltölulega. Það stendur í aths. við frv., að þetta séu 18% nemenda. Það hefur komið fram seinna, að þetta sé miklu minni hundraðshluti á síðari árum. Er þetta vegna ónógrar aðstöðu í kennslurými? Er þetta vegna vangetu nemenda að einhverju leyti? Ég fæ ekki betur séð en það sé algert grundvallaratriði að vita þetta, því að jafnvel þó að við lengjum skólaskylduna í 16 ára aldur, ef það vantar húsnæði á ýmsum stöðum úti á landi til að kenna og ef nemendur eru vanhæfir til þess að koma í 3. bekk, þá lagast ekkert með því að lengja skólaskylduna. Við getum séð, hvernig þetta hefur verið á undanförnum árum. Við vitum, að skólaskylda hefur síðan 1946 verið frá 7–15 ára aldurs. Við vitum, að sú skólaskylda hefur ekki þýtt það, að allir nemendur frá 7–15 ára aldurs komist í skóla allan veturinn. Það er svo enn viða úti um land, enda er það viðurkennt í grg. grunnskólafrv., að svo er alls ekki. Þess vegna er það afskaplega mikil spurning í mínum huga: Erum við að ná þeim markmiðum, sem við ætlum að ná, með því að lengja skólaskylduna?

Það er vikið að því í grg, frv., að það eru tvær meginástæður fyrir því, að menn telja, að það þurfi að lengja skólaskylduna:

1) Að jafna aðstöðu nemenda hvar sem þeir búa á landinu.

2) Að samræma grunnskólastigið framhaldsskólastiginu, þannig að menn taki allir grunnskólapróf og hafi sem sagt möguleika á að fara þær námsbrautir á framhaldsskólastigi, sem menn síðar kjósa.

Við skulum athuga fyrri ástæðuna. Hún er sögð vera sú, að með þessu muni aðstöðumunur nemenda í dreifbýli og þéttbýli þurrkast út. Væri afskaplega gott, ef það væri hægt að gera þetta bara með því pennastriki að skylda alla í skóla til 16 ára aldurs. En því miður er það ekki svona einfalt. Það er ekki hægt að ná þessum árangri með þessum einfalda hætti. Það verður að gera verulegt átak til þess í skólamálum, og það er því miður svo víða, að jafnvel þó að það væri gert, þá held ég, að sá árangur næðist ekki, þannig að við erum að þessu leyti til, held ég, litlu nær, afskaplega litlu nær, þó að við lengjum skólaskylduna í 16 ár.

Þá er að víkja að hinu, að með þessu þá sé hægt að tengja saman skólakerfið, þannig að menn hafi möguleika á því að komast til allra átta, að allir taki grunnskólapróf og síðan hafi menn möguleika á að komast til allra átta á framhaldsskólastigi. En afskaplega hafa menn, held ég, litið hugmyndaflug, ef þeir koma ekki auga á aðra möguleika til að ná þessu markmiði en með því að auka skólaskylduna um eitt ár. Það mætti t.d. spyrja: Af hverju er ekki grunnskólapróf haft opið fyrir alla, þannig að jafnvel sjötugur maður geti sest á bekk í grunnskóla og tekið próf og farið svo sínar námsbrautir í framhaldsskóla síðar? — Unglingar, sem hefðu hætt 15 ára, gætu sest á skólabekk og lokið grunnskólaprófi síðar, ef þeir vildu. Það mega þeir. En til hvers þá öll skólaskyldan. Ég fæ ekki betur séð en að skólaskylduákvæðið í þessu frv. sé komið inn í frv. af allt öðrum ástæðum. a.m.k. læðist að manni sá grunur, að það sé fyrst og fremst komið af þeirri ástæðu, að það er skólaskylda til 16 ára í nágrannalöndunum og þá þurfi Íslendingar endilega að hafa skólaskyldu til 16 ára aldurs. Ég vil hins vegar ekki fallast á þetta sjónarmið. Ég tel, að við höfum að verulegu leyti sérstöðu í þessum efnum. Við höfum t.d. sérstöðu að því leyti til, að við höfum miklu lengra sumarfrí í skólum en nágrannalönd okkar. Okkar unglingar taka miklu meiri þátt í atvinnulífi en í nágrannalöndunum. Ég álít, að það sé æskilegt að halda þessari sérstöðu áfram, og ég tel ekkert atriði að hafa skólaskylduna hér til 16 ára aldurs, það sé engin röksemd fyrir því, þó að hún sé það í nágrannalöndunum, ef við getum náð okkar markmiði að koma öllum börnum og unglingum til þroska án þess að hafa 16 ára skólaskyldu.

Það er eitt meginatriði, sem skólamenn hafa bent á, sem ég hef ekki heyrt mikið um hér í þessum umr., sem veldur því, að það er verulegur ábyrgðarhluti að stiga þetta skref, að lengja skólaskylduna til 16 ára aldurs á þessum hæpnu forsendum, sem ég hef rakið, með þau markmið fyrir augum, sem ég hef hér rakið, en við náum ekki með skólaskyldu 16 ára unglinga nema að mjög litlu leyti, eins og ég hef hér rakið. Það er einn meginágalli, sem skólamenn hafa bent á, og það er, að 90% af nemendum 3. bekkjar koma þá skyldaðir í skóla í stað þess að koma þar af fúsum og frjálsum vilja og jafnvel allt að 100%, vegna þess að með öðrum aðferðum er ég sannfærður um það, að við mundum fá þessa nemendur til þess að koma í 3. bekk af frjálsum vilja. Ég tala nú ekki um, ef grunnskólapróf er orðið svo mikill lykill að framhaldsnámi eins og ætlunin er að gera með þessu frv. og ég tel vera sjálfsagt og eðlilegt, að það sé. Það þarf bara enga skólaskyldu 16 ára unglinga til þess. Menn geta komið og tekið grunnskólapróf og verið fleygir til allra átta, án þess að vera skyldaðir til þess. Ég tala nú ekki um, ef menn geta síðar tekið þetta próf, — jafnvel án þess að sitja í viðkomandi bekk, — tekið það próf, ef þeir geta skilað lágmarksárangri á prófi.

En það er einn megingalli á þessu, og hann er sá, að menn koma með allt öðru hugarfari í 3. bekk í skóla, ef þeir eru skyldaðir til þess, heldur en ef þeir koma þangað frjálsir. Og þetta óttast skólamenn afskaplega mikið. Þeir skólamenn, sem ég hef talað við, flestir hverjir, telja, að þetta muni verða þannig í reynd, að það verði ekki eins mikill munur á unglingum, sem koma í 2. bekk og 3, bekk, eins og nú er. Þeir segja: Það er gerbreytt andrúmsloft í 3. bekk í gagnfræðaskóla frá því sem er í 2. bekk, vegna þess að þegar menn koma í 3. bekk, eru menn ekki að koma þangað af skyldu. Menn eru að koma af sjálfsdáðum til þess að halda áfram námi á eigin ábyrgð, en ekki vegna skyldukvaða ríkisins. — Þetta er afskaplega mikilvægt mál, og ég held, að við eigum að hlusta á þessar röksemdir og reyna að ná þeim markmiðum á annan hátt, sem við stefnum að með lengingu skólaskyldunnar, vitandi það að það kostar þessa fórn, það kostar hugarfarsbreytingu mikils meiri hluta unglinga í 3. bekk að leggja þá kvöð á þá að koma í bekkinn. Þess vegna er það mikilvæg spurning: Af hverju kemur ekki þetta fólk, sem á vantar? Af hverju kemur það ekki? Er það vegna aðstöðuleysis? Er það vegna vangetu? Er hægt að ná þeim markmiðum eftir öðrum leiðum, að allt að 100% nemenda komi af eigin hvötum í 3. bekk og taki grunn skólapróf og hafi þannig leiðir til allra átta á framhaldsskólastigi? — Það eru þessar mikilvægu spurningar, sem ég tel, að þrátt fyrir þriggja ára meðferð þessarar hv. d. á þessu frv. hafi ekki verið svarað, og það hefur ekki verið gerð tilraun til að svara þeim.

Vegna þess að svo er í pottinn búið, tel ég, að það sé rétt að gera enn eina tilraun til þess að fá þessu frv. þannig breytt, að við verði unað, Ég tel, að þarna sé hvorki meira né minna en um meginatriði að ræða, enda hefur það komið skýrt fram í ræðum manna hér og ekki síst hjá hv. 3, þm. Vestf., frsm. hv. menntmn., og þess vegna tel ég, að það sé rétt enn um sinn að skoða þetta mál. Ég vil líka á það benda í þessu sambandi, að nú hefur því verið breytt, sem áður var, að það var gert ráð fyrir 9 mánaða árlegum starfstíma skóla. Nú hefur þarna verið slakað til og lagt til, að það verði 7–9 mánaða starfstími. Hv. 3. þm. Vestf. taldi, að þarna væri um að ræða tilslökun, og því væri eðlilegt, a.m.k. eðlilegra en ella, að taka upp eitt skólaár í viðbót, skylda menn eitt skólaár í viðbót við það, sem nú er, til þess að koma í skólann. Ég er ekki sammála þessu, því að í raun og veru hefur þetta verið svo, að margir skólar hafa ekki starfað nema 7 mánuði og þetta hefur gerst fyrst og fremst úti í dreifbýlinu. Á þessu sjáum við, að í raun og veru er svo við núgildandi aðstæður og verður svo, eftir að þetta frv. er samþ., að skólastarf úti á landsbyggðinni verður tekið öðrum tökum heldur en í þéttbýlinu, og við sjáum á þessu, að það er ekki í raun og veru hægt að leggja sama mælikvarða á skólastarf yfir allt landið. Það verður að vera viss sveigjanleiki í þessu, og á þetta hafa hv. alþm. fallist með því að gera þessa tilslökun, sem ég tel vera eðlilega, vegna þess að það háttar svo víða til á landsbyggðinni, að þar eru börn og unglingar að störfum yfir sumartímann, sem ég tel heilbrigt og eðlilegt, og þar geta þau ekki verið 9 mánuði í skóla, það er útilokað mál. Þetta sýnir, að það þarf að vera á þessu sveigjanleiki. Ég tel, að þetta þurfi að vera einnig um skólaskylduna. Og ég tel, að það þurfi að freista þess að fá fram þau markmið, sem stefnt er að í þessu frv., með því, að allir ljúki grunnskólaprófi, sem allra flestir, en það þurfi að freista þess að gera það með öðrum hætti. Ég er persónulega sannfærður um, að það er ekki fyrst og fremst vegna þess, að fólk er ekki skyldugt til þess að ljúka 3. bekk, sem fólk heltist úr lestinni, heldur hreinlega vegna ýmissa annarra orsaka, og það mætti laga með allt öðrum hætti en þeirri fórn, að 3. bekkur komi með allt öðru hugarfari í skólann sem lögþvingaður, með þeirri lögþvingun, sem að er stefnt með því að lengja skólaskylduna, eins og í frv. er. Ég tel, að það sé hægt að ná þeim markmiðum með allt öðrum hætti, og ég mun því fylgja þeirri rökstuddu dagskrá, sem hér hefur komið fram.