19.04.1974
Efri deild: 104. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3744 í B-deild Alþingistíðinda. (3297)

8. mál, skólakerfi

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það mun víst vera mála sannast, að skóla- og menntamál hafa verið einhver mestu umræðu- og hitamál á undanförnum árum. Það er sannast sagna, að um þessi mál hefur verið þyrlað upp miklu moldviðri. Það hefur verið talað um sérstakt ófremdarástand í okkar skólamálum, og það hefur hreinlega verið lenska eða tíska að hafa um þessi mál mörg og stór orð, flest eða öll á hinn neikvæðari veg, svo að maður hefur stundum, þegar maður hefur staðið í því sjálfur að taka þátt í kennslu, spurt sjálfan sig að því oft og tíðum, hvort maður væri virkilega að vinna eitthvert glæpaverk eða hvort maður væri að vinna það, sem maður hélt, að maður væri að gera, gott verk í þágu uppeldismála á sínum heimastað.

Það er auðvitað engu að síður staðreynd, að það hefur margt farið á annan veg í okkar skólamálum en æskilegast hefði verið. Til þess eru auðvitað ýmsar ástæður. Hér hefur ekki þýtt að kenna neinu einstöku um. Hér hefur ekki heldur þýtt að vera eingöngu með neikvætt nöldur og eingöngu neikvæða gagnrýni, án þess að þeir sömu menn, sem hafa verið með þessa neikvæðu gagnrýni, hafi í raun lagt nokkuð jákvætt til mála til úrbóta, sem ég hef séð, að raunhæft gæti talist og væri hægt að vinna að í náinni framtíð.

Þessir framúrstefnumenn okkar margir hverjir í skólamálum hafa sem sagt ekki verið að mínu skapi að því leyti til, að þó að gagnrýni þeirra hafi verið að sumu leyti réttmæt, þá hefur vantað mikið á, að þeir kæmu fram með þær till. til úrbóta, sem maður gæti vænst frá þeim aðilum, sem svo djarft tala og taka svo stórt upp í sig.

En það eru ýmsar ástæður til þess, að skólamál okkar og menntamál í heild hafa verið á margan hátt öðruvísi en þau hefðu átt að vera, og á þeim verður engin gagngerð breyt. í einu vetfangi, hvað sem liður allri lagasetningu. Framkvæmd þessara mála allra er svo viðamikil og hún hvílir á svo mörgum herðum og tekur til svo margra, að það þarf enginn að ímynda sér, að þar verði nokkurn tíma fundin ein allsherjar patentlausn, sem fullnægi öllu réttlæti og geri uppeldismálin þannig, að menn verði um þau sammála, þau séu í lagi. Við höfum t.d. átt við örar breyt. að etja, — ég segi að etja, því að það er gott að vera opinn fyrir þeim nýjungum, sem bestar eru, en það getur líka verið, að nýjungagirnin fari út í öfgar í kennslunni, og mér er ekki grunlaust um það, að við höfum þar farið í mörgu of geyst, enda hefur þar orðið raunin á, að við höfum oft orðið að hverfa til baka. Í þessu er öruggt, að hóf er hest í hverjum hlut.

Ég held, að megi segja, að þetta frv. um grunnskóla, sem hér liggur fyrir, sé um margt, kannske ekki um allt, en um margt niðurstaða og samsöfnun þeirra hræringa og nýjunga, sem í skólakerfi okkar hafa verið að gerjast á undanförnum árum. Ég tel, að þar hafi verið farið í mörgu meðalhófið. Og það er sannast sagna, að það er knýjandi, að mál þetta nái fram að ganga, að mínu viti. Allar breytingar og endurbætur í raunhæfa átt hafa í raun og veru beðið þessa frv., beðið nýrra laga, og ekki síst þess vegna tel ég á því mikla nauðsyn, að þetta frv. nái hið fyrsta fram að ganga. Þetta frv. er að vísu svo viðamikið, að það er erfitt að gera því nokkur tæmandi skil. Ég ætla mér ekki heldur þá dul hér og dettur síst af öllu í hug að ætla mér að fara að tefja hér umr. frekar en orðið er, því að Nd. hefur fjallað svo rækilega um þetta, að manni hefur þótt nóg um að sumu leyti, jafnvel menn flutt þar sömu ræðurnar margsinnis, til þess sjálfsagt að sannfæra sjálfa sig nógu vel um eigin skoðun í málinu.

Það kann að vera, að margt orki tvímælis.

Það kann að vera, að þarna sé um ýmsar nýjungar að ræða, sem óvíst er um framkvæmdina á. Það kann líka að vera, að ýmis atriði séu þarna tæpast nægilega ljós. En þar á reynslan örugglega eftir úr að skera. Nú upp á síðkastið hefur kostnaðarhliðin á framkvæmd lagasetningar í þessa átt orðið mörgum umhugsunarefni, og vissulega hlýtur kostnaðarhliðin að koma hér mjög inn í. En hefur nokkrum dottið það í hug yfirleitt, að hægt væri að framkvæma einhverjar úrbætur í menntamálum þjóðarinnar, án þess að þær kostuðu mikið fé, án þess að þar þyrftu menn að leggja mikið á sig, sérstaklega ef menn ætluðu að breyta þar í verulegum atriðum? Aðaldeilurnar hafa þó orðið um skólaskylduna og lengd skólatímans. Það verð ég að segja, að þar hafa sannarlega verið sögð mörg undarleg orð, öfgarnar verið sannarlega nægar, alveg sérstaklega í andstöðunni við þær breyt., sem frv. gerir ráð fyrir, en það mun ég ræða síðar.

Ég lýsti í fyrra við annað tækifæri yfir samþykki mínu við meginstefnu þessa frv., og ég endurtek það samþykki nú. Ég bendi t.d. sérstaklega á tilfærsluna út í héruðin: aukin heimastjórn á ýmsum sviðum, fræðslustjórar og fræðsluskrifstofur í landshlutunum. Þetta er búið að vera mikilvægt baráttumál landsbyggðarmanna lengi, og ég hygg, að hvað sem um þessar fræðsluskrifstofur megi segja og framkvæmdina, sem þar muni á verða, sé þarna verið að ganga til móts við kröfur landsbyggðarinnar, — kröfur, sem ekki verða niður þaggaðar. Um nánari framkvæmd sker reynslan, og það má vissulega sníða af annmarka síðar.

Þegar þetta grunnskólafrv. hefur verið rætt hér á Alþ., þar sem ég hef á það hlustað, þá er eins og menn hafi reiknað með því sem einhverjum óumbreytanlegum hlut, þannig að ef einhverjir greinilegir annmarkar kæmu í ljós á framkvæmd einhverra atriða frv., þá væri hreinlega vonlaust að sníða þá af. Svo miklar öfgar, svo mikil þröngsýni hefur komið fram hér í sölum Alþingis varðandi þetta grunnskólafrv., að maður blátt áfram blygðast sín fyrir það. Aðalatriðið blífur nefnilega, að það verður aukin heimastjórn í fræðslumálum, og það er heimamanna að knýja á um framkvæmd þess. Það er heimamanna að knýja á um það, að þessar fræðsluskrifstofur og fræðslustjórar verði eins styrkar stoðir í fræðslukerfinu og mögulegt er.

Ég bendi alveg sérstaklega á þá félagslegu þætti, sem frv. hefur á hærra stig frá því, sem verið hefur og áður hefur verið viðurkennt í skólamálum okkar. Sannleikurinn er sá, að félagsmál í skólum yfirleitt, hinn félagslegi þáttur skólastarfsins hefur að miklu leyti verið áhugastarf eitt. Þetta mál þekki ég mjög vel. Ég hygg, að þessi námsleiði svokallaði, sem allt of mikið er raunar úr gert, sé að einhverju leyti því að kenna, að samband kennara og nemenda hefur aðeins verið í gegnum námsbækur og námsefnið eitt. Nánara og einlægara samstarf eftir ýmsum félagslegum leiðum er einmitt leið að settu marki til þess að létta námsleiðanum af þessu fólki, til þess að skapa betri og heilbrigðari anda í skólastofnuninni. Þroskaaukinn fyrir nemendurna við þátttöku þeirra í félagsmálum er ótvíræður, og gróðinn fyrir kennarana er einnig ótvíræður með nánara og fjölbreyttara sambandi við nemendurna. Ég fagna því sérstaklega, að þetta er nú viðurkennt, — ég vil segja í fyrsta skipti, — sem beinn og öflugur þáttur alls skólastarfs.

Ég vil benda á ýmiss konar atriði, sem varða aukna þjónustu við skólana, alveg sér í lagi úti á landsbyggðinni og alveg sérstaklega gagnvart ýmsum vanda þeirra nemenda, sem við marga og misjafna erfiðleika eiga að etja. Sú vanræksla, sem þar hefur viðgengist, hefur verið vítaverð og hættuleg, og þar hafa minnstu skólarnir orðið harðast úti. Svo kann enn að verða, ef ekki verður framkvæmt myndarlega í anda væntanlegra laga. Seinfærir og afbrigðilegir nemendur ýmiss konar hafa of oft og of víða gleymst, þeir hafa hreinlega ekki verið viðurkenndir sem slíkir í skólastarfinu, þeir hafa hreinlega verið utangarðs. Námsleiða, svo að ég nefni hann aftur, og ýmsu öðru hefur verið um kennt. Þetta þekki ég sem skólamaður af sárri raun, og ég þekki það einnig af sárri raun, hve erfitt hefur verið hér úr að bæta, hve litið tillit hefur verið tekið til þessara aðila í raun. Það má segja, að sjálfboðastarfið eitt, sem bæði hefur verið ófullnægjandi og fálmkennt, hafi verið allsráðandi, og það er hreinlega til skammar íslensku skólastarfi, að þessi þáttur skuli ekki fyrir löngu hafa verið tekinn vandlegar í gegn, alveg eins og gert er nú í því frv., sem hér liggur fyrir. Sannleikurinn er nefnilega sá, að rammi skólakostnaðarlaganna hefur hreinlega ekki leyft neitt að ráði þessu fólki til handa, — þessu fólki, sem ekki má og ekki á að gleyma. Ég lít svo á, að frv. rúmi þetta allvel. Á framkvæmdina verður svo að treysta. Það er svo, að sumir leggja býsna lítið upp úr sálfræðiþjónustu og ýmsu varðandi sérfræðilega aðstoð við nemendur. Ég viðurkenni, að oftrú á þessa hluti er ekki góð, en það er enginn vafi á gagnsemi þessa.

Kannske eru engir viðkvæmari fyrir því en við Íslendingar, ef talað er um það, að við séum heimskir, ef talað er um það, að einhver nemandi geti ekki lært vegna gáfnaskorts. Það má tilnefna næstum hvaða atriði sem er önnur en gáfnaskortinn, þau eru öll réttlætanleg og foreldrar taka þeim býsna vel, þangað til kemur að því, að maður verður kannske að segja: Nemandinn hreinlega getur ekki lært, — þá móðgast foreldrið, því að slíkt á ekki að vera til á Íslandi.

Mál þeirra seinfærustu geta þess vegna vissulega verið viðkvæm, og hlutlaus athugun sálfræðinga eða annarra slíkra aðila er ein fær, til þess að þar megi úr bæta. Ég fagna því þeirri breyt. til batnaðar, sem frv. gerir ráð fyrir um aukna sálfræðiþjónustu, ekki síst úti á landsbyggðinni.

Þátttaka foreldra og nemenda í skólastarfinu sjálfu, í uppbyggingu skólastarfsins hefur mér alltaf verið ljós sem ein mesta nauðsyn þess og undirstaða. Með þessu frv. er um margt farið inn á rétta leið með aðild og hlutdeild þessara aðila. Vissulega er frjálst samstarf og samvinna góðra gjalda verð í ýmsu, t.d. eins og með foreldrafélögum og öðru slíku. En ég tel á því brýna nauðsyn, að það sé hreinlega sett í lög, að foreldrar hafi vissar skyldur við skólana, og það mætti jafnvel gera það í enn frekara mæli en er gert í þessu frv. Það er vissulega staðreynd, að foreldrar hafa almennt litið þannig á, að skyldur þeirra við uppeldi barna sinna færi minnkandi, skólinn ætti í síauknum mæli að taka á sig þessar skyldur, og marga foreldra þekki ég, sem hafa hreinlega velt ábyrgðinni af uppeldi barna sinna á skólana eingöngu. Þessa krafta þarf að virkja á ný, því að foreldrarnir hljóta auðvitað að vera ásamt skólanum virkustu aðilarnir til mótunar á uppeldi æskulýðsins. Það er gert í þessu frv. að nokkru. Ég teldi, að það hefði mátt vera skýrara. En engu að síður tel ég, að allt, sem um það er í frv., sé tvímælalaust til bóta og einnig þar sem nemendur koma til á hærri skólastigum.

Ég vil fagna því einnig, að forskólahaldið er viðurkennt í þessu frv. Það er rík nauðsyn á þessu forskólahaldi. Ég hef af því góða reynslu. Ég er ekki að segja mér það til hróss, en á Austurlandi hóf ég forskólahald fyrstur manna, og aðrir fetuðu svo mjög fljótlega í fótspor okkar á Reyðarfirði um þetta mál, og það var fyrst og fremst vegna þess, að reynsla okkar af þessu forskólahaldi var góð. Auðvitað höfðum við fyrirmyndina annars staðar að og vissum, að forskólahaldið var til bóta, alveg sérstaklega ef það var ekki haft í beinu skólaformi, heldur fyrst og fremst lögð áhersla á það, að hér væri verið að kenna þessu fólki ýmislegt, t.d. tillitssemi við hvert annað, sem því miður ber mikið á, að börn sýni ekki hvort öðru, og stafar m.a. af því, að ríkjandi skoðun okkar fullorðna fólksins er sú, að við eigum ekki heldur að taka tillit hvert til annars, við eigum fyrst og fremst að hugsa um sjálf okkur. Vitanlega síast þetta viðhorf okkar fullorðna fólksins inn í börnin, og þetta viðhorf hafa skólarnir svo verið, af veikum mætti víl ég segja, — að reyna á einhvern hátt að uppræta, þótt af vanefnum væri kannske, og e.t.v. höfum við þar einnig átt við erfiðleika að stríða af þeim persónulegu ástæðum, að við höfum vitanlega verið breysk í þessu einnig.

Ég lýsi því t.d. alveg ótvírætt yfir, og ég held, að það sé reynsla margra annarra, að hún fari síminnkandi sú prósentutala barna, sem koma inn í skólana og hafa yfirleitt hugmynd um það, hvað það er að hlýða settum reglum, hvað það er t.d. að eiga að sitja kyrr, þó að ekki sé meira sagt. Sú prósenta hefur farið síminnkandi, og sumir af mínum yngstu nemendum, ágætisfólk í alla staði með ágætt upplag og eðlisfar, — þessir nemendur hafa blátt áfram orðið forviða, þegar ég hef ætlast til þess, að þau hlýddu því, sem ég hef verið að segja þeim. Vitanlega hafa þau heyrt, að ég var að skipa þeim hitt og þetta, en þau hafa verið jafnforviða á því, að ég ætlaði ekki bara að segja það, heldur ætlaði ég einnig að láta þau hlýða því. Ég held því, að forskólahaldið eigi að miklu leyti að beinast í þessa átt, vera þroskandi fyrst og fremst fyrir nemandann, m.a. með tilliti til þess, að nemendur læri aukna tillitssemi hver við annan. Okkur veitir aldeilis ekki af því í þessu velmegunarkapphlaupsþjóðfélagi, sem við lifum í, að reyna á örlítinn hátt að sporna við því hugarfari, að aðaltilgangur okkar í lífinu sé að trana okkur sjálfum fram og troða skóinn hver niður af öðrum.

Um námsmatið og prófin, sem hér er farið inn á og er að mörgu leyti veigamikil breyt., þá er ég að mörgu leyti ánægður með það, að nýrra leiða skuli leitað. Ég hef vissulega gert mér ljóst, að gallar prófanna, eins og þau eru framkvæmd í dag, eru óneitanlega miklir. Spurningin er svo aðeins um það, hvað eigi að koma í staðinn og hvort við getum formað þá leið nógu vel, sem þarna ætti að koma í staðinn og við gætum notað sem skynsamlegan og réttlátan mælikvarða. En hitt skulum við gera okkur ljóst, að fullgildur og óskeikull mælikvarði á gáfur, þroska og getu nemandans verður seint fundinn. Því er það, að ég er sannfærður um, að um þessi atriði þarf mörgu að breyta og marga annmarka af að sníða, þegar þetta frv. verður orðið að lögum, sem ég trúi og vona að verði og til verði tekið við framkvæmd þess.

Ég get ekki stillt mig um að minnast hér á eitt lítið atriði, sem ég hef heyrt töluvert um talað. Það hefur verið talað mikið um það, að skólastjórarnir yrðu fyrir mikilli valdsskerðingu. Þetta er kannske að nokkru leyti rétt. Ég er hins vegar fullkomlega sammála því, að samábyrgð um stjórn skóla sé affarasælust, þar eigi að vísu einn maður að geta tekið af skarið, en ábyrgðarleysi þeirra, sem stjórna með manninum, getur líka oft gengið út í hreinar öfgar. Og ég þekki það einnig af eigin raun, hvernig það er að stjórna skóla, þar sem kennaraliðið er í byrjun allandstætt manni af ýmsum ástæðum, sem ég ætla ekki út í að fara, og getur um leið skotið sér sem mest á bak við ábyrgðarleysi, eins og mín varð raun á, þegar ég tók við starfi.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, að við ættum að flytja allt heimanám inn í skólana, það sé framtíðarmarkmiðið. Ég hef lengi talið brýna nauðsyn á því, að að því væri stefnt. Ég álít sem sagt, að þegar skóladegi er lokið, eigi um leið að mestu vinnudegi barnsins að vera lokið. Það hefur einnig alltaf verið mín skoðun, að kennari eigi að undirbúa nemendur að vissu marki fyrir næsta dag í hverri grein. Það er mjög misjafnlega gert að vísu. Mér óar blátt áfram heimavinna þeirra nemenda, sem enga aðstöðu hafa til aðstoðar heima og kennari setur bæði mikið fyrir og gerir ekkert til þess að létta undir með fyrir næsta dag. Ég veit, að þetta er dýrt, þetta er kostnaðarsamt, en að þessu verður þó að stefna, þrátt fyrir það að kostnaðarhliðin hefur auðvitað orðið mönnum mikið áhyggju- og umhugsunarefni. Þess vegna þarf að taka heimanámið í áföngum inn í skólana, en vinna markvisst að því, að lokamarkinu verði engu að síður náð og við getum fært sem allra mest nám nemendanna inn í skólann. Það er óforsvaranlegt, að nemandi, sem er samviskusamur, en um leið allseinn og hefur litla hjálp, þurfi að leggja á sig 60–70 vinnustundir á viku til þess að komast einhvern veginn í gegnum sitt nám.

Hæstv. ráðh. minnti áðan á samstarf og samvinnu sveitarfélaga um skólahald. Ég legg áherslu á það, að þar verði þó ekki til baka haldið í neinu, þ.e. að enginn skóli, enginn staður fái minni rétt en verið hefur. Á því tel ég brýna nauðsyn. Það þarf að vera frumforsenda allra till., sem rn. lætur frá sér fara. Ég veit það um fyrstu tillögugerð rn., að þar þótti mér ógætilega af stað farið um sumt, og ég vara við öllu flani í því, sérstaklega ef á að færa einhvern stað til baka með þau réttindi, sem hann hefur áður haft. Samstarf við heimamenn og samþykki þeirra þarf að koma til, en þar með er ég ekki að neita því, að víða þurfi á að knýja, þar sem óþörf íhaldssemi og hreppasjónarmið ríkja ofar öllu öðru, eins og sums staðar er raunin á.

Breytingin varðandi skólakostnaðarhlutföllin sjálf er ánægjuleg fyrir smæstu skólahverfin. Ber að fagna hverju skrefi, sem stigið er í þá átt að bæta aðstöðu þeirra. Í því tilfelli er ég ekkert hræddur um framkvæmd til bóta. Hún verður staðreynd víðast hvar, af því að þar munu heimamenn sjálfir á knýja að fá sinn fulla og óskoraða rétt fram, og því er ég ekki hræddur um framkvæmd þess máls, ef frv. þetta verður að lögum.

Þá er ég kominn að þeim atriðum, sem hafa verið viðkvæmust og menn hafa mest um talað. Það er í fyrsta lagi lenging skólaskyldunnar um eitt ár, Ég hef lýst því margsinnis yfir, að ég áliti þessa lengingu sjálfsagða, réttlætanlega, fullkomlega réttlætanlega, og ég álít að reynslan muni sanna, að þessi lenging verði fyrst og fremst réttarbót fyrir dreifbýlið. Ég hef af þessu sjálfur persónulega reynslu. Ég veit, í hvaða erfiðleikum við áttum með það að fá eitt ár til viðbótar við skyldunám i mínu heimahéraði. Reynslan af þessu varð sú eftir mikið japl og jaml og fuður og heldur leiðinlega reynslu af ýmsum starfsmönnum, sem þarna komu nálægt, að þegar við loksins vorum búnir að fá skólann viðurkenndan, að vísu aðeins stundum, stundum ekki, — stundum var okkur neitað um það, þá varð reynslan sú, að nær allir og stundum allir nemendur, sem komu upp úr 2. bekk, fóru í þennan 3. bekk á staðnum. Áður var prósentan oft innan við 50%, ég man meira að segja eftir henni fyrir innan 40% nemenda úr 2. bekk, sem héldu áfram þar rétt næstu árin á undan. Ég veit það af samtölum mínum við þetta fólk, að það hefur enginn séð eftir þessu viðbótarári, ekki nokkur, og reynslan var sú, að 75–90% þessara nemenda, sem voru í þessum 3. bekk hjá okkur, — þótt ófullkominn væri og að mörgu leyti veitti alls ekki næga kennslu og nógu góða kennslu, — að 75–95% þessara nemenda héldu svo áfram og luku sínu gagnfræðaprófi. Það segir einnig sína sögu.

Með lengingunni skapast líka nýir möguleikar, eins og frv. gerir ráð fyrir, með skiptingu kennsluefnis í efstu bekkjunum, þannig að nemendur geti búið sig undir fleira en langskólanámið eitt eða háskólanámið eitt. Aukin fjölbreytni og eins aukið frjálsræði um náms- og efnisval mun áreiðanlega hamla gegn hinum svokallaða námsleiða. — Annars verð ég að segja, að mér hundleiðist þetta sífellda námsleiðatal. það er nefnilega teygjanlegt orð, þessi námsleiði, það hefur bæði verið misnotað og það hefur verið ofnotað. Við verðum að gá að því, þegar við tölum um nám, að þá er allt, sem heitir leti, blátt áfram horfið úr málinu, það heitir allt námsleiði. Og við skulum líka gera okkur grein fyrir því, að þessa leti, sannkölluðu leti, má víða finna. Hana er ekki bara að finna hjá nemendunum, hana er líka að finna hjá okkur kennurunum, og hana er líka að finna hjá fólki á vinnustöðunum hana er víða að finna í þjóðfélaginu, og þá verða menn líklega að fara að tala um vinnuleiða eins og námsleiða og finna um þetta eitthvað finni orð. Við erum sem sagt ekki alveg laus við þann mannlega breyskleika að vera löt við eitthvað, að nenna ekki að gera eitthvað. Ég gæti meira að segja trúað því, að það gætu margir fundið vissar tilhneigingar — ekki í vinnuleiða, heldur í hreinni leti hjá okkur þm.

Í námsleiðanum svokallaða, sé hann staðreynd, að svo miklu leyti sem fram er haldið, þá verðum við að gera okkur grein fyrir því, að þar kemur til hlutur kennarans, hlutur kennslubókanna, hlutur foreldranna, sem gæla blátt áfram við þetta fallega orð, af því að það er svo miklu betra og fallegra að tala um það, að krakkinn þeirra sé hundleiður á öllu skólanáminu, en hann sé latur. Ég veit það, að breyt, til bóta í þessum efnum gætu verið margvíslegar, og ég geri mér fulla grein fyrir því, að grunnskólafrv. gefur möguleika til margra slíkra umbóta. Þar verður vitanlega eins og um aðra hluti að treysta á framkvæmd, treysta á það, að félagslegur þáttur skólastarfsins verði aukinn, — séð um það, að kennslubækurnar verði gerðar aðgengilegri og skemmtilegri, — séð um það, að kennarar haldi betur á sínum hlut en verið hefur,, því að þar eiga þeir einnig sök, — séð um það, að foreldrar gæli ekki sífellt við þetta fallega orð, sem þeim er orðið svo munntamt, námsleiðann, — og margt fleira gæti til komið. Þessu Út af fyrir sig breytir ekkert frv. til l. um grunnskóla, það er rétt. Þessu breytir engin lagasetning út af fyrir sig. Margt í þessu frv. er þó þannig, að það gefur vonir, það gefur möguleika, og þá möguleika á að nota.

Menn hafa talað um það, að nær væri að setja fræðsluskyldu en skólaskyldu. Og nú fer orðið fræðsluskylda í staðinn fyrir orðið skólaskyldu að verða næstum eins mikið uppáhaldsorð og námsleiðinn. Sem sagt, það á að halda skólana, hvort sem nemendur eru fyrir hendi eða ekki, og það á að gefa þeim þarna um frjálst val. Ég veit, að það er fallega sagt, að nemendur eigi þarna að ráða nemendur eigi að velja. En hvað eigum við að ganga langt i fræðsluskyldunni? Eigum við þá ekki að afnema alla skólaskyldu og hafa þá bara fræðsluskylduna allsráðandi. Hvar eigum við að setja mörkin, hvar telja menn það eðlilegt, hvað eigum við að fara langt niður á við í þessum efnum? Hafa menn gert sér grein fyrir því, að þetta snýst ekki bara um þetta eina ár? Þetta snýst þá um það, hvort við eigum að gjörbreyta þessu og færa þetta úr skólaskyldunni, eins og hún er í dag, í fræðsluskyldu, þar sem meira og minna frjálsræði réði ríkjum. Ég ætla nú að leyfa mér af minni reynslu í skólamálum, að segja það, að ég er hreinlega hræddur við þetta skref til baka í sambandi við fræðsluskyldu í stað skólaskyldu, hvort sem hún nær til eins árs eða fleiri. Þessi skylda er ekki eins óskapleg og menn vilja vera láta, og margir nemendur eru seinna guðs lifandi fegnir því, að þessi skylda var til, — þeir eru guðs lifandi fegnir. Ég hef engan heyrt af mínum nemendum lýsa því yfir við mig, að hann hafi dauðséð eftir því námi t.d., sem hann bætti við sig með einu ári, En ég hef heyrt marga segja það, spyrja mig að því og skamma mig fyrir það: Hví í ósköpunum rakstu mig ekki til þess að fara í eitthvað, bara í eitthvað, læra eitthvað meira? — Menn skjóta sér hins vegar á bak við þessa skólaskyldu á svipaðan hátt og námsleiðann i tíma og ótíma og finna þar stærstu sökina. Mér dettur oft í hug, hvort ýmis svipuð rök hafi ekki verið að finna, þegar þegar hér var komið á almennri fræðsluskyldu, og þó þá enn sterkari. Skyldu menn þá ekki hafa séð hreina vá fyrir dyrum? En skyldi þó ekki þarna hafa verið um að ræða eitt mesta framfaramál íslenskrar þjóðar?

Viðkvæmast af öllu hefur mér þó virst lengd skólatímans ár hvert. Það er það atriði frv., sem hefur valdið mér mestum heilabrotum og vangaveltum. Þar hafa öfgar verið hvað mestir. Þar hefur verið talað um sálarmorð, þrælalög og ámóta orð hafa jafnvel heyrst. Þótt ég viðurkenni, að hér verði að hafa á öllu gát, þá get ég vart séð, að takmarki þessa frv., þ.e. raunverulegri styttingu námsins um eitt ár fyrir þá, sem það geta, verði komið í framkvæmd öðruvísi. Og ég styð þetta takmark. Ég styð það vegna þeirra fjölmörgu nemenda, sem geta auðveldlega lokið þessu námi á þennan hátt og eiga fullkominn rétt á því að vera lausir einu ári fyrr en þeir hafa verið. Ég vil að vísu fara hér varlega, og ég vil fara varlega í því einnig að skerða árlegan námstíma mikið frá því 9 mánaða aðalmarkmiði, sem i frv. gildir. Ég tel eðlilegt og réttlætanlegt, að í eldri bekkjunum gildi mánaðar frávik, og e.t.v. má ganga það langt, að eins og hálfs mánaðar frávik gildi í yngri bekkjunum, en ég teldi það einnig algjört hámark.

Tal um atvinnulífið og tengslin við atvinnulífið er mikið notað hér. En þar þarf svo sannarlega allt annað til að koma, svo að úr megi bæta. Þar er auðvitað fyrsta skilyrði að koma á nýjum námsbrautum í tengslum við atvinnulífið. Það er það, sem koma skal Það er það eina, sem getur breytt ástandinu, þ. e. að hefja ekki beinlínis háskólanámið ofar öllu öðru námi, heldur láta annað nám verða jafnrétthátt, gera það reglulega eftirsóknarvert. Það er ekki á þessu stigi, ekki aðeins á þessu skyldustigi, sem þessi tengsl við atvinnulífið eru svona bráðnauðsynleg. Og þegar er veríð að flytja till. um það og samþ. þær hér á Alþ., að skólanemendur eigi að taka sér frí frá störfum og fara út í atvinnulífið, — kannske um tíma vegna vetrarvertíðar og annars því um líks, — mætti maður þá kannske ekki fara að dæmi Maos í Kína og heimta, að skrifstofufólkið og ýmislegt annað fólk, sem hefur svo sannarlega lítið við að vera, verði líka rekið út i atvinnulífið og því gert að skyldu að auka tengsl sín við það, því að ýmislegt af því, sem það er að aðhafast, á sannarlega lítið skylt við þær frumatvinnugreinar, sem við byggjum á? Ætli það mætti þá ekki fara að hugsa um einhverja fleiri en bara nemendurna? Ég hefði viljað það. Ég hálfskammast mín fyrir að svo áfram, þannig að menn t.d. ynnu einhvern tíma á árinu það, sem ég kalla ærlegt handtak. — Grunnskólafrv, kemur ekki í veg fyrir þetta. Það gerir það þvert á móti kleift. Það er einmitt að finna breyt., sem getur leitt til þess, að tengslin við atvinnulífið geti orðið virkari á hinum hærri skólastigum. Og ég treysti því, að í framhaldi af samþykkt þessa frv. verði einmitt gengið rösklega til verks um námsbrautir í nánum tengslum við atvinnulífið sjálft.

Meginniðurstaða mín af þessu, — nú skal ég ekki lengja mál mitt meira, — er sú, að hér sé um rétta stefnu í aðalatriðum að ræða. Nýrra leiða er leitað, og þær á að reyna. Reynslan sker svo úr um það, hvaða einstök atriði standast, hverjum þarf að breyta, hvaða annmarka þarf af að sníða. En sannfæring mín er sú, að sú reynsla verði í miklu fleiri atriðum jákvæð en neikvæð. Þar um gildir auðvitað, hver framkvæmdin verður og hvort raunhæfar aðgerðir í ýmsu öðru fylgja í kjölfarið. Og þá er ég hræddur um, að nöldur þeirra úrtölumanna, sem sjá vá í hverri gátt, eigi áreiðanlega eftir að verða sér til skammar í mörgu.