18.04.1974
Sameinað þing: 75. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3732 í B-deild Alþingistíðinda. (3291)

288. mál, græðsla Sauðlauksdalssanda

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er nú kannske að sumu leyti hálfóþægilegt að fara að ræða um þetta mál nú, þegar búið er að slíta í sundur umr., sem eðlilega hefðu átt að fara fram í heilu lagi um það mál, sem nú er tekið aftur á dagskrá. Það kann að vera, að hæstv. forseti hafi talið eðlilegt að enda þetta dagsverk í dag með því að fá einhverja rúsínu í pylsuendann (Forseti: Ég skal fresta umr. ef hv. þm. óskar eftir.) Ég vildi gjarnan ljúka þeim fáu orðum, sem ég ætlaði að segja.

Ég fann hvöt hjá mér til þess að standa upp, eftir að ég var búinn að hlýða á ræðu hv. 3. þm. Vestf. Maður hefur ekki heyrt mikið af honum upp á síðkastið, og finnst mér gott, en nú veit maður, hvað hann hefur verið að aðhafast, síðan hann fór úr ráðherrastóli. Hann hefur verið að skrifa sögu Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, og það gerir enginn illt af sér, meðan hann vinnur svo þarft verk.

En aðalatriðið hjá mér var að biðja um orðið til að lýsa yfir fullum stuðningi við það mál, sem hér liggur fyrir. Ég tek undir allar röksemdir hv. 3. þm. Vestf. fyrir þessu máli. Það er alveg rétt, sem hann sagði, að það eru í hættu a. m. k. tvær jarðir vegna sandfoks, það er í hættu mikilvægur flugvöllur og stórt mannvirki og dýrt, og það er fullkomin ástæða og réttmætt að minnast Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal með þeim hætti, sem þessi till. gerir ráð fyrir.

Ég er þakklátur hæstv. forseta fyrir, að hafa fengið að segja þessi orð einmitt í dag, 18. apríl, vegna þess að þetta mál á sér dálitla sögu á síðustu missirum, og það er afmælisdagur þess í dag. Fyrir tveim árum, 18. apríl 1972, ræddi ég þetta mál í Sþ. í formi fyrirspurnar, en aðalumr. voru um nauðsyn þess að aðhafast eitthvað í því að græða upp Sauðlauksdalssanda. Ég eggjaði hæstv. ríkisstj. lögeggjan í þessu máli. Ég benti henni á, að hún mundi koma sér upp veglegum minnisvarða með því að taka til hendi í þessu máli og hún mundi ekki þurfa að óttast það, að því minnismerki yrði gefin nafnbótin „Ranglátur“, þó að hæstv. ríkisstj. gerði margt ranglátt í öðrum málum. En því miður hefur ekkert skeð í þessu máli. Það virðist hafa þurft tvennt til, til þess að hv. 3. þm. Vestf. fengi áhuga á málinu. — Ég gleymi því ekki, að hann var í ríkisstj., og þess hefði mátt vænta, að hann hefði látið málið eitthvað til sín taka. — Það þurfti tvennt til. Það þurfti að koma til, að við upplifðum þjóðhátíðarár, til þess að hv. 3. þm. Vestf. fengi áhuga á málinu, og það þurfti líka að koma til, að hann færi úr ríkisstj. En þrátt fyrir þetta ber að fagna því, sem orðið er, og kannske það geti orðið nokkurt fordæmi öðrum hæstv. ráðh. að fara úr ríkisstj., ef þeir verða betri og nýtari menn við það.

En ég vil ljúka þessum fáu orðum með því að endurtaka stuðning minn við þetta mál, og ég vænti þess, að það fái skjótan og öruggan framgang á þingi.