18.04.1974
Sameinað þing: 75. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3719 í B-deild Alþingistíðinda. (3286)

299. mál, nýting innlendra orkugjafa

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. svaraði hér fsp.. hv. 1. þm. Suðurl. varðandi það frv., sem undirbúið mun hafa verið varðandi járnblendiverksmiðju, og hann gat þess, að málum væri nú þannig komið hér á Alþingi, að hér væri ákaflega óbilgjörn stjórnarandstaða, sem hugsaði fyrst og fremst um það, þegar hún ræddi og tæki afstöðu til mála, hvernig hægt væri að koma höggi á núv. hæstv. ríkisstj. Og það mátti lesa áfram í mál hans, að það væri mikill munur á þeirri stjórnarandstöðu, sem nú væri á Alþingi, og þeirri stjórnarandstöðu, sem var á Alþingi allan viðreisnartímann, frá 1959–1971, sú stjórnarandstaða hafi ævinlega tekið málefnalega afstöðu til allra mála og hún hefði ekki greitt atkvæði eftir því, hvernig hægt væri að koma höggi á þáv. ríkisstj. Ég gæti rifjað upp fjöldann af málum viðreisnartímabilið frá 1959–1971, og vel má vera, að sú afstaða, sem hv. 4. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, kallaði hér áðan jákvæða afstöðu, sé að hans dómi málefnaleg afstaða. En ég minnist þess ekki, að allan þennan tíma, þau 12 ár, hafi stjórnarandstaðan nokkurn tíma, — ég segi nokkurn tíma, — greitt atkv. með þeim stórmálum, sem sú ríkisstj. og sá þingmeirihluti kom fram hér á Alþingi. Við getum rifjað upp efnahagsaðgerðirnar 1960, þegar viðreisnarstjórnin tók við gjaldþroti vinstri stjórnarinnar frá 1958. Hver var afstaða stjórnarandstöðunnar þá? Við getum rifjað upp, hvernig stjórnarandstaðan þá tók á málum, þegar um utanaðkomandi efnahagsvandamál var um að ræða. Við getum rifjað upp, hvernig stjórnarandstaðan þá stóð að stóriðjumálunum. Við getum rifjað upp, hvernig atkvgr. var um inngönguna í Fríverslunarbandalag Evrópu. Og við getum rifjað upp, hvernig stjórnarandstaðan þá, örfáum vikum fyrir kosningar, gerði það mál, sem samstaða hefur verið um hjá Íslendingum, landhelgismálið, að stórkostlegu bitbeini hér á Alþingi. Við skulum svo taka aðeins örfá mál þau tæp 3 ár, sem núv. ríkisstj, hefur setið að völdum, og sjá, hvernig núv. stjórnarandstaða hefur tekið á málum. Við skulum rifja upp atkvgr. um samninginn við Efnahagsbandalag Evrópu. Við skulum rifja upp atkvgr. í landhelgismálinu. Og við skulum rifja upp atkvgr. varðandi hörmungarnar í Vestmannaeyjum. Hvar stóð stjórnarandstaðan á Alþingi Íslendinga þá? Gerði hún ekki þá hluti, sem stjórnarandstaðan frá 1959–1971 aldrei gerði. Og að það sé vegna óbilgirni núv. stjórnarandstöðu, að hæstv. ráðh. leggur ekki fram það frv., sem hér var á minnst, það er ekki rétt, það eru allt aðrar orsakir fyrir því. Vel má vera, að hæstv. ráðherra geti ekki komið fram með þær ástæður hér og þurfi að skjóta sér á bak við stjórnarandstöðuna. En þá á hann líka að gera það með öðrum hætti.

Í ræðu minni hér í dag lýsti ég ánægju yfir þeirri stefnubreytingu, sem var hjá hæstv. iðnrh. 23. nóv. s.l., þegar hann þá tók allt aðra stefnu í málefnunum varðandi hitaveituframkvæmdir. Ráðh. vildi hins vegar í ræðu sinni hér í kvöld gera lítið úr þeirri stefnubreytingu, sem hafði orðið hjá honum. Það er ofur skiljanlegt, að ráðh. vilji lítið gera úr þeirri stefnubreytingu. En staðreynd málsins er sú, að þegar hann kom í ráðherraembættið, hugðist hann stöðva frekari hitaveituframkvæmdir, stöðva, að haldið yrði áfram framkvæmdum á þeim mjög svo arðbæru fyrirtækjum, sem hitaveitur eru, og í stað þess beina upphitun húsa inn á svið raforkunnar, enda þótt fyrir hendi væri nægur varmi til upphitunar húsa hér í þéttbýlinu, og hann hafði meira að segja sér til stuðnings ýmsa af forustumönnum þeirra sveitarfélaga, sem nú hafa kosið samstarf við Hitaveitu Reykjavíkur.

Mig langar til þess máli mínu til stuðnings að lesa hér upp úr leiðara Þjóðviljans, málgagni hæstv. iðnrh., 16. okt. 1971, en þar segir um umr., sem áttu sér stað í bæjarstjórn Hafnarfjarðar um þessi mál, með leyfi hæstv. forseta:

„Nýlega voru hitunarmál Hafnfirðinga á dagskrá í bæjarstjórninni þar. Þar lagði einhver hluti bæjarstjórnar til, að þegar yrði ákveðið að nota jarðvarma til upphitunar húsa í Hafnarfirði og þar með hafna rafhitun. Hér var greinilega um að ræða, að einhverjir bæjarfulltrúar í Hafnarfirði mátu meira flokkshagsmuni Sjálfstfl. en bæjarfélagsins, og verður það að teljast býsna athyglisvert fyrir Hafnfirðinga. Staðreyndin er sú, að á meðal sérfræðinga eru um þessi mál skiptar skoðanir, og menn komast ekki að niðurstöðu með óðagotsvinnubrögðum. Eina leiðin er rannsókn.“

Hér kemur glögglega fram, hver er vilji hæstv. iðnrh. haustið 1971. Hann neitar að viðurkenna staðreyndir. Það voru ekki skiptar skoðanir árið 1971 um það, hvort hagkvæmari væri fyrir neytendur upphitun húsa með jarðvarma eða rafmagni. Það voru ekki heldur skiptar skoðanir um þetta árið 1961, ekki heldur árið 1951, ekki einu sinni árið 1941, því að 1931 eru sérfræðingar borgarstjórnar Reykjavíkur komnir að þeirri niðurstöðu, að upphitun húsa með jarðvarma hér úr nágrenninu hljóti að vera það hagstæðasta, og til Hitaveitu Reykjavíkur er stofnað einhvern tíma á því tímabili. En sérfræðingar hæstv. iðnrh. höfðu ekki komist að niðurstöðu 1971. Sem betur fer, eins og ég sagði í dag, eru þeir nú komnir að niðurstöðu og ráðh. hefur þess vegna breytt um stefnu í þessum málum. Það hefur aldrei verið neinn vafi á því, að þeim landsmönnum, sem ekki geta haft tækifæri til að hita hús sín upp með jarðvarma, verði að mæta með raforku á verði, sem er sambærilegt við jarðvarmann, og þar sem ekki er hægt að koma raforku við, þá með olíu, sem yrði með svipuðu verði. Þetta hefur öllum verið ljóst. Ágreiningurinn hefur verið um, hvort lögð skuli áhersla á hitaveitur eða upphitun húsa með raforku. Og hæstv. ráðherra hefur skipt um skoðun. Ég sagði í dag, og ég segi enn: Batnandi manni er best að lifa. Og ég lýsi ánægju minni yfir því, að hann skuli nú hafa komist að niðurstöðu eða hans sérfræðingar þar um.

Hefði hins vegar hæstv. iðnrh. viljað gleyma þeirri gagnrýni, sem hann hafði hér uppi á Alþingi, eftir að hann kom á þing, í tíð viðreisnar 1963, og ekki tekið sjálfan sig of alvarlega í því, sem hann þá sagði, þá hefði hann komist að augabragði að þeirri niðurstöðu, sem þeir í Reykjavík komust að árið 1931, og hann hefði þá lagt allan þunga á það, að hitaveitur yrðu komnar í nágrannabyggðarlögin á næstu 2–3 árum eftir hans valdatöku. En það er nú tæpum 3 árum eftir að hann tekur við sínu ráðherraembætti, að hann stendur upp hér á Alþingi og talar um, að nú þurfi að leggja áherslu á þessi mál.

Mér er það fyllilega ljóst, að stefna núv. hæstv. iðnrh. í þessum málum, allt frá því að hann tók við völdum, hefur valdið því t.d., að seinkun hefur orðið á samningum við Reykjavík um hitaveitu til Hafnarfjarðar, þar sem það tók nokkurn tíma fyrir þessa „einhverja bæjarfulltrúa Sjálfstfl.“ að fá samþ. í bæjarstjórn Hafnarfjarðar till. um, að gengið yrði til samninga við Reykjavíkurborg. Og ef við lítum nú á, að það er í okt. 1971, sem umr. standa í bæjarstjórn Hafnarfjarðar um þessi mál, og samningar takast 2 árum seinna, þá segi ég, að við getum ekki álasað Reykjavíkurborg fyrir að hafa ekki gengið til samninga við okkur nógu fljótt og nógu vel. Við getum álasað öðrum fyrir að hafa verið að komast að niðurstöðu í máli, sem þeim miklu fróðari menn höfðu komist að mörgum áratugum áður.

Ég vil svo endurtaka það, sem ég sagði í dag og sagði hér áðan, að ég lýsi ánægju minni yfir því, að hæstv. ráðh. hefur breytt um stefnu, og það verður vonandi til þess, eins og hér kom fram hjá hv. 5. landsk. þm., að af hálfu ríkisvaldsins verði lögð aukin áhersla á það, að hitaveituframkvæmdir í nágrannabyggðarlögum Reykjavíkurborgar geti gengið sem fyrst.