18.04.1974
Sameinað þing: 75. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3665 í B-deild Alþingistíðinda. (3273)

420. mál, nýting innlendra orkugjafa í stað olíu

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Í haust, þegar sýnt var, hver þróun væri framundan í olíumálum, bæði olíuskortur og mjög stórfelldar verðhækkanir olíu, sem flestir fróðir menn töldu, að væru komnar til frambúðar, þótti mér einsætt, að okkur Íslendingum bæri að endurskoða öll áform okkar um nýtingu innlendra orkugjafa í stað innfluttrar olíu, þar sem hægt væri að koma því við, og flýta öllum framkvæmdum á því sviði. Ég ræddi þessi mál við Orkustofnun og óskaði eftir því, að hún hefði frumkvæði um þetta mál. Hún taldi sig skorta mannafla til að vinna þetta verk með jafnskjótum hætti og ég hafði óskað eftir, og varð því að ráði að fela Verkfræðiskrifstofu Sigurðar Thoroddsen að framkvæma könnun á því, hvernig unnt væri með sem skjótustum hætti að nýta innlenda orkugjafa í stað olíu til húshitunar og annarra þarfa, í samráði við Orkustofnun, Hitaveitu Reykjavíkur, Framkvæmdastofnun og aðra aðila. Jafnframt fór ég þess á leit við Seðlabankann, að hann léti vinna fjármögnunaráætlun í sambandi við þessa athugun. Ég óskaði jafnframt eftir því, að það yrði lögð fram framvinduskýrsla um þróun þessa máls það tímanlega, að hægt væri að leggja hana fyrir Alþingi, svo að hv. alþm. fengju sem gleggsta grg. um, hvernig þessi mál stæðu, og unnt væri að marka stefnu um það, hvernig á þessum málum yrði haldið framvegis. Skýrslan um nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíu hefur legið hér fyrir um nokkurt skeið, og ég vil leyfa mér að fara yfir ýmis atriði úr henni. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þessar:

Um áramótin 1972–1973 nutu um 46% þjóðarinnar jarðvarma til húshitunar, og er hlutur Hitaveitu Reykjavíkur þar langmestur, um 7% nutu rafmagnshitunar og um 47% hituðu hús sín með olíu. Þegar olíuhitun hefur verið útrýmt með öllu og tekin hefur verið upp hitun með jarðvarma eða raforku, er væntanleg skipting þannig, að um 66% landsmanna njóta hitunar með jarðvarma, en um 34% með raforku. Nokkrir staðir eru þannig settir, að vafi leikur á, hvort þeir skuli hitaðir með jarðvarma eða raforku, en heildarskiptingin breytist ekki að marki, hvort heldur verður.

Olíunotkun landsmanna til húshitunar árið 1972 var um 180 millj. lítra, þar af tæp 10% svartolía. Á útsöluverði olíu til húshitunar í dag er notkunin 1972 um 2000 millj. kr., og er því ljóst, að hér er um mikið hagsmunamál að ræða að geta skipt yfir til ódýrari orkugjafa auk þess öryggis, að Íslendingar sjálfir ráði orkugjöfum sínum„ en þurfi ekki að vera háðir innflutningi.

Ætla má, að fyrirsjáanlegar jarðvarmaveitur geti að mestu verið komnar í full not um áramótin 1976 og 1977, miðað við, að þeim framkvæmdum verði tryggð nægileg fyrirgreiðsla fjárhagslega. Öðru máli gegnir hins vegar um uppbyggingu raforku til hitunarmarkaðar. Þar er um mjög tímafrekar framkvæmdir að ræða, bæði nýbyggingu virkjana og endurbyggingu dreifikerfa með tilliti til aukins álags vegna rafhitunar. Er vart hægt að búast við, að aukning rafhitunar verði meiri en svo, að í árslok 1981 verði um 80% af áætluðum heildarmarkaði rafhitunar tengdur.

Niðurstöður útreikninga á kostnaði húshitunar með mismunandi orkugjöfum eru þær helstar, að miðað við olíuverðið 11.50 kr. á lítra og 60% brennslunýtni olíunnar má rafhitunin í nýjum húsum mest kosta um 2.50 kr. á kwst. og hitaveita um 2.10 kr. á kwst., sem samsvarar um 95 kr. á rúmmetra vatns, miðað við 40 stiga hitafall, til að jafngildur hitunarkostnaður olíu fáist. Er þá innifalið í orkuverðinu mælaleiga og heimtaugargjald. Til samanburðar má taka virkjun með stofnkostnað 40 þús. kr. kw., sem er nálægt stofnkostnaði Sigölduvirkjunar, og nýtingarstundir hitunarálags í virkjun 4 þús. stundir á ári, og þá verður orkukostnaður hjá neytanda 1.70 kr. á kwst. eða 20–30% lægri en hitun með olíu, eftir því, hvort um er að ræða gömul eða ný bús. Helstu hitaveitur, sem fyrirhugaðar eru utan Reykjavíkur, hafa orkukostnað hjá notanda 1–1.20 kr. á kwst. eða 50–60 kr. á rúmmetra vatns. Ef miðað er við 1.20 kr. á kwst., er það verð 30–40% ódýrara en hitun með olíu.

Af þessum niðurstöðum má vera ljóst, að mjög hagkvæmt er fyrir landsmenn að stefna að útrýmingu olíuhitunar, þar eð álit manna er, að olíuverð lækki ekki að neinu marki frá núverandi verði hér. Hins vegar má benda á, að búast má við verulegum hækkunum á byggingarkostnaði á næstunni, og hefur sú hækkun veruleg áhríf á þennan samanburð, þar eð kostnaður hitaveitu og raforkuframkvæmda fylgir að mestu leyti byggingarvísitölu, en olíuverð er háð öðrum þáttum.

Áætlanir um hitaveituframkvæmdir liggja nú fyrir um flesta þá staði, sem til greina koma. Þær eru þó mislangt komnar. Sumar eru aðeins frumáætlanir, aðrar eru fullhannaðar. Til þess að unnt sé að standa við þær áætlanir, sem nú liggja fyrir um hitaveituframkvæmdir, er nauðsynlegt, að framkvæmdum sé veitt öll sú fjárhagslega fyrirgreiðsla, sem unnt er. Á þessu ári er áætlað, að fjárfesting í hitaveituframkvæmdum verði um 900 millj. kr., á næsta ári um 1600 millj. kr. og á árinu 1976 1250 millj. kr. eða samtals um 3750 millj. kr. Munu þá um 45 þús. manns fá hitaveitu. Fjárfrekustu framkvæmdirnar eru hjá Hitaveitu Reykjavíkur og hitaveitu frá Svartsengi, og jafnframt eru þær veitur með hagkvæmast orkuverð. Eins og kunnugt er, er búið að ganga frá fjármögnun hjá Hitaveitu Reykjavíkur að fullu, þannig að þar á ekki að vera um neinn fjármagnsvanda að ræða.

Á þessu árabili, sem ég nefndi áðan, er áætlað, að lokið verði við þær veitur, sem nú eru taldar hagkvæmar, þ.e.a.s. um nágrannabyggðir Reykjavíkur, Suðurnes, Akranes. Borgarnes, Blönduós, Siglufjörð, Eyrarbakka, Stokkseyri og Þorlákshöfn. Einnig má búast við, að áframhaldandi rannsóknir á hitasvæðum í nánd við þéttbýli leiði í ljós hagkvæmni á hitaveitum, þar sem vafi leikur á um hagkvæmni nú. Mikil nauðsyn er því á, að jarðhitarannsóknir verði styrktar mjög, til þess að sem fyrst verði hægt að skera úr um með fullri vissu, hvar um nýtanlegan jarðvarma sé að ræða. Má sem dæmi nefna möguleika á að nýta varma úr nýja hrauninu í Vestmannaeyjum til húshitunar og einnig nýtingu jarðvarma við Mývatn til upphitunar á Akureyri, en frumathugun á því bendir til, að þann möguleika þurfi að kanna nánar. Áætlanir um framkvæmdir til að auka rafhitun í landinu eru skammt á veg komnar, sérstaklega hvað viðvíkur breytingu dreifikerfa vegna aukins orkuflutnings.

Sigölduvirkjun, Lagarfossvirkjun og stækkun Mjólkárvirkjunar eru nú þegar í byggingu, og auk þess er unnið að því að hefja undirbúning að lögn byggðarlinu frá Hvalfirði til Varmahlíðar á þessu ári, einnig styrkingu dreifikerfa vegna rafhitunar, þar sem brýnust nauðsyn er. Lausleg áætlun um kostnað við tengilínur milli landshluta og breytingar á dreifikerfum er um 4000 millj. kr., og er áætlað, að unnt sé að tengja um 80% af fullum rafhitunarmarkaði í árslok 1981. Ástæðan til þess, að ekki er talið, að bægt sé að hraða mettun markaðsins umfram þetta, er hin mikla fjárfesting og einnig mannaflaþörf við þessa vinnu, sem að stórum hluta krefst sérhæfðs vinnuafls.

Forsenda aukinnar rafhitunar er, að áfram verði haldið við virkjunarframkvæmdir og rannsóknir á nýtilegum virkjunarstöðum. Einnig er nauðsynlegt að stefna að tengingu alls landsins í eitt kerfi og jafnframt að auka öryggi hvers landshluta gagnvart bilunum í raforkukerfinu.

Könnun sú, sem ég hef hér rætt um, hefur aðallega beinst að búshitunarmálum, en enn sem komið er tiltölulega lítið að öðrum þáttum olíunotkunar. Hins vegar skipaði ég nefnd á s.l. hausti til að kanna, hversu hagkvæmt það kynni að vera að nýta rafmagn til graskögglagerðar eða framleiðsla á graskögglum yrði aukin til mikilla muna frá því, sem nú er, og stefnt að því marki, að við framleiddum hér allt það, sem unnt er að framleiða í landinu af fóðurbæti. Slík notkun rafmagns til heykögglagerðar yrði mjög góð jafnhliða notkun rafmagns til húshitunar, þar eð húshitun yrði minni á sumrin, þegar heykögglar eru í framleiðslu. Hins vegar eru ýmis tæknileg vandamál við rafþurrkun heyköggla, þannig að á þessu stigi málsins er ekki unnt að segja til um þennan nýtingarmöguleika. Einnig hefur verið gerð áætlun um notkun jarðvarma til graskögglavinnslu, og virðist slík notkun vera hagkvæm á sama hátt vegna notkunar á heitu afgangsvatni á sumrum, þegar lítil húshitun er. En sem dæmi um það, hversu mikill þessi markaður kann að vera, er rétt að geta þess, að nefndin telur, að til þess að tífalda heykögglaframleiðslu, sem talið er, að markaðurinn þurfi á að halda, mundi þurfa afl, sem jafngildir 50 mw., þannig að samtenging á þessu verkefni og húshitun kann að reynast mjög hagkvæm og tryggja mikla nýtingu á þeirri raforku, sem framleidd er. Eins má benda á, að á svipaðan hátt og við þurrkum gras með rafmagni mætti þurrka fiskmjöl, en tilraunir á því er nauðsynlegt að gera, áður en unnt er að fullyrða um hagkvæmni þeirrar notkunar.

Á flestum öðrum sviðum olíunotkunar er óhægara um vik að nýta innlenda orku, en aðalorkunotkun önnur er til skipa, bifreiða og flugvéla.

Eins og fyrr segir, er skýrslan könnun á húshitunarmálum landsmanna, og hefur athugunin verið látin ná til landsins alls. Hérlendis er nýtt til húshitunar þrenns konar orka: jarðvarmi, raforka og olía. Hefur verið mikill og vaxandi áhugi á undanförnum árum á aukinni nýtingu jarðvarma og raforku til húshitunar, og þessi áhugi hefur að sjálfsögðu aukist til mjög mikilla muna, eftir að þeir atburðir gerðust, sem urðu á s.l. hausti í sambandi við framboð og verðlag á olíu. Hafa verið fluttar hér á þingi mjög margar till. nú í vetur um þetta efni, sem eru til marks um það, að þm. gera sér ljóst, að hér er um að ræða ákaflega mikið og ákaflega brýnt vandamál. Jarðvarmi á hinum svokölluðu lághitasvæðum landsins er mjög vel nýtanlegur til húshitunar, og er orkan mjög ódýr á sjálfum jarðvarmastöðunum. En til þess að nýta megi varmann er nauðsynlegt, að fjarlægð til notenda sé ekki mjög mikil, þar eð flutningur á heitu vatni langar vegalengdir er dýr. Jarðvarma með hitastig undir 100°C er mjög erfitt að breyta í annað en varmaorku, en á háhitasvæðum landsins, þar sem hitastig er talsvert hærra, er unnt að breyta varmaorkunni í raforku, sem auðvelt er að flytja langar vegalengdir. Þar sem jarðvarmi er nálægt þéttbýli, er því eðlilegt að leggja áherslu á að nýta hann til upphitunar húsa, ef hann er kostnaðarlega sambærilegur við rafhitun.

Í þeirri skýrslu, sem hér liggur fyrir prentuð, er sérstakur kafli um húshitun, þar sem gerð er grein fyrir ýmsum grundvallarstaðreyndum, sem ég sé ekki ástæðu til að rekja nú. Þar koma m.a. þær staðreyndir, sem ég gat um áðan, að 46% þjóðarinnar hafa jarðvarma til húshitunar, eins og nú er, aðeins 7% rafmagnshitun, en um 47% hita hús sín með olíu.

Í töflu 1 á bls. 5 er sýnt, hvernig er núverandi skipting húshitunar, líkleg skipting og loks líkleg endanleg skipting. Þar kemur það fram, að á Suðurlandi er spáin sú, að 6370 manns frá jarðvarmahitun, en 12013 raforkuhitun, á Reykjanesi fái 117 þús. jarðvarmahitun, en 7947 raforkuhitun. Í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu fái 5460 jarðvarmahitun, en 2503 raforkuhitun, á Snæfellsnesi og Dalasýslu 20 jarðvarmahitun, en 5439 raforkuhitun, á Vestfjörðum 450 jarðvarmahitun, en 9475 raforkuhitun, á Norðurlandi vestra 4500 jarðvarmahitun, en 5387 raforkuhitun, á Norðurlandi eystra 5200 jarðvarmahitun, en 17500 raforkuhitun, og loks á Austurlandi 500 manns jarðvarmahitun, en 10972 raforkuhitun.

Þá er kafli, sem fjallar um upphitað húsrými, og er gerð grein fyrir því, það er á bls. 6, og í töflu 3 er svo fjallað um rúmmál mannvirkja í nokkrum þéttbýlisstöðum, og á þeirri síðu er bent á þá athyglisverðu staðreynd, að heildarorkunotkun landsmanna árið 1972 var áætluð nettó um 5870 gwst., en þar af er áætlað, að hafi farið til húshitunar um 2530 gwst. eða hvorki meira né minna en 43% af heildarorkunotkuninni. Á bls. 8 eru frekari töflur um þetta sama efni. Loks er tafla á bls. 9 um væntanlega skiptingu olíuhitunar miðað við notkun 1972, og þar kemur fram, að á Suðurlandi er gert ráð fyrir, að 34 gwst. verði með jarðvarma, en 98 gwst. með rafhitun, á Reykjanesi 396 gwst. með jarðvarma, en aðeins 27 með rafhitun, á Vesturlandi 64 gwst. með jarðvarma, en 66 með rafhitun, það skiptist sem sé til helminga, á Vestfjörðum aðeins 4 gwst. með jarðvarma, en 86 með rafhitun, á Norðvesturlandi 27 gwst. með jarðvarma og 46 með rafhitun, á Norðausturlandi 7 gwst. með jarðvarma, en 112 með rafhitun, og á Austurlandi 6 gwst. með jarðvarma og 97 með rafhitun, þannig að sérstaklega Vestfirðir, Norðausturland og Austurland eru ákaflega háð því að fá raforku til hitunar á híbýlum manna.

Í 4. kafla þessarar skýrslu er fjallað um húshitunarkostnað og viðmiðunarverð raforku og hitaveitu við olíu. Ég ræddi áðan, hverjar væru þar meginniðurstöður, að það væri hagkvæmara að nýta raforku svo að næmi 20–30%, en jarðvarma 30–10%.

Í 5. kafla er fjallað um hitaveituframkvæmdir, og er þar rakið, að leit að nýju heitu vatni að Reykjum í Mosfellssveit hefur borið mjög góðan árangur. Talið er, að heita vatnið þar nægi til þess að hita upp nágrannabæina Hafnarfjörð, Garðahrepp og Kópavog auk viðbótarbyggðar í Reykjavík vel fram yfir árið 1980. Áætlað er að ljúka við boranir og allar virkjunarframkvæmdir á svæðinu árið 1976. Hitaveita Reykjavíkur gerði samning við Kópavog 1973 og við Hafnarfjörð sama ár um lögn og rekstur hitaveitu í þessum bæjum. Í samningunum er gert ráð fyrir, að lögn dreifikerfis og aðveitu fyrir þessa bæi verði lokið í árslok 1976, og jafnframt hafa samningar nú fyrir skömmu verið gerðir við Garðahrepp um lögn hitaveitu þar. Gert er ráð fyrir, að austurhluti Kópavogs tengist hitaveitu á þessu ári, en vesturhlutinn árið 1975. Byrjað verður á að tengja aðalæð til Hafnarfjarðar á þessu ári og dreifikerfi í fyrsta hluta Hafnarfjarðar, norðurbæ og nágrenni. Lokið verður við tengingu dreifikerfa á árinu 1975 og 1976, en tengja á hitaveituna árið 1975. Að því er samning Garðahrepps varðar mætti tengja hreppinn á árunum 1975 og 1976. Í Reykjavík er áætlað að tengja dreifikerfi í ýmis ný hverfi, sem byggjast munu, og gætir þar mest framkvæmda í Breiðholti.

Ofangreindar framkvæmdir Hitaveitu Reykjavíkur nema alls 1626 millj. kr. á þessum þremur árum á verðlagi miðað við nóvember í fyrra. Framkvæmdaáætlun er mjög hröð, og möguleikar á að flýta þessum framkvæmdum virðast ekki vera miklir. Kemur þar sérstaklega til mannafla- og tækjaskortur verktaka á þessu sviði. Mikla áherslu verður að leggja á, að áætlun framkvæmda verði haldið. Vegna almennrar spennu á vinnumarkaði gæti þurft að seinka öðrum framkvæmdum og veita hitaveituframkvæmdum forgang.

Eins og ég gat um áðan, var búið að ganga frá fjármögnun þessara framkvæmda, og hefur þar verið gengið frá málum á ákaflega hagkvæman hátt fyrir Hitaveitu Reykjavíkur. Hún getur fjármagnað þessar nýju framkvæmdir að meiri hluta til fyrir eigin tekjur, en tekur lán, sem nema tæpum helmingi af framkvæmdunum. Ég hef rætt þessar framkvæmdir við borgarstjórann í Reykjavík, og okkur hefur komið saman um að ráðgast um það, hvernig hægt sé að hraða þessum framkvæmdum, og hafa um það sem besta samvinnu að leysa úr vandamálum, sem upp kunna að koma í sambandi við þær.

Í áætlun Orkustofnunar frá 1973 er gert ráð fyrir virkjun háhitasvæðis við Svartsengi til þess að mynda sameiginlega varmaveitu fyrir þéttbýlisstaði Suðurnesja. Áætlað er að leggja varmaveitu í fyrsta áfanga til Grindavíkur, Keflavíkur, Njarðvíkur, Sandgerðis og Gerða, en í síðari áfanga til flugvallarsvæðisins á Miðnesheiði. Orkuþörf flugvallarsvæðisins er áætluð rúmlega tvisvar sinnum orkuþörf þéttbýlissvæðanna allra. Varmaveita þessi næði til 96% af öllum íbúum Suðurnesja. Orkustofnun gerir ráð fyrir að ljúka öllum rannsóknum Svartsengissvæðisins upp úr miðju þessu ári. Þá fyrst verður unnt að segja til um orkugetu svæðisins og endanlega gerð varmaskiptistöðvar. Hönnun flutningsæða og dreifikerfa til þéttbýlis ætti að verða langt komin í lok þessa árs og gæti útboð því hafist upp úr miðju þessu ári. Möguleiki er á því að tengja hluta Grindavíkur við veitu þegar í byrjun næsta árs. Njarðvík og Keflavík mætti tengja í árslok 1975 og fyrri hluta árs 1976, en Sandgerði og Gerðar ná varla að komast inn á kerfið fyrr en seinast á árinu 1976.

Engin áætlun hefur enn verið gerð um tengingu flugvallarsvæðisins. Hins vegar hafa farið fram viðræður milli ríkisstj. og sveitarfélaganna á Suðurnesjum um stofnun sameiginlegs hitaveitufyrirtækis, sem nefndist Hítaveita Suðurnesja, og hefur þar verið rætt um, að ríkissjóður ætti um helming í þessu fyrirtæki vegna Keflavíkurflugvallar. Þetta er þó enn á umræðustigi og ekki búið að ganga frá því á neinn hátt, en þarna verður að sjálfsögðu að hafa hraðan á, til þess að það taki því að ráðast í framkvæmdir, eftir því sem endanlegar rannsóknir liggja fyrir.

Þessi áætlun, sem ég var að nefna áðan um framkvæmdahraðann, er því enn þá óviss og erfitt að segja alveg endanlega fyrir um, hvort hægt sé að framkvæma þetta eða í hvaða áföngum endanlega. Ef til vill er möguleiki að flýta hönnun verksins, til þess að unnt verði að bjóða út efni í veituna fyrr en nú er ráðgert, en afgreiðslufrestur á efni ásamt mannafla og tækjakosti gæti orðið til þess að tefja framkvæmdahraðann.

Þá hefur verið gerð frumáætlun um hitaveitu fyrir Borgarnes og Akranes með virkjun Deildartunguhvers í Borgarfirði. Gert er ráð fyrir 30 km asbestleiðslu að Seleyri gegnt Borgarnesi, en tengt yfir í Borgarnes á fyrirhugaðri brú milli Seleyrar og Borgarness. Hvanneyri yrði tengd aðalleiðslu með 5 km lögn. Leiðsla frá Seleyri til Akraness yrði 2fi km löng. Virkjun þessi virðist hagkvæm bæði fyrir Borgarnes og Akranes.

Ráðgerð er borun að Leirá nú í vor til að athuga möguleika á heitu vatni þar fyrir Akranes. Leiðsla þaðan yfir á Akranes yrði aðeins um 15 km, og ef nægilegt vatn fengist þar, yrði sú veita vafalaust hagkvæmari en veitan frá Deildartungu.

Hönnun aðfærsluæðar til Borgarness er háð því, hvort Borgarnes fær vatn frá Leirá eða frá Deildartungu. Sennilega verður ekki úr því skorið fyrr eða síðar á þessu ári. Það ætti þó ekki að tefja framkvæmdir. Hins vegar er tenging við Borgarnes háð brúargerð yfir Borgarfjörð, þar sem áætlað er, að aðfærsluæðin liggi á brúnni. Talið er ósennilegt, að brúin verði tilbúin fyrr en sumarið 1976. Tengingartími við Borgarnes takmarkast því sennilega af hraða brúargerðarinnar, því að unnt ætti að vera að ljúka öðrum framkvæmdum seint á árinu 1975.

Boranir standa nú yfir á Reykjum við Reykjabraut sunnan við Blönduós. Líkur eru á hagkvæmum niðurstöðum þar, en framkvæmdir við hitaveitu Blönduóss eru háðar þeim. Möguleikar ættu að vera á lagningu aðalæða til Blönduóss fyrir næsta vetur og tengingu við sjúkrahús og skóla, ef niðurstöður borana verða jákvæðar. Allur bærinn yrði síðan tengdur sumarið 1975.

Fyrir liggur áætlun um hitaveitu á Siglufirði, gerð af Vermi 1966, og endurskoðuð áætlun bæjarverkfræðings Siglufjarðar frá því í febr. 1972 og nóv. 1973. Gert er ráð fyrir að nýta borholuvatn að hluta til veitunnar, ódýra umframorku að hluta og svartolíu að hluta. Kostnaðaráætlun hendir til þess, að hér sé um hagkvæma virkjun að ræða, og full ástæða til þess, að Siglufjarðarkaupstaður nýti þann jarðvarma, sem fyrir hendi er, með blönduðu hitakerfi.

Um alllangt skeið hafa farið fram rannsóknir á jarðvarma í nágrenni Akureyrar, en ekki hefur fundist nægilegt vatnsmagn til þess að fullnægja þörfum Akureyrar fyrir hitaveitu. Raforka hefur því verið notuð í ríkum mæli til upphitunar húsa, bæði með daghitun og næturhitun. Lætur nærri, að 27% af orkunotkun Akureyrar til húshitunar sé nú með raforku. Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen á Akureyri hefur gert frumathugun og samanburð á hagkvæmni þess að leiða heitt vatn frá Bjarnarflagi við Mývatn til Akureyrar annars vegar og upphitun bæjarins með raforku hins vegar. Í áætlun um varmaveitu er gert ráð fyrir að leiða yfirhitað vatn í stálpípu um 75 km leið til Akureyrar. Áætlaður stofnkostnaður er reiknaður 1500 millj. kr., en rekstrarkostnaður fyrsta vinnsluársins, 1977, er reiknaður 195 millj. kr. Orkuverðið yrði þá um 1.30 kr. á kwst., miðað við óbreytta orkunotkun. Sambærilegt rafmagnsverð er a.m.k. 20% hærra, en raforkunotkun er hins vegar minni á hvern íbúa heldur en hitaveitunotkun. Þessi frumhönnun á hitaveitu hendir til þess, að athuga beri ýmsa liði hennar nánar, eins og t.d. gerð og legu aðveitunnar. Einnig þarf að athuga vel náttúruverndarsjónarmið vegna frekari virkjunar í Bjarnarflagi. Enn er því óvissa um, hvort stefna beri að hitaveitu eða algjörri rafhitun á Akureyri, en í þeim spám, sem birtast í þessari skýrslu, hefur þó verið reiknað með því til bráðabirgða, að Akureyri verði rafhitunarsvæði.

Orkustofnun hefur að undanförnu gert athugun á ýmsum leiðum til jarðvarmatöku fyrir Eyrarbakka, Stokkseyri og Þorlákshöfn. Skýrsla um þær athuganir birtist nú fyrri skömmu, og er þar áætlað, að tveir valkostir séu fyrir hendi fyrir Eyrarbakka og Stokkseyri, báðir hagkvæmir. Annars vegar er að fá vatn með viðbótarborunum á svæði Hitaveitu Selfoss og hins vegar með borunum í landi Bollastaða. Gera má ráð fyrir, að borun geti hafist í haust í fyrsta lagi, og niðurstöður borana gætu þá legið fyrir fyrri hluta næsta árs, og hitaveitan gæti svo verið komin í notkun fyrir áramót 1976. Kostnaður við fyrri valkostinn er talinn um 100 millj. kr., en hinn síðari um 106 millj. kr., og er þá meðtalið allt dreifikerfi í bæði kauptúnin. Þá er sú niðurstaða af athugunum Orkustofnunar um jarðvarmaveitu fyrir Þorlákshöfn, að hagkvæmast sé að bora á svæðinu milli Hlíðardalsskóla og vegamóta til Þorlákshafnar. Borun verður hafin á þessu ári, og ef vel gengur, gætu niðurstöður borana legið fyrir seinni hluta þessa árs. Hugsanlegt væri þá, að hluti veitunnar gæti komið í notkun í árslok 1975 og öll veitan fyrir árslok 1976. Kostnaðurinn er talinn vera um 85 millj. kr. á allri þeirri veitu.

Á bls. 19 er tafla um áætlaðan stofnkostnað nýrra hitaveitna, þar sem fjallað er um þær hitaveitur, sem ég hef nefnt hér, og enn fremur ýmsar boranir og smávirkjanir, sem þarf að gera á þessu ári og á næstu árum, bæði í rannsóknarskyni og til nýrra virkjana. Má þar nefna á þessu ári viðbótarholur fyrir Selfoss, Ólafsfjörð, Dalvík og Húsavík, nýjar holur á Reykhólum, Egilsstöðum og Hellu, auk ýmissa smærri staða. Stofnkostnaður þessara framkvæmda allra er áætlaður á árinu 1974 886 millj. kr., á árinu 1975 1614 millj. kr. og 1976 1256 millj. kr., en alls er hér um að ræða upphæð, sem nemur tæpum 4 milljörðum.

Eins og ég sagði áðan, eru rannsóknir á því, sem gera þarf til þess að koma rafhitun til þeirra staða, sem ekki eiga kost á jarðvarmaveitum, mun skemmra á veg komnar, en það er ljóst, að þar er um ákaflega stórfellt verkefni að ræða.

Svo sem kunnugt er, er nú verið að byggja þrjár virkjanir í landinu. Þær eru Sigölduvirkjun, Lagarfossvirkjun og stækkun Mjólkárvirkjunar. Hvorki Lagarfossvirkjun á Austfjörðum né Mjólkárvirkjun á Vestfjörðum nægja til þess að taka við verulegri aukningu rafhitunar í hvoru rafveitukerfi fyrir sig, og þess vegna er nauðsynlegt að buga nú þegar að meiri orkuöflun fyrir þessa landshluta. Á Vestfjörðum eru nokkur álitleg virkjunarsvæði. Þau helstu eru Dynjandissvæðið, norðurhluti Glámusvæðisins og svæðið suður af Drangjökli. Við fulla rafhitun Vestfjarða þarf a.m.k. að virkja tvö þessara svæða, og er vart hægt að gera ráð fyrir, að slíkar framkvæmdir taki minna en 8—10 ár með rannsóknum, hönnun og byggingu. Tenging Vestfjarða við byggðalínu má ætla að taki mun skemmri tíma. Hins vegar er nauðsynlegt við slíka tengingu að auka verulega á öryggi rafkerfisins á Vestfjörðum með hringtengingu raflína og fjölgun orkuvinnslustaða, með nýjum virkjunum og stækkun varastöðva, og þess vegna er eðlilegt, að virkjunarframkvæmdir fylgi í kjölfar tengingar.

Á Austurlandi eru nokkrir möguleikar á tiltölulega litlum virkjunum og auk þess stórvirkjunum í Fljótsdal. Við aukna rafhitun er nauðsynlegt að tengja Austurland við Norðurland með raflínu, eins og Alþingi hefur nú þegar heimilað í sambandi við lögin um virkjun Kröflu, og væri þá fljótlega komin tenging Austfjarða við Landsvirkjunarsvæðið. Litlar virkjanir á Austurlandi nægja ekki til fullrar rafhitunar, en eru styrktar fyrir öryggi kerfisins, og er því nauðsynlegt að kanna hagkvæmni þess að virkja jafnframt því að leggja línu. Aukning varastöðva er líka nauðsynleg svipað og á Vestfjörðum.

Á Landsvirkjunarsvæði getur varla verið um verulega aukningu rafhitunar að ræða fyrr en Sigalda hefur hafið raforkuvinnslu, eða haustið 1976. Þó má gera ráð fyrir, að nýbyggingar utan jarðhitasvæðanna fái rafhitun, þótt notkun hefjist fyrr, en reynsla síðasta vetrar sýnir, að öryggi Landsvirkjunarkerfisins er ekki nægilegt, til þess að rafhitun sé örugg. Með tilkomu Sigöldu breytist rekstraröryggið verulega auk aukins afls og orku. Þótt Sigalda bæti verulega við orkuvinnslu og afl kerfisins, er nauðsynlegt að huga nú þegar að nýjum virkjunarvalkostum. Helstu virkjanir, sem koma til greina sem næsta stig, eru Krafla á Norðurlandi, sem Alþingi hefur nú þegar heimilað ríkisstj. að ráðast í, og Hrauneyjafoss á Suðurlandi, þar sem einnig liggur fyrir vilji Alþingis. Nauðsynlegt er að virkja fyrir norðan til þess að auka öryggi raforkuvinnslunnar gegn línubilunum, en Kröfluvirkjun nægir ekki til að mæta aukningu alls kerfisins, þannig að virkjun Hrauneyjafossa er nauðsynleg samhliða Kröfluvirkjun. Er hér miðað við, að orka frá Sigöldu verði seld í sambandi við nýjan, orkufrekan iðnað.

Kostnaðaráætlun við 55 mw. virkjun í Kröflu bendir til þess, eins og alþm. er kunnugt, að álitlegt sé að virkja gufu með raforku, og er æskilegt, að gerðar verði hagkvæmnisathuganir á virkjunum annarra háhitasvæða, svo sem Hengilssvæðisins hér fyrir sunnan og fleiri staða. Áframhald rannsókna á á álitlegum virkjunarstöðum og áætlanir um þá er mjög nauðsynlegur liður, til þess að ekki verði tafir á eðlilegum raforkuframkvæmdum. Byggðalína, sem tengir saman Landsvirkjunarsvæðið og raforkusvæði á Norðurlandi, gerir kleift að leyfa aukna rafhitun á Norðurlandi, strax þegar Sigalda fer að vinna rafmagn. Samanlagður kostnaður við tengilínur til Norðurlands, Austurlands og Vestfjarða má áætla, að sé um 2000 millj. kr., og að breyting á dreifikerfum, til þess að unnt sé að fullnægja allri orkuþörf til rafhitunar, sé einnig um 2000 millj. kr. Þar að auki kemur kostnaður notenda við breytingu á húskerfum, sem er áætlað, að sé samtals um 1100 millj. kr. fyrir öll rafhitunarsvæði landsins. Gert er ráð fyrir, að byggðalína til Norðurlands verði tengd í árslok 1975, og nauðsynlegt er að gera ráð fyrir, að tenging Austurlands við Norðurland verði samtímis virkjun Kröflu, eins og áður hefur verið fjallað um hér á hinu háa Alþingi.

Eins og hér hefur verið greint, er nauðsynlegt að huga að virkjunarframkvæmdum á Vestfjörðum, jafnframt því að tengilína verði lögð frá Landsvirkjunarsvæðinu. En einnig þarf að athuga, hvort til greina kæmi að hafa ekki fulla rafhitun, heldur blandaða hitun, þ.e.a.s. kyndistöðvar, sem annaðhvort eru kynntar með svartolíu eða raforku. Nákvæmar athuganir á kostnaði við breytingu dreifikerfa vegna rafhitunar eru mjög tímafrekar, en mjög nauðsynlegar, og væri þá um leið hægt að endurskipuleggja allt öryggi innan kerfisins, sem viða er mjög ábótavant.

Ef gert er ráð fyrir fullri rafhitun og að um 80% hennar verði komin í notkun 1980 eða 1981, er nauðsynlegt, að allar landshlutatengilínur verði þá komnar og a.m.k. 80% af dreifikerfisbreytingum. Samtals eru þessar framkvæmdir áætlaðar um 3600 millj. kr. og þyrfti að dreifast á 6–7 ár eða um 500–600 millj. kr. á ári að meðaltali auk fjárfestingar í breytingum á húskerfum. Með blönduðum kerfum er átt við varmaveitur, sem nota fleiri en einn af margumtöluðum orkugjöfum af grunnorku til húshitunar, þ.e.a.s. jarðvarma, rafmagn eða olíu. Í athugun er að koma á fót slíkum hitaveitum á Siglufirði og í Vestmannaeyjum. Á Vestfjörðum er jarðvarmi ekki tiltækur, og raforku þarf að flytja að mestu um langan og erfiðan veg. Raforkan verður því hlutfallslega dýr þar, en auk þess óörugg vegna hættu á línubilun. Varaaflsstöðvar eru því nauðsynlegar við hvern þéttbýliskjarna. Í stað beinnar rafhitunar er hægt að byggja upp fjarhitunarstöðvar, sem reka má bæði með svartolíukyndingu og raforku. Slíkt kerfi er mjög öruggt gagnvart truflunum á orkuflutningi, en orkuverð á rafmagni til slíks kerfis þarf að vera mun lægra en til beinnar rafhitunar, til þess að það sé hagkvæmt. Notkun slíkra stöðva er í athugun, en endanlegar niðurstöður liggja ekki fyrir. Og eins og kunnugt er, er í athugun að nýta hitaorkuna í nýja hrauninu í Vestmannaeyjum til upphitunar hluta húsanna þar, en þessi athugun er enn á algeru frumstigi. Einnig er í athugun að reisa kyndistöð í Vestmannaeyjum, sem rekin væri með ódýru umframrafmagni frá Landsvirkjun og svartolíu. Með slíkri kyndistöð fengist meira rekstraröryggi en ef öll hús þar væru hituð með raforku úr landi. Bráðabirgðaathugun bendir til, að lítill munur sé á þessum tveimur kerfum.

Ég hef nú farið hér yfir meginatriðin í þeirri bráðabirgðaskýrslu, sem Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hefur látið iðnrn. í té. En jafnframt hefur borist fyrsta álitsgerð frá Seðlabanka Íslands um fjármögnunaraðgerðir, sem nauðsynlegar séu í þessu sambandi. Þar segir svo, að rétt sé að taka það skýrt fram, að erfitt er að gera fjáröflunaráætlanir um eins umfangsmiklar framkvæmdir og hér er um að ræða nema sem hluta af heildaráætlun um opinberar framkvæmdir hvers árs og fjáröflun til þeirra. Er það bæði vegna vinnu að lántökum og með tilliti til framboðs á vinnuafli til framkvæmda. Telur bankastjórnin því nauðsynlegt, að áætlanir um þessar framkvæmdir verði felldar inn í framkvæmda- og fjáröflunaráætlanir hins opinbera. Seðlabankinn minnir á, að reiknað sé með framkvæmdum við hitaveitur fyrir röskar 3700 millj. kr. á árunum 1974–1976. Af því eru röskar 1600 millj. kr. á vegum Hitaveitu Reykjavíkur á Reykjavíkursvæðinu. Um þær framkvæmdir hefur þegar verið gerð fjáröflunaráætlun. Er þar gert ráð fyrir erlendum lántökum að fjárhæð um 750 millj. kr. eða sem svarar tæpum helmingi kostnaðar, og er nú unnið að þeirri lántöku. Afgangurinn er tekinn af eigin fé Hitaveitu Reykjavíkur. En þegar Reykjavík er frá talin, standa eftir hitaveituframkvæmdir fyrir um 2100 millj. kr., sem ekki hefur enn verið aflað fjár til, og þar af um 900 millj. kr. vegna hitaveitu fyrir Suðurnesin ein. Taka verður þessa tölu með fullri varúð, segir í skýrslu Seðlabankans, þar sem þær byggjast á verðlagi fyrir s.l. áramót. Jafnframt eru allar áætlanir um framkvæmdir utan Reykjavíkursvæðisins raunverulega á frumstigi. Víðast er jarðborunum og öðrum rannsóknum ólokið og sjálfri hönnun verksins einnig. Þess vegna er gerð fjárhagsáætlana í venjulegum skilningi ekki tímabær. Hins vegar er nú á þessu stigi hægt að gera grein fyrir nokkrum meginforsendum við gerð þeirra, þegar það verður tímabært.

Hitaveitur þessar verða í eigu eins eða fleiri sveitarfélaga. Nauðsynlegt verður því að gera fjárhagsáætlun fyrir hver,ja fyrir sig, en yfirleitt verða þetta nýjar stofnanir eða fyrirtæki. Fyrirtæki sem þessi eru mjög fjárfrek, og þess vegna er óhjákvæmilegt að sjá þeim fyrir verulegu eigin fé þegar í upphafi, til þess að þau geti staðið undir greiðslum af þeim hluta stofnkostnaðar, sem greiddur er með lánum. Er það mat bankastjórnarinnar, að eigin fjáröflun megi ekki vera minni en 25–30% af stofnkostnaði, enda séu heimæðagjöld frá notendum meðtalin. Afgangurinn kæmi frá sveitarsjóðum þeim, sem að hitaveitunum standa. Sveitarfélögin geta aflað þessa fjár með útsvörum eða með sérstöku álagi á gjaldstofna. Hugsanlegt væri að dreifa greiðslu á nokkurn tíma, t.d. með lántökum í bankaútibúum og sparisjóðum eða með vaxtabréfaútgáfum til almennings á hitaveitusvæðunum. Lánsfjáröflun gæti orðið með tvennum hætti, annars vegar með erlendum lánum og hins vegar með sérstakri innlendri fjáröflun. Erlend lán ættu að vera hærri en nemur erlendum hluta kostnaðarins eða um 50% fjárþarfarinnar. Þeirra væri aflað með hluta af erlendri fjáröflun hins opinbera á hverju ári, en nokkurs hluta mætti væntanlega afla í formi vörukaupalána erlendis. Eigið fé og erlend lán mundu þá nema samtals 75–80% kostnaðar. Sérstök innlend fjáröflun þyrfti þá að nema 20–25% stofnkostnaðar eða 400–500 millj. kr. samkv. tölum þeim, sem eru í skýrslu Verkfræðiskrifstofunnar. Er hér bent á þá leið, segir í skýrslu bankans, að hluti af tekjum þeim af söluskatti, sem gert hefur verið ráð fyrir, að varið yrði til þess að greiða niður olíuverð, renni í stað þess í sérstakan sjóð, sem láni til þessara framkvæmda. Hluti þessi færi vaxandi með tímanum og þar með niðurgreiðsla olíuverðs lækkandi til að tryggja, að húseigendur hefðu fjárhagslegan ávinning af því að taka upp hitaveitu, en þó sérstaklega rafhitun í stað olíukyndingar. Einnig gæti komið til greina að leggja á almennan orkuskatt í þessu skyni, en lítið svigrúm er til þess við núverandi aðstæður nema að því er varðar hitaveitur. Kæmi til greina að leggja tiltölulega lágt gjald á núverandi notendur hitaveitu og leggja í áðurnefndan sjóð til þess að greiða fyrir nýjum hitaveituframkvæmdum á landinu.

Um þessa skoðun bankans er það að segja, að það er ekki ætlunin, eins og menn vita, að greiða niður verð á olíu til húshitunar, heldur að þar komi fram fjárhagsstyrkur í annarri mynd, þannig að olíuverðið verður ekki falið. Mönnum verður það ljóst, hversu dýrt það verður að hita upp híbýli sín með olíu, en bein niðurgreiðsla á olíu til húshitunar hefði haft þau áhrif, sem talað er um í skýrslu bankans. Hins vegar teldi ég, að það væri eðlilegt, að þessum tekjustofni yrði breytt til þess að ýta undir slíkar framkvæmdir, um leið og þær fara að komast á framkvæmdastig.

Í töflu 9 er svo yfirlit yfir fjáröflun til hitaveituframkvæmda 1974–1976, annars vegar fyrir Reykjavíkursvæðið, þar sem búið er að ganga frá þeim málum, og hins vegar svæðið utan Reykjavíkur. Á þessu ári er þar gert ráð fyrir, að eigið fé og heimæðagjöld nemi 60 millj. kr., önnur innlend fjáröflun nemi 60 millj. og erlend lán 125 millj. kr., og þarf Alþ. nú að gera ráðstafanir til þess að aðstoða við fjáröflun, til þess að hægt sé að tryggja fullan framkvæmdahraða á þessu ári. Svo eru hugleiðingar frá bankanum einnig um rafhitun, sem ég sé ekki ástæðu til að rekja nánar.

Eins og menn geta markað af þessari skýrslu, er hér um að ræða ákaflega stórt verkefni. Þetta er verkefni, sem er æði kostnaðarsamt, til þess þarf mikinn mannafla, og það liggur í hlutarins eðli, að ef við ætlum að ráðast í þessar framkvæmdir á eins stuttum tíma og tiltækur er, þá verðum við að fella þær að heildarframkvæmdaáætlunum okkar, eins og Seðlabankinn bendir á, og gefa þessum framkvæmdum vissan forgang, ef við teljum þær nauðsynlegar. Ég held, að það sé ekki nokkur vafi á því, að þær eru ákaflega nauðsynlegar. Þær tölur, sem ég nefndi um mismuninn á hitunarkostnaði, sýna, hversu hagkvæmar þessar framkvæmdir eru einstaklingunum, og þjóðhagslega séð tel ég það skipta ákaflega miklu máli, að við nýtum orkugjafa okkar í eins ríkum mæli og við getum. Það er bæði öryggi í því, og auk þess jafngilda slíkar framkvæmdir hreinlega gjaldeyrisframleiðslu, þ.e.a.s. framleiðslu á útflutningsvörum, og hafa því sömu þjóðhagsleg áhrif, — þær framkvæmdir, sem ég nefndi áðan. Til marks um það, hvað þarna er um að ræða mikla fjármuni, eru hitaveituframkvæmdirnar metnar á 3.7 milljarða, stofnlínur og dreifikerfi vegna húshitunar 4 milljarðar og breyting á hitunarkerfi húsa, sem einstaklingar bera vissulega, en verður þó að reikna inn í þetta dæmi, 1.1 milljarður. Þessar framkvæmdir eru því samtals um 9 milljarðar kr. Við þetta bætast svo orkuverin sjálf. Það er sem kunnugt er verið að vinna að Sigölduvirkjun, sem á að kosta um 6 milljarða kr. Það er verið að vinna að virkjun Lagarfoss og Mjólkár, sem kosta meira en hálfan milljarð kr. Það er búið að heimila Kröfluvirkjun, sem kostar 1.5 milljarð. Og það er heimild fyrir Hrauneyjafossavirkjun, sem fljótlega verður að taka ákvörðun um og kostar um 5 milljarða kr. Þessar virkjanir, sem ég nefndi hér, kosta samtals um 13 milljarða kr. Og þá eru ótaldar virkjanir, sem tvímælalaust mun verða að ráðast í á þessu tímabili, bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum, og enn fremur virkjanir á Suðurlandi, sem áreiðanlega koma til álita, t.a.m. Sultartangi og virkjun á Hengilssvæðinu. En þessar upphæðir, sem ég nefndi áðan, eru samtals 22 milljarðar kr. Af þeirri upphæð er búið að fjármagna 8–9 milljarða. Eftir eru 13–14 milljarðar, sem verður að fjármagna á árabilinu 1974–1981, en það er að jafnaði 1 milljarður á ári.

Í sambandi við þessar framkvæmdir er ástæða til að leggja áherslu á það, að vissulega eru erlendar lántökur eðlilegar til þess að ráðast í þessi verkefni, vegna þess að þarna er verið að spara erlendan gjaldeyri með því að við framleiðum sjálfir orku í stað olíu, sem við höfum hingað til flutt inn. Hins vegar vil ég taka undir það mat Seðlabankans, að okkur ber að tryggja innlenda fjármögnun þarna á móti. Ég tel, að efnahagur Íslendinga sé slíkur, að við eigum að vera menn til þess að leggja á okkur byrðar til þess að leysa stórfelld þjóðhagsleg verkefni af þessu tagi, og ef við lítum svolítið lengra fram í tímann, þá hygg ég, að fátt séu traustari kjarabætur en einmitt framkvæmdir af þessu tagi. Hvaða leiðir á að fara í því sambandi, veit ég ekki um, en ég teldi t.a.m. mjög skynsamlegt, að ef farið væri inn á þá leið hér, eins og gert er í sumum nágrannalöndum okkar, að taka upp skyldusparnað hjá þeim, sem hafa sómasamlegar tekjur og þar yfir, þá væri mjög eðlilegt að tengja einmitt þessi verkefni við skyldusparnað, vegna þess að ég hygg, að um það sé enginn ágreiningur meðal þjóðarinnar, að okkur beri að einbeita okkur að þessum verkefnum. En til þess að þetta sé hægt, verður að sjálfsögðu að koma til skilningur og viðurkenning þjóðarinnar á því, að þetta sé þjóðhagsleg nauðsyn.

Ríkisstj. hefur í sambandi við þessa skýrslu lagt fram till. til þál., sem felur í sér, að áfram verði haldið þeirri rannsókn, sem hafin var í fyrrahaust, og sett ákveðin markmið í því skyni, og ég vil leyfa mér að lesa upp þá till., með leyfi hæstv. forseta. Hún er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar eftirfarandi:

Gerð skal ítarleg framkvæmdaáætlun um nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíu til húshitunar og annarra þarfa. Skal áætlunin miðuð við árlega áfanga og sem mestan framkvæmdahraða og fela í sér eftirtalin atriði:

1) Hitaveituframkvæmdir hvarvetna þar, sem jarðvarmi er tiltækur og nýting hans talin hagkvæm. Verði miðað við, að hitaveituframkvæmdum verði í meginatriðum lokið á árinu 1977“.

Eins og menn hafa séð, kemur það fram í skýrslu verkfræðifyrirtækisins, að meginhluta þessara framkvæmda eigi að vera hægt að ljúka í árslok 1976, þannig að ég hygg, að það eigi að vera raunsætt að nefna árið 1977 í þessu sambandi.

„2) Samtenging allra orkusvæða landsins og breyting á dreifikerfum, svo að landsmenn allir geti átt kost á nægri raforku. Ráðist verði í nýjar virkjanir, sem tryggi næga orkuframleiðslu og auknar rannsóknir á nýtilegum virkjunarstöðum. Verði að því stefnt, að sem flestir þeirra, sem ekki eiga kost á jarðvarmaveitum, geti nýtt raforku til húshitunar fyrir árslok 1981“.

Þarna er miðað við árið 1981, og í skýrslu verkfræðiskrifstofunnar var talið, að þá væri hægt að tryggja rafhitun til 80% af þeim, sem þurfa á raforku að halda til að hita híbýli sín. Þetta er atriði, sem að sjálfsögðu á eftir að kanna miklu nánar, og kunna að koma upp á því sviði ýmis álitamál. Það getur vel skeð, að á sumum svæðum landsins komi í ljós, að það kunni að vera ódýrara þjóðhagslega að koma ekki upp slíkri raforkuhitun, heldur hreinlega að greiða niður olíu, vegna þess að ef tilkostnaður er svo mikill við að koma á rafhitun, þá kunni það að vera þjóðhagslega ódýrara að greiða niður olíuverð. Einhverjir slíkir staðir kunna að koma til. Engu að síður tel ég, að við eigum að setja okkur þetta mark, að meginhluti landsmanna eigi kost á raforku til húshitunar, þeirra sem ekki eiga kost á jarðvarmaveitum.

„3) Fjármögnunarráðstafanir með innlendri fjáröflun og erlendum lántökum, svo að nægilegt fé verði jafnan tiltækt til þessara framkvæmda.

Framkvæmdaáætlun þessi skal lögð fyrir næsta þing“.

Ég tel, að hér sé um að ræða vinnubrögð, sem séu bæði eðlileg og nauðsynleg. Ég tel, að hér sé um ákaflega stórfelld og mikilvæg áform að ræða, og ég tel, að Alþ. verði að geta fjallað um þau á hverju stigi. Ég vænti þess, að menn geri grein fyrir mati sínu á þessum viðhorfum öllum nú í sambandi við þessa bráðabirgðaskýrslu, sem ég hef leyft mér að leggja hér fram fyrir þing, og ég vænti þess, að það verði ekki neinn ágreiningur um það, að þessari áætlunargerð verði haldið áfram, svo að næsta þing geti fjallað um þetta á mun traustari grundvelli en nú er hægt um þetta að fjalla.

Ég legg svo til, herra forseti, að þáltill. verði að lokinni fyrri umr., vísað til síðari umr. og hv. allshn.