18.04.1974
Sameinað þing: 75. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3729 í B-deild Alþingistíðinda. (3289)

299. mál, nýting innlendra orkugjafa

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar löngu umr. nema mjög lítillega. Raunar verð ég að biðjast afsökunar á því, að ég gat ekki verið við þessar umr. allar. Það stafar einmitt af þeirri ástæðu, að ég sit í n., sem fjallar um orkumál á vegum hæstv. iðnrh., nefnd, sem kölluð hefur verið viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, og sat hún á mikilvægum fundi í kvöld.

Margt mætti segja um þá skýrslu, sem hér hefur verið lögð fram, og þá þál., sem henni er tengd. Ég mun þó aðeins fara um þetta örfáum orðum. Skýrslan veitir mikilvægar upplýsingar, og ég fagna því, að hún er fram komin. Hún er að mínu viti mikilvægt skref í kerfisbundinni athugun á þessu stóra máli. Hins vegar verður strax ljóst, þegar skýrslan er lesin, að mjög mörgum spurningum er enn ósvarað og þessu máli þarf að halda áfram af fullum krafti. Þó hygg ég, að öllum muni vera ljóst, að leggja ber mjög ríka áherslu á að ljúka þeim jarðvarmaveitum, sem hugsanlegar eru. g held, að það dyljist engum, að þar er um mjög hagkvæmar framkvæmdir að ræða, sem hljóta að skipa forgangsstað í okkar framkvæmdum.

Aftur á móti verður varla hjá því komist, að þær upplýsingar, sem fram koma um upphitun með raforku, valda nokkrum vonbrigðum. Það er bæði, að kostnaður við þær framkvæmdir er ákaflega mikill, nefndur um 4000 millj. kr. í þessari skýrslu við stofnlínur og dreifilínur, og er þá ótalinn kostnaður við breytingar í íbúðarhúsum, en ég hygg, að sá kostnaður mundi varla vera undir 70–90 þús. kr. á hverja meðalíbúð, og auk þess held ég, að mönnum hljóti að vera ljóst, að víðs fjarri er, að nægilegt öryggi sé tryggt fyrir rafhitun, til þess að hún sé raunar viðunandi. Ég hygg, að sá vetur, sem nú er að líða, hafi sannað okkur, að þar þarf að bæta mjög um, ekki aðeins í sambandi við dreifilínur, sem eru víða svokallaðar geislalínur og mjög öryggislitlar, heldur einnig í sambandi við orkuframleiðsluna sjálfa, sem getur brugðist, eins og sannast hefur á þessum vetri. Ég hygg því, því miður, að allur kostnaður við allar framkvæmdir þarna sé töluvert meiri en fram kemur í þessari skýrslu.

Í skýrslunni kemur jafnframt fram, að kostnaður við raforkuhitun er aðeins um 30% ódýrari áætlaður en með olíu. Það er ekki mikill munur, þegar tekið er tillit til annarra þátta, eins og t.d. öryggis, og þegar tekið er tillit til þess, að byggingarkostnaður vatnsaflsvirkjana og lína mun örugglega stóraukast á næstu árum.

Sömuleiðis lætur skýrslan því ósvarað, hvernig fullnægt verður orkuþörfinni. Engin áætlun kemur fram í þessari skýrslu um það. Að vísu er ljóst þeim, sem skýrsluna lesa, að hraða verður virkjunarframkvæmdum, og það hefur komið fram í ræðum hæstv. ráðh., að ákvörðun um næstu virkjun, sem hann hefur nefnt Hrauneyjafossa, eftir Kröflu sé mjög skammt undan. Ég er honum sammála. Það er ljóst, að næstu vatnsaflsvirkjun verður að ákveða í síðasta lagi á þessu hausti. Ég vil að vísu taka það fram, að ég harma og tek undir það með öðrum ræðumönnum, að ekki skuli vera aðrir valkostir en Hrauneyjafossar. Ég er því sammála, að æskilegra er að dreifa okkar vatnsaflsvirkjunum. Ég kenni því um, eins og fram hefur komið í fyrri ræðum mínum hér, að ekki hefur verið unnið nægilega kerfisbundið að því að hafa aðrar virkjanir tilbúnar í öðrum landshlutum. Því miður óttast ég, að úr því verði varla bætt, úr því sem komið er, með næstu virkjun á eftir Kröflu, en að sjálfsögðu verða fleiri virkjanir eftir Hrauneyjafossa eða hver sem sú virkjun verður, og þarf að vinna þar ötullega að.

Mér sýnist á þeim áætlunum, sem ég hef fengið, að orkuframboð eða orkuvinnslugetu eigi að vera fullnægt fram til a.m.k. 1980 og ef til vill nokkuð lengur. Það fer að vísu eftir því, hve hratt Vestfirðir og Austfirðir tengjast þessu kerfi, en alla vega í síðasta lagi 1981 þarf ný vatnsaflsvirkjun að hefja vinnslu.

Ég vil sérstaklega undirstrika það, sem kemur fram í þessari skýrslu um Vestfirðina og Austfirðina. Þeirra vandamál eru sérstök. Þangað er lengra að leiða orkuna frá þessu almenna kerfi, sem Landsvirkjun nær yfir, og þar eru virkjunarmöguleikar að ýmsu leyti erfiðari en í öðrum landshlutum. Ég vil þá leggja á það áherslu, að þótt ég sé sammála þeirri niðurstöðu skýrslunnar, að leggja beri höfuðáherslu á að tengja Vestfirðina orkukerfi landsins eins fljótt og frekast er unnt, má alls ekki slaka á með frekari virkjanir í þeim landshluta. Ég vil vekja athygli á því, að virkjun í Dynjandisá mun vera nokkurn veginn tilbúin til útboðs. Þar eru viss formsatriði, sem eftir er að leysa, sérstaklega athugun á náttúruverndaráhrifum þeirrar virkjunar á fossinn og útlit hans. Það er vissulega mikilvægt mál, sem sannarlega þarf að skoða, en ég er sannfærður um, að unnt er að leysa þannig, að viðunandi sé. Sú virkjun gæti gefið 8.3 mw. Það er að vísu ekki nægilegt til þess að sjá fyrir þeirri hitaorku, sem þörf er fyrir á Vestfjörðum, en mundi þó verulega bæta úr því ástandi, sem þar er nú. Ég vil einnig benda á það, að lítil virkjun á suðurhluta Vestfjarða hefur verið til umr., Suðurfossárvirkjun. Hún er e.t.v. ekki mikilvægust vegna þeirrar orkuframleiðslugetu, sem þar er um að ræða, heldur fremur vegna hins, að hún mundi styrkja mjög rafdreifingarkerfi Vestfjarða. Hún yrði á endanum á einum geisla þess kerfis og væri þannig mjög til öryggisauka. Ég held, að þessa möguleika sem og aðra, sem minnst hefur verið á í þeim landshluta, beri að skoða af mikilli alvöru og beri að hraða þeirri úttekt, sem þar þarf að fara fram, þrátt fyrir þá staðreynd, að leggja verður ríka áherslu á að tengja þann landshluta eins og Austfirðina hinu almenna orkukerfi landsins.

En eins og ég sagði, ætla ég ekki að fara mörgum orðum um þessa till. almennt, læt lokið því, sem ég vil um skýrsluna segja, með heim orðum, að ég legg ríka áherslu á, að þessar miklu framkvæmdir verði samræmdar öðrum framkvæmdum í okkar landi. Það þarf að gera heildarframkvæmdaáætlun. Það þarf að raða þessum framkvæmdum. Ég vil vekja athygli á því, að hæstv. ríkisstj. hefur sett á fót stofnun, Framkvæmdastofnun ríkisins, sem á að annast slíka áætlanagerð, og sýnist mér ljóst, að þessu máli beri að vísa þangað hið fyrsta.

Ég stóð fyrst og fremst upp til þess að segja örfá orð um nýjan orkufrekan iðnað, sem hefur verið til umr. Hæstv. ráðh. upplýsti í ræðu hér áðan, að hann hafi í huga að leggja fram frv. um þann orkufreka iðnað, þegar þing kemur saman í haust. Það er að vísu góðra gjalda vert, en ég vil, að það komi fram við þessar umr., að ég fyrir mitt leyti efast stórlega um, að sá samningur, sem liggur nú fyrir við erlent fyrirtæki um slíkan iðnað, verði fyrir bendi í haust, án þess að fram komi mjög ákveðin viljayfirlýsing, ekki eingöngu ráðh., heldur helst Alþingis í þessu máli. Ég hef setið í þeirri n., sem fjallað hefur um þennan iðnað. Nefndin hefur starfað eftir mjög ákveðnu skipunarbréfi frá hæstv. ráðh., og ég vil leyfa mér að fullyrða, að tekist hafi að ná samningum, sem tryggja öll þau atriði, sem hæstv. ráðh. hefur réttilega lagt mikla áherslu á. Ég ætla ekki að telja þau atriði upp, en vil þó nefna sem eitt af því mikilvægasta í mínum huga, að þar er um að ræða íslenskt fyrirtæki undir íslenskri stjórn, undir íslenskri lögsögu. Tel ég það brjóta blað í eflingu slíks iðnaðar hér á landi. Ég vil hins vegar vekja athygli á því, að í þessum málum er um mikla samkeppni að ræða og margir aðilar, sem hyggja á framkvæmdir til þess að fullnægja vaxandi markaði. Það bíður ekki eftir okkur, og ég veit, að það fyrirtæki, sem við hefur verið rætt, mun athuga allar aðrar leiðir til þess að fullnægja þeim markaði, sem það telur sig vera skuldbundið að vissu leyti, ef ekki fæst héðan mjög ákveðin viljayfirlýsing.

Ég legg ekki höfuðáherslu á þennan iðnað vegna sölu á raforku til slíks iðnaðar. Ég held, að það sé út af fyrir sig minni háttar atriði. Ég tel, að á það sé lögð of mikil áhersla. Ég tel öllu mikilvægara, að slíkur iðnaður rennir enn einum stoðum undir okkar efnahagslíf. Um nýja iðngrein er að ræða, — iðngrein, sem hefur sýnt sig að vera traust, og ég held, að okkur Íslendingum veiti þar ekki af. Ég er að vísu þeirrar skoðunar, að sjávarútvegur og fiskiðnaður muni um æðilangan aldur vera meginmáttarstoð þessa efnahagslífs, en ég held, að bæði vegna sjávarútvegs og fiskiðnaðar og efnahags landsins almennt séu nýjar iðngreinar mjög kærkomnar.

Ég vildi láta þetta koma fram og endurtek það, að ég tel, að alls ekki sé öruggt, að sá samningur, sem nú liggur fyrir, verði til staðar í haust, án þess að fram komi mjög ákveðin viljayfirlýsing í þessu efni.